Morgunblaðið fékk að fljóta með í prufuakstur Biking Viking á BMW ferðamótorhjólum laugardaginn 4. september. Fyrst og fremst snerist þessi kynning um stóra ferðahjólið R1250 GS sem allt áhugafólk þekkir sem eitt traustasta verkfæri  mótorhjólatúrista sem vilja ferðast um heiminn.

 

Ferðahjól tengja margir við stór götuhjól með mjúka fjöðrun og hliðartöskur. BMW GS-hjólin tilheyra flokki sem er kallaður „Adventure“. Fullfær á malbiki en geta líka tekist á við fjallvegi og vegslóða, með mun lengri fjöðrun og veghæð en venjuleg götuhjól bjóða upp á. Og, þau koma með töskufestingum ef bakpokinn dugar ekki.

 

F-R-GS

Stafurinn R fremst í nafni BMWhjóls táknar tveggja strokka Boxermótorinn sem BMW hefur þróað frá 1923. F-sería er með samsíða tveggja strokka vélar, Parallel Twin eða einn strokk í minnstu hjólunum. GS aftast í nafninu er úr þýsku og táknar Gelände/Straße eða vegleysur og vegir. Fjölnota hjól sem sagt.

 

Árangur fjörutíu ára þróunar

 

Fljótgert er að venja sig á stóra R1250 GS-hjólið frá BMW og erfitt að gagnrýna mikið. Árangur fjörutíu ára þróunar, stórt og hátt, með sinn íkoníska boxermótor, drifskaft og sérstöku fjöðrun framan og aftan. Hjólið á rætur aftur til 1980 þegar R80 GS kom á markað. Sú kynslóð sem við prófuðum kom fyrst árið 2019 með aukinni tækni. Mótorinn er t.d. með breytilegri ventlastýringu sem hliðrar knastásunum eftir snúningi og breytir þannig lyftu og ventlatíma. Þetta er eitt af því sem gerir mótorinn svo aflmikinn sem hann er á lágum snúningi og mjúkan í svörun en samt með fullt afl á hærri snúningi. Ýmislegt gert til að halda upp á 40 ára afmælið.

Á malbiki er R1250 GS-hjólið mjög lipurt og auðvelt að stjórna. Hæðin  og tæp 250 kíló eru ekkert sem maður finnur fyrir. Aflið er töluvert, 136 hestöfl og 143 Nm tog. Vélin hefur ótrúlega mjúka og góða svörun og vinnur á öllu snúningssviðinu og er,
þrátt fyrir vélarstærðina og bara tvo strokka, ótrúlega laus við titring. Það  er nánast hægt að velja sjötta gír að morgni og vera bara þar allan daginn. Ekkert að grínast með það, þessi  vél hefur eitt notadrýgsta og breiðasta snúningssvið sem ég hef prófað.

Á malarvegum kemur munurinn á F750 og R1250 í ljós. Tuttugu aukakílóin og hærri þyngdarpunktur kalla á meiri ákveðni til að láta stærra hjólið breyta um stefnu en hins vegar er fjöðrunin miklu meiri og oftast nóg að skrúfa aðeins frá gjöfinni til að láta afturendann fljóta án þess að þurfa að gíra niður. Fyrir utan mýktina og aflið í vélinni var það fjöðrunin sem heillaði mest. Á vondum og grýttum vegi með endalausum hvörfum og hvilftum var upplifun að finna öryggið í því að láta fjöðrunina vinna og taka holurnar og klappirnar á sig án þess að nokkru sinni kæmi upp sú tilfinning að nú væri allt að fara á hvolf og upp í loft. Meira enduro-eðli í þessu stóra hjóli en búast hefði mátt við. Standandi hefur maður meiri stjórn en sjaldnast þarf það til. Bara fínt að hvíla sig sitjandi og njóta.

Fljótt á litið er framfjöðrunin venjuleg gaffalfjöðrun en það er bara hreyfingin milli fjaðraðs og ófjaðraðs massa sem fer fram þar. Gaffallinn er tengdur við stelllið með tveimur láréttum A-stífum, ekki ósvipað og er í mörgum bílum, og einn dempari með fjaðragormi tengdur neðri stífunni. Þetta virkar vel og minnkar ófjaðraða massann sem aftur bætir svörunina í fjöðruninni. Dempun að framan er tengd stillingum úr tölvunni auk smá hæðarbreytingar. Afturfjöðrunin er líka með einum gormadempara. Drifskaft tengir afturhjólið við gírkassann og samsíða armar, „paralever“, koma í veg fyrir að drifskaftið reyni að lyfta hjólinu upp í miðunni á gjöf sem einkenndi eldri drifskaftsmótorhjól. Í gegnum tölvuna er hægt að gera töluverðar stillingar á  afturfjöðrun. Það er hægt að hækka og lækka hjólið auk þess sem dempun er breytileg eftir stillingum. Spólvörn hegðar sér líka á mismunandi hátt eftir því hvaða stilling er valin. Sumt er hægt að stilla á ferð en annað aðeins í kyrrstöðu. Ekki þarf að  eyða mörgum orðum í ABS-diskabremsurnar sem vinna áreynslulaust og óaðfinnanlega í báðum hjólunum. Ég gerði margar tilraunir við ýmsar aðstæður með handfylli af frambremsu. Aldrei skrikaði framendinn og hjólin snarhemluðu bæði á mölinni, stundum meira en ég var búinn undir.

Mikill skemmtikraftur býr í minna hjólinu

 

Það small allt strax varðandi aksturinn á F750 GS-hjólinu og tók lítinn tíma að venjast því og treysta. Vélin vinnur mjúkt og vel og á sæmilega breiðu snúningssviði en auðvitað þarf aðeins að hræra í gírkassanum til að fá glaðlegt spark frá henni.
Þyngd hjólsins með fullan tank er 227 kg þannig að 77 hestöfl og 83 Nm tog þeyta því ekki til tunglsins með einum fingrasmelli. Það er samt meira en nóg afl í boði til að hafa verulega gaman af. Fjöðrunin er einhvers staðar mitt á milli götuhjóls
og enduro. Nógu löng til að ferðast á malarvegum og slóðum af hóflegri skynsemi en hefur ekki alveg sömu færni og lengri fjöðrun við erfiðar aðstæður. Á móti kemur að hjólið situr lægra sem er afskaplega vel þegið fyrir lappastutta. Það er ánægjulegt að finna hvað hjólið svarar vel og auðvelt að þræða milli hola og steina á malarvegum. Þannig er hægt að keyra sig í kringum skortinn á slaglangri fjöðrun í einhverjum tilfellum. Sérstaklega var gama að keyra hjólið standandi við þessar aðstæður og stýra með fótunum. Í enduro-stillingu leyfir spólvörnin smá spól sem dugar til að láta afturhjólið skríða út og hjálpa til við að stýra. Annars grípur tæknin inn í og stoppar skrið og spól. Fjölhæft mótorhjól, auðvelt í akstri og stór skemmtikraftur sem býr í litla frænda. Allar sömu stillingar eru í boði eins og í stærra hjólinu. Það helsta sem mátti finna að hjólinu er vel þekkt einkenni þessarar mótorgerðar í formi titrings á hærri snúningi sem leiðir upp í handföng. Smá fingradoði að byrja í lokin. Þetta hjól er í raun með 853 cc motor en af einhverri ástæðu kallað 750. BMW markaðssetur líka dýrari útgáfu sem heitir F850 GS. Það eru tekin 95 hestöfl út úr þeim mótor og hjólið er með lengri fjöðrun en 750 útgáfan

 

DTC, ASC, ABS og bluetooth í hjálminn

 

Í digital-mælaborði hjólanna er hægt að velja sér mismunandi viðmót eftir því hvaða upplýsingar við viljum sjá. Innan við vinstra handfang er skrunhjól eins og á tölvumús. Með því er flett í tölvunni. Aksturstölvu upplýsingar um hraða, eldsneytismagn, ekna vegalengd, þrýsting í dekkjum og fleira er hægt að hafa fyrir framan sig. Eða stóran snúningshraðamæli svo fátt eitt sé nefnt. Á skjánum sést í hvaða ham eða „mode“ hjólið er. Ef því er breytt á ferð er flett með takka á stýrinu hægra megin milli Rain, Road, Enduro eða Dynamic og tekið í kúplinguna með gjöfina lokaða til að virkja nýju stillinguna. Hjólin eru útbúin með ASC, sjálfvirkri stöðugleikastýringu, sem tengist modestillingunum og ABS sem einnig er háð mode-stillingu auk þess að hægt er að afvirkja ABS. Bluetoothtenging og USB-tenging er til staðar auk þess sem gert er ráð fyrir GPStæki á hjólunum. Lykillinn fer í vasann en ekki í einhvern lás á hjólinu og það er virkjað og slökkt á því með takka. Hiti í handföngum og sæti er í boði. Annars er, líkt og með þýska lúxuxbíla, langur listi af valkostum til að haka í. Reynslan kennir að hjól með allt valið halda betur verðgildi sínu en ef valkostina vantar. Bæði hjólin voru útbúin hraðskipti sem gerir kleift að skipta um gír upp eða niður án þess að nota kúplinguna. SOS-neyðarkerfi BMW er ekki virkt á Íslandi enn þá a.m.k. en annars staðar er hægt að senda GPSstaðsett neyðarboð frá hjólinu með einum takka. Það eina sem þetta gerir hér er að framkalla villuboð á skjáinn sem þarf að eyða  reglulega.

 

Biking Viking

 

Hjólin voru úr útleiguflota fyrirtækisins Biking Viking sem fer með sölu BMW mótothjóla á Íslandi. Tveir fylgdarmenn voru með hópnum, Hjörtur L. Jónsson var fararstjóri og fór fremstur. Aftasti smali var Eiður Þórarinsson eigandi Biking Viking. Leiðin sem farin var er blanda af vegum og slóðum. Malbik, mismunandi gerðir malarvega og sveitavega auk miserfiðra vegslóða sem ekki verður farið um á litlum bílum a.m.k. Tilgangurinn er að leyfa þátttakendum að kynnast þessum frábæru ferðahjólum af eigin raun.

 

Haraldur A. Ingþórsson
haraldur@pxv.isMorgunblaðið 21.9.2021