Theodóra Björk Heimisdóttir, sem er alltaf kölluð Tedda, er engin venjuleg amma. Hún er mikil útivistarmanneskja og helsta áhugamálið er hjólamennskan, en hún er líka á gönguskíðum. Hún þeysist um á mótorhjóli og tekur þátt í keppnum bæði hér heima og erlendis.
„Ég var 39 ára þegar ég byrjaði í mótorcross og ástæðan var sú að maðurinn minn, Haukur Þorsteinsson, byrjaði í þessu árið 2000 og varð alveg forfallinn um leið. Ég var ekkert að fara í þetta, en á þessum tíma vorum við með tvö lítil börn og mér fannst það ekkert ganga. Þegar börnin voru orðin 10-12 ára keypti hann hjól handa krökkunum og lét mig ekki í friði. Það endaði með því að ég byrjaði og skráði mig í keppni á Akureyri sem endaði með því að ég féll gjörsamlega fyrir þessu sporti. Ég er mikil keppnismanneskja, svo ég datt alveg í gírinn.“
Ögrandi brautir á fjöllum
Tedda og Haukur stofnuðu hjólaverslunina Nítró árið 2003 og við tók mikill hjólatími hjá fjölskyldunni. „Á þessum tíma erum við aðallega í mótorcrossi og kepptum mikið á Íslandi. Síðan höfum við líka verið að keppa í enduro og hard enduro, sem er svolítið mikið öðruvísi. Í mótorcrossinu er maður að fara kannski 2ja km hring, þar sem er fullt af stökkpöllum og beygjum og þú sérð alltaf brautina fyrir framan þig. Enduro er miklu lengra, kannski 8-10 km, og þá er farið út í náttúruna, oft upp í hlíðar í brekkur og yfir grjót. Síðan er hard enduro ennþá meira ögrandi, en þar er verið að hjóla í miklum brekkum, yfir drumba og stórgrjót og farið hægar yfir og maður þarf að ná valdi á mikilli tækni í þessum brautum. Það hafa verið haldnar tvær keppnir hérna heima í því, kallaðar Víkinga Boló, og þá erum við alveg 3-4 tíma að fara hringinn og brautirnar eru mjög erfiðar uppi í fjöllum.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.
Dóra Ósk Halldórsdóttir
28.2.2022