Vestfjarðaferð Snigla 1985

Ég heiti Hjörtur Leonard Jónsson og er Snigill #56 (kallaður Hjörtur Liklegur).

Daginn fyrir stofndag Bifhjólafélagsam­taka Lýðveldisins Snigla (30 mars 1984) keypti ég mitt fyrsta stóra mótorhjól, notaða Hondu XL500R í „Kalla Cooper Borgartún“. Sigurður Hjaltested (Stálskeifur #29), gekk frá sölunni við mig og þá var reynt að hringja í sendibíl til að fara með hjólið í skoðun í Hafnarfirði þar sem númeraplötan var í Bífreiðaskoðuninni. Sama á hvern sendibílstaka við hringdum engan bil að fá fyrir lokun á skoðunarstöðinni, þetta var síðasti virki dagur fyrir Páska. Ef ég ætlaði að nota hjólið um Páskanna var bara eitt í stöðunni: Keyra hjólið númeralaust í Hafnarfjörð og ekki nóg með það, ég var líka próflaus, tók ekki mótorhjóla­próf fyrr en mánuði seinna. Númerið fékk ég á hjólið og fór út að hjóla strax daginn eftir og steingleymdi að Siggi sagði mér frá því að ætti að stofna mótorhjóla­klúbb þennan dag.


Gekk í Sniglana um haustið 1984.



MótorSkussinn Snigill #11 kom heim á Tálknafjörð á sínu Moto Guzzi (hjólið stendur nú á Mótorhjóla­safninu á Akureyri í upprunalegu mynd sem lögghjól á Akureyri um 1974). Við Óli hjóluðum eitthvað saman sumarið 1984 og alltaf var hann að segja að mér að ganga í Sniglana. Það var svo um haustið 1984 að ég var að vinna við bát í Njarðvíkur­slipp að ég fór að keyra með Sniglum. Einn fyrsti maðurinn sem ég kynntist var „eldgamall kall“ (46 ára) sem reykti mikið Camel og var kallaður Old Timer og er Snigill #1. Fannst mér þessi „gamlingi“ stórfurðulegur og hélt ég hann í fyrstu vera hinn mesta bullara því hann sagði mér að hann hefði orðið Íslands­meistari í kvartmílu þennan dag. Ég taldi kallinn vera að bulla tóma steypu, svona gamall kall vinnur ekki kvartmílu, en samt fór ég á hjóli inn í Hollivood og sjá hann taka á móti Íslands­meistaratitlinum. Þarna voru nokkrir Sniglar og þeirra á meðal var Friðgeir #73 sem teiknaði Snigla­merkið og var að sýna það öðrum Sniglum þarna um kvöldið. Eftir verðlauna­afhendinguna fórum við nokkrir á rúntinn og á næsta Snigla­fund í Sundakaffi gekk ég í Sniglana.



Sniglafréttir héldu félaginu gangandi fyrstu 20 árin.



Að vera í Sniglunum búandi í litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum gat verið erfitt, en að fá Sniglafréttir nokkuð reglulega var tengingin við aðra mótorhjólamenn og mótorhjólasamfélagið. Um veturinn 84-85 stakk ég upp á því við Óla “Mótorskussu” að Sniglar færu í Vestfjarðaferð á Tálknafjörð í kring um 17. júní, þessi hugmynd var samþykkt og gistu þeir sem komu að sunnan í húsinu hjá mér, en þetta var mín fyrsta Sniglaferð. Sniglar komu til mín, fín ferð sem skilur eftir góðar minningar. Seinna um sumarið var farin stór ferð á vegum Snigla sem var hringferð í kring um landið og var lagt af stað á laugardegi helgina fyrir Verslunarmannahelgi.
Dagur 1. Blönduós, 2 Ólafsfjörður, 3. Vaglaskógur, 4 Kelduhverfi, 5. Þórshöfn 6-7-8-9 Atlavík, 10 Egilsstaðir, 11 Höfn. Fín ferð þar sem hjólafjöldinn var frá 11 upp í 15 í halarófu með 1 fylgdarbíl. Sniglafréttir var fyrir mér það sem gerði Snigla sterkari og hélt félaginu gangandi fyrstu 20 ár Snigla.


Bestu Sniglaferðirnar eru Landmannalaugar í minningunni.



Fyrsta Landsmótið sem ég fór á var í Húnaveri 1987, þarna var svo gaman, allir með sama áhugamál. Vel skipulagt og ekki skemmdi fyrir að ég byrjaði með konunni minni Sunnu #248 á þessu landsmóti, erum enn gift og eigum tvo syni. Annar þeirra er Ólafur Arnar #2456. Þrátt fyrir að landsmótin væru fjölmenn og skemmtileg þá einfaldlega voru Landmannalauga ferðirnar toppurinn. Landmannalaugaferðirnar voru bestu ferðir allra ferða sem Sniglar hafa skipulagt. Þessar ferðir voru alltaf fyrstu helgina í september og fóru í 11 ár í röð. Síðasta haust fór ég með syni mínum Ólafi #2456 í dagsferð upp í Landmannalaugar og eftir þá ferð sagði hann við mig að hann skildi vel hvað ég sæi við þessar ferðir. Fyrir mér á að nota mótorhjól og ferðast á því, það þarf að vera með ferðanefnd í Sniglunum.


Stoltastur af 100 ára afmælishátíð mótorhjólsins.



Í þessi 34 ár sem við Sunna #248 höfum búið saman hefur lífið snúist mikið um mótorhjól. Var í stjórn Snigla um tíma, sá um Sniglafréttir í nokkur ár, skipulagði eitthvað af Landsmótum, hélt sérstakar mótorhjóla­kvartmílu­keppnir þar sem keppt var í mörgum flokkum og keppenda­fjöldinn yfir 30 og áhorfendur upp undir 1000. Þegar strákarnir fæddust var minni tími í nokkur ár og dró ég mig frá nánast allri starfsemi fyrir Snigla eftir að hafa stjórnað og stýrt 10 ára afmælishátíð Snigla 1994. Mér fannst kominn tími á að yngra fólk tæki við og ég væri búin að skila mínu. 2004 var 20 ára afmælis­lands­mót í Húnaveri. Við fjölskyldan skruppum í bílferð og kíktum á Landsmótið í tvo tíma. Satt best að segja var ég fyrir vonbrigðum, lítið nýtt, sama hjólin, en bara eitthvað vantaði nýjum fyllibittum. Það var kominn tími á breytingar, fannst ég þurfa að gera eitthvað nýtt sem ekki hafði verið gert áður, fór að hugsa um eitthvað nýtt og úr varð 100 ára afmælishátíð mótorhjólsins á Sauðárkróki 2005, frábær vel heppnuð fjölskylduhátíð fyrir allt nema veðrið. Nálægt 500 mótorhjól og um 1000 manns skemmtu sér vel frá 16. til 19. júní, en öllum var kalt, en það var svo gaman að maður gleymdi kuldanum.


Fjölskyldan öll eitthvað í mótorhjóla­sportinu.



Til að öll fjölskyldan gæti verið í mótorhjóla­sportinu höfum við síðustu árin verið með nokkur torfæru­mótorhjól og sendibíl til að flytja þau. Mestu fjölskyldu­dagarnir hafa verið í kring um ísakstur, en við höfum öll verið að keyra á ís. Sem dæmi um ánægjuna á ísakstri þá gerði eldri sonurinn stuttmynd um ísakstur sem
lokaverkefni í Leiklistarskóla Íslands þar sem öll fjölskyldan kom að myndinni. Einnig höfum við feðgarnir farið í dags feðgaferðir og nú síðast í febrúar síðastliðinn þegar við fórum norður í Vatnsdal og keyrðum þrjú mótorhjól á frosinni Vatnsdalsánni. Sunna #248 keyrir sennilega minnst af heimilisfólkinu mótorhjól og eldri strákurinn keyrir mjög lítið mótorhjól. Við Ólafur #2456 höfum verið duglegir að keyra saman bæði á götum og á ís. Sem leiðsögumaður til 15 ára í mótorhjólaferðum fyrir Biking Viking mótorhjóla­leiguna og BMW mótorhjólaumboðið hef ég stundum þurft aðstoðarmann í dagsferðum á haustin með Íslendinga í prufuakstri á nýjum mótorhjólum. Ólafur hefur þá hjálpað mér enda leiðist honum ekki að keyra nýju BMW 1250 mótorhjólin sem notuð eru í túrunum af mótorhjóla­leigunni.


Hef frá svo miklu að segja að það er efni í bók.



Eftir að hafa verið á mótorhjóli í öll þessi ár hef ég frá mörgu að segja, en að koma því öllu fyrir í stuttri grein er ekki hægt. Því má bæta við að undanfarið ár hef ég verið að vinna að gerð bókar um líf mitt sem mótorhjóla­maður síðastliðin tæp fimmtíu ár og styttist í útgáfu. Á þessum árum hef ég kynnst mörgu frábæru fólki í kring um mótorhjólin og vil halda því fram að mótorhjól er besta geðlyf og þunglyndislyf sem hægt er að hugsa sér, maður sér bara glæðlegt og léttlínt mótorhjóla­fólk. Að lokum gef ég Ólafi #2456 loka orðin:

 


Óli Prik #2456.



Ég heiti Ólafur Hjartarson Nielsen #2456 og er sonur Hjartar „Liklegs“ #56 og Sunnu Sveins #248. Ég er búinn að hjóla frá 6 ára afmælisdeginum og byrjaði á Yamaha PW50 sem endaði úti skurði. Ég byrjaði að hjóla á götunni 2018 á Husqvarna TE450 á Supermoto felgum og þvældist með fólki útum allt þrátt fyrir að þetta hjól er gert fyrir malarveg eða slóða og ekki það þægilegasta á götunni. Næst keypti ég mér Yamaha Fz1 árið 2019 af vini mínum. Eitt sem ég hef tekið eftir með hjólafólk að það er engri aldurstorfæra, því í mínu mínna hópi sem ég hjóla með er meðalaldurinn um 45-50 ára en ég er 23 ára en erum öll 20 ára í anda.

 

Sniglafréttir apríl 2021