Nú var það um vorið, nánar tiltekið í maí 1968 að ég fékk vinnu í vegagerð austur á Hornafirði sem var hið besta mál. Það var bara eitt, ég var búinn að fá mér mótorhjól, mitt fyrsta, ég ný orðinn 17 ára og það kom ekki til greina að ég færi austur nema ég og hjólið færu sem eitt.

Hjólið var BSA Super Rocket árg: 1958. Til að lýsa hjólinu aðeins þá kom það frá U.S.A með Íslending sem var að læra flugvirkjun.  Hann var búinn að vera að keppa á hjólinu í Bandaríkjunum þar sem hann bjó.  Hjólið var 650cc með heitum ásum, ventlar jafn stórir út og inn. Búið að porta heddið og setja í það léttar undirlyftustangir. Á þessum tíma var ég ný búinn að setja í það Close Gear Ratio gírkassa. Nú útblásturspípur voru beint afturúr þ.e.a.s. með miðju hjólinu og á þeim voru megahpone kútar (tómir). Hjólið var létt og í útgáfu scramblers típu. Þetta var A10 (The Hjólið!)
Hjólið leit mjög vel út og var í topp standi, keypt á 25.000 þúsund kall.  Ég man eftir því að það var rosa peningur því ég var búinn að safna mér fyrir þessu í langann tíma, alveg frá því að ég fékk mér Hondu skellinöðru nýja hjá Gunnari Bernburg 15 ára og er það eini japaninn sem ég hef átt, en auðvitað hef ég ekið þeim síðan. Mér fannst ég hafa unnið í happadrætti þegar ég eignaðist bretann því margir voru um það.
Jæja austur fórum við, hjólið með gömlu Esjunni, en ég með DC3. Ég fylgdist vel með þegar hjólið var híft um borð og var á nálum að stroffurnar skyldu slitna þegar hjólið var í u.þ.b. 20 metra hæð á leiðinni um borð. Ekki vissi ég að hver stroffa þyldi 4-5 tonna átak. Þær voru að vísu tvær, allur er varinn góður í svona málum og fleirum.
Nú austur var ég kominn þegar hjólið loksins kom og fylgdist vel með þegar hjólið kom frá borði. Mikill léttir var þegar hjólið snerti jörð og ég sestur á það. Í gang og allir hafnarkallarnir horfðu agndofa á þetta. Ég mjög stoltur og átti heiminn þegar ég er að leggja af stað þegar einhver á Volvo Amason kom að og horfði mikið á, en spurði svo hvort þetta væri skellinaðra?  Þegar ég áttaði mig á því að enginn þarna vissi hvað Mótorhjól væri ! sem ég vissi fyrirfram þar sem ég var búinn að vera fyrir austan áður.  Nú var búinn að jafna mig á þessari fáfræði þegar hann spurði mig hvort ég væri til í að taka spyrnu upp almannaskarð einhverntíma?  Ég fór að hlæja en var orðlaus og móðgaður þegar ég áttaði mig á að þetta var full alvara hjá honum.
Málið var bara einfaldlega það að ég sat á kraftmesta mótorhjólinu á Íslandi og þótt viðar væri leitað í þá daga . Ég var marg búinn að sanna það í keppnum í Reykjavík og nágrenni.  Það væri hægt að skrifa sér grein um þá atburði sem margir muna eftir sem voru mótorhjólamenn í þá daga.  Ég sagði honum að nefna tíma þegar honum hentaði, en ég heyrði aldrei minnst á þetta framar frá honum.
Ætli það stafi ekki út frá því þegar hann sá mig keyra burtu frá honum, því hjólið var á frekar grófum dekkjum og við á malarbryggju.

H dagurinn

Eins og sumir vita rann upp þessi frægi H dagur þ.e 26 maí, þegar umferðinni var beint frá vinstri vegarhelmingi yfir á þann hægri.  Nú það var sunnudagur og ég í fríi, æðislega gott veður.
Ákveðið var á stundinni þegar ég vaknaði að fara inn í sveit sem kallað var þ.e.a.s. Suðursveit sem er u.þ.b. 55km akstur.  Nú skellti ég mér í gallabuxurnar mínar því ekkert var leðrið til og gallajakka. Hanska átti ég og hjálm. Nú mikið var búið að kynna og tala um H daginn í útvarpi og átti að vera sérstök gæsla víða um land svo landinn lenti ekki í vandræðum að koma dráttarvélinni eða druslunni yfir á hægri kant án þess að fara út af eða framan á næsta farartæki.   Í fyrsta kikki fór A10 hjólið í gang eins og venjulega og sólin skein. Brunað var á stað og keyrt um Nesjasveit, æðislegt kikk. Síðan komið á Mýrarnar og allt gekk eins og í sögu, einn og einn fugl flaug í burtu þegar ég nálgaðist þótt þeir væru ekki á veginum því ekki þurfti ég flautuna. Eina sem ég heyrði var þetta fallega hljóð í hjólinu, þetta var unaðslegt.

Rússajeppi fyrir á Veginum

Ég sé rykmökk fyrir framan mig af ökutæki. Nálgast óðum og er kominn í rassgatið á honum um leið. Sé í gegnum rykmökkinn að um er að ræða jeppabifreið og það Rússajeppi.   Það þarf ekki að orðlengja það meir ég vill komast fram úr.    Hann lullar á 60 km hraða, en ég sossum vissi að hann kæmist ekki hraðar en 80-90 km hraða á Rússanum. Ég er fast fyrir aftan hann og vill komast fram úr og þegar ég geri tilraun til þess beyjir hann fyrir mig. Svona gekk þetta aftur og aftur. Ég varð að slá af því ég var að missa andann í rykmekki.  Ég var að hugsa hvaða helvítis vitleysingur er þetta væri þar sem ég var búinn að taka eftir því að hann var búinn að sjá mig í hliðarspeglum jeppanns. Ég horfði beint í andlitið á honum og vildi komast framúr. Við vorum að nálgast Suðursveitina og ég vissi af brú sem við vorum að koma að.  Þar ætlaði ég fram úr með góðu eða íllu hvað sem það kostaði, þó brúin væri þröng.
Inn á brúnna fórum við og ég fast í rassgatinu á honum. Enginn möguleiki var að fara fram úr á brúnni því hún var mjög þröng en soundið í hjólinu var það gott að það bergmálaði á brúnni en ég sá möguleika um leið og við færum af brúnni.  Smá breikkun var við endann á brúarinnar og ég var staðráðinn í að sýna Hornfirðingnum ,með fullri virðingu fyrir Daða og öðru mótorhjólamönnum núna fyrir austan hvað mótorhjól væri.   Um leið og Rússinn fór af brúnni þrykkti ég niður og þröngvaði mér upp að Rússanum.
Ég man eftir hljóðinu sem myndaðist þegar ég var við hliðina á jeppanum og klettabelti á hina hlið.  Nú í stuttu máli gróf ég skurð um einhverja tugi metra þegar ég fór fram úr og heyrði þegar grjótið ringdi yfir Rússann, því allt var ekið á möl.  Áfram hélt ég þó nokkurn spöl er ég leit aftur fyrir mig hálf brosandi yfir hvernig ég tók helvítið, en tók eftir að hann (Rússinn) bætti frekar við ef hægt væri að segja svo.  Hélt ég mínu striki og sá hann ekkert meir, því í mínum huga var ég búinn að…..
“ Láta þá vita hvað mótorhjól er „.

Krassið

Renndi ég frekar létt í góða veðrinu í Suðursveitinni og naut lífsins. Ég þekkti leiðina vel því eg hafði verið áður á þessum slóðum, en ekki á mótorhjóli.  Vissi ég af brú sem ég var að nálgast og var það við Smyrlabjargará og einnig að það væri nokkuð hátt upp á brúnna svo ég hugsaði að keyra hjólið nokkuð greitt yfir, því brúin var stutt.    Flaug ég yfir hana með stæl, þó ég segi sjálfur frá og inn í beyju sem var út úr brúnni. Áður en ég vissi af, þá var rétt framundan mér skurður í veginum sem hafðu myndast í leysingum fyrr, þar sem ringt hafði mikið nokkra daga á undan.   Ósjálfrátt án þess að reyna að bremsa niður þá ætlaði ég að fara yfir þar sem undirmeðvitundin sagði mér að bremsa ekki.  Svo það var látið vaða og fór ég tæplega alla leið, þá meina ég tæplega sem ekki var nóg því afturdekkið kom við bakkann á móti og höggið var það mikið að hjólið fór upp í loftið.  Þó svo ég hafi ekki séð hjólið í loftinu nema óljóst þar sem ég var þar líka, þá endaði það u.þ.b. 30-40 metrum utan vega vinstra megin en ég á svipuðum slóðum hægra megin við veginn.

Ég var á kafi í mýri eitt drullu stykki og gallabuxurnar rifnar og blóð lak niður læri.  Stóð ég upp þar sem ég varð sem fyrst að athuga með hjólið, og sá að það lá í mýrafeni í drullu og var tiltöku lítið skemmt við fyrstu sýn.  Málið var að koma hjólinu upp á veg en brettið hafði gengið niður í afturdekk svo ég tók á til að losa það, sem tókst. Ýtti ég svo hjólinu upp á veg, hvernig sem ég fór að því en það var greinilegt að einhver hjálpaði mér með það því það var þungt í drullunni.  A10 hjólið mitt var lítið skemmt við fyrstu sýn og tékkaði ég á smurolíu til að athuga hvort hún hefði lekið af, en svo reyndist ekki vera né bensín. á fór ég að athuga með sjálfan mig bölvandi yfir þessum klaufaskap og ætlaði úr vettlingunum sem gekk eðlilega fyrir sig á vinstri en ekki á þeirri hægri.  Það var eins og hann væri límdur á hægri hendi, en ég togaði og úr hanskanum fór ég.  Ég starði á lófann eitt augnablik og sá að litli putti lá í lófanum,  úr lið greinilega og beint út í loftið brotinn  “ djöfullinn sjálfur hugsaði ég með mér en fann ekkert til “  Kippti í puttann og hann í lið sársaukalaust og horfði ég á hann meðan hann hreyfði sig eðlilega og hugsaði ekkert meira um það á þessu augnabliki.

Gripinn glóðvolgur

Á hjólið var ég sestur og hugsaði með mér að fara upp að Smyrlabjargarbæ þar sem ég þekkti fólkið þar.  Eitt kikk og Beesan var í gangi eins og ekkert hefði í skorist.  Um leið og ég ætla af stað þá kemur þessi Rússajeppi,  fer út fyrir skorninginn í veginum og leggur beint fyrir framan mig og viti menn þar komi tveir lögreglumenn út úr Rússanum.

Það er ekki að sökum að spyrja þeir byrja að hella sér yfir mig og segja að ég hafi greinilega keyrt eins og brjálæðingur á minnstakosti 90 km hraða, en ég vildi nú ekki samþykkja það og sagði þeim að þeir hlytu að vita að skellinaðra kæmist ekki á þennan ógnarhraða.  Viðurkenndi ég að hafa farið í
70 km hraða en ég vissi að 60 km hámarkshraði var leyfilegur en ég hefði bara steingleymt að það væri H dagur.
Spurðu þeir mig hvort ég væri slasaður en ég sagði svo ekki vera. Létu þeir gott heita en skrifuðu mig niður og var ég nokkrum mánuðum síðar kallaður fyrir sýslumann út af þessum akstri mínum og hann vissi það betur en ég að skellinaðra kæmist ekki á þennan hraða sem stóð í skýrslu lögreglu og taldi það einhvern misskilning og lét málið niður falla, sem ég var í sjálfu sér sáttur við!  Sýslumaðurinn var á sjötugsaldri og hinn besti kall.
Nú er ég kom á Smyrlabjargir þá var það fyrsta sem ég heyrði í útvarpinu að ungur mótorhjólamaður hafði verið tekinn austur í Suðursveit en annars gengi umferðin nokkuð vel.
Ég var þá alveg að drepast úr kvölum í puttanum er deyfingin hafði alveg farið úr, einnig lærum og öxl.  Keyrður út á Höfn til læknis.
Eftir skamma stund var ég búinn að ná í hjólið og hjólaði mikið um austurland með góðum árangri.  En það kom aldrei til að mér væri boðið í spyrnu aftur.

Haukur Richardsson f. 1.des 1950 d. 24. maí 2012

Með bestu kveðju til allra Hjólamanna,

Félagi í Vélhjólafélagi Gamlingja
og Trident & Rocker3 Owners Club
Haukur Richardsson
Snigill nr: 573
 Sniglafréttir 8. tbl nóv des 1993