Eftir nokkur ár á íslensku malbiki var kominn tími til að leita aftur út fyrir landsteinana.

 

Áfangastaðurinn var Noregur – land hlykkjótta vega, fjalla og firða. Ferðin hófst 1. júní, sem reyndist fullkominn tími:
Milt veður, þurrasti hluti ársins, lítið af túristum og Norðmenn öllu jafna ekki komnir í sumarfrí.

Ferðalagið sjálft var langt:
Flug frá Íslandi, hjólið flutt til Hirtshals og þaðan með ferju til Larvik.

Þegar skipið lagðist að bryggju í Noregi hófst hjólaferðin fyrir alvöru – mátulega svefnlaus, ögn sósaður í hausnum eftir ferðalagið, en tilbúinn í beygjurnar.

Lærdómurinn frá fyrra ári var þó skýr. Harley er skemmtilegur karakter, en ekki endilega hentugur fyrir norska sveitavegi.

Því var hjól keypt í Noregi þetta árið, KTM Super Duke 1290R varð fyrir valinu – sem borgar sig fljótt miðað við síhækkandi flutningskostnað hjóla.
Fjöðrun og aksturseiginleikar skipta einfaldlega máli þegar dagarnir eru langir.

Fyrsta verkefnið var þó að koma Harley aftur heim. Þar kemur Brynjar vinur minn  sterkur inn. Hann var á leið í sumarfrí með konunni sinni Helgu og ákvað að bæta smá hjólahring inn í ferðina til að flytja hjólið fyrir mig. Hugmyndin hljómaði vel…..

 

Norskir vegir eru eins og góður matur:

Allir þegja, njóta með einbeitingu og fá sér svo meira, þar til þeir liggja afvelta.

Allir – nema Brynjar.

Hann fékk að kynnast Harley-tré-hestinum af alvöru. Hlykkjóttir sveitavegir, nokkrir malarkaflar og hraðahindranir í tugatali. Á einum kafla voru þær þrettán – og óhljóðin úr Brynjari svo mögnuð að nærliggjandi Norðmenn hafa líklega haldið að verið væri að slátra grís.

Brynjar leitaði svo til jesú kvöld hvert um náðun hans hverfandi sitjanda,,,,,   lítið um svör svo hann tók ferðalaginu eins og maður… Blótaði samt duglega.

Að lokum gafst hann upp, bókaði Airbnb með mjúkum stólum og lýsti því yfir að Ameríkufákurinn yrði skilinn eftir á næstu bryggju. 🙂

Ég túlkaði þetta öðruvísi!  Að mínu mati vildi hann ólmur hjóla meira!  Við höfðum allan daginn, svo við fórum einfaldlega lengstu leið sem við fundum: 250 km á um 8 klukkustundum. Ég er enn handviss um að hann kaupi sér Harley einn daginn – hann átti allavega mjög náið samband við hnakkinn á hjólinu mínu þessa daga.

Eftir tvo daga skildu leiðir. Harley fór í bát til Danmerkur og áfram heim til Íslands, Brynjar og Helga héldu í sitt frí – og sitjandinn fékk vonandi frið til að jafna sig.

___________________________________________________________________________________________________________________

Eftir þetta hófst ferðin fyrir alvöru.

Engin föst leið, ekkert plan nema fylgja veðurspáin. Dagarnir lágu um Ulefoss, Kristiansand, Lindesnes, Sirdal, Lysebotn, Stavanger, fjallvegi,firði og fjölmarga aðra staði, hver öðrum glæsilegri. Oft 200–400 km á dag – sem í Noregi jafngildir löngum dögum, því norsku kílómetrarnir eru einfaldlega lengri en þeir íslensku.

Vegirnir eru listaverk: Þröngir, einbreiðir, hlykkjóttir og oft 50-80 km hámarkshraða sem væri varla keyranlegir á bíl – en fullkominn á mótorhjóli. Þetta er akstur sem krefst einbeitingar.

Alls voru keyrðir um 5.600 km á þremur vikum, nánast alltaf í góðu veðri. Frábært hjól, ótrúlegir vegir og mikil gleði.

Það eina sem Norðmenn virðast ekki kunna, er að hella upp á kaffi – sem var verra en vegirnir voru góðir.

Herra kaffisár

Hákon Hovdenak