Rætt við Unnar Þorstein Bjartmarsson um lífið, tilveruna og mótorhjól, en um þau snúast lífið

Hjólin eru yfir og allt um kring.

Það velkist enginn í vafa um að í Smátúni við Kleppjárnsreyki býr fólk sem er handlagið og leggur metnað í að hafa snyrtilegt í kringum sig. Þegar komið er í hlað blasir við fallegt, tvílyft, timburklætt hús. Minnir dálítið á ævintýrahús úr sögum Astrid Lindgren. Þetta er þó hús með sögu, það var reist árið 1964 sem þvottahús fyrir sveitina. Fólk dreif að af nokkrum bæjum hvern dag, þvoði sinn þvott og skolaði krakkana í karinu. Þegar rafmagnið færði þvottana og böðin inn fyrir veggi heimilanna fékk húsið ýmis konar hlutverk. Þar var m.a. skinnaverkun, skóframleiðsla og gæsasláturhús.

Dísa í Hrísum hélt að hún hefði drepið á milli sex og átta þúsund gæsir í þessu eldhúsi,“ segir Unnar Þorsteinn Bjartmarsson, sem býr í Smátúni ásamt konu sinni Evu Lind Jóhannsdóttur. Blaðamaður lítur í kringum sig í vistlegu, panelklæddu eldhúsinu, en þar er ekkert sem minnir á hina blóðugu fortíð. Þvert á móti, hér hefur verið hugað að hverju handtaki við endurgerð hússins.

Konan mín er ættuð frá Snældu. Hún var í sveit hér hjá Svövu í Samtúni, en hún notaði þvottahúsið lengst allra og Eva Lind náði því að þvo hér þvotta með henni,“ segir Unnar og hlær. Eva Lind hafði fest kaup á húsinu þegar þau Unnar byrjuðu saman. Hann segir að þá hafi verið hægt að vera í því, en varla meira en það, það var bara steyptur kassi. „Árið 2002 byggði ég þrjá metra við húsið og byggði svo ofan á þetta allt saman. Þetta var í raun bara steyptur kassi. Þetta fór í fokhelt í einu fæðingarorlofi og svo bara um kvöld og helgar. Maður hugsar þetta ekki þannig, en ætli það séu ekki eitthvað á þriðja þúsund vinnustundir sem fóru í þetta.“

Það er ekki að sjá að hús Unnars og Evu Lindar hafi áður hýst þvottahús sveitarinnar, skóverksmiðju, skinnaverkun og gæsasláturhús, svo eitthvað sé nefnt.

Sveitadrengur fer í smíðar

Unnar er sannkallaður sveitadrengur. „Það er í allar ættir hjá mér, beint úr sveit,“ segir hann sposkur á svip, enda stutt í hláturinn hjá honum. Fyrstu minningar hans eru frá Hreðavatni. Þar hófu foreldrar hans búskap, Daníel á Hreðavatni, sá kunni maður, bjó á loftinu og unga fólkið naut leiðsagnar og vináttu samfélagsins. „Þetta var nú frekar lítið bú og ábyggilega ákveðin rómantík yfir því. Hreðavatn er náttúrulega ekki kúajörð, en það var rosalega flott samfélag þarna, samheldið og gott. Það var tekið mjög vel á móti þeim. Þau koma ung og blönk og það er basl að byrja, en fá mjög góðar móttökur.“

Árið 1980 flyst fjölskyldan að Norður-Reykjum og þar reka foreldrar Unnars enn kúabú. Þar ólst hann upp og átti hefðbundna æsku í sveit, á þess tíma mælikvarða. „Maður fór ekkert í leikskóla eða þannig, það var ekki til. Maður var bara á traktor og í fjósi í staðinn, sem er að mörgu leyti ágætt. Maður er kannski svolítið úr svarthvíta tímanum, þannig séð. Byrjar rosalega ungur að sækja beljur, um leið og maður getur það, og upp á traktor löngu áður en maður getur það.“

Og svo kemstu til vits og ára, skýtur blaðamaður inn í.

Aleinn með náttúrunni og mótorhjólinu sem kemur Unnari á fáfarna staði.

Tja, allavega til ára. Ég var allan barnaskólann á Kleppjárnsreykjum og svo einn vetur í Reykholti. Síðan fer ég til Keflavíkur og tek Iðnskólann þar og bjó hjá ömmu minni. Ég tók síðan samninginn í húsasmíði hjá Loftorku. Það var þá fjölskyldufyrirtæki og passlega lítið. Það var mjög gaman að læra og vinna þar á þeim tíma, störfin voru mjög fjölbreytt, að smíða hús og glugga og ýmislegt fleira. Svo stækkaði fyrirtækið og varð í raun bara steypan, smíðavinnan datt út. En þetta var mjög fjölbreytt og skemmtilegt fyrst, því þá lærði maður ekki bara hjá einum kalli heldur mörgum og fékk sérviskuna frá hverjum þeirra. Sérviska er alveg dásamleg.

Svo tek ég meistaraskólann í bænum og vinn þar hjá tveimur aðilum. Fer svo að starfa sjálfstætt, byggi hús í Skorradal og fleira, og svo aftur til Loftorku í nokkur ár. Svo fer ég til Eiríks Ingólfssonar, sem er með fyrirtækið EJI, og er þar í um áratug. Það var alveg ofboðslega gott að vinna hjá honum. Það er aldrei neitt vesen og þó allt sé í skralli þá sér hann alltaf lausn. Hann er algjör snillingur. Ég lærði mjög mikið þar, var að vinna með fínum köllum og hann er alveg ómetanlegur. Það er ekkert smáræði sem hann hefur gert fyrir sveitarfélagið, með því að halda atvinnu fyrir heimamenn um áratugi. Hann er með um 30 manns á launaskrá í dag og hefur alltaf unnið á heimafólki.“

Kennslan kallar

Unnar segir að smíðaáhuginn hafi kviknað strax í barnaskóla, þá hafi hann verið staðráðinn í að læra til smiðs. Einhvern tímann hafi hann líka ætlað í bændaskólann, þó ekki hafi orðið af því enn. Í dag kennir hann smíðar þrjá daga vikunnar við grunnskólana á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum. Aðalvinnan er þó orðin við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi þar sem hann kennir dreifnám í húsasmíði. Þar er hann átta helgar á önn og sinnir svo verkefnum og prófum þess á milli, auk þess sem mikið er um fjarnám í skólanum. En hvað dró hann í kennsluna?

Fjölskyldan samankomin, Bjartmar Þór, Eva Lind, Jóhann Þór og Unnar.

Lungnabólgur,“ svarar Unnar að bragði og hlær. „Ég náði mér í kennsluréttindin fyrir rúmum áratug. Bara til að hafa eitthvað plan b, ef maður færi í bakinu eða eitthvað. Svo einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég hoppaði inn í kennslu og tók húsvörsluna í nokkur ár. Svo þegar ég byrjaði á Akranesi hætti ég með húsvörsluna, en hélt kennslunni áfram. Það kom skeið þar sem ég var endalaust í einhverju veseni, með lungnabólgu og fleira, og var bara á hálfum afköstum. Þá kom maður sér inn í kennsluna. Ég er þó að megninu til laus við þetta í dag.“

Unnar segir mikilvægt að halda sér við í smíðunum. Kennslan í dreifnáminu felist vissulega mikið í því að vera maður á mann að sýna hvernig hlutirnir séu gerðir og með 17-19 manna hópa heyri hann nafnið sitt kallað ansi oft og setjist sjaldan niður. Það komi þó ekki í staðinn fyrir að vera sjálfur við smíðar.

Maður er alltaf að smíða eitthvað með þessu. Maður má heldur alls ekki hætta því. Ef maður er að kenna smíði þá þýðir ekkert að hoppa upp í skóla og ætla að kenna smíði og vera ekki eitthvað í því sjálfur. Það er svo mikil þróun í verkfærum og efnum, bara himinn og haf á þessum tíu árum. Menn verða að vera á tánum. Það vantar aðeins í kennsluna að fá smá aksjón. Fá timburbúnt og gera einhvern helling úr því. Það stendur aðeins til bóta, ég er að fara að byggja skemmu.“

Mótorhjólin

Umrædd skemma í Smátúni mun breyta miklu fyrir þau hjónin. Eva Lind er listræn og sinnir ýmis konar handverki; saumar, vinnur í leir og málar. Hún hefur nú vinnuaðstöðu í skúr við bæinn og það er aðeins farið að þrengja að henni, því skúrnum deilir hún með 23 mótorhjólum sem Unnar hefur sankað að sér. Þeim veitir sannast sagna ekkert af plássi og hjólin verða færð í hina fyrirhuguðu 200 fermetra skemmu.

Unnar safnar nefnilega mótorhjólum. Hann segir að áhuginn á mótorhjólum hafi alltaf verið til staðar, en foreldrum hans var ekkert um það gefið að hann eignaðist mótorhjól og hann sótti það ekki fast.

Hér er horft yfir hluta Kleppjárnsreykja. Neðst til vinstri er hverinn og hveralækurinn, grunn- og leikskólinn og sundlaugin fjær. Til hægri neðan til á mynd er sælureitur þeirra Unnars og Evu Lindar, stór og vel gróin lóð sem nú verður stækkuð til að rúma nýju skemmuna. Þau hafa í tvígang fengið umhverfisverðlaun Borgarbyggðar fyrir lóðina og umhirðu húsa. Ljósm. mm

Bróðir hans pabba var á hjóli í einhvern tíma og ég var líklega tólf ára þegar ég settist aftan á það hjá honum. Ég kaupi svo ekki hjól fyrr en ég er 22, allt of seint. Þá kaupi ég eitt tjónað og ódýrt og geri það upp um veturinn. Ég fann einmitt bókina sem ég notaði, minnisbók sem ég skrifaði allt í. Þá hafði maður ekkert átt við hjól og það eru alveg ótrúlegustu hlutir sem maður skrifaði hjá sér. Margt sem maður þarf ekki að skrifa hjá sér í dag.“

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Unnar gerði upp fyrsta hjólið sitt og skrifaði hjá sér minnispunkta. Í dag nýtur hann þess að setja saman hjól, taka fyrst í sundur ef með þarf.

Síminn minn er fullur af númerum hjá alls konar sérvitringum. Maður getur ekki staðið í þessu nema að þekkja svolítið af eldri köllum sem kunna allt. Menn hjálpast töluvert mikið að, ef einn á eitthvað sem annan vantar. Menn eru ekki að selja varahluti dýrt þannig á milli, alvöru hjólafólk allavega. Það er mikil samkennd þarna. Svo hringir maður endalaust eftir ráðum,“ segir Unnar og játar með semingi að vissulega sé einstöku sinnum hringt í hann eftir ráðum. Þá sé Facebook gott hjálpartæki, úti í heimi eru stórir hópar í kringum hinar ýmsu tegundir mótorhjóla og þar megi oft fá góð ráð.

Hjól í fiskikössum

Eins og áður segir eru nú 23 hjól í skúrnum. Unnar á þau flest, en Eva Lind nokkur. Hann segist vera heppinn hvað það varðar að Eva Lind er ekki síðri áhugamanneskja um mótorhjól. „Ég er nú svo heppinn að konan mín er eiginlega snarrugluð í þessu líka. Ég þarf stundum að vera á bremsunni og segja nei um eitthvað sem mér finnst ekki eiga heima í skúrnum. Hún á þarna nokkur.“

Synirnir tveir, Jóhann Þór Hopkins og Bjartmar Þór Unnarsson, hafa báðir verið í hjólunum, þó ekki af sama krafti og foreldrarnir. „Þeir eru á sitt hvorum endanum í þessu. Sá eldri vill fara hratt og mikið, hinn tekur rólegheitin í þetta. Það sást mjög snemma hvað þeir voru ólíkir í hjólamennskunni. Hvorugur þeirra er þó hjólandi í dag. Sá eldri reyndar kominn með prófið, það getur vel verið að hann detti í þetta.“

Alls eru 23 mótorhjól í skúrnum hjá Unnari, það elsta frá 1929. Hjólið fremst til hægri á myndinni fékk Unnar að gjöf frá Evu Lind og er það hjól sem hann notar mest.

Fyrir nokkrum árum losaði Unnar sig við nokkur hjól sem hann nennti ekki að eiga, þau voru ekki nógu spes að hans mati. „Ég er alltaf að fara meira og meira í gömul bresk hjól, það er svona skemmtilegasta sérviskan. Ég er með tvö BSA hjól og Velocette og Ariel,“ segir Unnar. En hvað heillar við þau hjól?

Ábyggilega bara sérviskan. Það er bara eitthvað bjútí við þau. Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna, en breiddin er svolítið grunnurinn að þessu, finnst mér. Fyrir löngu síðan, þegar ég var í Keflavík, kannski 16-17 ára , þá slefaði maður yfir gömlu Velocette hjóli sem ekki fékkst keypt. Ég hugsa að síðan þá hafi maður verið dálítið veikur í þetta. Mér finnst bara gömul bresk hjól alveg ótrúlega falleg. Margir eru fastir í því að það sé ekkert mótorhjól nema það heiti Harley. Harley-inn er alveg fínn, en það er svo margt annað til. Fyrir ári síðan keypti ég svo Velocette í bútum.

Ég keypti líka ´66 módel af BSA fyrir nokkrum árum. Það kom bara í fiskikössum. Mér sýnist reyndar að það hafi einhvern tímann týnst einn kassinn, þannig að það vantar alveg fullt af drasli í það. Þar var ekkert saman sett nema gírkassatrommlan, m.a.s. blöndungarnir voru sundurteknir í kassa. Ég skil ekki alveg þegar menn ætla að gera upp hjól að þá rífi þeir hvert einasta stykki í sundur og henda í kassa og svo hætta þeir. Það er helvíti flókið að taka við þannig hjólum og eiginlega betra að menn rífi þau ekki í sundur. Ef þú ætlar að gera upp hjól, þá er best að byrja bara á því að taka mótorinn og gera hann kláran og fara svo í allt hitt. Þau enda oft svona hjólin, í einhverjum bútum og svo blandast þetta saman við einhverja aðra varahluti og menn vita ekki neitt.“

Situr bara með partalistann

Blaðamaður getur varla gert sér í hugarlund hvernig er að standa frammi fyrir nokkrum fiskikössum fullum af járnhlutum og ætla að gera úr þeim mótorhjól. Hefur færni Unnars, frá því að hann hripaði fyrstu viðgerðina niður í minnisbók, orðið þannig að hann geti gripið hvaða stykki sem er úr kassanum og þekkt hvar í hjólinu það á heima?

Maður er svo sem alltaf að verða klárari og klárari í því, en nei ég er ekki svoleiðis alfræðiorðabók. En ég þekki menn sem bjarga manni stundum. Grundvöllurinn að þessu er svo að eiga bara bækur. BSA hjólið, þar sem maður fær mótor í bútum og það vantar fullt af drasli í hann, þá sit ég bara með partalistann. Ég set saman það sem ég er með, skrifa hjá mér hvert einasta stykki sem vantar og svo pantar maður. Rífur svo sundur aftur og setur svo saman sem heild. Maður þarf því stundum að fara löngu leiðina að þessu.“

Skrýtið og spes

Unnar gerir ekki bara upp gömul hjól, á hlaðinu er Rússajeppi sem þarfnast yfirhalningar og bíður skemmunnar góðu. Þá hefur hann gert upp gamlan Ferguson, ættargrip sem einhver varð að gera upp því það verði að passa upp á söguna.

Svo er ég með eitt langtímaverkefni sem bíður, það er traktor frá ´46. Gamall traktor frá afa. Þetta er tæplega þriggja tonna vél, algjört skrímsli, á járnhjólum. Ég var að fá hluti frá Kanada um daginn, þannig að þetta mjakast. Þetta kemur, en ekki strax.“

Blaðamaður verst ekki þeirri hugsun að einmitt þannig vilji Unnar hafa það. Að skemmtunin sé að miklu leyti fólgin í því að gera upp og ekkert væri gaman ef hægt væri að sveifla sprota og allt yrði tilbúið.

Nei, það væri ekkert gaman. Það versta sem getur gerst er ef maður verður búinn að gera allt upp þegar maður hættir að vinna og eigi bara einhverja safngripi í röðum og ekkert að gera. Það væri ömurlegt.

Það er hins vegar orðið minna og minna um þessi gömlu hjól og miklu erfiðara að nálgast þetta heldur en var. Auðvitað leynist samt eitthvað einhvers staðar. Ég hef ekki verið í því, sem mjög margir eru að gera, að taka gömlu Hondurnar, CB, SS og þess háttar. Ég á enga tengingu í þessi hjól og það eru margir að gera þetta upp, þannig að ég fer ekki þangað. Ég vil hafa þetta skrýtið og spes, þá er gaman að því.“

Grafnar gersemar

Hluti af sportinu felst í því að finna hjólin. Það getur reynst þrautin þyngri og þeir eru ófáir kílómetrarnir sem lagðir hafa verið undir fót, eða hjól, til að kíkja á mögulega dýrgripi. Og það er mikið búið að leita.

Maður er búinn að hringja mörg símtöl. Ég held ég sé búinn að fullvissa mig um að það er ekkert hér í héraðinu, allavega ekki margt. Mjög mörg símtöl enda á því að þetta hafi verið grafið um 1980. Það er ofboðslega margt sem fór í jörðu þá. Þá voru hreinsunarátök og einhvers staðar borguðu sveitarfélögin gröfur sem fóru á milli bæja og grófu gryfjur. Þá fór alveg skelfilega mikið.“

Þú færð þér kannski bara gröfu, þegar þú hættir að vinna, og ferð í fjársjóðsleit,“ skýtur blaðamaður inn í og hlær að eigin fyndni. „Tja, jú það gæti alveg gerst. Ég er alveg með á bak við eyrað hvar ýmsir dýrgripir eru grafnir,“ svarar Unnar að bragði.

Margir skrýtnir heimar

Mótorhjólamennskan snýst hins vegar ekki bara um að gera upp gömul hjól, eins gaman og það getur verið. Það þarf að aka þeim líka. Unnar segir að hjólasportið sé mjög fjölbreytt. Hann hafi byrjað seint í torfærunni, á enduro-hjólum. Það hafi verið uppgötvun, en hann hafi áður verið að þvælast ýmislegt á götuhjólum sem þau voru ekki endilega gerð fyrir. Eftir að umferð jókst á vegum úti sé ekki eins gaman að keyra bara á malbikinu.

Hér er stutt á marga slóða, Arnarvatnsheiðina og þar um kring. Það er ógeðslega gaman að vera bara á torfæruhjólinu í rólegheitunum. Ég er ekkert í því að vera í gryfjunni og stökkva, þetta er aðallega ferðaapparat. Maður verður hálfsmeykur ef maður flýgur marga metra í loftinu. Það er mjög langt síðan ég eignaðist ´74 módel af Hondu, gömlu torfæruhjóli. Svo var ég dreginn inn í hóp sem er eiginlega bara í kringum gömlu torfæruhjólin. Þar eru haldnar skemmtikeppnir og það er svolítið bjútí í því þegar það mætir slatti af sérvitringum saman og keyra fullt af torfæruhjólum frá 1970-80. Þetta er hörkukeppni sem er búin að vera í nokkur ár. Við mætum á föstudegi og svo er keppt á laugardegi. Þetta er um tveggja klukkustunda keppni í sandbraut, þetta er alveg djöfullegt. En samt er allt á góðu nótunum.

Mótorhjólaheimurinn er ekkert bara einn heimur, þetta eru margir skrýtnir heimar. Ég var með þegar við stofnuðum Raftana í Borgarnesi árið 2001. Félagið var mjög virkt á tímabili, nær yfir allan Borgarfjörðinn, en svo dofnaði yfir þessu. Svo er ég formaður í Vélhjólafélagi gamlingja. Þar verða menn að vera komnir til vits eða ára. Það er félagsskapur í kringum fornhjól og er ansi skemmtilegur hópur, þó maður sé ekki alveg nógu duglegur í að sinna því.“

Óvænt jólagjöf

Unnar röltir með blaðamanni út í skúr til að skoða þær gersemar sem þar leynast. Þar úir og grúir af hjólum, á gólfinu, í hillum og kössum. Inn á milli eru fagrir listmunir Evu og blaðamaður skilur betur þörfina fyrir nýja skemmu.

Elsta hjólið í skúrnum er Ariel hjól frá árinu 1929. Það var ógangfært í tæp 60 ár, eftir yfirferð Unnars fer það nú í gang. Þar er líka gamalt sendlahjól frá póstinum frá árinu 1947. Öll hjólin eiga sína sögu og Unnar segist þurfa að vera duglegri að skrásetja hana. „Hvað gömul mótorhjól varðar, þá er sagan eiginlega helmingurinn af tækinu. Ef það er engin saga, þá er þetta bara járn.“

Unnar sýnir blaðamanni eitt hjól, en á bak við það er auðvitað saga.

Þetta er það sem ég nota mest, ég fékk það í jólagjöf. Árið 2002 fórum við til Danmerkur og trúlofuðum okkur. Við ákváðum að vera ekki með neinar jólagjafir, en svo vorum við að rölta eitthvað á Strikinu og Eva Lind sá voðalega fína kaffivél sem hana langaði í og ég var rosa grand og gaf henni kaffivélina. Sagði henni að þetta væri bara jólagjöfin. Svo komum við heim á Þorláksmessu og strax um morguninn var ég rekinn af stað í ratleik, ekki alveg vaknaður, og endaði uppi á þessu. Þá var þetta jólagjöfin til mín. Þá skammaðist ég mín svolítið fyrir kaffivélina,“ segir Unnar og hlær. Hann segir að þó kaffivélin hafi vissulega verið töluvert notuð, hafi hjólið verið meira notað.

Unnar sækir í það að vera einn á ferð á fáförnum slóðum. Að leggja af stað að heiman, vita varla hvert hann ætlar heldur láta hjólið bera sig áfram. Kasta sér yfir nótt í tjaldi og halda svo áfram. Hjólamennskan snýst þó ekki bara um það að vera einn, þau Eva Lind fara oft í ferðir saman og svo hefur skapast skemmtileg hefð í kringum gömul hjól á svo kölluðum gangsetningardegi hjá Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri.

Þá setja þeir sín gömlu hjól í gang og við höfum safnað saman fullt af gömlum hjólum og farið norður. Það er bara bilun og vesen og basl, allt mjög skemmtilegt. Þá ertu að fá tilgang fyrir gömlu hjólin.“

 Greinin birtist í Jólablaði Skessuhorns 2023.
Viðtalið tók Kolbeinn Óttarsson Proppé.