Noregur 2019

   Hópur góðra manna frá Akureyri ákvað sumarið 2017 í mótorhjólaferð um Alpana að næst skyldi hjólað um Noreg því þar væru margar áhugverðar hjólaleiðir. Ferðin var skipulögð og ákveðið að fara sumarið 2019 í mótorhjólaferð um Noreg með áherlsu á Trollsteigen og Lyseveg.

   Hópinn skipa: Arinbjörn Snorrason, Grétar Viðarsson, Hólmgeir Þorsteinsson, Jóhann Ólsen, Logi Geir Harðarson, Róbert Freyr Jónsson og Þorsteinn Guðbjörnsson.


Dagur 1
   Ferðalagið hófst 15. júní 2019 með flugi frá Íslandi til Osló og sama dag sóttum við hjólin á mótorhjólaleiguna í Drammen rétt sunnan við Osló. Ekið var sem leið lá í norður þar sem við gistum á Badeland Gjestegard sem er einhverskonar blanda af sveitahóteli og skátaheimili.

   Aksturinn var um 140km þennan fysta dag og allir búnir að ná mesta hrollinum úr sér.


Dagur 2
   Löng dagleið eða 340km þar sem við unnum að því að koma okkur í norður í átt að Trollsteigen sem goðsagnakennt kennileiti í Noregi. Nýttum daginn í að skoða ýmsa áhugaverða staði m.a. Ringebu stafkirkjuna sem er ein af stærstu og þekktustu stafkirkjum Noregs, byggð um 1220. Einnig römbuðum við á útimarkað með hreindýrsskinn en versluðum reyndar ekkert. Áfram var haldið og stoppað við Trollveggen sem er talinn hæsti lóðrétti veggur Evrópu, um 1000m hár. Gististaðurinn í þetta sinn voru ekta norskar “Hyttur” í nágrenni við Andalsnes.

Allt myndasafnið úr ferðinni


Dagur 3
   Annar af tveimur stóru dögunum rann upp, því nú skyldi rúllað yfir Trollsteigen til Geiranger. Tollsteigen var opnaður 1936 af Hákoni Noregskonungi eftir átta ára framkvæmdatíma en segja má að vegurinn sé handbyggður og einn af hápunktum ferðarinnar. Á leiðinni stoppuðum við oft til að taka myndir og njóta útsýnisins. Á leið okkar til Geiranger tókum við ferju yfir Storfjorden því það var í raun eina leiðin til að komast milli staða. Geiranger er talinn vera einn af fegurstu stöðum Noregs og þar er mikill ferðamannastraumur. Við vorum þar í blíðskapar veðri og að sjálfsögðu kældum við okkur niður með ís. Næst var að fara Arnarveginn (Örnevegen) sem opnaði 1962 upp á Dalsnibbu sem er útsýnisstaður yfir Geiranger-fjörð í tæplega 1500 metra hæð. Enduðum daginn á hjóla Gamle Strynefjellsveg sem var eini malarvegur ferðarinnar. Dagleiðin um 150km.

   Geggjaður dagur að baki en stór hluti þess svæðis sem við fórum um er á heimsminjaskrá UNESCO. Félagsskapurinn ætti eiginlega líka að fara á heimsskrá hjá UNESCO.


Dagur 4
   Áfram var haldið og nú tók við ansi blautur dagur. Við létum það ekki á okkur fá og ókum sem leið lá frá Oppstrynsvatnet til Vikoyri sem er pínulítill bær við Sognefjord. Við skoðuðum ýmsa áhugaverða staði t.d, Gaularfjellet og Likholefossen en þessir staðir eru hluti af norsku Nasjonale Turistveger. Einnig hittum Aksel en hann var á Honda Goldwing með hliðarvagni og dró á eftir sér…hjólhýsi! Gistum á fínu hóteli og fengum okkur steik, rauðvín og bjór í lok dags og okkur fannst við eiga það skilið – Grétar pantaði sína steik Rare…

Akstur dagsins um 200km.

Hvar er ég eiginlega ????


Dagur 5
   Frábær dagur þegar við ókum í sól og sumaryl frá Vikoyri og suður á bóginn í átt að Lysebotn, fengum að vísu einnig ráðlagðan dagskammt af rigningu. Á leiðinni fórum við m.a. um Vallavik göngin en í þeim göngum er að finna hringtorg, sem okkur fannst ansi merkilegt. Um leið og komið er út úr göngunum þá tekur við Hardanger hegnibrúin en hún er lengsta hengibrú Noregs. Allt eru þetta mjög svo áhugaverð umferðarmannvirki. Þegar við ókum yfir Hardanger fjörðinn þá sáum við snekkju Noregskonungs liggja við akkeri úti á firðinum, ansi hreint fögur snekkja þó hún sé komin til ára sinna. Stærsti bærinn sem við fórum um þennan dag var Odda, sem er gamall iðnaðarbær en þar búa í dag um 7 þúsund manns.

   Dagsins verður einnig minnst fyrir að einn ferðafélaginn týndi lyklunum af mótorhjólinu en sem betur fer var það bara tímabundið, ferðafélagarnir munu þó fyrst minna einn ónefndan á að passa lyklana sína betur framvegis.

   Enduðum daginn í sveitagistingu miðja vegu milli Bergen og Stavanger eftir um 260km í hnakknum.

                           

    Allt myndasafnið úr ferðinni

Dagur 6
   Mér finnst rigningin góð hljómaði í hjálmunum framan af degi – Logi Geir stýrði söng en tók ekki fram að það var líka svarta þoka. Svo stytti upp og sól skein seinni hluta dags sem var frábært því einn af hápunktum ferðarinnar var Lyseveg, upp frá Lysebotn. Þetta er fræg leið þar sem hækkunin er 900 metrar á einungis 6km og beygjurnar 27 talsins. Eftir það tók svo akstur um hásléttuna til Bykle en þetta svæði er ansi strjálbýlt.
   Róbert náði í “mjólkurbúð“ fyrir lokun og gat fyllt á hanskahólfið í hjólinu því ekki veitti af að halda jöfnu rakastigi að utan sem innan eftir 235km akstur.

Það verður að vera bryggjurúntur.


Dagur 7
   Lokadagurinn bauð upp á frábærar leiðir frá Bykle til Kongsberg þar sem við römbuðum m.a. á útimarkað í Dalen og keyptum marglitaðar lakkrísreimar. Ekið var áfram um hið margrómaða Telemark svæði niður til Rjukan en sá bær er í mjög djúpum dal þar sem sólargeislar ná ekki niður í bæinn stóran hluta ársins. Til að bregðast við þessu þá var komið upp risa-speglum í fjallshlíðunum í kring til að varpa sólargeislum á torg bæjarins – geri aðrir betur. Akstur dagsins 260 hlykkjóttir, hæðóttir km.


Dagur 8
   Tókum daginn snemma og ókum frá Kongsberg til Drammen til að skila hjólunum í sama ástandi og við fengum þau. Síðan tók við ferðalag heim til Íslands aftur
Að lokum

   Frábær mótorhjólaferð að baki með frábærum ferðafélögum. Allt gekk að óskum og allir komur heilir heim tilbúnir í næstu ferð sem var áætluð tveimur árum síðar en sökum Covid þá varð smá töf á því.

7 daga hringurinn sem var farinn