...

Þýskur Íslandsunnandi ferðast nú um landið í tuttugasta og fyrsta skipti. Í þetta sinn kom hann á rafknúnu mótorhjóli og er viðbúinn því að þurfa að banka upp á hjá bændum til að sníkja rafmagn.

Norræna kemur til Seyðisfjarðar frá Danmörku, nú fjölgar hratt í ferjunni með hverri vikunni og ýmis sjaldséð farartæki frá Evrópu streyma inn á íslenska vegakerfið. Við hittum fyrir Þjóðverjann Uwe Reimann. Mótorhjólið hans lætur ekki mikið yfir sér en þetta er rafknúið Zero S-hjól sem nær 100 kílómetra hraða á 5,2 sekúndum. „Ég býst við miklum vindi, vonandi meðbyr því það eykur drægnina á rafhlöðunum. Vonandi verður drægnin á Íslandi um 120 til 130 kílómetrar en það veltur á því hve hratt ég ek. Það er kostur að hámarkshraðinn er 90 á Íslandi þannig að ég kemst ekki hraðar og það sparar orku,“ segir Uwe.

Hann hefur þegar lagt að baki rúmlega 1200 kílómetra frá Þýskalandi til Danmerkur þaðan sem ferjan fór og hefur skipulagt 3200 kílómetra ferðalag um Ísland. Hann ætlar að nýta hleðslustöðvar ON en þar geta erlendir ferðamenn reyndar ekki enn þá keypt hraðhleðslu. „Bara ef þú ert með íslenska kennitölu. Þannig að ég þurfi að skipuleggja þetta í gegnum vin. ON sagði mér að þeir væru að undirbúa að ferðamenn geti einnig notað þetta hleðslukerfi. Ég er kannski of snemma á ferðinni.“

Uwe kemur vopnaður tengiklóm af öllum tegundum og getur nýtt sér hleðslustöðvar þar sem ekki þarf að borga. Hann býst þó við að þurfa að leita á náðir þeirra sem búa við þjóðveginn ekki síst bænda.

Hann kom fyrst til Íslands árið 2003 til að sjá sólmyrkva, heillaðist af landslaginu á og hefur komið við hvert tækifæri síðan, oftast á jeppa. Hann býst við því að það varði allt önnur upplifun að aka um landið á rafhjóli. „ Það er mjög hljóðlátt að aka því ég framleiði ekki hávaða og ég framleiði ekki mengun svo að það er mjög friðsamt að aka þannig.“

Ruv

 

Úr BB
Þjóðverjinn Uwe Reimann fer þessa dagana fyrstur manna á rafmagnsbifhjóli í kringum Ísland. Ferðin hófst er hann kom með Norrænu til Íslands þann 5. júní síðastliðinn og yfirgefur hann landið aftur þann 21. júní næstkomandi. Uwe sagði blaðamanni BB að þetta væri langt frá því í fyrsta sinn sem hann kemur til Ísland en hann hefur komið yfir 20 sinnum hingað. En þetta er þó í fyrsta sinn sem hann ferðast um landið á bifhjóli.

„Þetta er í fyrsta sinn sem farið er hringinn í kringum eyjuna á rafmagnsbifhjóli. Ég fer þó ekki bara hinn týpíska hring um landið, heldur fer ég líka smá útúrdúra, hitt hefði verið frekar leiðinlegt því ég hef komið hingað svo oft. Ég fór til dæmis að Kára-hnjúkavirkjun aðallega til að taka myndir þar af hjólinu og virkjuninni. Það eru svolítið skemmtilegar andstæður, þetta umhverfisvæna hjól og svo virkjunin sem ég leyfi mér að efast um að sé mjög umhverfisvæn. Að minnsta kosti má setja spurningamerki við hana þegar maður leiðir hugann að því að samkvæmt spám um hnattræna hlýnun þá munu jöklar þessa lands hverfa. Og þegar þeir hverfa þá hverfur áin sem nú er virkjuð. Það ætti mikið frekar að nýta jarðvarmann til að skapa orku.“ segir Uwe.

Uwe fór hring um Reykjanesi á leið sinni, einnig kom hann við í Hraunfossum þar sem hann varð næstum rafmagnslaus. Svo gerði hann sér ferð hingað á Vestfirði. Hann kom til Brjánslækjar með ferjunni Baldri, keyrði til Patreksfjarðar þar sem hann hlóð hjólið. Hélt svo ferð sinni áfram í Bíldudal og að Dynjanda. Hann lauk svo þessum Vestfjarðahring sínum á viðkomu í Flókalundi þar sem hann fékk gistingu.

Uwe hafði nú þegar keyrt yfir 2000 km um Ísland á bifhjólinu þegar blaðamaður BB hitti hann á Patreksfirði á dögunum. Hann mælir ekki með þessum ferðamáta á Íslandi og segir að eitt helsta markmiðið sé að komast heill á húfi heim til Þýskalands. Meðalferðalengd hans í ferðinni milli staða er 230 km og lengsta ferðin 320 km. Frá Vestfjörðum var ferðinni heitið til Akureyrar þar sem Uwe var boðið að vera viðstaddur Bíladaga.

Bifhjólið sem Uwe ferðast á um er framleitt af fyrirtækinu Zero Motorcycles frá Bandaríkjunum. Mesti hraði sem hjólið nær er 153 km/klst og er það 185 kg að þyngd. Uwe segist geta keyrt það u.þ.b. 140 km á milli hleðslna og það taki átta til níu klukkustundir að hlaða það að fullu en hægt sé að nota svokallað hraðhleðslu og tekur það um eina og hálfa klukkustund. Uwe segir að lokum að hjólið sé kraftmikið og nái 100 km hraða á klukkustund á 5,3 sekúndum frá kyrrstöðu. Til séu þó kraft-meiri rafmagnsbifhjól sem nái upp í þennan hraða á 3,3 sekúndum.

Aron Ingi
aron@bb.is

19.6.2018

 

Das Projekt / The project
Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.