Þessa dagana stendur yfir í Bandaríkjunum þolkeyrsla gamalla mótorhjóla yfir endilanga álfuna. Er um 6.500 kílómetra langa leið að ræða sem tekur 16 daga að aka, frá landamærum Kanada til Mexíkó.
Hefst ferðin í Saul Ste Marie í Michigan, fer í gegnum Myrtle Beach í Kaliforníu og endar loks í South Padre Island í Texas þann 26. september næstkomandi.
Það sem er athylgisvert við keyrsluna er að vegirnir sem hún fer um eru utan alfaraleiða og sumir hverjir á vegum sem voru fjölfarnir þegar þessi hjól voru ný.
Mótorhjólin þurfa að vera að minnsta kosti 90 ára og komast færri að en vilja, því að aðeins 100 fá að taka þátt á hverju ári.
Sjá má margar gersemar í keyrslunni sem sumar hverjar voru til hér á Íslandi í eina tíð, hjól eins og Harley-Davidson J-Módel, Indian, Excelsior og Henderson.
Eins og sjá má af þessari upptalningu eru flest hjólin amerísk en einnig má sjá mótorhjól frá öðrum heimsálfum eins og BMW og Ner a Car.