Þeir sem lesið hafa þá frábæru bók „Þá riðu hetjur um héruð“ hafa án efa staldrað við þann hluta bókarinnar sem snýr að Vestfjörðum og þá sérstaklega Ísafirði, mótorhjól hafa verið og eru enn mjög áberandi á götum Ísafjarðar nánast alla tíð frá þeim tíma sem innflutningur á mótorhjólum hófst af einhverri alvöru og til dæmis árið 1945 voru skráð 13 hjól á Ísafirði.

Ferð til Þingeyrar 2009


Þrátt fyrir að vegasamgöngur hafi ekki verið með sama hætti og annars staðar á landinu og sem dæmi þá var „Hamarsgatið“ sem eru fyrstu jarðgöng á Íslandi opnuð árið 1949 og þá opnaðist leiðin á milli Ísafjarðar og Súðavíkur en vegur um Djúp opnaðist ekki fyrr en 1976.
Vegasamgöngur til sunnanverðra Vestfjarða eru öllu eldri en það hefur ekki verið mikið um endurbætur á þeirri leið fyrr en núna á síðustu árum þar sem komin eru jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sem leysa af veg yfir Hrafnseyrarheiði sem hefur verið erfið yfirferðar á mótorhjóli.

Dynjandisheiðin hefur verið lagfærð að einhverju leyti en þar er mikið eftir og enn eru ómalbikaðir kaflar eftir. Þessar framkvæmdir eru að koma sér vel fyrir okkur sem ferðast á mótorhjólum og þar af leiðandi verða rúntarnir aðeins lengri.

Þrátt fyrir að mótorhjólaeign hafi alltaf verið talsverð á norðanverðum Vestfjörðum þá var ekkert um að stofnaður hafi verið um þennan félagsskap fyrr en nokkrir einstaklingar með Marzellíus Sveinbjörnsson í broddi fylkingar að stofnaður var klúbbur á Ísafirði í október 2007, nefndur Mótorhjólaklúbbur Vestfjarða. Á stofnfundinum mættu um 30 manns og var ákveðið að klúbburinn bæri nafnið Púkarnir, enda hæglega hægt að tengja það við mótorhjól.

Í orðaneti Árnastofnunar eru samheiti yfir púka t.d. óvættur, illþýði, draugur, drísildjöfull svo eitthvað sé talið, en á Ísafirði var þetta orð notað á krakka, það voru allir púkar og engum fannst það niðrandi eða neikvætt.
Á stofnfundinum mættu tæplega 30 einstaklingar sem skráðu sig í klúbbinn og fljótlega fjölgaði, brottfluttir sóttu líka eftir því að vera skráðir og eru skráðir meðlimir um 80.

Mótorhjólaklúbbur Vestfjarða, Púkarnir var mjög áberandi á fyrstu fjórum árum eftir stofnun, þar vorum við áberandi og voru fastar ferðir einu sinni í viku og svo oftar ef áhugi var fyrir því, til dæmis var vinsælt að fara í Reykjanes við Ísafjarðardjúp sem er um 150 km ferð hvor leið. Djúpíð er mjög skemmtileg leið að fara á góðum degi.
Algengustu rúntar voru frá Ísafirði yfir til Þingeyrar, Flateyjar, Suðureyrar, Bolungarvíkur og Súðavíkur, þessar ferðir henta vel fyrir kvöldrúnt þar sem er stoppað og spjallað áður en haldið var til baka.

úr ferð í Reykjanes 2009

Mörgum þótti þetta nokkuð leiðigjarnt, að fara nánast alltaf sömu leiðina, en fyrir aðra sem höfðu ánægju af að aka mótorhjóli þá skipti það ekki svo miklu máli.

Fyrir hönd Mótorhjólaklúbbs Vestfjarða, Púkanna. Kristján G. Sigrursson



Starfsemi Púkanna lagðist í dvala haustið 2011, mikið var um það á þessum tíma að fólk var að flytja frá Ísafirði og við það misstum við kjarnann úr klúbbnum og enginn tók við keflinu fyrr en árið 2014 þegar reynt var að endurvekja klúbbinn með ekki nógu góðum árangri og það varð til þess að klúbburinn lognaðist út af aftur.
Það var samt ekki það að enginn ætti hjól eða notaði þau ekki, það hefur líka verið endurnýjun, einstaklingar hafa tekið mótorhjólapróf og fengið sér hjól en klúbburinn hefur ekki tekið við nýjum meðlimum.

Í byrjun þessa árs var aftur kallaður saman fundur til að kanna grundvöll fyrir áframhaldandi starfi, á fundinum var ákveðið að gera aðra tilraun til að vekja klúbbinn og var kosin stjórn sem er þannig:
Ágúst Atlason, Sonja Sigurgeirsdóttir, Valur B. Andersen og til vara Kristján G. Sigurðsson og Halldór Sveinbjörnsson.
Þessir eiga eftir að ákveða hvert hlutverk hvers verður í þessari stjórn. Það er mikill áhugi á því að láta starfið ganga upp héðan í frá, og vonum við að sjá sem flesta sem leggja leið sína vestur á firði í framtíðinni.

Sniglafréttir apríl 2022