Eyfirski safnadagurinn var haldinn á dögunum en þann dag opna fjölmörg söfn á Eyjafjarðarsvæðinu dyr sínar og bjóða gesti velkomna að skoða söfnin endurgjaldslaust.
Alls tóku að þessu sinni 15 söfnþátt í Eyfirska safnadeginum og voru þau staðsett hvarvetna í Eyjafirði. „Aðsóknin var góð og við erum ánægð með viðtökur, það var ekki
annað að sjá en fólk kunni vel að meta það sem í boði var,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Eyfirski safnadagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2007 og segir Haraldur Þór að í fyrstu hafi ekki annað staðið til en að halda daginn í þetta eina skipti. Hann gekk hins vegar svo ljómandi vel að ákveðið var að endurtaka leikinn árið á eftir „og síðan hefur þessi dagur verið árlegur viðburður nema hvað við þurftum að aflýsa á síðasta ári vegna heimsfaraldursins,“ segir hann.
Eyfirski safnadagurinn hefur alltaf verið haldinn á sumardaginn fyrsta og markað upphafið að sumarstarfsemi safnanna, en nú var hann færður yfir á haustið, líka vegna stöðu faraldursins í vor. „Við erum bara glöð yfir að hafa getað haldið upp á daginn,“ segir Haraldur Þór.
/MÞÞ
Úr Bændablaðinu.