Á smágerðum platta sem hangir uppi á vegg í svartmáluðu sýningarrými Mótorhjólasafns Íslands á Akureyri er að finna lítið glerhylki með tönn úr Heiðari Þ. Jóhannssyni.

Yfir glerhylkinu er áletrun sem á stendur: „Heiðar Þ.Jóhannsson. Framtíðar jólasveinn.1965–1995.“ Undir plattanum er svo miði með eftirfarandi upplýsingum á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku: „DNA úr Heidda ef einhver vill klóna. Með vinarkveðju og minningum, Ólafur Sveins –2011.“

Þó svo að tönnin úr Heiðari sé sýnd á  Mótorhjólasafni Íslands með kæruleysislegum hætti, gefur húntilefni til alvarlegrar ígrundunar. Tönnin minnir á hugmyndir umsöfn sem grafhýsi og helgistaði mikilvægra einstaklinga. En söfn eru oft stofnuð í nafni ákveðinna einstaklinga og þar með álitin einskonar framlenging á ævi þeirra, störfum og vonum.

Söfnin eru oft kennd við einstaklinginn og sýna persónulega muni sem hann hefur látið eftir sig
einsog klæðnað, húsgögn eða annan afrakstur af þeirri vinnu sem hann/hún kom að. Í þeim tilvikum þar sem söfn eru slíkir helgistaðir einstaklinga og starfa í anda þeirra, leikur vonin stórt
hlutverk. En vonir Heiðars Þ. Jóhannssonar – og einnig Ólafs Sveins – eru megindrifkrafturinn fyrir stofnun og rekstri Mótorhjólasafns Íslands.

Söfn og vonir

Í þriggja binda verki þýska heimspekingsins Ernst Bloch, The Principle of Hope, gerir Bloch vonina
að umfjöllunarefni. Hann heldur því fram að vonin gegnsýri hversdagslega vitund fólks og birtingamyndir hennar.  Bloch telur einstaklinginn alltaf ófullgerðan, en að hann lifi í draumi um fullkomnun, um betra líf. Von er tilfinning sem stækkar fólk í stað þess að afmarka það. Um leið veit fólk ekki nándar nærri nóg til þess að þekkja markmið eigin vona eða hvað er mögulegt að tengja við þær. Hið sama má segja um hluti. En í draumum felast vonir sem eru settar fram í ýmsum myndum eins og ljóðum, bókmenntum, byggingum. Í þessu samhengi má líta til þess sem Bloch segir um söfnun og söfn. Samvæmt Bloch dregur söfnun saman, heldur öllu til haga og vegur salt á mörkum ástríðu og græðgi. Safnarinn stefnir að fullkomnun í starfi sínu, að eignast samstæðu eða sett af því sem hann safnar.

Mótorhjólamenning og vonir

Ímynd mótorhjólafólks og frásagnir af því hér á landi hafa tekið breytingum frá því að fyrstu hjólin
komu til landsins upp úr aldamótunum 1900. Upp úr 1960 fer að bera á blaðaskrifum um erlend mótorhjólagengi eins og Hells Angels og aðallega fyrir félagslega óhlýðni, ofbeldi og glæpsamlega hegðun. Í blaðaumfjöllun um kvikmyndina „Í vígahug“ sem sýnd var í Sjónvarpinu árið 1970, þar sem Hells Angels eru fyrirmynd, segir að mótor hjólagengi í myndinni sé „einmuna ógeðslegt fyrirbrigði“, meðlimirnir séu illræmdir og „ofbeldishneigður undirmálslýður, sem flakkar um á mótorhjólum.“ Af þessu dæmi má greina viðhorf til mótorhjólafólks sem ógn við ríkjandi þjóðskipulag sem beri að uppræta. En dæmið er líka lýsandi fyrir birtingamyndir vona í tengslum við mótorhjól og mótorhjólamenningu: Vonir erlendra mótorhjólagengja um tiltekinn lífsstíl og vonir yfirvalda um að sporna við neikvæðum áhrifum mótorhjólagengja. Þær vonir má að einhverju leiti heimfæra upp á aðstæður hér á landi, þar sem umræða um mótorhjólamenningu er tengd frelsishugmyndum mótorhjólamanna og glæpastarfsemi.

 Vonir og Mótorhjólasafn íslands

Í kjölfarið á fjármálahruninu haustið 2008 var hafist handa við byggingu Mótorhjólasafns Íslands á Akureyri. Framkvæmdin við nýbygginguna hófst í janúar 2009 og opnaði safnið dyr sínar fyrir gestum þann 15. maí 2011, á afmælisdegi Heiðars Þórarins Jóhannssonar, Heidda. Heiddi var
fæddur 15. maí 1954 á Akureyri og bjó þar alla sína tíð. Hann var forfallinn áhugamaður um mótorhjól og átti mörg þeirra sem mynda kjarnann í safnkosti safnsins. Heiddi lést í mótorhjólaslysi 2. júlí 2006 en ári síðar tóku vinir og vandamenn sig til og einsettu sér að koma safninu á laggirnar. Heiddi var einn af stofnendum Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, sem er mótorhjólaklúbbur stofnaður 1. apríl 1984. Tilgangur klúbbsins er að koma á samstarfi bifhjólafólks, gæta hagsmuna þeirra og hvetja almennt til ánægjulegrar bifhjólamenningar. Heiddi fékk númerið 10 í félagatali samtakanna og var virkur í klúbbnum allt til dánardags. Fyrir störf sín fékk Heiðar heiðursverðlaun Sniglanna árið 2002. Hollvinasamtök Mótorhjólasafnsins, Tían, fékk heiti sitt af þessu númeri Heidda í Sniglunum, en meðlimir Tíunnar vinna að því að stuðla að uppbyggingu safnsins.

Samtíminn og tími vonar

Skömmu áður en Mótorhjólasafn Íslands opnaði dyr sínar fyrir almenningi birtist viðtal við einn af
forkólfum verkefnisins, Jóhann Frey Jónsson, í Morgunblaðinu. Í viðtalinu segir að Heiddi hafi þekkt marga og að hann hafi verið „bóngóður með afbrigðum“, en hann veitti fólki gistingu heima hjá sér eða aðstoðaði gesti með mótorhjólið sitt ef þau áttu leið um Akureyri. Vegna þessa telur Jóhann Freyr að mörgum hafi runnið blóðið til skyldunnar að koma að uppbyggingu safnsins, en „gamlir Sniglar og aðrir hjólafélagar“ lögðu verkefninu lið með því að gefa vinnu sína eða veita ríflegan afslátt af efniskostnaði. Samkvæmt Jóhanni Frey hefði tímasetningin á byggingu safnsins líklega ekki getað verið heppilegri þar sem hafist var handa stuttu eftir fjármálahrunið 2008. Hrunið hafði þær afleiðingar að byggingaframkvæmdir svo til stöðvuðust í landinu og fjölmargir urðu atvinnu- og verkefnalausir, ekki síst iðnaðarmenn. Tímasetningin á byggingu safnsins er mikilvæg í þessu samhengi, en í kreppunni sjálfri og í kjölfar hennar komu vonir fólks sterkt í ljós og kannski er það eitt helsta einkenni þessa tímabils.

Vonir Heidda og safnið

Mótorhjólasafn Íslands er stofnað í minningu Heidda af ættingjum og vinum hans, en þeir hafa haldið því fram að safnið sé draumsýn Heidda. Ég ræddi við nokkra aðstandendur verkefnisins og orðar einn viðmælandi minn það svona er ég spurði út í upphaf safnsins: „allir vissu af þessum draumi hans að
stofna þetta safn. Ég hjálpaði honum t.d. tveim þrem mánuðum áður en hann dó […] að gera tilboð í hús þar sem hann ætlaði að setja svona upp smá kaffihús og safn. Hann var kominn það langt. Hann var mjög alvarlega farin að hugsa um þetta. Og við eiginlega tókum við boltanum, ég og fleiri í fjölskyldunni sem bara ákváðum að þetta yrði bara gert. […] Fyrst er bara undirbúningsvinna, spáð í hvað er best að gera og á þessum tíma er bara ekkert hentugt húsnæði til sölu á Akureyri.
Ekkert nálægt því nógu hentugt í þetta. Þetta er 2007–2008.“ Í samtalinu kom fram að þrátt
fyrir „að allir hafi vitað af draumi Heidda“, náði sú vitneskja ekki til sumra forsvarsmanna innan bæjarfélagsins sem stóðu í vegi fyrir að safninu yrði komið á fót. Ef litið er á Mótorhjólasafn Íslands sem framlengingu á vonum Heidda má spyrja hvaða þýðingu það hefur fyrir frekari uppbyggingu Mótorhjólasafns Íslands? Á sama tíma og fjölmargir sem þekktu til Heidda koma að stofnun og starfsemi safnsins, þá er þekking þeirra á vonum sem Heiddi bar í brjósti um mótorhjólasafn misjöfn: Fjölskylda hans, nánustu vinir, kunningjar og núna almenningur gera sér ólíkar hugmyndir um það
hverjar þessar vonir Heidda voru og hvaða þýðingu þær hafa fyrir safnið.

Lokaorð

Hugmyndir Ernst Bloch um vonina eru gagnlegar til greiningar á söfnum og safnastarfi. Þær gefa tækifæri til þess að kafa djúpt inn að kviku mannsins og eita svara við því hver sé aflvaki og drifkraftur hans til verka. Öll söfn eru afurð vona; vona um að minningum sé haldið á lofti, vona um
að gestir geti tileinkað sér þekkingu, vona um að söfn hafi jákvæð áhrif á samfélagið sem safnið er hluti af og vona um að hafi góð áhrif á sjálfsmynd gesta sinna, svo eitthvað sé talið. Vonir Heidda um mótorhjólasafn hafa eftirmenn Heidda tileinkað sér og hún hvetur þá áfram í starfi fyrir safnið.
En þær vonir eru aldrei fullkomnaðar; það er alltaf eitthvað eftir að gera í safnbyggingu Mótorhjólasafnins og það er alltaf eitthvað mótorhjól sem vantar í safnið. Tönnin í minningarherberginu um Heidda er því fyrirheit um kjarnann í starfi Mótorhjólasafns Íslands.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson,
prófessor við Háskóla Íslands