– „Það var bara dásamlegt að sjá þennan stuðning“
Breska stúlkan Felicity Warburton, 15 ára, er þolandi eineltis og kveið þess mikið að mæta á ball í skólanum sínum. Bjóst hún við að verða sem áður skotspónn gerenda sinna.
Henni brá þó mikið í brún þegar heilt þrjú hundruð mótorhjól birtust fyrir utan heima hjá henni og fylgdu henni á ballið.
Sendi út ákall
Þá kom á daginn að móðir hennar. Kathryn Warburto, hafði sent út ákall á Facebook þar sem hún bað WAC mótorhjólaklúbbinn að mæta á ballið til að styðja dóttur hennar.
„Felicity hefur beðið þess að geta mætt á ballið því hún telur að með því að mæta geti hún sannað fyrir gerendum sínum að þeir geti ekki lengur meitt hana. Þeir eru búnir að leggja hana í svo mikið einelti að á síðasta ári glímdi hún við sjálfsmorðshugleiðingar og mig langar bara að ballið standi undir væntingum hennar,“ skrifaði móðirin í ákallinu.
Viðbrögð fram úr öllum vonum
Ekki stóð á viðbrögðunum og mættu alls 300 manns á mótorhjóli til að styðja við Felicity, margir úr klúbbnum sem ákallinu var beint til en líka margir frá öðrum klúbbum í Bretlandi.
Pabbi Felicity segir að þetta hafi verið ótrúleg lífsreynsla. „Þetta var ótrúlegt. Við vorum að vonast eftir kannski 10 eða svo einstaklingum á mótorhjóli en þetta voru fleiri hundruð. Það mættu bara fleiri og fleiri þar til þeir voru svo margir að það var ekki hægt að sjá Felicity innan um þá alla.“
„Felicty elskaði hverja mínútu af þessu og það var bara dásamlegt að sjá þennan stuðning í verki frá þessum mönnum.“
Felicity er lesblind og er með Aspergersheilkenni og hefur orðið fyrir einelti og andlegu ofbeldi nánast upp á hvern einasta dag síðan hún var í leikskóla. „Hún glímir við áskoranir en eineltisseggirnir halda einhvern veginn að það réttlæti það að níðast á henni. Hún hefur orðið fyrir ofbeldi hvern einasta dag og það brýtur hana niður en okkur finnst að eftir þetta séum við aftur að sjá yndislegu, hressu Felicity okkar virkilega njóta sín. Að ég sé stoltur er ekki nægilega sterkt orð, hún er yndisleg stelpa og hún átti ekkert af þessu skilið svo að sjá birta yfir henni eins og jólatré var ógleymanlegt,“ sagði pabbinn.
Sá mikli fjöldi mótorhjóla sem ákvað að styðja stúlkuna þýddi það að það tók hálftíma að koma stúlkunni á ballið, og var fylkingin sannkölluð sjón að sjá.
Dawn Thomas, meðlimur í WAC mótorhjólaklúbbnum sagði: „Móðir Felicity, Kathryn, hafði upprunalega samband við okkur til að spyrja hvort við gætum séð af nokkrum mótorhjólum til að fylgja stúlkunni á ballið. Við fengum nokkra aðra klúbba í lið með okkur og vorum á þriðja hundrað sem fylgdum henni.“
DV. September 2021