Segir Tryggvi Sigurðsson, vélstjóri á Frá VE, skipasagnfræðingur, líkanasmiður og mótorhjóladellukarl.
„Ég er fæddur í Reykjavík 21. janúar 1957, sonur Sigurðar Tryggvasonar og Erlu Andrésdóttur, og ástæðan fyrir því að ég fæddist í Reykjavík en ekki Vestmannaeyjum var líklega sú að mamma var úr Reykjavík. En ég var getinn að Geirlandi í Vestmannaeyjum og uppalinn þar fyrstu æviárin, sem sagt Geirlendingur í húð og hár eins og ég held að Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor, hafi einhvern tíma orðað það,“ segir Tryggvi Sigurðsson þegar við höfum komið okkur vel fyrir í hægindastólunum á neðstu hæðinni í Nöðrukoti við Strandveg 73, húsnæði sem Gunnar Marel Jónsson skipasmiður, langafi Tryggva, byggði fyrir mörgum áratugum. Í lagi Oddgeirs og Ása í Bæ, Sæsavalsinum, er það nefnt Smiðskot og var Gunnar Marel nefndur Jósep í Smiðskoti.
„Er þér sama þó að ég reyki?“ spyr Tryggvi skrifara þegar hann er búinn að hella upp á könnuna. Að sjálfsögðu er skrifara sama um það, hann var sjálfur stórreykingamaður um áratugaskeið, fyrir nú utan að það jaðrar við dónaskap að ætla að meina fólki að reykja í eigin húsum. Svo Tryggvi kveikir sér í einni með kaffinu og talið berst að reykingum meðal sjómanna. „Já, það er býsna algengt enn að sjómenn reyki,“ segir Tryggvi. „Ég held að um borð í Frá séum við fimm af ellefu manna áhöfn sem reykjum, eða tæpur helmingur áhafnarinnar.
Reyndar hefur dregið úr þessu, þegar ég var að byrja til sjós heyrði nánast til undantekninga að menn reyktu ekki. Þá var líka reykt hvar sem var um borð en í dag er það hvorki leyft í matsal né í klefum. Það var líka nokkuð sem mátti breytast. Um borð í Frá reykjum við í stakkageymslunni en þurfum ekki að standa í ágjöf úti á dekki við þá iðju.
Það eru allir sáttir við það fyrirkomulag,“ segir Tryggvi.
Menn virtu skoðanir hver annars
Tryggvi er kominn af mikilli vélstjóra- og skipasmiðaætt. Faðir hans, Sigurður Tryggvason, oftast kallaður Siggi Labba, var vélstjóri og afi Tryggva og nafni, Tryggvi Gunnarsson, ævinlega kallaður Labbi á Horninu, var einhver þekktasti vélstjóri í Vestmannaeyjum. En langafi Tryggva var landsþekktur skipasmiður, Gunnar Marel Jónsson, sem rak Austurslippinn í Vestmannaeyjum um áratugaskeið og synir hans og afkomendur þeirra gerðu garðinn frægan í þeirri iðngrein. Reyndar voru fræðimenn og grúskarar einnig í ættinni, Guðni Jónsson, magister í íslensku og landsþekktur fræðimaður, var bróðir Gunnars Marels. „Einar, frændi minn, sonur Guðna, titlaði mig einu sinni sem skipasagnfræðing og líklega hef ég erft grúskáráttuna úr þeim legg ættarinnar,“ segir Tryggvi. „Ég var oft að sniglast í slippnum sem smápeyi,“ segir Tryggvi. „Og ég man vel eftir þeim sem þar unnu, bræðrunum Jóni og Eggert frændum mínum, Hafsteini Stefánssyni mági þeirra og pabba þínum, Jóni í Þorlaugargerði á Willysjeppanum,“ segir Tryggvi við skrifara. Og þá rifjast það upp að Jón í Þorlaugargerði, kominn af einhverri mestu íhaldsætt Vestmannaeyja, vann um áratugaskeið sem skipasmiður í Austurslippnum þar sem réðu ríkjum þeir sem hvað mest vinstri sinnaðir þóttu í Eyjum á þeim árum, Gunnar Marel og synir hans. Þrátt fyrir þessar ólíku stjórnmálaskoðanir bar aldrei skugga á það samstarf, menn virtu skoðanir hvers annars. Fleiri dæmi slíks þekktust í Eyjum á þessum árum eins og Tryggvi bendir á. „Þeir voru saman í útgerð um árabil, Gunnar Marel og Sighvatur Bjarnason í Ási, þeir gerðu út Erling VE og Erling ll, og var Labbi á Horninu vélstjóri hjá Sighvati. Ólíkari stjórnmálaskoðanir hefur varla verið að finna. Afi gegnumrauður og Sighvatur íhaldsmaður af gamla skólanum. En þeir höfðu vit á að blanda ekki stjórnmálaskoðunum saman við útgerðarreksturinn og þessi útgerð gekk einstaklega vel. Afi leit mjög upp til Sighvats sem persónu og ég veit að það var gagnkvæmt. Menn mættu gjarnan taka sér þetta til fyrirmyndar í dag,“ segir Tryggvi og bætir við að afi hans og nafni hafi aldrei reynt að hafa áhrif á sig á pólitískum nótum. „Ég vissi auðvitað hvaða skoðanir hann og fleiri úr minni ætt höfðu í stjórnmálum en það skipti mig einhvern veginn aldrei neinu máli. Ég hef aldrei verið pólitískur og verð það tæplega úr þessu.“ Eitt kom mörgum spánskt fyrir sjónir í sambandi við Labba á Horninu. Það var að þessi mikli vinstri maður skyldi ævinlega eiga ameríska bíla. „Það er saga að segja frá því,“ segir Tryggvi, „og ég held að það sé í eina skiptið sem afi laug að mér. Ég man hvað ég varð hissa þegar afi, sá mikli kommi, kom úr Reykjavík á nýjum bíl, heiðbláum Chevrolet. Ég spurði hann af hverju hann hefði ekki keypt sér Volgu eða einhvern annan rússneskan bíl, það væru fínir bílar. Og þá sagði afi mér að hann hefði farið upp í Bifreiðarog landbúnaðarvélar, sem voru með umboð fyrir rússnesku bílana á þeim tíma, en sölumaðurinn hefði tekið sér svo illa að hann hefði bara farið og keypt sér Chevrolet til að sýna honum að sér líkaði ekki slík framkoma. Auðvitað vissi ég að hann var ekki að segja satt. Hann var vel að sér í öllu sem viðkom bílum og vissi að rússnesku bílarnir voru drasl. Enda eignaðist hann aldrei rússneskan bíl, hélt sig við það besta og skipti hann engu máli þótt það kæmi frá Ameríku.“
Tilkynnti mér að ég yrði aldrei sjómaður
Tryggvi segir að það hafi snemma legið nokkuð ljóst fyrir að ævistarfið yrði við vélstjórn enda nokkuð rík hefð fyrir því í ættinni. „En draumurinn í æsku var samt alltaf að verða skipasmiður og feta þannig í fótspor langafa míns og frænda minna. En svo höguðu forlögin því á þann veg að vélarnar urðu ofan á. Það var kannski bara eðlilegt. Á þessum árum var flestum ljóst að skipasmíðar í þeirri mynd sem þær höfðu verið stundaðar hér, voru deyjandi iðngrein. Draumurinn um að verða skipasmiður átti samt eftir að rætast, bara í aðeins smærri mynd. En ég þekki þess dæmi að það rættist sem ungir menn ákváðu í æsku, varðandi ævistarfið. Oddur Júlíusson, skólabróðir minn, sagði t.d. ungur maður: „Ég ætla að verða öskukarl.“ Og sú varð raunin. En ég ákvað sem sagt að taka „næstbesta kostinn“ og verða vélstjóri. Og þá var nú ekki slæmt að vera sonarsonur Labba á Horninu. Ég hafði reyndar alltaf verið mikið í kringum hann alveg frá því að ég man eftir mér og var í sérstöku uppáhaldi hjá honum, enda elsta barnabarnið. Ég komst líka upp með meira en hinir afastrákarnir, þeir fengu ákúrur fyrir að fikta í verkfærum og rennibekknum en ég komst upp með það átölulaust.“ Tryggvi fór í Vélskólann í Vestmannaeyjum 21 árs að aldri, eftir að hafa stundað sjó frá Eyjum um nokkurra ára skeið. „Ég man hvað upphafið að sjómennsku minni var erfitt enda var mér ekki spáð miklum frama í þeirri starfsgrein. Ég byrjaði sautján ára með afa og Hjalla á Enda á Erlingi VE á trolli og var alveg drullusjóveikur. Ég man alltaf í einum túrnum, þá sat ég frammi, alveg að drepast úr sjóveiki, meðan þeir afi og Hjalli voru að koma trollinu út fyrir. Og þá heyrði ég Hjalla segja við afa:
„Það er ég viss um að þessi drengur nær því ekki að verða fertugur, hann verður dauður úr elli áður.“
Þessi spádómur náði ekki að rætast, reyndar er ég kominn rúm átján ár fram yfir þann dauðdaga sem mér var þarna spáð.“ Enn þann dag í dag segist Tryggvi finna fyrir sjóveiki eftir að hafa dvalið eitthvað í landi. En það sé ekkert í líkingu við það sem var á fyrstu árunum til sjós. „Svo reri ég eina vertíð á Ingólfi VE með Sigurði Ólafssyni sem þótti grimmur við unga menn. Á þeirri vertíð tilkynnti hann mér að ég yrði aldrei sjómaður. Ég þykist nú búinn að afsanna það, rétt eins og spádóminn hans Hjalla á Enda. Í dag er ég búinn að vera 41 ár á sjó, þar af 35 ár sem vélstjóri og 31 ár hjá sömu útgerðinni, Frá VE. Ég kláraði Vélskólann eins og áður sagði og hef verið vélstjóri síðan. Það starf hefur legið vel fyrir mér og ég hef alla tíð haft lítið fyrir því. Ég hef ekki brætt úr vél ennþá og vonandi verður það ekki úr þessu,“ segir Tryggvi og brosir við. Eins og áður sagði er Tryggvi búinn að vera í sama skiprúmi í 31 ár, Á Frá VE og þar af 25 ár með Óskari Þórarinssyni á Háeyri. „Það voru forréttindi að fá að vera aldarfjórðung með þeim öðlingi til sjós. Fyrir utan það að vera afburða aflamaður, þá var hann flestum þeim kostum búinn sem prýtt geta einn mann. Einstakt ljúfmenni, með góðan sans fyrir húmor og tók sjálfan sig ekki of alvarlega. Eitthvert mesta hól sem ég hef fengið sem vélstjóri, var frá Óskari á Háeyri. Ég var einhverju sinni sem oftar uppi í brú á toginu með Óskari og þá er einhver sem kallar í hann í talstöðina og fer að spyrja hann út í vélina um borð í Frá. Hvort hún sé ekki fjögurra ventla, hvert öxulrúmtakið sé og fleira í þeim dúr. Þegar þessu samtali lauk, segi ég við Óskar: „Hvað eru menn að spyrja þig um vélar? Þú veist ekkert um þær. Þú hefur aldrei komið niður í vélarrúm og þú veist örugglega ekki hvernig vélin um borð er á litinn.“Og þá sagði Óskar: „Ég veit að þetta er góð vél. Ég er búinn að misbjóða henni áratugum saman með lélegum vélstjóra og hún gengur enn. Þess vegna veit ég að þetta er góð vél.“ Svona var Óskar, þetta var hans aðferð við að hrósa fólki.“
50 þúsund myndir í tölvunni
Tryggvi á sér mörg áhugamál eða „dellur“ eins og hann kýs að kalla það. Fyrirferðarmesta dellan snýr að skipum og bátum, bæði í myndum og líkanasmíði. Fyrir sex árum setti hann upp vefsíðuna batarogskip.is en þar er að finna mörghundruð myndir af íslenskum bátum og skipum ásamt ýmsum fróðleik og skemmtilegum sögum. Tryggvi segir að þessi áhugi hafi mjög snemma kviknað hjá sér. „Ég hafði áhuga á bátum og skipum strax á barnsaldri. Þetta var líka á þeim árum mikill og forvitnilegur heimur að kynnast og stúdera, þegar yfir hundrað bátar voru gerðir héðan út. Mér fannst mjög gaman að skoða sérkenni hvers og eins og hvernig hægt væri að þekkja þá í sundur. Svo þegar ég stálpaðist fór ég að taka myndir af bátum og skipum og það hefur fylgt mér æ síðan. Fyrstu árin var ég með ósköp venjulega myndavél og árangurinn ekkert sérstakur. Það var ekki fyrr en frændi minn og skipsfélagi, Óskar Eggertsson, benti mér á að ég myndi aldrei ná góðum myndum á þetta „drasl“ eins og hann orðaði það. Ég var tregur að trúa því en til að færa sönnur á mál sitt tók Óskar myndir á eina filmu með alvöru myndavél sem hann átti og sýndi mér til samanburðar við mínar myndir. Ég sá að þetta var hárrétt hjá honum og endurnýjaði allt dótið hið snarasta. Og myndavélin er alltaf um borð.“ Tryggvi segist ekki vita með vissu hve margar myndir séu inni á vefsíðunni batarogskip.is. „Hitt veit ég að inni í tölvunni minni eru um 50 þúsund myndir af íslenskum bátum og skipum sem bæði ég og aðrir hafa tekið. Reyndar er síðan ekki jafnvirk og hún var, nú hefur Facebook tekið við þessu hlutverki að miklu leyti en ég hef samt haldið áfram með síðuna, reyni að vanda mig og fara ekki fram úr sjálfum mér.“
Aðspurður um hvaða myndir séu í mestu uppáhaldi, vefst Tryggva tunga um tönn. „Auðveldast væri að segja að maður geri ekki upp á milli barnanna sinna en auðvitað heldur maður meira upp á sumar myndir en aðrar. Ég hef t.d. mjög hlýjar taugar til skipanna sem hann Gunnar Marel, langafi minn, smíðaði en svo finnst mér líka rosalega vænt um myndir af gamla Frá. Líklega tengist það því hvað það var góður tími með góðum mönnum, upp úr því að ég varð þrítugur. Það var líklega toppurinn á sjómennskuferlinum,“ segir Tryggvi.
Æskudraumurinn rættist
Annað áhugamál, tengt bátamyndunum, hefur fylgt Tryggva í nær þrjá áratugi, en það er líkanasmíði af bátum og skipum. „Þetta byrjaði allt þegar við vorum með Frá VE í Danmörku árið 1987 í tvo mánuði í vélaskveringu. Þá sá ég í búðarglugga líkan af dönskum bát, svipuðum þeim sem við þekktum hér, Sjöstjörnunni og Ísleifi II. Ég stóðst ekki mátið, fór inn og keypti pakka með efni og leiðbeiningum og setti líkanið saman. Og þar með varð ekki aftur snúið. Eftir að heim kom hélt ég áfram en með þeirri breytingu þó að nú var ekki keyptur pakki í búð heldur setti ég líkönin saman eftir því sem mér fannst það eiga að vera og sneið efnið sjálfur til. Það má segja að ég sé einhverfur á þessu sviði, ég kafa ofan í hvert smáatriði í teikningunum en fyrir mér er það líka frumskilyrði að hafa nákvæmar teikningar til að fara eftir. Stundum getur verið erfitt að útvega slík frumgögn en sem betur fer á ég ýmsa hauka í horni eins og t.d. Sigmar Þór Sveinbjörnsson hjá Siglingastofnun og Hermann Haraldsson, skipaverkfræðing. Svo voru til mót af öllum þeim bátum sem Gunnar Marel, langafi minn, smíðaði, Eggert afabróðir minn hélt því öllu til haga.“ Frá því að Tryggvi byrjaði á þessari iðju, hefur hann smíðað um 40 líkön og af þeim eru a.m.k. tíu af bátum sem smíðaðir voru í Vestmannaeyjum. „Já,“ segir Tryggvi og brosir við, „ég er ekki frá því að það sé meira gaman að smíða þá en önnur skip. En ég hef líka smíðað stærri skip, eins og togara og nótaskip og það er meiri vinna, er upp undir það heils árs vinna að koma slíku skipi saman. Það má segja að með þessu hafi gamli æskudraumurinn um að verða skipasmiður, ræst að vissu marki.
Þetta er reyndar mun þægilegri vinna hjá mér og ekki sambærileg við að burðast með sjóðheita eikarplanka eins og þeir þurftu að gera gömlu mennirnir. En það er
mikil saga sem liggur á bak við skipasmíðarnar í Vestmannaeyjum og ég vona að þessi vinna mín muni eiga sinn þátt í því að halda henni til haga.“
Tryggvi segir að hann hafi haft hægt um sig í líkanasmíðinni undanfarið. „Ég er ekki frá því að ég hafi smíðað yfir mig og sé að jafna mig á því. Ég er með fjögur líkön í gangi núna, mislangt á veg komin. Nær öll þessi líkön hef ég smíðað að beiðni ákveðinna aðila, mest eru það útgerðarmenn sem langar að eiga líkan af skipum sínum. Það er aðeins eitt líkan sem er í minni eigu, Helgi VE, sem langafi minn smíðaði og það prýðir húsnæðið okkar hér í Nöðrukoti,“ segir Tryggvi og bendir á stórt og fallegt skipslíkan í glerkassa við norðurvegginn í Nöðrukoti. „Ég á mér ekkert uppáhalds líkan. Sá bátur, sem ég er að smíða hverju sinni, finnst mér alltaf vera flottastur.“
Drullusokkur númer eitt
Ein dellan til viðbótar, sem á huga Tryggva Sigurðssonar, er mótorhjóladellan. „Ég hef verið haldinn henni alveg frá þrettán ára aldri. Eldri frændur mínir og fleiri félagar áttu mótorhjól og faðir minn átti eitt slíkt og fór flestra sinna ferða á því. Ég sat oft aftan á hjólinu hjá honum og kannski hefur þetta fyrir alvöru kviknað þar. Svo var á þessum árum talsvert áreiti, að því er okkur fannst, í okkar garð af hálfu löggunnar. Ég er ekki frá því að það hafi ýtt undir áhugann og þjappað okkur saman. Þeir sem einu sinni hafa ánetjast þessari dellu, vita að nær útilokað er að losna við hana. Við starfrækjum mótorhjólaklúbb í Vestmannaeyjum, eins og margir vita, hann nefnist Drullusokkar og ég er stoltur af því að vera Drullusokkur númer eitt,“ segir Tryggvi og brosir breitt. „Við erum tæplega 200 í klúbbnum, þar af um hundrað sem eru búsettir í Eyjum og aðrir klúbbfélagar eru þeir sem eiga ættir að rekja til Eyja og hafa einhvern
tíma verið búsettir hér,“ bætir hann við. „Svo má kannski bæta enn einni dellunni við, sem reyndar tengist myndaástríðunni nokkuð. Það er sú ástríða að þvælast um allt land til að mynda skipsflök í fjörum. Ég held að ég sé búinn að mynda öll skipsflök í fjörum á Íslandi. Ég hef líka verið mjög duglegur að taka andlitsmyndir af Vestmannaeyingum og eru þær orðnar á annað þúsund. Einhver myndi segja að ég væri óforbetranlegur dellukarl og líklega er það bara satt,“ segir Tryggvi. Tryggvi segir að það hafi gengið ótrúlega vel að sameina þessi ólíku áhugamál sjómannsstarfinu. „Reyndar tengist bæði myndasöfnunin og líkanagerðin því starfi bæði beint og óbeint en engu að síður mætti segja að í mér blundi þríklofinn persónuleiki. Ég held samt að það hafi gengið alveg þokkalega að samhæfa þá í einn þegar við á,“ segir Tryggvi og glottir við. Og Tryggvi er ekki alveg með svarið á hreinu þegar skrifari spyr hann hve lengi hann hafi hugsað sér að vera til sjós. „Það er farið að síga á seinni hlutann í því, ég er rúmlega 58 ára en finnst ég enn vera í fullu fjöri. Ég hef líka verið einstaklega heppinn með atvinnurekendur á ferlinum, þó ég hefði aldrei átt að verða sjómaður eins og spáð var fyrir mér í upphafi,“ sagði Tryggvi Sigurðsson, vélstjóri á Frá, skipasagnfræðingur, líkanasmiðurog mótorhjóladellukarl, að lokum.
Eyjafrettir 3.6.2015
Sigurgeir jónsson
sigurge@internet.is