...

Dagur I

Um leið og gefið var upp hvar Landsmót Bifhjólafólks ætti að vera ákvað ég að mæta, uppáhalds staður minn til að hjóla á og malarvegir (að vísu ekki nema 70 km. eftir, þetta helvítis malbik er hægt og bítandi að flæða yfir alla vegi). Slys gera ekki boð á undan sér, en fyrir 16 dögum lenti ég í einu slíku. Svo slæmu að ég má í hvorugan fótinn stíga næstu 8 vikurnar (voru 10, 2 búnar). Ekkert Landsmót hjá mér, en sendi fulltrúa minn sem er pípan mín af stað í morgun lengri leiðina á landsmót. Mánudagur 26. júní kl. 15:00, ferðalag pípunnar gengur vel á Landsmót Bifhjólamanna , snemma var lagt af stað, ferðafélagar pípunnar fóru í regngallana og þá hætti að rigna. Fyrsta stopp var í Ís á Erpsstöðum þar sem allir fengu ís nema pípan. Svo þurftu ferðafélagarnir að pissa í Búðardal, en ekki pípan. Næst var bensín í Flókalundi, pípan þurfti ekkert bensín. Við Garðar BA hefur oft verið kveikt í pípunni.

Dagur II

Ferðalag fulltrúa Hjartar Líklegur, á Landsmót Bifhjólafólks pípunnar heldur àfram. Í gærkvöldi skoðaði pípan sig um á Tálknafirði. Túngata 19 var þekkt mótorhjólabæli á árunum 1984 til 1987 og í ballhúsinu Dunhaga var oft stuð. Pípan vaknaði með „standpínu“, það var heitt í tjaldinu, næst var stefnt á Selárdalur.

Dagur III

Pìpan hélt àfram ferð sinni á Landsmót Bifhjólafólks í dag. Eftir að ferðafélagarnir ákváðu að hætta við að fara í Selárdal var haldið upp á Dynjandaheiði og að Dynjandafossi, en þar hefur oft verið kveikt í pípunni. Næst var það Hrafnseyrarheiði, eitt fallegasta vegastæði landsins, en vondur og grýttur vegur. Á Ísafirði þurftu ferðafélagarnir söngolíu í sérstakri búð, en pípan þurfti ekki svoleiðis og setti stefnuna hinum megin við götuna á leikvöllinn.

Dagur IV  part I

Fékk skilaboð um lesanda sem var farið að lengja eftir ferðasögu pípunnar og hér kemur fyrri hluti dagsins í dag. Ferðafélagar pípunnar vöknuðu flestir seint, en ekki allir, einhverjir fóru í ræktina, en þangað er pípan óvelkomin. Það var blautt, það var lágskýjað og engum langaði í svoleiðis veðri upp Bolafjall, ekki pípunni heldur. Ferðafélagar pípunnar lögðu af stað inn Ísafjarðardjúp í átt að Landsmót Bifhjólafólks , stoppað var á móti Súðavík og þar gerðist pípan fjölþreifin ( endaði í allsherjar „svingerpartíi með ferðafélögunum“). Framh. á morgun.

 

Dagur IV   Part II

Seinni hluti pípuferðasögunnar frá því í gær. Eftir að pípan kyssti margar varir gegnt Súðavík var haldið áfram inn Djúp. Ferðafélagarnir stoppuðu í Litlabæ, þaðan á pípan góðar minningar. Litlibær passar ekki vel fyrir alla ferðafélagana. Í Hólmavík fækkaði ferðafélögum pípunnar um þrjá, en pípan hélt áfram áleiðis á Landsmót Bifhjólafólks, stutt stopp á Veiðileysuhálsi og í Djúpuvík þar sem pípan vakti hundinn og sá margar fallegar tóbaksdósir. Framh. síðar í dag.

 

Dagur V

Loka kafli pípunnar á Landsmót Bifhjólafólks . Þar var erfitt fyrir pípuna að fara frá öllum þessum tóbaksdósum í Djúpuvík, en hún var farþegi og réði engu. Ferðafélagarnir tveir óku á stóru ferðinni framhjá landsmótsstaðnum beint á Eyri við Íngólfsfjörð þar sem Guðjón langa langa afi Óla var hreppstjóri. Það var gott að koma í hlýjuna frá Sólóeldavélinni. Gestgjafarnir voru afi og amma Óla og “ tengdósett“ pípunnar. Það var sofið fram eftir morgni, pípan kvíldi sig vel því nú tekur við að benda á og velja hvaða landsmótsgestur er Líklegasti landsmótsgesturinn 2023???? Pípan hefur hafið störf og bendir á marga og spurningin er það þessi, eða þessi, en þessi kemur til greina en ekki þessi.

 

 

Dagur VI

Pípan hefur valið Líklegasta landsmótsgestinn á Landsmót Bifhjólafólks. Valið stóð á milli Egill Þorgeirsson og Valdís Geirsdóttir , Egill tapaði á eigin bragði því hann kann greinilega ekki að reykja pípu. Valdís er því Líklegust allra skælbrosandi á sínu gamla Honda Goldwing. Til hamingju Valdís.

 

 

Svona í lokin er gott að láta eitt ástarljóð fylgja *
https://www.guitarparty.com/songs/pipan-astarljod/?lang=is

Ég sá hana fyrst á æskuárum
ósnortin var hún þá.
Hún fyllti loftið af angan og ilmi
æsandi losta og þrá.
Síðla á kvöldin við fórum í felur
mér fannst þetta svolítið ljótt.
En alltaf varð þetta meiri og meiri
munaður hverja nótt
Ég ætlaði seinna að hætta við hana
ég hélt að það yrði létt.
En ég varð andvaka næstu nætur
því nú voru takmörk sett.
Endurminningar örvuðu blóðið
ástin mér villti sýn.
Innan skamms fór ég aftur til hennar
og eftir það varð hún mín.
Hún fylgir mér ennþá svo trygg og trú
svo tágrönn og hnakkakert.
Aldrei hefur hún öðrum þjónað
né annarra varir snert.
Hvenær sem grípur mig hugarangur
hún huggar mig raunum í.
Þá treð ég í hana tóbaksmoði
og tendra svo eld í því.
Þá treð ég í hana tóbaksmoði
og tendra svo eld í því.

Hjörtur líklegur skrifar ,,,    Ólafur Hjartarson Tekur myndirnar

 

 

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.