Eftir að ég skrifaði um tvö hagnýt ökutæki, torfæruhjól og „buggybíl“, hafa nokkrir innflytjendur ökutækja sem hjá flestum eru álitin leiktæki, haft samband við mig og boðið mér að prófa mótorhjól, fjórhjól ásamt fleiru.
Aldrei hefur mér leiðst að leika mér og þegar Karl Gunnlaugsson hjá KTM Íslandi bauð mér 1090cc. ferðahjól frá austurríska framleiðandanum KTM var ég ekki seinn að þiggja boðið.
KTM hefur í mörg ár verið vinsælasta torfærumótorhjólið á Íslandi
Laugardaginn 15. september fékk ég hjólið og fór í mótorhjólaferð við sjötta mann á vegum Ferðaog Útivistarfélagsins Slóðavina sem nefndist „stóruhjólaferð“. Við ókum alls rúma 270 km á einum degi og var reynt að keyra sem mest af malarvegum í bland við bundið slitlag. Í fyrstu fannst mér hjólið ekkert sérstakt, en eftir spjall við fararstjórann Einar, sem var á eins hjóli, var ég greinilega að snúa mótornum of lítið og því ekki að ná út úr hjólinu þeim eiginleikum og kostum sem einkennir þetta hjól.
Við það að vera einum gír neðar en ég hafði verið kom krafturinn, þegar gefið var í kom þetta flotta „greddu-hljóð“ úr mótornum og minnti þetta mig einna helst á sjálfan mig þegar ég var undir 10 ára aldri og hugðist fara með veturgamlan hrútinn í fyrsta skipti í tilhleypingar. Eins og bóndinn á næsta bæ setti ég spotta í hrútinn og opnaði grindina, það skipti engum togum, hrúturinn var margfalt kraftmeiri en ég réði við. Hékk í spottanum og réði ekki við allan þennan kraft í sprækum hrútnum. Svipað gerðist þegar ég gaf þessu KTM 1090 hjóli, hjólið er einfaldlega kraftmeira og sprækara en ég, gamli kallinn, sem var að reyna að stjórna því og átti fullt með að halda mér á hjólinu, enda skilar þessi mótor 125 hestöflum.
Aksturstölvan býður upp á margar stillingar
Á undanförnum árum eru alltaf fleiri mótorhjólafram leiðendur komnir með hita í handföngin, en flest eru með tvö hitastig, en á þessu hjóli eru stillingarnar þrjár (ég nota þetta sjaldan nema í rigningu, en segi fyrir mitt leyti, ómissandi búnaður fyrir Ísland). Hjólið er með ABS bremsum sem mörg önnur hjól eru með, en þetta er fyrsta hjólið sem ég hef keyrt sem hægt er að taka af ABS kerfið á afturbremsunni. Kerfi sem ég mundi ætla að hentaði nánast öllum mótorhjólaökumönnum á malarvegum og að mínu mati frábært kerfi fyrir jafnt vana sem óvana mótorhjólamenn. Ég var í lok ferðarinnar mjög sáttur við hjólið fyrir utan að mér fannst hjólið fullhátt fyrir mig (náði bara niður með tánum hvort sínum megin) og hnakkurinn fullharður. Margt til viðbótar væri hægt að nefna um hjólið, en vegna plássleysis læt ég hér staðar numið og bendi á söluaðila. Verðið á hjólinu, sem er nú á sérstöku hausttilboði, er 2.549.000, en allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni
www.ktm.is, eða hringja í verslunina MOTO KTM.
Hjörtur Líklegur fyrir
Bændablaðið 4.10.2018








