Líklega á ekkert mótorhjól titilinn ævintýrahjól betur skilið en BMW R1200GS enda hefur GS lína þeirra verið til í meira en 30 ár.

R1200GS Hjólið hefur verið í boði vatnskælt síðan í fyrra en hingað til hefur okkur ekki gefist tækifæri til að reynsluaka því, fyrr en nú. BMW frumsýndi vatnskælda hjólið á Intermot árið 2012 og vakti það strax mikla athygli. Þrátt fyrir að bæta rétt rúmum níu kílóum við þyngdina gerði það gott betur þegar kom að afli, en vatnskælda hjólið er 15 hestöflum aflmeira en hjólið sem það tekur við af. Auk þess ræður það betur við mengunarstaðla Evrópusambandsins.

 

Klýfur vindinn átakalaust

Það er margt nýtt við hjólið frá fyrri gerð þess þegar grannt er skoðað. Það fyrsta sem kemur manni þó á óvart er hversu breytt hljóðið er. Það er dimmra og opnara og minnir meira á hljóð úr torfæruhjóli en fyrirfram hafði maður búist við hljóðlátari vél. Fyrir utan vatnskælda strokkana er búið að endurhanna grind, fjöðrunarkerfi og bremsur auk þess sem ytra byrði hjólsins er alveg nýtt. Þar að auki er komið nýtt mælaborð og díóðu-aðalljós. Sætishæðin er lægst 850 mm sem er auðvitað frekar hátt en hentar ágætlega þeim sem eru meðalmenn að hæð. Hægt er að panta hjólið með breyttri grind sem gefur lægri sætishæð. Áseta hjólsins er ein sú besta sem undirritaður hefur prófað á mótorhjóli, þótt ekki hafi ásetan á gamla hjólinu verið slæm fyrir. Hjálpast þar margt að, ekki bara þægilegt sæti og breitt stýrið, heldur einnig fjöðrun sem virkar mjúk í venjulegum akstri en stífnar upp við meiri átök. Rúsínan í pylsuendanum er svo vel hönnuð vindkúpa sem tekur nánast alveg vindinn af ökumanninum. Glerið er stillanlegt með höndum á ferð sem gerir manni auðvelt að finna stillingu sem hentar og því lítil hætta á að ökumaður þreytist af því að hafa vindinn í fangið. Hjólinu var ekið á annað hundrað kílómetra í reynsluakstrinum og hefur undirritaður sjaldan upplifað jafn átakalausan akstur á mótorhjóli. Segja má að hjólið færi þægindi í akstri mótorhjóla upp á nýtt stig. Spurningin er hvort það sé það sem fólk vill á mótorhjóli?

Næm bensíngjöf

Bensíngjöf hjólsins er ný og rafstýrð sem þýðir að hægt er að koma fyrir mörgum nýjungum. Má þar nefna skriðstilli auk skrikvarnar þar sem hægt er að stilla inn allt að fimm akstursstillingar, Rain, Road, Dynamic, Enduro og Enduro Pro. Hjólið sem við höfðum til reynslu bauð aðeins upp á fyrstu tvær en hægt er að velja um hvaða akstursstillingar eru í boði. Ef það er ekki nóg fyrir þá sem vilja meiri tæknifídusa er einnig hægt að fá rafstýrða ESA fjöðrun. Þrátt fyrir að hafa aðeins þessa tvær stillingar dugir það vel flestum enda geta þær gert sitt til að hjálpa ökumanni í erfiðum aðstæðum. Til að mynda fannst vel hvað skrikvörnin gerir þegar komið var skyndilega inn á kókópuffs í krappri beygju í Kjósinni. Einnig passar hún uppá fleiri hluti, eins og að ökumaður prjóni ekki yfir sig en það myndi vera auðvelt á þessu hjóli fyrir það eitt hvað hjólið er snöggt að taka við sér. Gjöfin er einfaldlega eldsnögg og hætt við að óvönum finnist það erfitt, en hjólið lyftir sér léttilega á inngjöfinni einni í öðrum gír. Þá eru bremsur ekki síður fljótar að taka við sér enda þriggja stimpla dælur á tvöföldum fljótandi diskum að framan og stærri bremsudiskar með tveimur stimplum komnir að aftan. Ef tekið er snöggt á bremsum finnst vel hvernig fjöðrunin stífnar að framan og hjólið sunkar ekki niður eins og mörg hjól gera. Ekki gafst mikill tími til að prófa hjólið á möl þótt því hafi aðeins verið brugðið út af malbikinu. Prófunarhjólið var á Michelin Anakee III sem eru meiri götudekk en malardekk og alls engin torfærudekk. Afturdekkið er 170 mm breitt sem er fullmikið fyrir hjól sem er ætlað að vera mikið í erfiðum malaraðstæðum. Breið dekk með lægri prófíl eru einnig líklegri til að gefa eftir lendi hjólið á stórum steini með hættu á tilheyrandi skemmdum á felgum. Því miður eru fá dekk í boði fyrir hjólið eins og er sem bjóða upp á meiri torfærumöguleika en von er á að úr því rætist innan skamms.

Dýrt en vel búið

En hvaða hjól keppa við BMW R1200GS í dag? Kannski er helsti keppinautur þess Triumph Tiger 1200 en hérlendis er enginn umboðsaðili fyrir þau hjól. Margir vilja bera BMW hjólið saman við hið öfluga KTM 1190 Adventure og þau keppa vissulega á sama markaði. Það er líka ódýrara og kostar frá 2.999.900 kr hjá umboðinu. Einnig er Yamaha XT1200Z SuperTenere verðugur keppinautur en verð á því hjóli eru ekki gefin upp á heimasíðu umboðsins. BMW hjólið er vissulega í dýrari kantinum þegar grunnverð þess er 3.200.000 kr en hafa ber í huga að mikill staðalbúnaður er í hjólinu.

Njáll Gunnlauggson 
Morgunblaðið 
17.6.2014