Hjörtur L. Jónsson lenti í mótorhjólaslysi í júní. Hjörtur, sem hefur
keyrt mótorhjól í hálfa öld, braut fjölmörg bein en segist heppinn að
ekki hafi farið verr. Fyrir ótrúlega tilviljun voru hjúkrunarfræðingur
og tveir læknar meðal þeirra fyrstu sem komu að honum og auk þess
var þyrlan stödd rétt hjá.

Hjörtur Leonard Jónsson lenti í slæmu mótorhjólaslysi þann tíunda júní.Fyrir einskæra tilviljun kom heilbrigðisstarfsfólk fyrst að honum og þyrlan var í æfingaflugi rétt hjá. Hjörtur segist ætla að fara í gegnum batann með húmorinn að vopni og hlakkar til að komast aftur á mótorfák.

Á deild B-5 á Borgarspítala liggur Hjörtur L. Jónsson og bíður eftir bata eftir mótorhjólaslys fyrr í mánuðinum. Hjörtur má í hvorugan fótinn stíga, enda annar fóturinn margbrotinn á hæl og víðar og hinn, sem fór úr liði, marinn og blár. Hægri hönd er í gipsi, en þumallinn fór illa og nokkrir fingur hrukku úr liði. Alls komu sprungur eða brot í tugi beina. Hjörtur, sem vinnur við vegaaðstoð hjá N1, fer langt á léttleikanum og æðruleysinu og lætur meiðslin ekki buga sig, enda veit hann að batinn kemur hægt og bítandi og nú þarf að æfa þolinmæðina. Hann tók á móti blaðamanni í vikunni og sagði honum alla sólarsöguna.

Sá skelfingarsvipinn á andlitinu

„Slysið er röð af fáránlegum tilviljunum!“ segir Hjörtur og byrjar á byrjuninni.

„Við erum fimm mótorhjólaklúbbar sem höfum lengi verið í landgræðslu Hekluskógar rétt sunnan við Sultartangalón. Í öll þessi ár hef ég alltaf verið á vörubíl með krana til að koma með áburð, en nú fór ég á mótorhjóli.
Í ár komust bara tveir klúbbar; BMW og Slóðavinir. Ég er í báðum þessum klúbbum og plantaði með Slóðavinum 1500 trjám og fór svo með BMW-klúbbnum upp í hálendismiðstöð í Hrauneyjum að borða. Við vorum
tveir sem ætluðum svo stystu leiðina heim, en einn maður hafði farið á undan. Við keyrðum yfir nokkrar blindhæðir þegar ég sé þann mann stopp í vegarkantinum og hélt ég að hann ætlaði að taka myndir af okkur
tveimur að keyra niður,“ segir Hjörtur.
„Ég sé þá að sá sem var á undan mér horfir á manninn eins og til að fá einhver skilaboð og horfi þá á hann sjálfur en hann stóð bara og hreyfir sig ekki. Ég er þarna á 80 til 90 kílómetra hraða og er að fylgjast með honum þegar ég sé allt í einu skelfingarsvip á manninum. Ég lít þá fram og sé þá að maðurinn fyrir framan mig er alveg stopp og ég enn á þessum hraða. Og búmm! Ég keyri bara beint aftan á hann.
Ég var byrjaður að bremsa en náði ekki að sveigja frá. Síðasta sem ég sé er stefnuljósið hans að aftan,“ segir Hjörtur. „Ég man augnablikið þegar ég sá að ég var að fara að lenda á honum,“ segir hann og segist hafa bölvað í hljóði.
Hjörtur segist hafa haldið að hann ætti að halda áfram að keyra þar sem hann hélt að maðurinn vildi taka myndir, en í raun hafði maðurinn í vegkantinum bent þ eim á að stoppa vegna þess að framdekkið hans hafði sprungið. Því hafði maðurinn á undan honum stoppað og svo fór sem fór.
„Við vorum á malbikuðum vegi og eins góðar aðstæður og gátu verið. Ég er búinn að keyra í fimmtíu ár og aldrei brotið bein. Þetta var eins fáránlegt og það gat verið; hvernig gat þetta gerst!“ segir hann og segist hann hreinlega hafa verið kominn of nálægt manninum þegar hann áttaði sig á því að hann væri stopp. Maðurinn sem Hjörtur keyrði á slapp með skrekkinn en það bjargaði sennilega miklu að hann var í sérstöku hlífðarvesti.
„Hann var í loftpúðavesti sem blæs upp þegar ökumaður dettur af hjólinu.Hann sagðist hafa verið eins og barn sem er tekið úr vagni og lagt á jörðina,“ segir hann og segir flesta meðlimi BMW-klúbbsins hafa farið strax í það að panta sér slík vesti.
„Ég mun panta mér vesti; það er engin spurning.“

Kastaðist áttatíu metra

Við höggið kastaðist Hjörtur af hjólinu, lenti á malbikinu og fór í loftköstum áður en hann stöðvaðist um áttatíu metrum frá slysstað. Hann var í afar góðum hlífðargalla, einum þeim dýrasta að hans sögn.
„Það er ekkert að mér þar sem gallinn var; hjálmurinn og kraginn og gallinn björguðu miklu. Ég fór svo mikið „flikk flakk“ eftir götunni að ég lemst með lappirnar í malbikið og lendi á höndum og hausnum sitt á hvað,“ segir Hjörtur og segist hafa verið með meðvitund nánast allan tímann. „Ég fann þegar hællinn brotnaði í einni sveiflunni og ég fann svo þegar mjöðmin splundrast og fóturinn gekk upp í mjöðmina. Þumallinn beyglaðist aftur og endaði á að dingla bara og vinstri kálfinn var bara eins og barið snitzel eftir malbikið,“ segir hann og segir að stuttu eftir slysið hefðu fimm mótorhjólamenn komið að og síðar bíll með erlendum ferðmönnum.
„Í þessum fimm hjóla hópi var ein hjúkka sem tók að sér símamálin. Í bílnum var bandarísk kona sem var læknir og fer að hlúa að mér. Tíu mínútum seinna kemur annar bíll og í honum var þýsk kona sem var líka læknir; bráðalæknir. Þetta á ekki að vera hægt!“ segir Hjörtur og segir hana strax farið að þreifa á sér til að athuga hvort einhvers staðar blæddi.
„Hún tók eftir að löppin var skökk og athugaði slagæðar. Hún tók svo í öxlina og þrýsti niður og virtist vera
að athuga púls og blóðþrýsting því hún tilkynnti síðan að blóðþrýstingur virtist vera í lagi en púls lágur. Hún spurði hvenær sjúkrabílinn kæmi og var sagt að hann kæmi eftir hálftíma, sem hún taldi vera of seint. Þá komí ljós að þyrlan væri í tíu mínútna fjarlægð í æfingaflugi og var hún send strax,“ segir Hjörtur og segir þýsku konuna síðan hafa horfið, en hann hefði viljað þakka henni fyrir eins og öðrum sem að slysinu komu.

Á hjóli sleppur enginn

Hjörtur segist hafa beðið rólegur eftir þyrlunni en segir sársaukann hafa byrjað að segja til sín eftir um tuttugu mínútur til hálftíma eftir slysið, en fram að því hafi hann verið töluvert dofinn.
„Ég sá svo að nokkrir fingur voru úr liði og sá að það var eitthvað mikið að fótum og vissi að ég ætti ekki að vera að hreyfa mig,“ segir Hjörtur sem var síðan borinn um borð í þyrluna sem flaug með hann á Borgarspítalann.
„Ég fór í aðgerð strax um nóttina en byrjað var á brotna ökklanum. Varðandi mjöðmina, þá þurfti að toga hana út og draga löppina niður því hún var gengin upp. Fóturinn var settur á grind og teinn í gegn og þar var hengt lóð til að fá fótinn til að setjast rétt. Þannig þurfti ég að vera í nokkra daga áður en ég fór í aðgerð, en það var allt svo bólgið í kringum mjöðmina að það var ekki hægt að gera neitt strax,“ segir Hjörtur.

Hjörtur hefur alltaf sett öryggið á oddinn, en segir slysin ekki gera boð á undan sér. „Það eru allir svo hissa á að þetta hafi komið fyrir mig þar sem ég er öryggisfulltrúi og með öryggisnámskeið í BMW-klúbbnum.

Kristján hringfari kom hingað fyrstur manna og sagði: „Af öllum mönnum, þú!“ Ég sagði við hann: „Það sleppur enginn; á hjóli sleppur enginn,““ segir hann. „Svo er það bara guð og lukka sem stýrir hvernig maður sleppur frá slysum. Ég er búinn að keyra í 51 ár og þetta er fyrsta skipti sem ég brýt bein, en ég veit satt að segja ekki hvað ég braut mörg núna. Ég held að það séu nálægt tuttugu sprungur og brot. Það eru komnar í mig tólf, þrettán skrúfur og nokkrar plötur,“ segir Hjörtur.
Inn kemur hjúkrunarfræðingur með verkjapillur í glasi og nikótínplástur. Hjörtur skellir plástrinum á bringuna eftir að hafa gleypt töflurnar.
„Mig er farið að langa í pípu,“ segir hann, en pípan hefur fylgt honum í áratugi. Hann útilokar ekkert að nota tækifærið núna til að hætta að reykja. Þess má geta að vinir hans færðu honum bol þar sem sjá má mynd
af Hirti með pípuna, en Hjörtur er einmitt í bolnum á ljósmyndinni hér á síðunni. Aftan á bolnum stendur áletrað: „If you can’t be fastest, be flottest“. Pípan hans Hjartar er nú á mótorhjólaferðalagi með syni hans sem
er á leiðinni á landsmót bifhjólamanna; á mót þar sem Hjörtur hefði að sjálfsögðu átt að vera.
„Pípan er fulltrúi minn á mótinu,“ segir Hjörtur léttur í bragði, en sonurinn tekur reglulega myndir af pípunni víða um land og sendir Hirti honum til skemmtunar.

 

Ég fann þegar hællinn brotnaði
í einni sveiflunni og ég fann svo
þegar mjöðmin splundrast og fóturinngekk upp í mjöðmina. Þumallinn
beyglaðist aftur og endaði á að dingla
bara og vinstri kálfinn var bara eins
og barið snitzel eftir malbikið.

 

Sunna, eiginkona Hjartar, var í heimsókn hjá sínum manni. Hjörtur ber sig vel þrátt fyrir að hafa hlotið slæma áverka eftir mótorhjólaslys.

Mótorhjól í stað brennivíns

Mótorhjólaáhugi Hjartar hófst snemma á lífsleiðinni,en hann keyrði fyrst skellinöðru tólf ára gamall.
„Ég var fimmtán þegar ég eignaðist mína eigin skellinöðru en var svo að fá að keyra stærri hjól hjá vinum og kunningjum. Ég var svo 24 ára þegar ég keypti mitt fyrsta stóra hjól, en síðan hef ég átt allt upp í fimm hjól í einu,“ segir Hjörtur.
„Á tímabilinu frá sautján ára og til tuttugu og eins árs drakk ég ótæpilega mikið en hætti svo. Þá varð ég að finna mér eitthvert annað áhugamál í staðinn og þá fór ég í mótorhjólin. Þau hafa verið mín „fyllirí“ síðan og ég hef tekið þau með miklu trompi,“ segir hann og segist nú hafa verið edrú í 41 ár.
„Þarna fann ég besta áhugamálið í staðinn fyrir brennivínið. Hjálpin mín voru mótorhjólin,“ segir Hjörtur og nefnir að hingað til hafi hann sloppið með skrámur.
„Þegar ég fékk hjálminn aftur fór ég að lesa úr rispunum og þá sá ég hvað þetta hafði verið mikið slys,“ segir hann og sýnir blaðamanni vel laskaðan hjálminn sem að öllum líkindum hefur bjargað lífi hans. „Ég lenti á andlitinu fyrst þegar ég lenti á malbikinu. Sennilega datt ég aðeins út í fyrsta högginu því ég man það ekki alveg. Ég þakka kannski mest hálskraganum sem ég var með en ég er alltaf með hann undir hjálminum,“ segir hann og telur kragann afar nauðsynlegan öryggisbúnað sem hann hvetur alla mótorhjólamenn að bera.
„Ég var heppinn að hálsbrjóta mig ekki.

“Fer brosandi í gegnum batann

Sunna Sveins, kona Hjartar, er mætt með góðgæti í poka og sjeik sem mun eflaust gleðja Hjört. Hún segist hafa fengið símtal stuttu eftir slysið og fékk þá fréttirnar.
„Ég fékk að vita að hann hefði lent í óhappi og fékk strax að tala við hann, en ég var stödd á Blönduósi þegar slysið varð,“ segir hún og segist að vonum hafa drifið sig í bæinn, en sonur þeirra hjóna tók á móti honum þegar þyrlan lenti.
Hjörtur sér fram á nokkra sjúkrahúslegu og síðan endurhæfingu á Grensás, en hann má stíga í fæturna um mánaðarmótin ágúst september. Það er ljóst að næstu mánuðir verða nýttir í að ná bata. „Ég verð í hjólastól þangað til í haust því ég má í hvorugan fótinn tylla.
Þetta er verkefni sem ég ætla að fara í gegnum „á broskallinum“ einum saman,“ segir Hjörtur og segist ætla aftur á mótorhjól um leið og færi gefst, enda veit hann fátt skemmtilegra í lífinu.
„Það er alveg á hreinu.“

Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Morgunblaðið 1.7.2023