Ásgeir keppir í 3.000 km mótorhjólakeppni í Afríku



Hinn tólfta apríl næstkomandi hefst átta daga rallkeppni í Marokkó þar sem ekið verður þrjú þúsund kílómetra í Sahara-eyðimörkinni. Ásgeir Örn Rúnarsson verður meðal þátttakenda en hann hefur verið að undirbúa sig fyrir keppnina í nú að verða tvö ár. „Keppnin byrjar tólfta með skoðun keppnistækja en fyrsta sérleiðin er 13. apríl. Við keyrum í 8 daga samtals og aldrei sömu leiðina tvisvar. Það er byrjað í Agadír og stefnt til  suðurs og þar í vesturhluta Sahara. 
Það verður síðan gist í tjaldbúðum á milli keppnisdaga,“ segir Ásgeir í samtali við Morgunblaðið. „Við hjólum síðan í norðaustur meðfram landamærum Alsír og Marokkó, Marokkómegin, og endum við Miðjarðarhafið.“


Rall en líka ratleikur



Keppnisformið er rall form og er ræst með tímatöku. „En í bland við það er þetta hálfgerður ratleikur. Við megum ekki nota GPS-tæki til þess að rata. Þeir sem keyra bíla eru með pappírsbækur. Við sem erum á mótorhjólunum erum með sérstakt box sem er rafdrifið. Þar er pappírsrúlla sem rúllar frá einu kefli yfir á annað kefli eftir því sem okkur miðar áfram. Það sem við notum til stuðnings er kílómetrateljari og kompás með
stefnu í tölum og kílómetrateljara í hundurðum metra. Þetta á að vera í samræmi við rúllubókina sem rúllar bara eftir því sem okkur gengur.“ Keppendur þurfa á leiðinni að finna ákveðna staðfestingarpunkta. Á
mótorhjóli Ásgeirs verður GPS- tæki sem keppnisstjórn skoðar eftir hvern keppnisdag og staðfestir að hann hafi verið á öllum réttu stöðunum. GPStækið gerir í raun lítið annað, segir Ásgeir, það mun hins vegar láta vita þegar hann er í um 800 metra fjarlægð frá staðfestingarstað.


Keppir án þjónustuliðs



„Ég er skráður í mótorhjólaflokk sem er atvinnumannaflokkur og heitir Malli moto. Það er þekkt form þar sem þú ert ekki með neitt þjónustulið í kringum þig. Þú verður að þjónusta keppnistækið og sjálfan þig sjálfur,“
segir Ásgeir. Keppnisstjórn mun þó fara á milli staða með tvo kassa fyrir keppendur. Einn með varahlutum og verkfærum og annan með persónulegum búnaði.


Landslag áþekkt og á Íslandi



Mótorhjól Ásgeirs hefur verið sérútbúið fyrir ferðina. Þá hefur hann þurft að sérvelja öryggisbúnað sem andar vel í hitanum. Keppendur mega heldur ekki leggja af stað í neina sérferð nema með þrjá lítra af
vatni á bakinu. „Þegar maður er á mótorhjóli í Afríku þarf maður að vera léttur og öryggisbúnaðurinn þarf að anda vel,“ segir Ásgeir. Að sögn Ásgeirs er Marokkóleiðin ekki bara sandur heldur mikið grjót og hart undirlendi sem er mjög áþekkt og á Íslandi, og gæti komið sér vel fyrir Ásgeir. Sem félagsmaður í ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinir hefur hann farið í ótal ferðir um hálendi Íslands.

 

Magnús Heimir Jónasson
mhj@mbl.is
4.4.2019

 

Hægt er að hlusta á Ásgeir segja frá keppninni í seinnihlutanu á þessu Podkasti. 
Í fyrri hlutanum segir hann frá keppnisárunum sínum í rallykrossi á bílum áður en mótorhjóladellan yfirtók hann.




Og svo sjónvarpsviðtal á Hringbraut Hér