
Alls staðar var Kristjáni tekið opnum örmum. Ljósmyndir/Kristján
Í rúman áratug hefur ævintýramaðurinn Kristján Gíslason ýmist verið að undirbúa mótorhjólaferð, á ferðalagi eða að vinna að bókum og ferðaþáttum sem bera nafnið Hringfarinn og margir þekkja. Nú hefur Kristján lokið sinni annarri ferð í kringum heiminn og er blaðamaður mættur í heimsókn til að heyra af hans nýjustu ævintýrum í löndum sem meðalmaðurinn hefur varla heyrt á minnst.
Að vera einn og yfirgefinn
„Líf mitt hófst eftir að ég hætti í golfi. Þá fann ég aðra ástríðu, en ég er drifinn áfram af ástríðu,“ segir Kristján og segist una sér vel einn á ferðalagi. Hins vegar hefur Ásdís Rósa eiginkona hans oft farið með honum í styttri ferðir og oft hluta af lengri ferðalögum.
/frimg/1/62/5/1620584.jpg)
Kristján Gíslason var að ljúka sinni annarri ferð umhverfis heiminn á mótorhjóli.
„Þegar ég er einn er ég algjörlega óháður öllum og get hagað ferðinni eftir mínu höfði,“ segir hann, en Kristján eyðir miklum tíma í að tengjast heimafólki og taka bæði ljósmyndir og myndbönd sem hann notar seinna í heimildarmyndum sínum og bókum. Í sinni nýjustu heimsreisu lagði hann áherslu á að taka portrett af fólki sem varð á vegi hans.
„Um leið og maður er einn og yfirgefinn, eitthvað að vandræðast, kemur fólk til manns. Þannig hef ég náð sambandi við fólkið og á í dag vini úti um allan heim,“ segir Kristján og segir frá tildrögum þess að hann fór í nýjustu hringferðina sína.
„Það var aldrei meiningin að fara annan hring í kringum hnöttinn. Mig langaði að fara silkileiðina, hina fornu leið milli Evrópu og Kína, í gegnum -stanlöndin í Mið-Asíu. Þetta er ein frægasta viðskiptaleið sögunnar, ægifögur og hlaðin mystík. Mörg löndin sem hún liggur um voru áður hluti

Kristján lagði áherslu á að taka portrett af fólki sem varð á vegi hans og hitti þessar prúðbúnu konur á leiðinni.
Sovétríkjanna, sem gefur ferðalaginu sérstakan svip og dýpt. Ég hugsaði með mér, hvað ætti ég þá að gera þegar ég kæmi til Kína, ætti ég þá bara að snúa við? Ég sendi fyrirspurn á kínverska sendiráðið og áður en langt um leið vorum við konan mín komin í tedrykkju hjá sendiherranum sem vildi allt fyrir mig gera,“ segir Kristján.
„Í september 2024, þegar þetta var allt klárt, lagði ég af stað en ferðin hófst í München í Þýskalandi.“
Marmarahallir en eitthvað vantaði
Næst lá leiðin inn í Túrkmenistan og fór Kristján í gegnum landið með leiðsögumanni því að annað er ekki leyfilegt.
„Þetta er einræðisríki og ég þurfti að vera með bílstjóra á bíl og leiðsögumann sem fylgdu mér hvert fótmál. Allir ferðamenn eru í fylgd með leiðsögumönnum. Ég kom svo inn í Asgabad, sem er fallegasta höfuðborg sem ég hef séð. Algjörlega stórkostleg. Þar eru hvítar marmarahallir í röðum og meira að segja götuljósin eru listaverk. Svo bætast við allir minnisvarðarnir sem standa þarna við breiðstrætin. Þarna er tíu þúsund manna marmaramoska,“ segir hann en þess má geta að Asgabad er í Heimsmetabók Guinness fyrir að vera sú borg sem geymir mesta magn af hvítum marmara í heiminum.
„Allir bílar eru þarna hvítir eða ljósgráir og fólk er sektað ef það er á óhreinum bíl. Allar blokkir eru líka hvítar með mósaíklistaverkum á göflunum,“ segir Kristján sem dáðist að fegurð borgarinnar þar til hann áttaði sig á því að eitthvað vantaði.
„Það var ekkert fólk þarna!“ segir hann.
Ítarlegt viðtal er við Kristján í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem hann rekur alla ferðasöguna.
mbl.is
21.12.2025










