Haustið 2023 tókum við Félagarnir Friðrik Ottóson, Valur Þórðar og Víðir Hermanns  þá ákvörðun að panta okkur ferð með Norrænu til Hirtshals vorið eftir og láta ráðast hvert við færum eftir það.  Ferðalagið átti að taka 5 vikur  en við áttum bókaða ferð út með ferjunni 1. mai út og til baka 4.júní.

Um veturinn og vorið undirbjuggum við hjólin fyrir ferðina. En sá undirbúningur var svo sem ekki mikill því hjólin voru nokkuð vel uppsett fyrir lengri ferðalög.  Friðrik og Valur voru árið áður búnir að fara í evrópuferð á hjólunum svo þeirra hjól voru vel uppsett fyrir verkefnið með farangurstöskum.
En hjólið hjá Víði var uppsett fyrir ferðalög frá verksmiðju og þurfti lítið að bæta við þar þar sem hann var á Goldwing.  En jú ný dekk og hjólin smurð, og farið yfir alla vökva og legur er góð regla áður en farið er í langferð.

En hvað er það sem gott er að hafa með sér í motorhjólaferð til Evrópu.
nr 1. Vegabréf ,og Ökuskirteinið þetta í símanum virkar bara á Íslandi.  Sos Sjúkratryggingakort og Staðfestingu frá tryggingafélaginu ykkar um að hjólið sé tryggt..  (setjið alla pappíra í ziplock poka og geymið á þannig stað að fljótlegt sé að ná í það. td tanktösku. ) Eins er gott að vera með ljósrit af vegabréfinu og afhenda það frekar en vegabréfið sjálft.

nr 2. Letherman fjölverkfæri.  Kemur sér alltaf vel einhvertímann í ferðinni.

nr 3. Hleðslutæki fyrir allt sem þér fylgir.    Myndavélar síma, rakvélar og öll hin tækin sem  þú tekur með,   mælum hins vegar með kubbum sem fást á netinu sem eru með mörg port og geta tengs rafmagni sama hvaða heimsálfu þú ert í US, EU, UK. AU  það er líka oft þannig á gististöðum að það eru ekki margar rafmagnsklær í boði fyrir gesti og þegar 3 hjólarar mæta með td 3 tæki hver sem þarf hleðslu þá er svona græja nauðsynleg, og já taka með sér eitt fjöltengi.

nr 4. Fyrir dekkin: grunnverkfæri til að taka hjólið undan jafnvel,  Tappasett, rafmagnspumpu, eða lofthylki.

nr 5. Fyrir annað :skrúfjárn Sexkantar  og tork sett 🙂 og einn skiptilykil 🙂
Gott er að hafa spey fyrir keðjuna á hjólum sem þess þurfa.
Svo er mjög gott að hafa verkfæri fyrir símana , td til að skipta um símakort, (á við í Andorra og Lictenstein 🙂 þar sem reikisamningar eru ekki við símafyrirtækin.

nr 6. Regngalla 🙂

Allar myndir úr ferðinni hér!

Relive myndbönd hér

Ísland (Akureyri Seyðisfjörður)

1. maí 2024

Brottför frá Akureyri1 mái 2024 Bjarki kom og kvaddi okkur

Það var ekki gæfulegt veðurfarið þetta vorið til að fara til Seyðisfjarðar á mótorhjólum og var manni ekkert farið að lítast á blikuna varðandi að koma hjólunum í skip nema með kerru.    En sem betur fer kom sólin út rétt fyrir brottför og náði að bræða vegina en ekki mikið meira en það.

Jamm það var kalt á Íslandi

Það var frekar svalt þennan dag  er við ókum til Seyðisfjarðar og enn snjór á fjöllum, en vegirnir voru auðir , og hitastigið var +1 til -3°C  Kvöddum okkur fólk og klæddum okkur vel.   Kveikt var á hitanum í handföngunum og brunað austur yfir fjöllin, það var snjór allstaðar nema á veginum og skítkallt. ferðin gekk vel og við komum nokkuð tímanlega til Seyðisfjarðar og skoðuðum okkur um , en héldum okkur að mestu bara á kaffihúsinu í hlýjunni meðan við biðum eftir því að komast í röðina inn í skipið.

Það var bara gott að komast í ferjuna og við komum okkur vel fyrir í fjögra manna klefanum.
Svo fórum náttúrulega beint á barinn 🙂 .    eknir 290km

 

Færeyjar

2.maí

Haft það gott í ferjunni …

Smá stopp í Færeyjum c.a. 6 tímar hjólin voru bara áfram í ferjunni en við fengum okkur labbitúr um Þórshöfn og nautasteik á Angus Steikhouse rétt hjá ferjunni það var geggjuð steik.

Ferja (Norðursjór)
3.maí. Farið í sauna, sund.. skellt sér í ræktina.  hægt að fara í bíó.  það er ágætt að kaupa sér net í búðinni niðri sem endist túrinn:) símafyrirtækin virka ekki í úthafinu.  Morgunverðahlaðborðið.   Hádegismatinn.  Miðdegisbarinn og svo á spilakvöld. Og svo á trúbador um kvöldið.
Siglt framhjá Shetlandseyjum

Danmörk
4.maí
Það var gott að komast í aðeins skárra hitastig þ.e. 12-15°C

(Kagmanden (á íslensku oft nefndur Kaggmaðurinn) er útskorinn karl sem stendur fyrir ofan kag, sem var opinber refsistöng notuð á götum úti í Danmörku á liðnum öldum. Þar voru menn bundnir og skammaðir opinberlega fyrir smávægileg afbrot eins og þjófnað, hórdóm eða óspektir. Kaggmaðurinn hélt oft á svipu eða kylfu og táknaði þannig refsinguna. Í Tønder stendur hann hátt uppi á horni húss og horfir yfir göturnar sem minnisvarði um eldri réttarfarshætti.)

í Hirtshals.  Það gekk ljómandi vel að gera hjólin klár í ferjunni og fara úr henni og við brunuðum bara beint suður Jótland og ákváðum gististaðinn upp úr hádegi. Gistum í bænum Vojens í fallegu húsi ekta dönsku húsi..  eknir 370km  Rákumst á hjón á leiðinni sem voru á ferðinni á mjög sjaldgæfum Buel mótorhjólum þau voru á leið á eitthvað harley mót og smelltum nokkrum myndum af hjólunum.

Danmörk Þýskaland
5. maí
Eftir góðann nætursvefn og takmarkaðann morgunverð á kváðum við að taka bara bröns í næsta bæ sem við kæmum til.
Kíktum við í bænum  Tönder áður en við renndum yfir Þýsku landamærin og fengum okkur vel að borða.  Í bænum sáum við sérstaka styttu af einhverskonar tindáta eða Kagmanden og lærðum aðeins um sögu hans .
_________________________________________

Tönder var semsagt þýskur bær sem kaus um að  færa sig til Danmörku í kostningum 1922.
Við ferðuðums svo áfram suður og ákvaðum að sleppa Hamborg og umferðateppunni þar og taka frekar ferjuna frá Gluckstad yfir Saxelf og var það skemmtileg tilbreying.
Gistum svo í bænum Hemmore sem er stutt frá Cuxhaven   eknir 267km

í Ferjunnni yfir Saxelf

 

Hin ógurlega Hollenska Sandbrekka 🙂

Þýskaland- Holland
6.maí
Gott veður í dag og ljúft að keyra ,reyndum að þræða sveitavegina og það gekk ágætlega  mikið um vindmillur og flott útsýni fórum meðfram ströndinni í hollandi sem er hlaðin varnargörðum. sem mest og  enduðum í litlu þorpi sem heitir Schoorl  sem var alveg dásamlega kósi og krúttlegt þorp. Í þessu þorpi er víst lengsta sandbrekkan í Hollandi og skoðuðum við hana í göngutúr um þorpið 🙂
eknir 470 km

í Hollandi gististaðurinn í Scrool í Baksýn

 

Dýrasta máltíðin í ferðinni 😉 Flundra 400gr. 60 evrur.

Norður – suður Holland
7.maí
Góður hjóladagur og gott veður í Hollandi . Stoppuðum á veitingahúsi við höfnina sem var greinilega í dýrari kantinum. Valur og Fiffi pöntuðu sér special . þ.e Flundru sem var heilsteikt, þar sem valið var um 400g eða 600g skammt, en þeir tóku minni skammtinn, sem var víst afar bragðgóður. En fyrir 60 evrur skammtinn þá mátti hún vera það 🙂 Víðir aftur á móti fékk sér  nautalund með bernese á 45 evrur, og það klikkaði ekki.

Enduðuðum þenna dag í kofagistingu í siglingaskóla í suður Hollandi  eknir 241km

Siglingaskólinn í suður Hollandi

Holland – Belgía -Frakkland
8.maí
Bilun í hjól Vals.

Þarna renndum við bara einfaldlega eftir ströndinni yfir Belgíu. Skoðuðum pillubox þjóðverja sem raðað var þarna eftir ströndinni til að verjast innrás breta í WW-II. Þarna bilaði svo hjólið hjá Valnum á hraðbrautinni en statorinn gaf sig í hjólinu og hjólið framleiddi þar með ekkert rafmagn lengur.
Þetta gerðist mjög snöggt því hjólið steindrap á sér á hraðbrautinni og það var talsvert langt í frárein,  mikil umferð og mjög óþægilegt að vera þarna í kantinum í þessari miklu umferð trukka.   Víðir var með spotta í Goldwingnum og var honum vafið 2 til 3 hringi utan um fótpetalann á hjólinu hjá Val,  og tengt við dráttarkúluna á Goldwingnum og svo stóð Valur á spottanum meðan Víðir dróg hann á öruggan stað. Þetta trix er gott að nota þegar meðan maður dregur mótorhjól  því þá getur sá sem dreginn er losað sig við spottann með að stíga af petalanum þegar eitthvað óvænt kemur uppá, en það slapp alveg til þarna og þetta gekk eins í sögu.    Hjólið hjá Val var semsagt komið á öruggt svæði.  Við áttuðum okkur þá á því að hjólið var orðið straumlaust og tengdum því starttæki við hjólið og störtuðum því í gang þá sáum við að hjólið var ekki að hlaða, því Valur var einnmitt búinn að gæja hleðslumæli á hjólið.
Við tengdum því startkalploa við Goldwinginn (altanator enginn stator) og hann hlóð inn á geyminn, á meðan fórum við í að aftengja framljósið og það sem við gátum til að spara rafmagn svo við kæmumst til næsta bæjar.   Eftir að Goldwinginn var búinn að hlaða inn á CBF ið í c.a 20 mín þá störtuðum við hjólinu aftur í gang með starttækinu og héldum áfram og komumst til Calais( FR)  og gistum á Hoteli.  Eknir 184 km

Calais (FR) – Rúðuborg (FR)
9.maí
Liberty day  (Week)
Við komumst að því að að Valur hafði valið sennilega versta daginn í Frakklandi til að hjólið bilaði.   Jú það var nefnilega Liberty day í Frakklandi í dag  og allt lokað.  Við eyddum kvöldinu á hótelinu í að reyna að finna út hvar við gætum reddað stator í hjólið og vöfruðum um netið fram og aftur leituðum hjálpar frá vinum og kunningjum víðsvegar og meira segja frakki sem við hjálpuðum á íslandi þegar hann var með bilað hjól reyndi allt til að redda okkur frá París, en allt kom fyrir ekki. það var allt lokað og enginn átti stator.   Þá var bara fariðí plan B.  í Calais  keyptum við aukarafgeymi af einhverjum hjólamanni sem valur fann í einhverju netspjalli um CBF ,hjólamenninrin setti einnig á það tengingar svo við gátum hjólað til næsta bæjar, aukarafgeymirinn var strappaður aftan á sætið hjá Valnum Enduðum Rúðuborg. Þar ætluðum við að leita viðgerðar.   Eknir 226km

Rúðuborg
10-11 mái
Vorum tvær nætur í Rúðuborg,vorum á einna stjörnu hóteli sem slapp alveg.borgin er mjög falleg, skoðuðum Kirkjur mikið mannlíf ,mikið gaman fengum okkur hressilega í glas og leituðum að mögulegum viðgerðum fyrir Val. Nei allt lokað Liberty weekend í Frakklandi og allt harðlæst og engin þjónusta
Svo við ákváðum að reyna við Le- Mans, Þar var mótorhjólakeppni og þar var alveg séns að fá hjálp. Svo upp með starkaplana og hökt þangað með nokkrum hleðsluhléum.

 

 

Le mans – Poitiers
12-13-14-15 maí
Jæja loksins loksins eyddum þremur nóttum í Lemans, skoðuðum Lemans safnið og brautina og margt fleira.    leigðum hús ásveitabæ eina nóttina. Sem var geggjaður reyndar.

Hjólið hjá Val komst í viðgerð á þriðjudeginum og nú gátum við loksins farið að halda áætlun að keyra. þetta hafði samt tafið okkur um viku en við höldum hópinn það er hluti af því að vera í ferð saman.   Fórum seint af stað frá Le-mans af því að hjólið var ekki tilbúið fyrr en seinnipartinn.  Ókum við fram á kvold  á sveitavegunum til Pointiers   eknir 200km

 

Poitiers- Maraux #ifylgdmeðfullordnum
16.maí

Sveitavegirnir skoðaðir, skoðuðum klaustur og kastala og nutum þessa að hjóla stoppuðum í kastalanum þar sem Ríkharður Ljónshjarta var drepinn og sagt að innyflin úr honum séu grafin þarna í kastalanum. ( við leituðum ekki) Líklega var hann slægður til að hægt væri að flytja hann til Englands til greftrunar. Þetta var samt sem áður skemmtilegur kastali að skoða.   Gistum í orlofsbústaðahverfií Maraaux sem sem var mjög flott.  eknir 290km

Relive video frá kastalanum

 

Skytturnar í bænum Condom D’Artagnan et ses Mousquetaires

Maraux – Bagnérs-de-Bigorre
17maí
Þarna var skemmilegt að keyra meðal annars í gegnum bæinn Condom, sem gladdi okkur (smásálir) …. þar í bænum voru styttur af skyttunum fjórum. En ein þeirra var víst frá þessum bæ.  (D’Artagnan)
Valur stoppaði sérstaklega við skiltið þar sem við vorum að yfirgefa bæinn Condom með striki yfir, til að makea eitthvað point.

Enduðum í bæ sem er við rætur Pyrenia fjalla (Bagnerse de Bigorre), og kíktum út á lífið þar á laugardagskvöldi. Það endaði með hálfgerðum ósköpum gríðaleg skemmtun með heimamönnum og mikið fjör og gaman hjá öllum. Týndum Valnum en einhvernveginn en hann fann húsið síðar um nóttina og var heill á húfi.  Morguninn eftir kom samt í ljós samkvæmt buxunum hans að hann hefði sest í matarbakka hjá einhverjum á leiðinni því rassinn á buxunum var útataður í hakki og pasta. Mikið var hlegið af þessu
Gistum í risíbúð í miðbænum það fór ágætlega um hjólin fyrir utan í einhverskonar bakgarði.  Eknir 220km

 

 

Bagnérs de Bigorre (fr)- Sante de Gallego (spa)
18.maí
Frakkland kvatt í bili Pyrenia fjöllin framundan

 

Það voru skelþunn þrenning  sem lagði af stað upp í Pyrenia fjöllin þennan morguninn , en engann okkar grunaði hversu frábær dagur þetta yrði. Þessi leið var hreint sagt stórkosleg. Við gleymdum öllu sem hét þynnka, vegirnir og útsýnið geggjað og skemmilegt að keyra, ókum upp á topp á enhverju skarði og ætluðum að halda áfram niður hinum megin þegar við komum að lokunarpósti. (vegna hættu á gróthruni.   Okkur langaði ekkert sérstaklega að snúa við og finna aðra leið þó það hefði líka verið í góðu lagi en Reiðhjólfólk var þarna að lauma sér undir lokunarpóstinn,,, og þá sögðum við , lets do it líka við settum axlinar í stöngina og náðum að lyfta hliðinu og lauma hjólunum undir og héldum áfram nokkrir aðrir túristar á mótorhjólum ákváðu að koma með okkur og við brunuðum niður skarðið hinum megin (það var smá grjót á veginum á einum stað) og þar neðst var líka lokunarpóstur,  sem við komumst líka framhjá.  svo þræddum við fleiri dali og skörð og
Enduðum svo spánarmegin í fjöllunum  og gistum í fjallaþorpi sem heitir Sante de Galego á hóteli.     Eknir 166km

Pyrenia fjöllin eru magnaður staður. Þarna erum við félagarnir nýkomir yfir á Spán og eigum örskammt í hótelið. Fengum annan hjólamann til að taka þessa mynd fyrir okkur.

 

Salente de Galego – Benijófar #ifylgdmedfullordnum

19.maí

Eftir sæmilegan morgunmat á Hótelinu drundi á okkur haglél þegar við vorum að klæða okkur í gallana. Hitastigið var ekki voðalega hátt þarna í fjöllunum kannski 8 stig svo  við tókum þá ákvörðun að sleppa Portugal út af töfunum með hjólið hans Vals  , og bruna bara beint suður stystu hraðbrautarleiðina til Eggerts vinar okkar í Benjufar sem er skammt frá Torrivega. 680km sprettur 🙂   Vorum alveg til í að komast í alvöru Spánarhita.    Og það var gert.  Ferðalagið suður Spán var frekar tíðindalaust keyrt frekar hratt, 130-150km á hraðbrautum allan tíman og tókum við bensín á 200km fresti og fengum okkur hressingu. Enduðum svo hjá Eggerti og áttum þar tvo frábæra daga, í góðu yfirlæti.  Eknir 687km

Benjófar- Benedorm-Xábia
21 maí.

Eftir 2 daga stopp í 25 stiga hita og sól hjá Eggert og Ernu sem nota bene var frábær heimsókn og bestu gestgjafar ever. Þá ákváðum við að renna til gamla heimabæjar Vals , Xábia við vissum af einum forföllnum hjólara sem bjó þar og langaði að hitta hann. Ingvar Gissurarson . Topp maður .
Á leiðinni renndum við í gegnum Benidorm og þræddum fjallavegi áleiðis og skoðuðum þenna fallega bæ Xabia.  Hittum Ingvar og áttum gott spjall.
Gistum í ágætis íbúð í bænum með útsýni yfir hafið.   eknir 157km

Xábía- Castelós
22maí
Eftir gott spjall við Ingvar G. um morgunin og góðann morgunmat þá var tekin stefnan aftur í norður. Já tæknilega var heimferðin hafin.
sveitavegir að sjálfsögðu og hraðbrautir í neyð.  186 km

 

Lögreglan í Tarrega tók Víði í viðtal:

Framdekkið á Goldwingum eftir beyjurnar. Komst bara ekki lengra niður með hjólið nema að klára eitthvað af petulunum fyrst 🙂

CASTELIOS-TARREGA
23.maí
Án vafa einn af bestu dögum ferðarinnar. Héldum okkur utan hraðbrautar á leiðinni sem var reyndar skemmtilegt því við vorum að aka sitthvorumegin við hraðbrautina megnið af leiðinni en fengum miklu meira að sjá. Er við nálguðumst Barcelona þá tókum við stefnuna upp í fjöllinn í stefnuna í átt að Andorra ,,, og maður minn þetta voru geggjaðir vegir ,, miljón beyjur og kjöraðstæður til að leggja hjólin alla leið niður á petala og búa til neystaflug 🙂 vorum ekkert að flýta okkur 🙂    eknir 287km
Skoðiði bara hversu marga beyjur voru í þessari ferð.Relive video

 

Tarega (Spa) – Andorra
24.maí
Mjög skemmtileg leið upp upp í Andorra eins og sjá má á myndbandinu, komumst að því að það borga sig ekki að vera með GSM netið virkt þegar maður kemur í Andorra, það hverfur upp á sekundum 🙂 símafyrirtækin okkar eru ekki með reikisamninga við smáríki í evrópu:)
Það er afar fallegt í Andorra, og þangað er gaman að koma . Fiffi lét skipta um skó á hjólinu sínu hér og við verlsuðum okkur allir ný gler á hjálmana okkar hér með móðufilmum. (fríríki) en samt ekkert svaka odýrt.  Gistum á ágætu hóteli eknir 117km

Andorra- Carcassone (Fr)
25.maí

Þetta var gistingin okkar í Carcassionne ehh,,,, já hún var aðeins skárri að innan ,,, en ekki mikið …

Nú var Frakkland aftur framundan. Völdum að sjálfsögðu ekki auðveldu leiðina út úr Andorra heldur tókum skarðið enda var Steini tótu búinn að láta okkur vita að það væri hjólamanna leiðin. 🙂 Gaman að fara yfir landamærin,efst upp á skarðinu og skemmtileg ferðin niður fjöllinn niður í frakkland enduðum í bænum Carcassion í Frakklandi, sem var ekkert merkileg borg og enn síðri gisting sem við fengum. Já sú allra versta að mínu mati í þessari ferð.   176km

Carcassionne – Beaucaire
26.maí
Fallegur hjóladagur og flott útsýni sérstaklega þegar við komum niður á ströndina í suður Frakklandi. Enduðum í gistingu sem var alveg einstök .. hjá einbúa sem talaði ekki ensku en talaði samt helling við okkur , og vildi allt fyrir okkur gera. Góður kall og indælt að vera þarna.  257km.   Kallinn meira segja vaknaði um nóttina þegar fór að rigna og hljóp út og breiddi yfir öll hjólin okkar…  Snillingur.

Yndislegur gestgjafi sem talaði ekki orð í ensku tók á móti okkur.

Beaucaire – Cannes- Nice- Monaco-Latte
27.maí
Ljómandi rúntur sem endaði niður á Ítalíu með viðkomu í Monakó, keyrðum aðeins í F1 brautinni en keppnin var víst daginn áður svo það var verið að fjarlægja allt draslið og mikið að gera, Vespuhreiður er þetta svæði, þúsundir vespa keyra út um allt eða er lagt í alla mögulega staði sem hægt er að koma þeim í .. ps. mér fannst þetta hundleiðilegt svæði allt of mikið af fólki og kaðrak allstaðar …. fannst gott að komast þaðan , en það tók góðann tíma.
361km  enduðum á frábærri gistingu á ströndinni í Latte með sjávarsýn. Hefði alveg viljað vera aðra nótt þar.

 

Monaco – Latte (Ita) – Torino
28.maí
Mikil umferð einkenndi strandlengjuna á Íítalíu , við völdum ekki hraðbrautina , og nutum útsýnisins betur en við vorum enn í hálfgerðu vespuhreiðri, og vorum mikið stopp í traffik… 3 tímar og við komust 80km 🙂 eftir það færðum við okkur upp í landið og þá varð umferðin minni, skemmilegur akstur upp í Torrino . Vegirnir hér ekki ekki þeir bestu, líklega fengið ráðleggingar hjá Vegaerðinn á íslandi til að búa til vegi hér . Hittum Sigga og Írisi sem voru í Mótorhjólaferð í Torino.   234km

Siggi og íris voru saman á einum Harley og tóku þau gistingu á sama stað og við og við gistum á geggjuðu Golfvelli þ.e Golf Hóteli í sveitunum í kringum Torino. Skemmtilegt kvöld þar með þeim

TORINO – LAGGO MAGGIORE

29.maí

Kvöddum Sigga og Írisi því þau voru á leiðina í suður en við í norður  🙂

Fallegar sveitirnar á Ítalíu en þetta er samt sem áður býsna þéttbýlt hér , sveitavegirnir eknir að mestu og mörg þorp þrædd og skoðuð, alltaf nóg af kirkjum, auðvitað. En þegar við nálguðums vötnin varð fegurðin enn meiri og maður skilur hvers vegna þetta eru vinsælir ferðamannastaðir.  Gistum í ágætu húsi með útsýni yfir vatnið. Heitt og rakt,  180km

Lake Maggio (Ita)- Ruswil (Svizz)
30.maí
Gistum í ágætis húsi í sveitinni nálægt  Lake Maggio það var svolítið mauralíf í íbúðinni en þeir létu okkur í friði. Útsýnið var flott, og hjólin í skjóli fyrir rigningu næturinnar. Það er rigningarlegt svo við ákáðum bara að halda áfram til í norður inn í Alpana    224km   Víðir náði þeim merka áfanga að aka yfir snák af stærri gerðinni, getur strikað það af bucket listanum sínum 🙂

Swiss- -Frakkland- Þýskaland
31.maí

Falið sig undir brú í banvænum rigningarskúr 🙂

Ágætis veður en skýjað datt samt á með rigningarskúrum svo við þurftum að fara í regnfötin. Veðrið var ekki spennandi svo fjallaskörð voru ekki valkostir svo við tókum bara jarðgöng og svoleiðis yfir til Sviss.  Gistum í bænum Ruswil í flottu húsi. En þar byrjaði sko að rigna fyriri alvöru.

Daginn eftir var búið að stytta upp en útlitið var ekkert sérstakt, fórum í regngallanna og sáum að það stefndi í miklar rigningar,,   sáum samy gat í veðurspánni þar sem við gátum rennt inn í Frakkland og ekið norður þar og svo inn í Þýskaland.
Gistum að þessu sinni á svona Truckers road moteli ,,, sáum risarottur berjast fyrir utan gluggann hjá okkur og ákváðum að hafa hann bara lokaðann 🙂
284km

Badenbaden – Bad Grund (Þýs)
1.júní
Vöknuðum eldsnemma og reyndum að koma okkur út úr rigningarskýjinu sem hékk yfir Suður-Þýskalandi þessa daga.  Það urðu reyndar flóð á svæðinu sem ollu miklum tjónum og drukknun í Stuttgart en við náðum að sleppa við það.  Hittum Axel Cortes og Sigrúnu sem voru einnig á ferð á mótorhjóli í Þýskalandi og gerðum góðan hitting úr því og gistum á reyndar mjög flottu vegamoteli í Bad Grund.    Fórum út að borða þar og lentum í geggjaðri dembu. 476km

 

 

 

 

 

 

 

2.júní  Bad grund – Naumunster
Flottur morgun fórum býsna snemma af stað kvöddum Axel og Sigrúnu en þau voru á austurleið þar sem spáin í suður-Þýskalandi var ekki spennandi.  Gerðum tilraun til að skoða Kastala, en vorum svo snemma á ferðinni að það var ekki búið að opna héldum því bara áfram för og fundum okkur Mc.Donalds til að snæða og finna okkur gistingu fyrir næstu nótt. Ferjan fer 4 júní svo það er farið að styttast í þessu hjá okkur.  Fundum ódýra gistingu í borginni  Nuemunster sem er borg rétt norðan við Hamborg og tókum stefnuna þangað.  Þetta var sæmileg blokkaríbúð ekkert sérstaklega vel þrifin en dugði okkur alveg þar. Eknir 307km .

 

Naumünster – Bjergby
3.júní
Frekar góður rúntur í dag hraðbrautin tekin frá Þýskalandi og brunað í gegnum Danmörk stoppuðum í Hjörring og skoðuðum mótorhjólaverslun þar sem Fiffa vantaði nýja tanktösku.  Friðrik nefnilega missti tanktöskuna sína af hjólinu á 160km hraða, og boppaði hún út um alla hraðbraut.  Marg yfirkeyrð var hún en náðum að snúa við og bjarga því úr henni sem skipti máli, húslyklum og vegbréfi ,Þökk sé vörubílstjóra sem stoppaði fyrir framan draslið og leyfði okkur að ná þessu.  annað í töskunni var ónýtt!
Skammt frá Hjörring er þorpið Bjergerby og þar vorum við með alveg frábæra gistingu í dönsku einbýlishúsi og ekki skemmdi að það var Pizzastaður í 50 metra fjarlægð frá húsinu. Þorpið skammt frá ferjuhöfninni í Hirtshals svo það var ekki langt að fara morguninn eftir.
Eknir  461 km

Bjergenby -Hirtshals -Norrona  
4.júní
Það var ansi stuttur akstur í ferjuna frá Bjergenby kannski 15 km við komumst klakklaust um borð í ferjuna og komum okkur vel fyrir í klefunum og slöppuðum af um borð í ferjunni ,  það þar ekkert sérstaklega góð spáin á íslandi og okku langaði ekki neitt sérstaklega heim í það veður.. 18km


Norrona
5.júní
Stutt stopp 2 tímar í færeyjum í farþegaskiptum.   Ekki mælt með því að ekki að fara frá borði.

Seyðisfjörður -Egilsstaðir-Reyðarfjörður
6. júní
Við komuna í morgun bjuggumst við fastlega við því að við yrðum teknir í tollinum allavega voru Valur og Fiffi harðir á því fyrst þeir voru gripnir í fyrra og þurftu að borga sekt og misstu líter af víni hvor. En Svartfuglarnir höfðu engann áhuga á okkur núna og hleyptu okkur í gegn.  Fjarðarheiðin var reyndar ófær vegna krapa og snjó og ákváðum við að hinkra í sjoppunni eftir að sólbráðin myndi gera sitt og vonuðumst við til að komast allavega til Reyðafjarðar. Sem reyndar hafðist rétt eftir hádegi. 62 km
Á Reyðarfirði vorum við í góðu yfirlæti hjá Einari Gameover í tvær nætur meðan beðið var eftir skárra veðri.

Reyðarfjörður -Akureyri
8. júní

Eftir tveggja nátta bið eftir eftir að snjóa leysti á Fagradalnum og Möðrudalsöræfum.  Renndum við af stað í skítakulda. Vegirnir urðu grænir upp úr kl 11:30 hjá Vegagerðinni , en hitastigið var enn um 0 °C kveikti á rellive á Egilstöðum , en af einhverjum ástæðum hætti það að virka á Skjöldólfstöðum 🙂 en við komust heilir heim á Akureyri eftir 3 hitastopp , annarsvegar í Beitarhúsinu á Möðrudal. (Kaffi) og svo fengum við okkur Fish and chips á Mývatni. Reyndar hlýjuðum við okkur í Vaðlaheiðargöngunum , langbestugöng á íslandi 27°C.       298km eknir í dag.

Algerlega frábær ferð. Mæli eindregið með að prófa þetta.         Næst myndi ég samt vilja stoppa lengur á völdum stöðum og skoða mig um frekar en að vera spenna sig við að keyra sem mest um álfuna.

Alls voru eknir um 7700km í ferðinni.

 

 

Allar myndir úr ferðinni hér! Eru í facebook möppu

 

Husið í Bjergerby