...

4000 hestöfl á faraldsfæti

Glæpagengi eða lagana verðir

Það er föstudagur, sennilega eini föstudagurinn á árinu sem hægt er að kalla flöskudag með reglulega góðri samvisku. Það er föstudagurinn fyrir Verslunarmannahelgi. Hallærisplanið , þar sem svo margur unglingurinn hefur drukkið einkennilega glært kók í aftursætinu á einhverri drossíu og ælt svo út um gluggann um leið og bílstjórinn botnar drusluna og reykspólar fyrir horn í trausti þess að pabbi kaupi ný dekk á morgun, er undirlagt mótorhjólum.

Sniglar Bifhjólasamtök lýðveldisins, eru að leggja af stað í landkönnunar og náttúruskoðunarleiðangur. Landið sem kanna á, er Vestmannaeyjar og hið einkennalega dýralíf sem þar þrífst um þessa mestu ferðahelgi ársins, eins og það heitir hjá Umferðaráði.

Það er barnslegur eftirvæntingarsvipur á andlitum þessara leðurklæddu garpa þar sem þeir tvístíga kringum hjólin og ræða heimsmálin. Það er hins vegar ekkert í fari þeirra sem minnir á börn þegar þeir renna jökkunum upp, skella hjálmunum á toppstykkið og ræsa vélarnar.
Rúðurnar í Morgunsblaðshöllinni titra og kvennaframboðskonur draga í ofboði fyrir gluggana þegar fylkingin mjakast af stað.  Tveir og tveir, hlið við hlið, renna þessir riddarar götunnar fákum sínum út í Aðalstrætið og eru lagðir af stað á vit ævintýra og fagurra kóngsdætra.
Röðin virðist endalaus þar sem hún hlykkjast eftir sundirgröfnu gatnakerfi Reykjavíkurborgar út úr bænum og í átt til Þorlákshafnar. Löggan vinkar bless, eins og umhyggjusöm móðir upp við Rauðavatn óskar góðrar ferðar og Sniglunum finnst þeir eiga allann heiminn skuldlausann.

Lagt í hann til Eyja

 En gamanið fer að grána í Þorlákshöfn.

Niður við höfn sitja, standa og skríkja unglingar á öllum aldri. Glæra kókið rennur í stríðum straumum og vætir kverkar kynslóðirnar sem erfa á landið.
Maður einn, ekki mikill að burðum, frá hinu merka fyrirtæki Ferðaskrifstofu Vestmannaeyja reynir að varna því að hinir tilvonandi Smirilsfarþegar og þjóðhátíðargestir komist fram á bryggjuna. Eftir smá þóf og málalenginngar fá Sniglar að fara með hjólin út á hina eftirsóttu bryggju og stuttu seinna, þegar þegar hinn kókþambandi meirihluti hinum megin við ferðaskrifstofumanninn hefur stækkað um allan helming, biður varðmaðurinn um hjálp. Tíminn líður og það spyrst út að ferjunni seinki um 3-4 klst. Ferðaskrifstofumaðurinn var horfinn eitthvað upp í bæ og Sniglarnir standa vörð við bryggjuendann.
Það er ekki laust við að fólkinu með glæra kókið finnist einkennilegt að einhverjir leðurkæddir mótorhjólagæjar skuli varna því að ganga út á þessa eftirsóttu bryggju. Hvað er þetta glæpagengi að skipta sér af því hvar það drekkur sitt kók og pepsi. Riddurum götunnar finnst það ekki síður skrítið að þeir, sem ætluðu að bregða sér til Eyja sjálfum sér til gleði og ánægju, skuli vera komnir í lögguleik í Þorlákshöfn. Sumir leyfa sér jafnvel að tala ílla um skipulagningu ferðaskrifstofukóngsins, það vanti víggirðingar og meiri gæslu. Sú gagnrýni á að sjálfsögðu engann rétt á sér. Hvernig átti hann að vita að það þyrfti meira en þrjá stráklinga til þess að hafa stjórn á nokkur hundruð meira og minna ölvuðum unglingum? Ég bara spyr.
Loksins kemur dallurinn og smátt og smátt tekst öllum að troða sér um borð. Hjólin eru tekin síðast með tilfæringu. Sú aðstaða, sem Herjólfur notar, passar ílla fyrir Færeyskar ferjur og því er Smyrill losaður frá að aftan og lögð niður brú að bakborðssíðunni.

Rampurinn niður í ferjuna var helvíti brattur

 

Með tæplega 60 mótorhjól, 80 Snigla og 800 dauðadrukkna unglinga innanborðs er síðan haldið af stað til fyrirheitnu eyjarinnar.
Eftir rúmlega tveggja tíma siglingu er lagt að og Sniglar, svona að launum fyrir vel unnin gæslustörf í Þorlákshöfn, meiga gjöra svo vel að bíða á meðan forréttindahópnum með glæra kókið er smalað í land. Það er einkennilegt eins og öllum lá á að komast um borð, að áhuginn á að því að komast í land er næsta lítill. Fólk tínist í rólegheitunum niður landganginn, sumir gera sér ekki einu sinni grein fyrir að ferðin er á enda og enn aðrir eru meira segja sofnaðir af einhverjum undarlegum ástæðum.
Loksins, Loksins er röðin komin að Sniglunum, og á nokkrum mínutum er hópurinn kominn með fasta eyju undir fætur og dekk. Klukkan er 6 að morgni, menn dæsa og spyrja sjálfan sig hvernig er hægt að vera 12 klukkutíma á leiðinni til Eyja, 50 km keyrsla og tveggja tíma sigling.
Það eru líklega fáir sem ekki vita hvernig hin almenna verslunarmannahelgar útihátið fer fram og það þarf líklega ekki að taka það fram að þegar tjaldbúðir höfðu verið reistar, í kringum holu 3 á golfvelli þeirra Vestmanneyinga, voru Sniglar margir hverjir komnir með áðurnefnt kók í hendurnar og farnir að skemmta sér með hinum unglingunum.
Á laugardeginum stunduðu Sniglar náttúruskoðun og aðra þjóðhátíðariðju af miklum móð. Hljómsveit samtakana, Sniglabandið, tróð upp við ágætar undirtektir þjóðhátíðargesta og sendinefnd fór á fund ferðaskrifstofukóngsins til að reyna að semja um afslátt, Sniglum til handa fyrir gæslustörfin í landi. Eftir mikil fundarhöld snéri nefndin til baka og sagði farir sínar ekki sléttar heldur holóttar. Afsláttur á miðaverði ófáanlegur með öllu, þrátt fyrir að föstudagskvöldinu hafi verið eytt við gæslustörf í landi en ekki skemmtan í Eyjum. Þó hefði að lokum samist um að kóngurinn byði mannskapnum í „dinner“, eins og hann kallaði það, á sunnudaginn.
Sunnudagur rennur upp og sólin skín.
Mismunandi vel úthvíldir og timbraðir flatmaga Sniglar í sólinni, spjalla við gesti og gangandi og hugsa sér gott til glóðarinnar. Dinner á Bjössabar. Innfæddir bifhjólamenn renna við og sýna krómaða, tandurhreina stássgripi sína. Gamlir Bretar, BSA, Triumph, og meira að segja 7 stk. Matchless árg 47.
Þegar líða tekur á daginn fara menn að tínast í bæinn. Þennan dag er Vestmannaeyjabær undirlagur af mótorhjólum. Það er sama hvert litið er, allstaðar sjást mótorhjól. Sniglar dóla í rólegheitunum um göturnar og safnast að lokum saman við Bjössabar, sem reynist vera svokallaður skyndibitastaður. Þar kemur í ljós að „dinnerinn“ sem ferðaskrifstofukóngurinn bauð upp á reyndist vera 200kr matarúttekt. 200 kr á mann fyrir 5 klst. baráttu við mörg hundruð dauðadrukkna, óþolinmóða og æsta unglinga. Þvílíkur höfðingi, þvílík rausnarmennska og örlæti. Eins og það hafi verið gaman að hanga klukkutímum saman í skítakulda í Þorlákshöfn, halda liðinu í skefjum, svo það ruddist ekki stjórnlaust út á bryggjuna og træðist undir í æsingnumvið að komast um borð. Og missa í ofanálag af föstudagskvöldinu. Einhverir þágðu þetta raustnarlega boð en aðrir tóku sinn eigin dósamat fram yfir „dinnerinn“  Hvað sem því líður þá verður allavega bið á að Sniglar versli við ferðaskrifstofukónginn aftur.
Menn létu þó ekki örlæti kóngsa skemma fyrir sér ánægjuna af sunnudagskvöldinu og stigu dans og skemmtu sér sem mest þeir máttu það sem eftirlifði dags og nætur.
Á mánudagmorgninum var ræst einhver sú stórvirkasta vekjaraklukka sem sögur fara af.
Sían tekin úr hljóðkútnum á einu hjólinu, það sett í gang og gefið allhraustlega inn. Sniglar spruttu upp, pökkuðu saman á ótrúlega skömmum tíma og voru komnir niður á fhöfn um kl.8:30.

Það var fjara og brúin góða á bakborðsíðunni minnti meira á rennibraut en brú. Hallinn var það mikill niður á við að væru Sniglar kaþólskir þá hefðu þeir örugglega krossað sig áður en þeir óku um borð. Allt gekk þetta samt slysalaust fyrir sig og Smyrill lagði frá landi á réttum tíma. Það var ekki jafn hátt risið á farþegunum þennan morgun og föstudagskvöldið góða. Menn lágu eins og hráviði um allt skip, þegjandalegir og þunnir og úr þeim allur móður. Sumir höfðu samt ekki áttað sig á því að helgin var búin og raunveruleikinn beið glottandi í landi.
Rennibrautin sem blasti við sjónum Snigla í Þorlákshöfn , var engu árennilegri en sú í Vestmannaeyjum. Ef eitthvað var þá var hún mun skuggalegri. Hún var kannski ekki alveg lóðrétt en það var óneitanlega á brattann að sækja.  Til er málsháttur hjá Sniglum sem segir eitthvað á þessa leið: „Ekkert mál, bara purra nógu hratt“ og hann sannaðist einu sinni enn í þetta skitið. Brekkan var tekin með áhlaupi og hvert af öðru skutust hjólin upp á hafnarbakkann.
Skipstjórinn fylgdist með af mikilli athygli og lét hvern sem heyra vildi, vita að hann væri búinn að sigla lengi og hefði margt séð, en elskulegra mótorhjólafólki hefði hann aldrei kynnst.
Þó ýmislegt hafi farið öðruvísi í upphafi ferðar en áætlað var, þá var það vara til þess að gera þessa helgi ógleymanlegri. Aldrei áður hafa jafnmörg hjól allstaðar að af landinu verið saman komin á einum stað og þegar Sniglar „Bifhjólasamtök“ lýðveldisins aka í átt til höfuðborgar lýðveldisins finnst manni að þjóðhátíð þeirra Eyjamanna hafi líka verið þjóðhátið Sniglanna.
Grein frá 1986
Túrbó
Texti  Þormar #13
Myndir Árni Björgvinsson
Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.