Árni Friðleifsson mótorhjólalögga og kvikmyndaleikari um starfið, mótorhjólið, eftirlitsþjóðfélagið og Opinberun Hannesar

„Ég er lögreglumaður en ekki leikari og er ekkert að setja mig í aðrar stellingar. Segi líka það hafi verið mótorhjólið sem slíkt sem var lánað í þessa kvikmynd, enda þó svo mér bregði þarna fyrir.  Fjölbreytileiki, svo sem að leika í kvikmynd, er það sem öðru fremur einkennir starf lögreglumannsins og kannski það sem gerir þennan starfsvettvang heillandi,“ segir Árni Friðleifsson lögreglumaður.

 

Öfgakenndur veruleiki

Kvikmyndin Opinberun Hannesar eftir Hrafn Gunnlaugsson var frumsýnd í Sjónvarpinu að kvöldi nýarsdags og er nú á hvíta tjaldinu í Háskólabíói. Þar er gamansömu ljósi brugðið á eftirlits- og reglugerðarþjóðfélagið, sem er fyrir sumum risavaxinn og sístækkandi frumskógur. „Eins og veruleikinn er settur upp þarna í myndinni þá er hann ekki svona öfgakenndur, en vissulega á þetta sér nokkurn stað í raunveruleikanum. Það er sífellt verið að auka allt eftirlit með borgurunum, sem í mörgum tilvikum er til bóta. Reglugerðirnar sem við fáum og verðum að starfa eftir er einnig mikið að fjölga; svo sem þær sem koma í krafti EES-samningsins. Hvað þær varðar finnst mér stundum gleymast að þær henta alls ekki inn í íslenskan veruleika og þjóðfélag,“ segir Arni. Hann bætir við að þetta reglugerðarflóð þýði að lögreglumenn þurfi að sérhæfa sig hver á sínu sviði til þess að kunna sæmileg skil á regluverki samfélagsins. Sé það mikilvægt svo hvert og eitt mál rati sína réttu leið í kerfinu.

Í nýjum hlutverkum
Tökur á kvikmyndinni Opinberun Hannesar fóru frarn snemmsumars í fyrra. Árni segir að sér hafi þótt gaman að glíma við þetta verkefni. „Mér fannst líka gaman og lærdómsríkt að vinna með Hrafni Gunnlaugssyni, sem er afar svipsterkur persónuleiki og maður með miklar meiningar. Kvikmyndaleikur er alveg nýr heimur fyrir mér,“ segir Árni, sem einnig sést á mótorhjóli í Svínasúpunni sem er sýnd á Stöð 2. „Það koma alltaf öðru hvoru svona beiðnir um að lögreglan leggi kvikmyndatökum lið. Þær fara fyrir framkvæmdastjórnina hér – sem tekur afstöðu tií þessa og hvort fallist sá á aðkomu embættisins að þeim. Hins vegar viljum við fylgja tækjunum okkar, við setjum ekki verðmæt mótorhjól í hendurnar á utanaðkomandi.“ Árni bætir við að í starfi lögreglumannsins komi upp ýmsar sérkennilegar aðstæður. „Oft þurfa menn að geta brugðið sér í nýtt hlutverk og taka þátt í heilu leiksýningunum til þess að ná valdi á þeim veruleika sem blasir við. En líklega er það nú svo að í öllum störfum þurfum við að setja upp einhverja grímu eða bregða okkur í annað hlutverk en okkar daglega til að ná tökum á hlutunum.“

Höfum hetjuímynd

Árni Friðleifsson er búinn að starfa tæp sextán ár innan Lögreglunnar í Reykjavík. Var fyrsta kastið í almennu deildinni, en hefur frá 1991 verið í mótorhjólasveit umferðardeildar. Er nú yfirmaður sveitarinnar, sem sextán manns skipa.
„Mótorhjól eru afskaplega góð löggæslutæki. Hægt er til dæmis að komast áfram á hjólunum í umferðaröngþveiti þegar allar leiðir eru bílum lokaðar. Stundum höfum við líka haldið að lögreglumenn á mótorhjólum séu aktaðir öðruvísi en aðrir; það virðist fylgja þessu einhver hetjuímynd. Ekki þá síst á meðal krakkanna. Við þekkjum það líka neðan úr bæ að á góðviðrisdögum á sumrin finnst erlendum túristum mikið sport að láta taka af sér myndir með okkur. Við erum því til í myndaalbúmum fólks vítt og breitt um heiminn,“ segir Árni og brosir.

Öll skilningarvit opin

Við sitjum með Árna í kjallaralögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu þar sem mótorhjóladeildin hefur bækistöðvar sínar. Hjólin eru fimm, öll af gerðinni Harley Davidsson og það elsta er þriggja ára, en flest yngri. „Það hefur oft verið sagt að mótorhjólin séu eitthvert áhættusamasta starfið innan lögreglunnar. Sjálfur tel ég það ekkert fjarri lagi. Á síðustu misserum hafa okkar menn lent í þremur óhöppum, þó svo ég hafi blessunarlega sloppið sjálfur,“ segir Árni. Hann segir að grunnreglan fyrir
lögreglumenn á mótorhjóli sé alltaf að stóla fyrst og síðast á sig sjálfan. Hafa öll skilningavit galopin og sjá helst alltaf næsta leik fram í tímann. Vera meðvitaður um hætturnar sem séu hvarvetna. „Fari menn eftir þessu er nokkrum áfanga náð. Ég segi lika að þetta geri menn líka að betri ökumönnum svona almennt talað.“

Öll með mótorhjólapróf

   Árni á fjögur alsystkin og eru þau öll með mótorhjólapróf; en þeirra á meðal er Siv Friðleifdóttir umhverfisráðherra. „Ég tók prófið fyrstur – en síðan komu systkini mín í kjölfarið. Við fjögur höfum aldrei farið öll saman út að hjóla, en stundum tvö eða þrjú. En vonandi gefst tækifæri til þess einhverntímann,“ segir Árni Friðleifsson. Maðurinn á mótorhjólinu, löggan í kvikmyndinni, leikarinn í lífinu og riddari götunnar.

sigbogi@dv.is
DV 2004