Margir, ef ekki allir, drullumallarar hafa saknað endurokeppnanna sem fóru fram á Klaustri á sínum tíma. Jæja, nú þarf ekki að örvænta lengur því nú á að endurvekja gleðina og munu AHK í samvinnu við MSÍ halda fimm tíma keppni í anda Klausturskeppnanna þann 24 maí í landi Syðra-Langholti á Flúðumn . Já, Trans Atlantic Offroad Challenge er hér með endurvakin.

 




Fjöldi keppenda er takmarkaður og nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér stað á ráslínu. Keppt verður í tvímenning, járnkarli og járnkerlingu ásamt þremenning (þrímenning). Skráningargjald er 18 þúsund krónur til og með 30 apríl, en mun hækka 1 maí í 25 þúsund krónur.


Að sjálfsögðu verður keppt í undirflokkum í tvímenning sbr. karlaflokki, kvennaflokki, 90+, afkvæmaflokkur og Vintage.



“Fimm tíma keppni í enduro í anda Klausturskeppnanna á Flúðum“.


Skráning er þegar hafin á vefsíðu MSÍ og er hægt að skrá sig með að smella á þennan hlekk. Skráning lýkur 22 maí á slaginu 23:59. Keppnisgjald er aðeins 18.000 kr. á hvern keppanda. Innifalið í því er ábyrgðartrygging gagnvart tjóni á þriðja aðila en ekki fyrir keppandan sjálfan og er mælt því að fólk slysatryggi sjálft hjá sínu tryggingarfélagi. Hafið í huga að skráningargjald mun hækka í 25.000 kr. þann 1 maí.


ATH! HJÓLIÐ ÞARF EKKI AÐ VERA SKRÁÐ Á NÚMERUM TIL AÐ MEGA TAKA ÞÁTT!


Keppnishaldarar treysta því að keppendur mæti með hjól sín í standi, þ.e. að kúplings- og bremsuhandföng séu óbrotin, bremsuklossar í lagi, hjólalegur og aðrir slitfletir séu heilir. Ef ekki, að þá verður keppenda vísað úr keppni.


Allt um keppnina


Eins og áður hefur komið fram að þá verður keppnin haldin í landi Syðra-Langholts við Flúðir. Keppnin fer fram 24 maí og þurfa keppendur að vera komnir á staðin á milli kl.09 og 10 þann morgun. Skoðun hjóla mun eiga sér stað á keppnisstað og þurfa hjól að vera í lagi en hægt er að keppa á óskráðum hjólum þar sem innifalið í skráningargjaldi er ábyrgðartrygging gagnvart tjóni á þriðja aðila. Það þýðir að ef þú skráir þig til keppni, að þá ertu tryggður gagnvart tjóni sem þú veldur öðrum en ekki á sjálfum þér. Keppnishaldarar skora á alla keppendur að slysatryggja sig sjálft hjá vikomandi tryggingarfélagi.


Keppnisnúmer og tímabólur verður afhent hjá KTM Ísland í Gylfaflöt 16, miðvikudaginn 21 maí á milli kl.14 og 17. Ökumenn utan af landi fá gögnin á keppnisstað. Hér fyrir neðan má sjá keppnisflokka ásamt undirflokka.


Einmenningur:

Járnkarl

Járnkerling


Tvímenningur:

Karlaflokkur

Kvennaflokkur

90+

Afkvæmaflokkur

Vintage


Þrímenningur:

Skemmtiflokkur (bæði kyn)


Allir keppendur verða að vera skráðir notendur í kerfi MSÍ og allir liðsmenn þurfa að vera aðilar í aðildarfélagi MSÍ (Motomos, VÍK, VÍR, KKA o.s.frv.). Við skráningu að þá þarf liðstjóri að skrá allt liðið og greiðir liðstjórinn einnig keppnisgjaldið fyrir allt liðið.


Röðun á ráslínu fer eftir útdrætti og mun aftasta talan á keppnisbólu keppenda ráða stöðu þeirra á ráslínu. Línurnar verða að hámarki 10 talsins. Dæmi: Dregin er bóla númer 365, það þýðir að keppandi raðar sér þar sem laust er á ráslínu númer 5.



Keppnin sjálf hefst á slaginu 12:00.



Keppnishaldarar: AHK

Viðburðarstjóri: Guðmundur Gústafsson

Öryggisfulltrúi: Ragnheiður Brynjólfsdóttir

Skoðunarmaður: Einar Sverrir Sigurðsson*

Brautarstjóri: Guðbjartur Stefánsson




Mynd frá ræsingu í Íslandmeistaramóti í enduro sem haldin var á landi Syðra-Langholts á Flúðum 2023



Hér má sjá nokkrar góðar eldri klippur frá keppnum sem haldnar hafa verið á Klaustri. Ef þetta kveikir ekki í einhverjum og rifjar upp gamlar og góðar minningar, að þá veit ég ekki hvað. Bara að finna jörðina nötra undan hjólunum þegar ræst er, er einstök tilfinning sem ekki er hægt að lýsa í orðum. Þú verður að upplifa þetta til að skilja þegar adrenalínið brýst fram og endorafínið að keppni lokinni, þegar þú glaður skálar við keppnisfélagann eftir frábæran dag…



Vonandi mun keppendum ganga betur en í þessum tveimur myndböndum 🙂




Við vonumst að sjálfsöðu til að sjá sem allra, allra flesta og gaman væri að sjá gamlar hetjur taka fram vélfáka sýna, dusta af þeim rykið og mæta til keppni. Já, þessar keppnir eru einstakar í íslenskum torfæruakstur og eitt fjölmennasta mót í flokki vélknúna ökutækja sem haldið hefur verið á Íslandi.