Hjörtur L. Jónsson #56 skrifar:
Fyrir nákvæmlega 39 árum var mín fyrsta skipulagða mótorhjólaferð, en þá komu Sniglar í heimsókn á Vestfirði í ferð sem ég skipulagði að hluta í samstarfi við aðra. Þá var eins og nú að 17. júní bar upp á mánudag þannig að helgin var löng. Þegar félagar mínir í BMW mótorhjólaklúbbnum nefndu að þeir vildu fara á Vestfirði þessa helgi og á þessum sömu dögum og ferðin var fyrir 39 árum var ég fljótur að ákveða að fara í ferðina og bauðst ég til að hafa umsjón með ferðinni. Í fyrramálið er meiningin að leggja af stað á 7 hjólum (8. félaginn er mættur á svæðið svipað og fyrir 39 árum þegar Ísfirðingarnir tveir mættu sólahring á undan öðrum).
Svona skrifaði Mótorskussinn #11 um Vestfjarðarferðina í Sniglafréttir 1985:

Óli Mótorskussi #11 skrifaði síðan um þessa ferð í Júlíblað Sniglafrétta skemmtilega ferðasögu og mun ég vitna í þá sögu nokkrum sinnum í þessari upprifjun.

#11 skrifaði:
Við Sundakaffi voru samankomnir örfáir-alveg sárafáir- meðlimir Bifhjólasamtaka Lýðveldisins að leggja af stað í eina af hinum landsfrægu Sniglaferðum. Þegar útséð var um að fleiri mundu mæta lögðu 8 manns af stað á 4 skellitíkum og 2 blikkbeljum. Eitthvað gekk þessum ferðafélögum ferðin vestur í Bjarkarlund hægt, en komust samt. Morguninn eftir var tjöldum pakkað og haldið í vestur í svartaþoku snigluðust Sniglar áfram nánast á hraða Snigilsins. Svo svört var þokan að einn keyrði út af veginum í einni beygjunni, en slapp með skrekkinn. Höfðu ferðafélagarnir orð á því að þokan hafi verið svo þykk að hjólið hafi lagst hægt á hliðina og að hann hafi eiginlega ekki dottið.
Á hádegi á laugardag 15. júní voru mættir að landamerkjum Austur og Vestur-Barðastrandasýslu Vestur-Sniglar og Ísfirðingar. Þetta var móttökunefndin á 9 hjólum (Honda XL500R, Honda XL500S, Honda CB 650, Honda CB750K, Honda CB750F, Kawasaki Z650, Kawasaki Z1R1000, Kawasaki GPz550,Kawasaki GPz1100), en við sem í móttökunefndinni höfðum ekki hugmynd um hversu margir gestir væru væntanlegir. Það voru viss vonbrigði að ekki nema 4 hjól voru í hópnum (Honda CBX, Suzuki GT550, Suzuki Katana 650 og Moto Guzzi GT 850) einn Trabbi og einhver bíll sem ég man ekki hvað var, en var eins og appelsína á litin. Eftir stutt stopp á sýslumörkum var ekið í Hótel Flókalund og drukkið kaffi í boði Vestur-Snigla, en þar kynntu Sniglar sig fyrir hvorum öðrum. Síðan var ekið nánast án stopps á Tálknafjörð. Þegar þangað var komið var farið í fjölskyldulaug þeirra bræðra Rúnars # 84 og Viðars # 85.
Mótorskussinn #11 skrifaði:
Í sundlauginni fór fram hundahreinsun. Er þrifnaði var lokið hossaðist Sniglahjörðin í einkavillu Hjartar og fljótlega fóru menn að skola sig að innan, sjálfsagt vegna óstöðvandi þrifnaðaræðis sem runnið var á liðið. Þegar þessi innanþvottur var vel byrjaður birtist Halli #25 og Lauga konan hans á Suzuki GS 550.
Þegar ég vaknaði snemma morguninn eftir, en þá voru sofandi Sniglar um allt húsið hjá mér í svefnpokum, í öllum herbergjum, stofunni og eldhúsinu mátti heyra hrotur sem samanlagt virkaði eins og lágværar mótorhjóladrunur úr óþekktu mótorhjóli. Sniglar voru ræstir til morgunverðar og nú átti að halda á Látrabjarg. Nokkurn tíma tók að ná skjálftanum úr sumum, en eftir góðan morgunmat og sterkt kaffi voru allir klárir fyrir þennan vestasta odda Íslands. Alls fóru 13 hjól á Látrabjarg þennan dag í frábæru veðri. Sennilega hafa ekki oft sést eins mörg mótorhjól við vitann á Látrabjargi síðan í þessari ferð.
Mótorskussinn # 11 komst ekki með á bjargið vegna þess að öll hans fjölskylda bjó á Tálknafirði og taldi hann sig vera löglega afsakaðan því hann þurfti að sýna allri ættinni kærustuna sína Mótorskyssuna # 94. Um kvöldið var því tekið rólega í húsinu hjá mér og fór kvöldið í að segja hetjusögur og lesa mótorhjólablöð.
Um morguninn á 17. júní var vaknað snemma til að ná ferjunni Baldri yfir Breiðafjörð. Með látum var skelltu Sniglar í sig morgunmat og var gefið fullt rör á Bíldudal og þaðan um Arnarfjörð í Flókalund. Annað hvort keyrðu Sniglar svona hratt eða að Baldur var seinn, en eftir tæplega klukkutíma bið kom báturinn og voru hjólin hífð um borð, en hvar var Stjáni Afi á Trabbanum? Kallinn var tíndur og enginn vissi neitt um hann og það síðasta sem ég sá til Snigla var um borð í Baldri á leið suður Breiðafjörð syngandi Hæ, hó, jibbí-jei-það er kominn 17. júní.
Þegar ég kom heim til mín á Tálknafjörð var Stjáni Afi þar að plana heddið á Trabbanum því heddpattningin hafði farið í Trabbanum þegar hann lagði af stað um morguninn. Stjáni var fljótur að redda þessu og ók alla firðina á Trabbanum og náði Sniglum áður en þeir komust alla leið til Reykjavíkur.
Hér eru svo nokkrar myndir úr þessari ferð fyrir 39 árum sem mest koma úr myndasafni Birgir Guðnason og eitthvað frá mér.