Stofnun klúbbsins
Helstu ástæður fyrir því að klúbburinn var stofnaður var að nokkur hópur fólks vildi vera í Harleyklúbbi en frjáls og óháður frá t.d. Harleyumboðinu, vildi hafa þá stöðu gagnvart yfirvöldum og að rödd þeirra heyrðist þegar kom að lagasetningu varðandi mótorhjól og mótorhjólamennsku og síðast en ekki síst að kynnast evrópskri Harley menningu.
Aðal sprautan í að stofna klúbbinn bjó í Noregi og var félagi í norska Harleyklúbbnum. Hann aðstoðaði okkur við að semja reglur, hanna merki og sækja um aðild að Harley samtökunum. En það er eitt af aðal styrknum við Harleyklúbbinn, þetta eru Evrópusamtök Harley eigenda, og mjög sterk á Norðurlöndunum.
Fyrsta Potato mótið og vegleg umfjöllun um það
Ástæður voru þannig að tveir meðlimir áttu jörð í Þykkvabænum, ákváðu að byggja upp ferða- og mótaþjónustu fyrir mótorhjóla fólk. Því þótti tilvalið að klúbburinn héldi mót til að auka fjölbreytni í mótorhjólamótum á Íslandi. Það voru miklar vangaveltur um hvað kalla ætti mótið, það yrði að kallast á ensku nafni svo að hægt væri að auglýsa það um alla Evrópu, því að ein af skyldum klúbbsins innan Evrópusamtaksins er að halda mót sem erlendir félagar eru velkomnir á. Fyrir kom að þetta er haldið í Þykkvabænum þar sem meirihluti kartafla á Íslandi er framleiddur var ákveðið að kalla mótið „Potato Run“.
Ákveðið var að innleiða að erlendri fyrirmynd nokkur atriði sem ekki höfðu verið á mótorhjólamótum hérlendis fyrr eins og að hafa morgunmat laugardags og sunnudagsmorgnum, og bjóða börn velkomin, og leyfa þeim að taka þátt í dagskránni.
Fyrsta mótið var haldið með góðum árangri, en tókst með ágætum þrátt fyrir rigningu. Boðið var upp á súpu á föstudagskvöldi. Farið í ýmsa leiki yfir laugardaginn, en einn leikinn varð að láta bíða fram yfir miðnætti eða þar til börnin væru sofnuð, en það var að kasta svínshaus eins langt og hver gat. Svínshaus var valinn þar sem Harley er oft kenndur við Hog (Svín) en það kemur til eftir að einn aðal race gaur Bandaríkjanna hafði svín sem lukkudýr með sér í keppnum, á byrjunar árum mótorhjólakappaksturs.
Það þótti ekki við hæfi að leyfa börnum að fylgjast með þessu og eftir reynsluna hvað komu mörg börn þá hefur þetta ekki verið gert aftur.
Mótið hefur þróast í að vera stærsta fjölskyldumót mótorhjólafólks, enda allir velkomnir, Harleyeigendur sem aðrir. Með góðri leikjadagskrá fyrir alla aldurshópa varðeld á kvöldin, lifandi tónlist og matarstússi sem er reyndar í sífeldri þróun
Eitthvað um Harley menningu á Íslandi
Fyrstu Harleyhjólin komu hingað á vegum bandaríska hersins á 4. áratug síðustu aldar. Örfá þeirra hjóla eru enn, þau voru ýmist grafin ásamt öðru dóti frá hernum eða skemmdust á vegleysunum sem hér voru. Lögreglan gerði samning við Harley-Davidson verksmiðjuna eftir að herinn kom hér og hefur verið á Harley hjólum allar götur síðan. Það kom fyrir að Lögreglan seldi hjól eftir að þau höfðu verið í vinnu fyrir lögregluna í árafjölda. Þetta voru mjög ílla viðhaldin hjól og mikið notuð en fólk gerði þau upp og flest þeirra eru enn í notkun. Einstaka Harleyhjól var flutt inn af einstaklingum uppúr 1990 og eitt nýtt hjól keypt í gegnum fyrirtækið sem þjónustaði lögregluhjólin. Þegar þessi gömlu lögregluhjól höfðu gengið kaupum og sölum og alla vantaði varahluti, fór fjársterkur aðili að huga að stofnun umboðs sem hann gerði.
Við það varð sprenging í innflutningi á Harley hjólum. Enginn var maður með mönnum nema að eiga Harley-Davidson og aðgengi að vara- og aukahlutum varð allgott. Einnig var gríðalega mikið flutt inn af Harley hjólum í bólunni enda allir vitlausir í þessi hjól. Eftir hrunið hefur umboðið verið skorið niður og fært inn í smærri verslun með fleiri umoðum. Þar sinna þeir varahlutainnflutning og viðgerðum.
Harleymenningin hefur þróast töluvert með þessum hræringum og aðgengi að hjólum og varahlutum.
Á tímabilinu þegar fólk var að kaupa gömlu lögguhjólin og gera upp fóru margir til USA til að kaupa varahluti og drekka í sig Harley-menninguna þar, læra að vera Harleybikerar. Þegar umboðið kom og þessir með feitu launaumslögin keyptu hjól keyptu margir þeirra líka gallann (lookið) og héldu þar með væru þeir orðnir hardcore bikerar en voru með glænýtt hjólapróf og enga reynslu. Margir þeirra urðu svo miklir hjólamenn og hafa ferðast gríðalega mikið á hjólum. En maður varð oft svolítið kjánalegur þegar þessir nýju voru að segja okkur hinum til í hjólamennsku.
Erlendu glæpatengdu klúbbarnir hafa ekkert sérstaklega náð sér á strik hér á landi enda verið ansi hart tekið á þeim af yfirvöldum , þeir hafa mjög litla virðingu annars mótorhjólafólks og það hefur nánast snúið bakinu við þeim sem fara á þá braut. En almennt er ekki mikill rígur á milli mótorhjólafólks, þó skiptast hópar upp í hjólagerðir það er að segja torfæru – götu – racehjól, en ekki svo mikið tegundir. Við erum einfaldlega of fá fyrir svoleiðis ríg.
Um Norðurlanda og forsetafundina
Stjórnarmenn klúbbsins fara tvisvar á ári á fundahöld í vegum Harley klúbbsins. Þessir fundir eru Norðurlanda- og svo Evrópufundir. Þar sem klúbburinn hér á landi er ekki stór og býr ekki yfir miklu fjármagni hafa Norðurlandaklúbbarnir greitt bæði fargjöld og hótelkostnað fyrir tvo stjórnarmenn. Á Norðurlandafundum sem eru alltaf haldnir mars/apríl ár hvert er rætt um ýmis mál sem snúa að bæði hagsmunamálum Harley fólks og sem snerta sameiginleg skipulagsmál, sérstaklega eins og Nordic run og mót sem haldin eru víða.
Mikið hefur verið rætt um fáranlega reglugerðir og lög sem snúa að smíðum og breytingum custom hjóla, en það segir sig sjálft að það eru málefni sem vert er að gæta aðsvo við drukknum ekki í regluverkum sem gerir okkur ómögulegt að smíða eða breyta bifhjólum
Þetta árið var norðurlandafundurinn haldinn í Svíþjóð og um miðjan mars mánuð 2015 verður fundurinn haldinn hér á landi, Ætlunin er að taka vel á móti gestunum frá hinum norðurlöndunum séstaklega í ljósi þess að klúburinn á 10 ára afmæli á næsta ári.
Á evrópufundinum sem er ávalt haldnir í nóvember ár hvert er ýmis málefni rædd sem snúa að málefnum Harley fólks. Á báðum þessum fundum er hægt að senda inn tillögur eða vekja máls á málefnu sem snúa að hagsmunum okkar. Það verður að segjst að það er mikill hagur fyrir okkur að vera meðlimur að svona stórum samtökum.
Um 10 ára afmæli klúbbsins og hvað okkur langar að gera 
Eins og fram kom hér áður þá heldur klúbburinn upp á 10. ára afmæli á næsta ári. Það er ekki búið að leggja lokadrög að dagskrá fyrir árið en ætlunin er að taka móti forsetum og öðrum stjórnarmeðlimum norðurlandan um miðjan mars á næsta ári. Á norðurlandafundinum sem haldin var í Svíþjóð á þessu ári kom hugmynd um að næsta nordic run yrði á Íslandi á afmælisárinu okkar. En þessi hugmynd verður rædd betur á næsta forsetafundi sem verður í Póllandi um miðjan nóvember á þessu ári.
Hvað afmælisárið varðar þá langar okkur að standa fyrir einhverju alveg ótrúlega flottu og helst einhverju sem aldrei verið gert áður. Okkur er mikið í mun að gera hlutina vel og virkja félagsmenn okkar í þátttöku með okkur.
Það sem klúbburinn gerir
Klúbburinn gefur út tvö félagsblöð á ári og hægt er að versla ýmiskonar fatnað merktan H-DCICE klúbbnum. Þegar fjármagn leyfir þá gefur klúbburinn einnig út dagatöl með myndum af félagsmönnum og hjólum þeirra.
Við hvetjum auðvitað alla Harley eigendur að ganga í klúbbinn okkar því það er nauðsynlegt að við stöndum vörð um hagsmuni okkar. Árgjaldið er 5.500 krónur og það eru engar kvaðir lagðar á félagsmenn okkar annað en að láta sjá sig við og við á fundum og samkomum sem við stöndum fyrir hverju sinni.
Klúbburinn stendur í raun ekki fyrir miklu félagslífi öðru en því að það eru haldnir reglulegir félagsfundir, reglulegar dagsferðir, Kick Start, First Run, Potato mótið og svo erum við auðvitað dugleg að taka þátt í því sem aðrir klúbbar standa fyrir. Núna í ár eru hugmyndir um að standa fyrir jólaballi en við sjáum hvað okkur tekst að hrista fram úr ermunum hvað það varðar.
Texti: Inda Björk Alexanderstóttir og Dagrún Jónsóttir
myndir Hálfdán Sigurjonsson
Mótor og sport 7tbl. 3árg. 2014








