Góðan dag, Bergmann Þór heiti ég.

Mig langar að deila með ykkur ferðinni minni til Víetnam. Þetta er lítil ferðasaga af minni upplifun af sturlaðri ferð til lands, sem býr yfir svo mikilli náttúrufegurð, að það er mér ómögulegt að lýsa því sem ég sá. Svo ég bjarga mér með myndum, sem þið fáið líka að sjá hér.

Jæja, eigum við ekki bara að byrja?

 

Ferðalagið hófst á rigningar haustdegi hér á Íslandi, skíta kuldi og dimmt úti, enda klukkan ekki orðin 7 að morgni.

Að sjálfsögðu hafði ég byrjað aðeins fyrr um morguninn á því að sofa yfir mig.

Fullt af fólki sem ég hafði aðeins séð á myndum, tók á móti okkur í Leifsstöð með bros á vör og voru klárlega alveg jafn rugluð og við bræður, sem ég var staðráðinn í að væri, umfram allt kostur, fyrir það ævintýri sem beið okkar.

Ferðalagið var formlega hafið. Eftir þetta klassíska; bjór á Loksins og vondan morgunmat í fríhöfninni var flogið af stað: 2 og hálfur tími fyrsti leggur til Oslo; 7 tímar leggur 2 til Dubai og svo 7 tíma leggur til Hanoi. Við flugum af stað að morgni og lentum síðdegis daginn eftir í Hanoi, sem að sjálfsögðu þýðir að við ferðuðumst bæði í tíma og rúmi sem er geggjað kúl, ef maður skoðar það þannig. Allt í allt 26 tímar.

 

Hanoi!

Hvað getur maður sagt? Borgin er alveg galin, fólkið lítið en alveg dásamlegt. Lyktin, fólkið, traffíkin, litirnir, og síðast en ekki síst- lyktin. Já, það þarf að nefna hana tvisvar. Rusl; rotnun í bland við svita, dásamlegan matarilm, kryddin ilmvatn af öllum gerðum og aftur ruslalykt. Á einhvern stórfurðulegan hátt er blandan ágæt en alls ekki fyrir alla. Þú labbaðir út af hótelinu sem saklaus Íslendingur snerir þér við og hótelið var horfið. Þú varst týndur í stórborg. Sem var sturlað því þá þurftir þú að finna leið aftur heim á hótel. Google frændi hjálpaði mér nokkrum sinnum en stundum tókst mér þetta sjálfur og þá var ég algjör hetja. Það var engin leið að finna hraðbanka þegar maður leitaði en um leið og einn fannst, sá maður að þeir voru á 5 metra fresti um alla borg sem var fyndið og skrýtið. En þannig má alveg lýsa borginni (þ.e.a.s. gömlu borginni) hún er öll eins en samt svo ólík að það er fáránlega auðvelt að villast.

En aftur að sögunni!

 

Fyrsti dagurinn í Hanoi var sturlaður en samt nokkuð rólegur. Nokkrir göngutúrar út frá hótelinu til að versla og svo aftur heim á hótel. Í hvert sinn er við fórum út hættum við okkur lengra frá hótelinu. Ég þurfti að finna ljótan hatt til að verja mig fyrir sólinni og regnjakka en meira um hann síðar.

Við hittumst á sky barnum sem var á 11 hæð og í Marvel þema á hótelinu í stutta kynningu á ferðinni síðan fórum við öll út að borða á flottum local stað áður en allir skriðu í kojur þreyttir eftir 26 tíma flug og tímaflakk.

Dagur 2

Beint í djúpu laugina með ykkur og engin miskunn! Var það sem Eiríkur hefði getað vakið okkur með en nei honum finnst miklu skemmtilegra að við sjáum og upplifum sjálf.

Eftir að við tékkuðum okkur út af hótelinu og stutta rútuferð biðu hjólin eftir okkur ásamt Johnny Tu og Dom, já svo var bílstjórinn sem ég náði aldrei nafninu á en flottur kall.

Af stað! Keyrt var sem leið lá út úr Hanoi og út í sveit það var talsverð traffík að okkar mati (þá) en eftir því sem við keyrðum lengra minnkaði hún jafnt og þétt. Við stoppuðum í hádegis hlé á subbulegasta stað sem ég hafði séð ennþá og borðuðum alveg frábæran mat. Þegar þarna er komið við sögu var ég farinn að geta haldið á prjónunum með annarri og þurfti bara annað slagið að sækja þá yfir í næsta sal enda er ég ekki fingrafimur fyrir 5aur.

Eftir hádegið var svo hjólað áfram. Eftir stuttan spöl var farið af malbikinu og við tók léttur malarkafli upp á fjall sem þar sem við stoppuðum á te akri með stórfenglegu útsýni í allar áttir. Þar fundum við local hetjur sem voru með nýtt grænt te af akrinum sínum ferskt og kalt, sem var alveg kærkomið í hitanum sem toppaði sig þennan dag í 32 gráðum með fullt af raka. Eftir stutt stopp var haldið aftur niður á malbik og þrumað áfram. Stuttu síðar fékk hópurinn að velja á milli leiða malbik eða off road. Næstum allir völdu off road sem var STURLUN því leið okkar lá upp bratta hlíð í gegn um frumskóg, haga sem grasið var jafn hátt okkur, bratta slóða og svona mætti lengi telja. En til að gera langa sögu stutta þá var þetta erfiður slóði sem felldi okkar besta fólk og alla hina líka. Já, ég er þess fullviss að það duttu allir þarna sumir verr en aðrir og sá eini sem meiddist eitthvað var Bjarni bróðir sem líklega rifbeinsbrotnaði í sinni byltu. Jacob tók góða byltu en Margrét sigraði þessa keppni, með því að keyra svo langt inn í skóg að við þurftum smá tíma í að finna hana heila á húfi svo þurfti bara 5 menn til að ná hjólinu aftur upp á slóðann, en allt er gott sem endar vel. Eftir þau ævintýri öll var svo keyrt heim á hótel í bænum Phu Yen Þar sem beið okkar kalt vatn, kaldur bjór og heit sturta sem allt var mjög kærkomið og vel þegið. Eftir sturtuna var farið út að borða þar sem við fengum hrísgrjónavín í fyrsta sinn. En hrísgrjónavínið þeirra er eins og okkar landi.

  • Eknir kílómetrar c.a.200 hækkun upp í 1050 metra hæðst

Dagur 3

Dagurinn byrjaði vel. Smáúði sem frestaði brottför frá hóteli um 30 mín en svo var haldið af stað. Akkúrat á meðan ég fór að pissa en það kom ekki að sök því ég náði hópnum fljótt með hjálp Tu. Skoðuðum sveitir og fjalllendi á milli Phu Yen og Ta Xua þar með talið Dinasaur spike fjallagarðinn. Off road liðið fékk góða útrás á sínum slóðum áður en þeir þurftu að snúa við sökum ófærðar á meðan við malbiks hópurinn áttum ævintýra fallegan dag með stórfenglegu landslagi og útsýni þegar við hækkuðum okkur upp í fjöllin. Í hádegishléinu fór að RIGNA og það var algjör demba. Við ákváðum að bíða það af okkur en eftir rúman klukkutíma var útséð að rigningin var bara að verða meiri.

Svo tekin var ákvörðun að halda áfram og þar kemur að regnjakkanum. Við bræður keyptum okkur stóra jakka (án þess að máta) eða 4XL sem við hefðum stoltir getað sett utan um ken dúkku. Svo Bjarni bjargaði sér með plast ponsho og ég sagði fokkit skellti á mig bakpokanum og hjálmi og af stað. Dom (ljósmyndarinn) græddi regnjakkann minn og hélst þurr. Við áttum eftir að lækka okkur niður úr fjöllunum og niður í fallegan dal áður en dagurinn var búinn. Rigningin var ofboðsleg og var ég orðin blautur í gegn á 2 mínútum sléttum svo þá var bara að hita upp innsta lagið og þá var allt gott. Við keyrðum eftir þröngum fjallastígum fram hjá nýjum aurskriðum og keyrðum í gegn um nokkra ferska læki sem náðu upp á og stundum yfir veginn. Áfram rigndi svakalega og áfram þokuðumst við. Loksins þegar við vorum að verða komin niður í dalbotninn stytti upp og fór að hitna aftur sem var alveg kærkomið þó ekki væri mér kalt. En þurrkurinn var velkominn sem var þó enginn þurrkur því rakastigið hélst nálægt 100% þar til daginn eftir.

Er á gististað var komið var farið úr öllu blautu og í þurr föt áður en sundfötin voru tekin fram og farið í hin enda þorpsins og farið í kærkomið bað í hot springs á meðan kvöldmaturinn var hafður til fyrir okkur í fallegri heimagistingu. Eftir kvöldmat var tekið fram meira hrísgrjónavín og skemmt sér fram eftir kvöldi sumir þó lengur en aðrir. En það er önnur saga því ég var þreyttur og fór sáttur í svefn eftir nokkur góð skot af landa afsakið hrísgrjónavíni staðarins.

  • Eknir 160 km hækkun upp í 1700m hæðst.

Dagur 4

Eftir morgunmat var lagt í daginn. En fjöll og hrísgrjóna akrar var útsýnið þennann daginn og veðrið dásamlegt. Gallinn var enn blautur frá því í gær og það var bara tekið á því og skellt sér í hann rennandi. En það var svo alls ekki að fara að skemma daginn. Við malbiks hópurinn fórum eftir dásamlega fallegu landslagi á vegum sem virtust bara vera beygjur, þorpin sem við ókum í gegn um voru bæði falleg og hrörleg á sama tíma. Vegurinn var oft notaður til að þurrka uppskeru morgunsins og við pössuðum okkur að fara varlega þar, framhjá bændum sem voru að vinna og stundum stoppuðum við hjá þeim og fengum að fylgjast með og jafnvel prufa að taka í. Fallegasti dagurinn só far en það virtist vera lenskan það var alveg sama hvar maður stoppaði, maður var alls staðar dolfallinn af fallegu landslagi og náttúru. Svo fór maður áfram fyrir næstu beygju og vá! Enn fallegra en áðan. Svo hélt þetta bara áfram allan daginn. Í hádeginu stoppuðum við í litlu þorpi á stórum veitingastað með stórfenglegu útsýni þar sem maturinn var geggjaður að vanda. Þar fengum við gott stopp því aftur hafði ófærð hrakið offroad hópinn til baka svo þeim seinkaði lítillega. Eftir hádegið hækkuðum við okkur upp í fjöllin. Stoppuðum reyndar á kaffihúsi á leiðinni sem var með enn betra útsýni en hádegisstaðurinn. Svo eftir um 40 mínútna akstur horfðum við yfir dalinn á bæði þorpið með veitingastaðnum og kaffihúsinu og það útsýni fer í sögubækurnar hjá mér hið minnsta. Áfram hækkuðum við okkur og við tók enn betra útsýni áður en við lækkuðum okkur lítið inn í næturstað dagsins sem var Mu Cang Chai að þessu sinni. Dolfallin, yfir því sem fyrir augu okkar kom þann daginn fórum við nokkuð snemma að sofa en ekki án þess að smakka á hrísgrjónavíni þorpsins.

  • Eknir km 180 mesta hækkun 1000m.

Dagur 5

Þessi dagur byrjaði þurr, sem var geggjað. Eftir morgunmat var tekið saman dót og stimplað sig út af hótelinu. Fyrsta verkefni dagsins var með því stórfenglegra sem ég hef fengið að taka þátt í. Við byrjuðum á því að keyra upp í mjög lítið strjálbýlt fjallaþorp þar sem við fengum að heimsækja lítinn skóla. Börnin voru frá 3-5 ára svakalega falleg og kurteis. Þegar þangað var komið affermdum við bíl með gjöfum til barnanna og skólans. Við færðum þeim meðal annars: útileikföng, klifurgrind, rennibraut og rólur. Skáp, dýnur, úlpur, fullt af nammi ásamt eldunar tækjum, gasi og ýmsu nýtilegu. Þarna fengum við að hitta skólastjóra, kennara, bæjarstjóra og svæðisstjóra sem öll voru komin til að taka á móti þessu framlagi okkar til skólans þeirra. Vægt til orða tekið er ég að springa úr stolti yfir því að hafa fengið að taka þátt, í þessu litla verkefni okkar sem skiptir börnin og skólann þeirra heilmiklu máli. Get ég ekki með nokkru móti þakkað Eirík og ferðaskrifstofunni hans Two wheels travel eða liðinu hans úti, nægilega fyrir að leyfa mér að taka þátt í þessu verkefni. En þetta verkefni er hugarbarn Eríks að fullu.

Eftir heimsóknina í skólann hélt ferð okkar áfram allir glaðir í bragði. Við héldum aftur niður á veg þar sem hópurinn skiptist enn og aftur í off og on road hópa. Við í malbiks hópnum lækkuðum okkur aðeins niður í dalinn áður en hækkun dagsins tók við. Það var smá misskilningur hjá fararstjórum sem gerði það að verkum að okkar hópur fór aðeins ranga leið en ekkert sem kom að sök því Víetnam er stórfenglegt land. Allt í allt skemmtilegt hliðarspor sem gaman var að taka.

Eftir hádegishlé sameinuðust hóparnir og haldið var upp í Sa Pa sem beið okkar í allri sinni dýrð. Veður var gott, loksins ekki of heitt og ég mjög sáttur. Stuttur og fallegur dagur með frábæru útsýni. Á leiðinni upp var mjög skemmtilegur vegur með hlykkjum og beygjum sem beinlínis kölluðu eftir því að maður léti reyna á eigin getu og hjóls, þrátt fyrir að hafa fengið munnleg fyrirmæli áður um að keyra varlega. Efst á leiðinni var svo mjög skemmtilegur útsýnisstaður sem var einnig staður fyrir kite flug. Síðan var haldið niður að Sa Pa þar sem var talsvert um vegavinnu. Enda fór svæðið í kring um Sa Pa mjög illa út úr vatns veðri sem skall á Asíu um mánuði áður en við fórum út.

  • Eknir km 160 mesta hækkun 1700m.

     

Dagur 6

Hvíldardagur í Sa Pa.

Dagurinn átti að vera tekinn í stakri ró en við fórum á fætur skófluðum í okkur morgunmatnum og skunduðum niður á lestarstöð.

Þaðan var farið með sporvagni yfir að kláf sem flutti okkur svo upp á hæðsta tind suðaustur Asíu, Fansipan sem er í 3143m hæð. Það var reyndar skýjað þegar við fórum upp en skýjum ofar var stórkostlegt að skoða sig um, svo fyrir mér var upplifunin af þessu ekkert verri en ef það hefði verið heiðskýrt. Ferðalagið með kláfnum sjálfum var þrælmagnað í sjálfu sér, frábært útsýni yfir fjalllendi sem maður fengi aldrei að sjá öðruvísi.

Eftir tindinn var stefnan sett á offroad rúnt sem á endanum ég ákvað að sleppa og slaka á í borginni á meðan. Sem ég sé alls ekki eftir. Þar fékk maður óvænta innsýn í líf fólks með því að gefa sér tíma í samtal við götusala. Kalla yfir okkur bölvun frá öðrum götusala sem við vildum ekki versla við og skoða í búðir ásamt því að breyta til og fá sér pizzu.

Bölvunin! Já eða við höldum það a.m.k. það var ung kona rúmlega þrítug sem var að segja okkur sína sögu. Hvað hún þarf að ferðast till og frá borinni með varninginn og slíkt þegar aðra kerlingu ber að og vil fá að selja okkur. Við sögðumst vera búnir að kaupa af hinni og þyrftum ekkert meira. Þá varð sú gamla alveg brjáluð og að við höldum bölvarði mikið yfir okkur ásamt því að leggja á okkur einhverskonar bölvun. Sem þó mér vitandi hefur ekki enn borið neitt á.

Bjarni hins vegar fór í offroad og skrallaði með localnum. Svo ég fékk góðar sögur af báðum upplifunum.

Eftir rölt var svo slakað á uppi á hóteli fyrir sameginlegan kvöldmat. Eftir kvöldmatinn fóru sumir á skrall með localnum á meðan partýljónið ég fór að sofa.

  • Eknir km 0 mesta hækkun 3143m

Dagur 7

Í dag var byrjað að færa sig aftur í áttina til Hanoi. Eftir morgunmat og úttékk var haldið af stað. Hiti um 20 gráður og þægilegt veður. Morgunkaffið var svo tekið við landamærin að Kína og var Kína einungis handan lítillar brúar sem lá yfir litla á. Eftir kaffið var svo haldið áfram, smám saman fór að hitna í veðri enda við komin niður úr fjöllunum aftur. Hádegismaturinn var svo tekinn í litlu þorpi sem heitir Pho Rang og við þokuðumst í áttina að síðari heimagistingunni við Thac Ba Lake sem er risastórt manngert vatn. Síðasti spölurinn meðfram vatninu var ekkert minna en dásamlegur. Veðrið geggjað, útsýnið fáránlega flott og litlu þorpin full af börnum sem fögnuðu okkur er við keyrðum í gegn með mörgum flottum fimmum og veifi. Sumir úr hópnum veittu því eftirtekt að rétt áður en við komum á gististað var slátrari að störfum í vegkanntinum dýrið sem slátrað hafði verið og var í verkun var síður en svo af venjulegum matsðli hins vestræna manns.

Næturstaður við vatnið.

Þessi staður var svakalega flottur, flott hús, geggjaður matur, garðskáli með hengirúmum og svo stórglæsileg danssýning frá localnum um kvöldið ásamt hrísgrjónavíni sem alls staðar virtist vera nóg af. Svo gat Johnny alltaf þefað upp meira.

  • Eknir km 240 mesta hækkun 0

Dagur 8

Eftir góðan nætursvefn og betri morgunmat var pakkað saman og hjólin ræst, lokadagurinn á hjólum var að hefjast. Við fórum stuttan spöl frá gististaðnum að bryggju við vatnið þar sem gististaðareigandinn, hótelstjórinn, kokkurinn, þjónninn og skipstjórinn okkar tók enn einu sinni á móti okkur með bros á vör og bauð okkur upp á stutta siglingu um vatnið. Sú sigling var svakaleg, þá einna helst fyrir utan þegar við litum yfir í hin bátinn og sáum nokkur hvít tungl sem ekkert var hægt að gera við, annað en að hlægja duglega. En að sjá þorpin við vatnið, localinn á veiðum og Dodda gefa múkkanum, sem var þó hvergi að sjá var stórfengleg upplifun, landslagið og sólin yfir öllu. Dásamlegt í alla staði og stórkostleg byrjun á deginum.

Svo var haldið af stað. Eftir góðan sprett var stoppað í hádegismat og rætt um framhaldið á deginum því við vorum komin mjög nálægt Hanoi og traffíkin var mjög farin að þyngjast. Eftir matinn var svo haldið áfram að bensínstöð þar sem hópnum var skipt upp fyrir ferðina inn í borgina.

Sturluð traffík!

Að keyra inn í Hanoi var hrein og klár geðveiki. Þar tekur frumskógarlögmálið yfir og þú þarft að frekjast í gegn. Eins og það sé ekki nóg, þá þarft þú líka að passa upp á að halda hópinn. Því þarna vilt þú ekki verða eftir! Við fórum furðu hratt yfir og fylgdum Johnny eins og skugginn. Þegar við svo komum aftur á upphafsreit þá var byrjað á að gá hvort ekki væru allir með og svo hvort allir limir væru á. Þvílík sturlun!

Að lokum var teknar saman föggurnar, hjólið kvatt með virðingu og það áritað í vitna viðurvist. Vissulega fékk mitt hjól nafn en hún var skýrð Gilitrutt hjólið var af gerðinni Honda CRF 250.

  • Eknir km 160 Hækkun 0

Dagur 9

Hanoi

Frjáls dagur. Tilvalinn til að versla. Skoða borgina eða bara skella sér á barinn.

Ég ákvað að skoða mig um, labba smá og kannski versla. Fór í stutta göngu sem var mjög skemmtileg, slakaði á og naut skarkalans í borginni. Um kvöldið var svo farið út að borða á flottu steikhúsi sem var þrælmagnað. Við Bjarni Skelltum okkur á Alvöru steik og fyrir valinu varð Wagyu Tomahawk steik sem vóg aðeins 1,4 kg medium rare að sjálfsögðu með 3 sósum ásmt því að fá okkur nauta carpaccio í forrétt. Allt í allt Sturluð veisla sem kostaði litlar 6,4 milljónir…….. dong.

Eftir matinn var svo farið á létt skrall.

Dagur 10

Lokadagur í Víetnam

Fór og skoðaði mig frekar um borgina verslaði lítið og var að drepa tímann. Við bræður fórum á Train street sem er upplifun, þar sátum við á kaffihúsi og höfðum það makindarlegt á meðan við biðum eftir lestinni sem ekur þarna í gegn tvisvar á dag. Það að vera þarna þegar lestin ekur í gegn er svakalegt. Það er bókstaflega hægt að teygja sig í lestina úr sætinu.

Fór og fékk mér húðflúr í tilefni ferðarinnar og svo var farið af stað út á völl. Heimferðin hafin fyrir alvöru.

Hanoi til Dubai bið Dubai til Glascow Engin bið! Því við bókstaflega hlupum eins og fætur toguðu í gegn um Að manni fannst allt Skotland. Glascow til Keflavíkur Keflavík og heim.

Punktar fyrir ykkar ferð: Takið með léttan fatnað, nóg af vítamínum og steinefnum farið eftir pökkunarlistanum frá Eirík. Njótið ykkar svo.

Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir að hlusta á þessa kynningu mína já eða lesa.

https://twt.is/


Þakka Bjarna bróðir og Jacob fyrir að koma með mér í þessa vitleysu, restinni af hópnum fyrir frábært ferðalag og að lokum Eirík Viljar og Two wheels travel fyrir að bjóða okkur upp á svona ævintýri.

Þessi ferð var geggjuð í alla staði og ég er þegar byrjaður að huga að næstu ferð sem verður farin 2026. Kemur þú með þá?

Takk fyrir mig

Bergmann Þór.