Formáli
Heimildamaður Sniglafrétta hafði tal af manni nokkrum sem áræðanlega er einn af elstu núlifandi manna er ferðast hefur á mótorhjóli.
Hann heitir Óli Ísaksson og 91 árs.
Það var haustið 1916 að ég fór að vinna hjá H.D umboðinu þá 18 ára.
Vorið eftir (1917) komu fyrstu HARLEY hjólin til landsins, og ég fór strax að prufa þessa nýju fáka og líkaði bara vel.
Þá voru auglýsingar lítið þekktar og voru því starfsmennirnir látnir aka um bæinn og sýna þessa mótorhesta.
Það var um mitt sumar að ég fékk hjól lánað til að skreppa á Eyrarbakka (þar ólst ég upp).
Ég tók daginn frekar snemma lagði af stað frá Reykjavík upp úr
kl 8:00 og ók sem leið lá í hlykkjum og skrykkjum að Kolviðarhóli (Kolviðarhóll er rétt neðan við Skíðaskálann í Hveradölum) Þar var veitingaskáli í gamla daga og var þar stoppað og drukkið kaffi.
Þvi næst var heiðin grýtt og hlykkjótt og skrambi erfið yfir að fara. Næst var stoppað í Hveragerði fyrir kaffi og flatkökur.
Þá var bara láglendið eftir og þegar ég kom á Eyrarbakka var ég búinn að vera tæpa fjóra klukkutíma á leiðinni og þótti það OFSAAKSTUR.
Ég hef heyrt að menn fari þessa leið á 30 mínutum , er það satt ?..
Þegar Óli fór að vinna á skrifstofu H.D. þurfti hann að sjálfsögðu að vera í klæðskerasaumuðum jakkafötum og kostuðu þau 29 kr. En Óli átti bara 9 krónur og tók því víxil upp á 2×10 krónur í tvo mánuði.
Árið 1917 þurftu menn að vera 21. árs til að taka ökupróf og var óli því próflaus í þessari ferð.
1919 tók svo Óli ökupróf og keyrir ennþá bíl og er ökuskirteinið hans nr. 86………
Sniglafréttir 1989