Það er eitthvað við það að hjóla og ég held að frelsi sé orðið sem kemst næst því að lýsa tilfinningunni. Það er magnað að bruna um og finnast maður gjörsamlega eiga heiminn.
Mín Hjólasaga er ekki nógu löng en vonandi á hún eftir að lengjast mikið. Ég tók prófið fyrir 10 árum og það er ein skemmtilegasta ákvörðun sem ég hef tekið. Síðan þá hef ég hjólað mikið innanlands sem utan. Fyrir mig snýst hjólamennskan um að bruna helst sem lengst úr bænum.
Það er fátt sem toppar ferðalög á hjólinu og það að taka náttúruna inn um nefið. Þegar ég hjóla finnst mér ég hreinsa hugann, hugsa meira og einhvernveginn verður allt betra og skemmtilegra.
Það er einhver fíkn við það að hnusa innan í hjálminum. Lyktarskynið bætir svo miklu við upplifunina. Nýslegið gras, kúaskítur, grillilmur, lyktin inní gömlum göngum svo ég tali nú ekki um ef maður er svo heppinn að hjóla framhjá hænsnabúi. Nei þarna var ég aðeins að ýkja en þið vitið hvað ég er að tala um.
Á Íslandi er hjólatímabilið stutt og við aldrei örugg með veðrið. Mín skoðun er sú að það þýðir ekkert annað en að setja undir sig hausinn og hjóla. Það verður lítið hjólerí ef við ætlum að bíða eftir góðu veðri, Þannig að þegar búið er að ákveða ferðalag þá er bara að klæða sig almennilega og bruna af stað. Í klúbbnum sem ég var í var það næsta víst að ef til stóð að fara í ferð þá trylltist veðurspáin. Ég skal alveg viðurkenna að það er skemmtilegra að hjóla í góðu veðri en eftirminnilegustu ferðirnar hafa oft verið í alveg sanrvitlausu veðri.
Talandi um að mótorhjólakonur rokki þá gera mennirnir það að sjálfsögðu líka. Mótorhjólafólk er yfirleitt hresst og skemmtilegt. Margir litríkir karakterar og hver vill missa af því að kynnast og umgangast þannig fólk. „Ekki ég“. Ég er þakklát fyrir að hafa eignast góða félaga og vini sem mér hefði þótt glatað að missa af.
Síðast en ekki síst þá finnst mér samstaðan og hjálpsemin einkenna hjólafólk sem þýðir að ef eitthvað bjátar á þá eru allir boðnir og búnir að hjálpa. Ég kann að meta það.
Rokkum saman í vetur og og hlakka til að hitta ykkur á hjóli sem allra fyrst.
Sniglafréttir 1.tb.1árg. 2020