Ágúst Már Viggósson, fremsti Hard Enduro-kappi landsins, kláraði í gær Sea To Sky, Hard Enduro-keppni í Tyrklandi, fyrstur Íslendinga. Hafnaði hann í 26. sæti en aðeins 33 keppendur af 440 luku keppni.
Graham Jarvis, sem mbl.is hitti í haust hér á landi, hafnaði í 5. sæti.
Enginn lokið keppni fyrr en nú
Hard Enduro er tegund mótorhjólaþolkappaksturs við mest krefjandi aðstæður sem mótorhjól geta í komist. Íslendingar hafa tekið þátt í keppninni til fjölda ára en hún er talin ein erfiðasta Hard Enduro-keppni í heiminum.
Alls tóku 16 íslenskir ofurhugar þátt í ár, margir af fremstu Hard Enduro-köppum landsins.
Keppnisdagarnir eru fjórir í Sea To Sky keppninni. Á lokadeginum er keyrt frá ströndinni við Kemer í Tyrklandi og endar brautin á toppi Mount Olympus sem stendur rúma 2.500 metra yfir sjávarmáli. Þannig kemur heiti keppninnar til: Sea To Sky.
Keppendur hafa sex klukkustundir til að sigra fjallið en eins og áður segir luku aðeins 33 keppni af þeim 440 sem hófu hana fjórum dögum fyrr.