Fróðleiksmolar um létt vélhjól.

Ég hef fengið upphringingar og skilaboð um að veita upplýsingar um létt vélhjól og skal birta örfáa fróðleiksmola.

Ýmis misskilningur hefur eðlilega komið fram varðandi rafreiðhjól og vélhjól í tengslum við hringferð vespuhjólsins Léttis fyrir tveimur dögum.

Margir halda að hjólið sé svipað hvað snertir vélarstærð og getu og vespuhjólin, sem æ fleiri unglingar aka og eru hvorki skráningarskyld né tryggingaskyld, en það er ekki rétt.

Í upphafi skoðaði ég þann möguleika að fara frá Reykjavík til Akureyrar á slíku hjóli, en vélarstærð þeirra er aðeins 50 cc og leyfður hámarkshraði aðeins 25 km/klst.

Á slíku hjóli hefði ferðin til Akureyrar tekið 16 klukkustundir nettó, eða 18 klukkustundir alls og ferð kringum landið tekið alls þrjá og hálfa til fjóra sólarhringa í stað rúmlega eins sólarhrings á Létti.

Ef ég hefði farið á rafreiðhjóli hefði ferðin tekið sex daga, vegna tafa við að endurhlaða rafhlöðurnar.

Og þegar 50cc hjólin eru keyrð á fullu afli, eyða þau meira bensíni en 125 cc hjólið, sem ég fór á, vegna þess hvað þau eru lágt gíruð.

Ég skoðaði líka möguleikann á að auka hraðagetu 50 cc hjóls á einfaldan hátt, svo að það nái 45 km/klst hraða, en þá þarf að skrá hjólið, tryggja og hafa léttari réttindi en mótorhjólapróf.

(Ökuskírteini mitt er frá 1957, en því fylgja réttindi til að aka hvers kyns ökutæki sem er.)

Á svona hjóli hefði ég ekki náð fram sama sparnaði og á 125 cc hjóli, og þurft þrjá sólarhringa í ferðina.

Auk þess er bagalegt að geta ekki verið á fullum þjóðvegahraða til að minnka stórlega vandræði vegna framúraksturs.

Létt vélhjól hafa hingað til varla sést hér á landi, ólikt því sem er í öðrum löndum. Nú hef ég farið 80 prósent minna ferða á rafreiðhjólinu Náttfara í meira en ár og síðasta mánuðiðinn einnig á bensínvespunni Létti og blæs á að veðurfar hér á landi komi í veg fyrir slíkt frekar en til dæmis á vesturströnd Noregs, þar sem rignir miklu meira en hér.

Í hringferðinni um landið 18.-19. ágúst fékk ég allar tegundir af íslensku sumarveðri.

Hér er einföld flokkun á léttum vél hjólum, rafhjólum og bensínhjólum upp í 125 cc: 

DSCN79901. Rafvespuhjól:

Þarf hvorki skráningu né tryggingu og má nota á hjóla/gangstígum. Hámarksvélararfl: 0,5 hestöfl (350 vött). Leyfður hámarkshraði: 25 km/klst. Handgjöf. Þyngd: Ca 60 kíló. Hleðslutimi: 6 klst. Verð: Í kringum 200 þús. 

Kostir: Fæturnir í nokkru skjóli fyrir regni. Þægilegt að hafa handgjöf. Auðvelt að finna stæði. Lágt aldurstakmark. 

Gallar: Meira en tvöfalt þyngri en rafreiðhjól. Vantar góða möguleika á að nota fæturna líka til þess að koma yl í skrokkinn og hjálpa til í brekkum. Nær ekkert geymslurými, verður að setja kassa aftan á til að hafa eitthvað smávægis geymslurými.

Náttfari 13.8.162. Rafreiðhjól: Þarf hvorki skráningu né tryggingu og má nota á hjóla/gangstígum. Hámarksvélarafl: 0,35 hestöfl (250 vött). Leyfður hámarkshraði: 25 km/klst. Hleðslutími: 6 klst. Verð: Frá 160-440 þús. 

Kostir. Hjóla/göngustíganotkun. Meira en helmingi léttari en rafvespur. Hressandi að nota fæturna til að fá fram rafaflið (pedelec) og öryggisatriði ef orkuþurrð verður. Möguleikar á miklu meira geyslurými en á vespunum. Rafhjólið mitt Náttfari getur verið með allt að 110 lítra geymslurými í þremur töskum. Auðvelt að finna stæði eða flytja með sér í bíl. Lágt aldurstakmark. 

Gallar: Fáránlegt að ekki megi vera handgjöf á hjólinu úr þvi að hjólið er léttara og aflminna en vespurnar. (Það má í Ameríku, og hámarkshraðinn þar 32 km/klst og í örfáum Evrópulöndum). Ekkert skjól fyrir vindi og vatni.

Dæmi um hjól í þessum flokki: Náttfari, hjólið mitt. (Dyun). 

2011-Yamaha-EC-03-EU-Basic-White-Studio-0013. Rafhjól, aflmeiri en 0,5 hestöfl (350 vött):

Vantar því miður alveg hér á landi, enda hlutfallslega dýr og þurfa skráningu og tryggingu. Gríðarmikið úrval, það ódýrasta er Yamaha, kostar 2550 evrur í Þýskalandi. (sjá mynd)   Langflest með 45 km hámarkshraða, en líka eru til hjól til með hærri hraða, það hraðskreiðasta með 164 kílómetra hámarkshraða og 67 hestöfl, innan við 4 sek í hundraðið og kemst allt að 300 km á einni hleðslu, kostar 17 þúsund evrur í Þýskalandi. (Minnst fjórar milljónir hér á landi). Hleðslutími ca 6 klst en 10,5 klst á því kraftmesta. 

DSCN7988Kostir: Meiri hraði og afl en á 1. og 2. Hljóðlaus, enginn útblástur. Fjölbreytt hraðasvið, snerpa. Auðvelt að finna stæði. Lipurð í umferðinni og afar praktísk í borgarumferð. 

Gallar: Tiltölulega dýr. Þurfa skráningu og tryggingu. Lítið drægi á flestum rafhjólum. Tafir vegna hleðslutímans ef farið er út á þjóðvegi.   

 

 

4. Bensínvespa, 50 cc, lægsti flokkur:

Þarf hvorki skráningu né tryggingu og má nota á hjóla- eða gangstígum. Vél, 50cc, afl ca 1,7 – 2 hestöfl. Miklu minni eyðsla en á bíl, 2,5 – 3 l /100 km. Þyngd: 70-90 kíló. Hámarkshraði 25 km / klst.

Kostir: Lausar við tafir vegna endurhleðslu á orku. Miklu minni eldnseytis- og viðhaldskostnaður en á bensínbíl, engin gjöld, skráning eða tryggingar. Liprar í umferð.

Gallar: Þyngri en rafreiðhjól og með meiri orkukostnað. Seinfær á lengri leiðum.

Dæmi um hjól í þessu flokki: Znen og Tamco F1. 

 

5. Bensínvespa, 50 cc miðflokkur:

Skráningar- og tryggingaskyld. Vél: 50 cc, afl rúmlega 3 hestöfl. Hámarkshraði 45 km / klst. Eyðsla 2,5 – 3 l. 100 km. Þyngd: 70 – 90 kíló. Verð: 220 þúsund plús. 

Kostir: Sömu og í lægsta flokki en næstum tvöfalt fljótari í förum. 

Gallar: Mega ekki vera á hjóla- og gangstígum og verða að vera skráð og tryggð. Þyngri en rafreiðhjólin og með meiri orkukostnað. Seinfær utanbæjar. 

DSCN7909

6. Bensínvespa, 125 cc miðflokkur: 

Skráningar- og tryggingarskyld. Vél: 125 cc, afl 8-15 hestöfl. Hámarkshraði 90-110 km/klst. Eyðsla 2,2 – 2,5 l./ 100 km. Þyngd: 100-190 kíló. Verð: 450 – 1300 þús. Létt bifhjólapróf. Ódýrari trygging en í vélhjólaflokki. 

Kostir: Getur fylgt umferðarhraða, jafnt í þéttbýli sem úti á þjóðvegum. Meira farangursrými og þægindi en í lægri flokkum og býsna gott í dýrari gerðum, svonefndum sófahjólum. Létt og lipur í umferð og dýrari hjólin (sófahjólin) eru þægileg ferðahjól með miklu farangursrými.Léttir, Jökulsárlón

Gallar: Ódýrustu hjólin með lítið farangursrými. Framrúða og farangurskassi æskilegir aukahlutir. Aukin stærð og þyngd gera sófahjólin svifaseinni, einkum í brekkum.

Allir helstu vélhjólaframleiðendur heims keppast við að selja hjól í þessum flokki, sem eru einna söluhæst í Evrópu.

Dæmi: Honda PCX og Forza 125, Yamaha X-Max 125, Kawasaki J125, Suzuki Burgman 125, Vespa GTS Super 125, Peugeot Satelis 2 125, Piaggio Beverly, Tauris Broadway 125.

Fengið af Bloggi Ómars Ragnarsonar.
21.8.2016 | 23:29