Oft hefur hæpnum fullyrðingum verið varpað fram um tiltekna gerð bíls eða mótorhjóls. Hver kannast ekki við fullyrðingar um að ítalskir bílar ryðgi, ensk mótorhjól bili út í eitt eða BMW framleiði bara bíla, amerískir bílar ráði illa við beygjur og að japanskir bílar bili minnst.



Í DAG eru ítalskir bílar boðnir með margra ára ryðvarnarábyrgð og eru jafnvel galvaniseraðir, ensk mótorhjól eru til fyrirmyndar, BMW framleiðir að mati margra betri mótorhjól en bíla, amerískir bílar geta tekið krappar beygjur og jafnvel á meiri hraða en evrópskir jafnokar þeirra og japanskir bílar bila ekki lengur minnst heldur Porsche.

   Bílar eyða minnstu á jöfnum 90 kílómetra hraða. Þessu heyrir maður oft haldið fram og ætla mætti að margir fari eftir þessari speki. Þetta er hinsvegar síður en
svo algilt en hefur með það að gera að bílaframleiðendur reyna að ná fram hagstæðum tölum á þeim tölum sem eru notaðar við staðlaðar eyðsluprófanir (innanbæjar akstur, blandaður akstur og jafn hraði á 90 km/klst og 120 km/klst). Það getur hins vegar vel verið, og er reyndar algengt, að bílar eyði minn þó ekið sé hraðar eða hægar.

Margir trúa því að bílar með vökvastýri hafi betri aksturseiginleika en bílar án vökvastýris. Staðreyndin er sú að líklegra er að þessu sé öfugt farið. Vökvastýri getur haft þau áhrif að ökumaður finni minna fyrir yfirborði vegar t.d. þegar grip þverrir, en þó má vissulega segja að auðveldara sé að hafa góða stjórn á bíl með vökvastýri þar sem það þarf ekki eins mikið afl til að berjast við stýrið þegar tekið er á því.


   Lægri og stífari bíll á breiðari dekkjum hefur betri aksturseiginleika. Vissulega getur það haft góð áhrif á marga bíla að setja stífari fjöðrun í þá og lækka þá. En það er bæði hægt að ganga of langt og svo er þetta ekki sjálfgefið þar sem það fer  algerlega eftir því hvernig vegirnir eru sem ekið er á. T.d. er það líklegt til að valda verulegum gripvandræðum ef bíll er með of stífa og lága fjöðrun á holóttum og hæðóttum vegi. Að sama skapi geta breið dekk dregið úr gripi, t.d. á möl og í snjó en líka á malbiki því þrýstingur vegna þunga bílsins dreifist á stærra svæði sem oft getur gert illt verra – í flestum tilfellum sem ekki er ekið á renni sléttu malbiki. 


   Geisladiskar geta truflað radarmælingar lögreglunnar. Þessi kviksaga fer hring eftir hring í samfélaginu annað veifið en hlýtur að deyja út fyrr en síðar þar sem það er ekkert hæft í þessu. Geisladiskur í framrúðu er hins vegar ágætis endurvarp fyrir radargeisla, jafnvel betra en númeraplatan framan á bílnum. Geisladiskur á ekki eftir að gera annað en hjálpa radarnum að mæla fjarlægð skotmarksins frá mælitækinu – þetta virkar einfaldlega þannig að bylgjurnar eru lengur að koma til baka til radarsins ef ekið er hægar eða þá í öfuga átt og hraðar ef skotmarkið er á leið í átt að radarnum og endurspeglun disksins dreifir hvorki né eyðir bylgjunum.

 

Stærstir Fyrsta BMW-mótorhjólið – R32 framleitt árið 1923. BMW er nú um mundir stærsti mótorhjólaframleiðandi Evrópu.

Svipaðar ranghugmyndir um mótorhjól


Margar þessar goðsagnir geta verið beinlínis hættulegar ef farið er eftir þeim. Ef eitthvað er þá er enn hættulegra að hafa ekki allt á hreinu þegar ekið er á mótorhjóli. 

   Þeir sem aka mótorhjólum ræða mikið um hvernig eigi að bregðast við ófyrirséðum óhöppum og hvað sé best að gera þegar engin undankomuleið er ljós – þá heyrist oft að best sé að leggja hjólið á hliðina og láta sig renna á götunni. Þetta virðist vera ansi hæpið, sérstaklega í dag þegar mótorhjól hafa orðið mjög öflugar bremsur og góð dekk. Það er reyndar einmitt mjög mikilvægt að nota það sem mótorhjólið býður upp á, góðar bremsur og dekk. Því lengur sem mótorhjóli er haldið uppréttu – því lengri tími gefst til að draga úr hraðanum og líkurnar aukast á að sleppa úr óhappi eða gera það hættuminna. Það að leggja mótorhjól á hliðina gerir ökumann algjörlega varnarlausan og mögulegt er að hann hendist upp af hjólinu í átt að aðvífandi
umferð svo ekki sé minnst á skilti, gagnstéttarkanta og slíkt sem getur orðið á vegi stjórnlauss ökumanns sem rennur eftir malbikinu. Í ökukennslu vilja sumir þó meina að æskilegt sé að reyna að stökkva upp rétt áður en höggið kemur.

   Ef það er ekki olíupollur undir Harley Davidson þá er það bara vegna þess að það vantar olíu á mótorhjólið. Það gæti ekki verið  fjær sannleikanum – Harley Davidson-mótorhjól eru þekkt fyrir að vera áreiðanleg og leka almennt ekki olíu. Þennan  ífseiga orðróm má rekja 25 ár aftur í tímann, til þess tíma þegar Harley Davidson átti við rekstrarerfiðleika að stríða. Þótt hefðin sé rík hjá Harley Davidson þá er þetta nokkuð sem ekki hefur fylgt þeim eftir velgengni síðustu ára.

Spólað, Breið dekk geta dregið úr gripi á malbiki. Myndin er tekin á spólkeppni í sumar.

   Svo haldið sé áfram með Harley Davidson halda margir að Marlon Brando hafi ekið um á Harley Davidson í kvikmyndinni The Wild One frá árinu 1953. Þessi kvikmynd sem byggist á sögulegum óeirðum í bænum Hollister árið 1947 í Bandaríkjunum er sjálfkrafa tengd við Harley Davidson þar sem það eru þekktustu og nánast einu amerísku mótorhjólin sem fáanleg voru í langan tíma. Staðreyndin er hins vegar sú að Marlon Brando ók á sínu eigin mótorhjóli, Triumph Thunderbird 650, en gengi andstæðinganna, með Lee Marvin í aðalhlutverki forsprakkans, var á Harley Davidson.

 Enn í dag heyrist það að helst  eigi að stöðva mótorhjól með afturbremsunni því frambremsuna eigi aðeins reyndir ökumenn að nota því hún sé varasöm. Það er ekki mikið til í þessu. Í ökukennslu er tilvonandi mótorhjólafólki kennt að nota fram- og afturbremsuna jöfnum höndum. Í langflestum tilfellum er hinsvegar frambremsan aðallega notuð, enda er um 70% bremsugetunnar að framan, og afturbremsan er aðallega notuð til að hægja á afturhjólinu. Best er að geta notað bæði fram- og  afturbremsur til að stöðva hjólið hratt og örugglega. Margir sem nota eingöngu afturbremsuna hafa lent í því að læsa afturhjólinu þegar þörf er á nauðhemlun – ef það gerist þarf að muna að sleppa alls ekki bremsunni því þá nær dekkið skyndilega 
gripi aftur og ökumaðurinn getur hreinlega henst út í loftið. Hið gagnstæða á hinsvegar við um frambremsuna, ef henni er læst þá á að sleppa bremsunni til að ná gripi aftur svo hægt sé að stýra.

   Fáir vita að BMW framleiðir líka mótorhjól og er  reyndar einn af elstu mótorhjóla framleiðendum Evrópu og þar fyrir utan einn sá frægasti. BMW-mótorhjól eru þekkt fyrir frábæra endingu og margir halda því reyndar fram að BMW sé betri í að framleiða mótorhjól en bíla. Fyrsta BMWmótorhjólið var  framleitt árið 1923, R32, og var útbúið tveggja strokka boxer mótor, svipuðum þeim og notaður er enn í dag. BMW er í dag stærsti mótorhjólaframleiðandi Evrópu og framleiðir um 100.000 mótorhjól á ári allt frá „racerum“ til borgarmótorhjólsins C1.


Eftir Ingvar Örn Ingvarsson
mbl.is 8.9.2006