Í ár ákvað ég að nú væri kominn tími á að prófa eins og eitt landsmót bifhjólamanna, sögurnar sem ég hafði heyrt í gegnum tíðina frá vinum og kunningjum var bara það góðar að ég mætti til með að prófa á eigin skinni. Komast að því hvaða leyndardómar búa að baki við þessi landsmót sem hjólafólk talar um í ár og jafnvel áratugi með dulúðarfullum svip og dreyminu augnaráði.
Landsmóts-fimmtudagurinn rann upp og var ég búinn að melda mig með nokkrum vinum að hjóla saman, hittast hjá Olís á Akureyri og hjóla sem leið lá að Laugarbakka í Miðfirði. Mikil spenna og gleði einkenndi ferðina og greinilegt var að ég var ein nýgræðingurinn í hópnum sem vissi ekki hvað ég var að fara út í þó ég gerði mér grein fyrir að næstu daga yrði tekið vel á því.
Þegar við mættum á svæðið fór nokkur tími í að koma sér fyrir, tjalda og allt sem því fylgir en hófst svo könnun á svæðinu. Það sem mér fannst áberandi var gleðin á öllum sem komnir voru en ok jú þetta var dagur eitt svo það gæti breyst. Húnabandið byrjaði mótið og var fólk almennt ánægt með þá því þeir spiluðu skemmtilega íslenska partítóna. Fimmtudagurinn rann sitt skeið og var bara almenn gleði hvert sem litið var, fólk að hafa gaman saman og skemmta sér.
Föstudagurinn rann upp og var hann bara bjartur og nokkuð hlýr í veðri þó smá gola væri.
Komið var að WC Rónatúttum og hinum landsfrægu Rónatúttuleikarnir. Ég hafði heyrt margar sögur frá slíkum leikum og var nú áhorfandi, eitthvað sem ég hafði ætlað mér að gera í langan tíma, var nú loks að verða að veruleika. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum því önnur eins gleði og skemmtun hafði ég bara ekki dottið inn á fyrr. Þarna voru keppnisatriði bæði fyrir einstaklinga og hópa svo allir gátu tekið þátt. Mikil og þétt stemning myndaðist sem setti stefnuna fyrir helgina.
Landsmótsúpan var svo eitthvað sem var á öðru leveli. Þvílík orka sem hún gaf manni og voru ansi margir sem hún blés líf í þarna um kvöldið sem svo

Rónatúttuleikarnir
entist langt fram á nótt. Um kvöldið stigu svo Huldumenn á sviðið og ætlaði pakkið að rifna af félagsheimilinu í gömlu Gildruslógurunum því allir tóku undir. Eftir tónleikana var haldið á tjaldsvæðið og var tóm gleði hvert sem litið var. Fólk að hafa jafn gaman núna og kvöldinu áður, hvert sem litið var.
Á laugardeginum var ýmislegt brallað og voru menn að rúnta um og skoða sig um hér og hvar í sveitinni. Um hádegið var komið að seinni WC Rónatúttuleikana þar sem deginum áður hafði bara verið upphitunar leikar. Nú var komið að tunnudrættinum, prjónkeppninni og haus á staur ásamt fjölda annarra atriða. Enn voru allir brosandi og höfðu gaman, gleðin skein enn af andlitum allra og ekki minnkaði brosin á leikunum. Þvílík var skemmtunin. Um kvöldmatarleitið var komið að landsmóts-grillinu og þvílík veisla, í framhaldinu var komið að happdrættinu þar sem fjöldinn allur af vinningum var í boði, hver öðru flottari. Strax á eftir stigu á stokk Volcanova sem hituðu alla vel upp fyrir Vintage Caravan en þeir áttu stórleik og rokkuðu alla í stuð út í nóttina.
Sunnudagsmorgun rann upp og vaknaði ég með bros á vör og hugsaði með mér að nú hlýti svæðið allt að vera rústir einar því fjörið var það mikið um nóttina. En nei. Allstaðar sá maður bara fólk brosandi að pakka niður, kveðjast og þakka fyrir sig og sína. Hvergi var rusl að sjá né tjaldrústir eins og sjá má gjarnan á útihátíðum. Bifhjólafólk er sérstakur þjóðflokkur sem ég tilheyri í dag með stolti og þakka ég landsmótsnefndinni sem og öllum gestum kærlega fyrir mig.
Ég mun svo sannarlega koma á næsta landsmót í Húnaveri.
Kveðja
– Valur S Þórðarson
Sniglafréttir nóv 2020










