Hópurinn staddur í Svartaskógi þar sem hitinn var kominn yfir 30 gráður.

Fern hjón frá Suðurnesjum létu gamlan draum verða að veruleika og ferðuðust 3.800 km á mótorhjólum um Evrópu í lok sumars. Ferðin tók 23 daga, frá 18. ágúst fram til 10.sept.

„Við höfðum farið áður styttri ferð en í þetta skiptið langaði okkur lengri og veglegri ferð,“ sögðu mótorhjólakapparnir í viðtali við Víkurfréttir, þeir Magnús Hafsteinsson, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibergsdóttir, Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir. VF hitti hluta hópsins og spurði aðeins út í ferðina.

 

Hjólin voru sett í hjólageymslur yfir nótt.

 

Hjólin sem hópurinn ferðaðist á voru af gerðinni Honda Goldwing og búin öllum aukahlutum eins og GPS, intercom og talstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki ókeypis að fara í svona langa hjólaferð en áætlaður ferðakostnaður var 500.000 kr. á hjónin en inni í þeim kostnaði var allur flutningur, bæði á fólki og hjólum, gisting og morgunmatur. Áætlunin stóðst að mestu leyti þó leiðin hafi lengst um 1.300 km. „Ferðin lengdist aðeins miðað við áætlun. Þegar við sáum eitthvað áhugavert á leiðinni var bara tekinn krókur. Við vorum ekki bundin við eitt né neitt sem var kostur í þessari ferð,“ sagði Þórhallur. „Einnig ákváðum við að vera ekkert merkt neinum klúbbi né auglýsa að við værum frá Íslandi. Við vorum merktir í fyrri ferðinni okkar og þá lentum við í veseni í Danmörku, en þar var mótorhjólaklúbbur sem hélt við værum eitthvað gengi að leita að veseni, en hlógu svo þegar þeir sáu að þetta voru bara nokkrir félagar og alveg meinlausir.“

Hrafnhildur og Magnús tóku sig vel út á hjólunum enda atvinnumenn þarna á ferð.

 

Voru snemma í undirbúningi
Undirbúningurinn hófst í febrúarmánuði til að ákveða hvert ætti að fara. Hver og einn kom með tillögu um hvað hann vildi sjá og skoða og var á endanum búinn til hringur sem mældist 2.500 km. Þá þurfti að bóka gistingu með geymslu fyrir hjólin, en það er nauðsynlegt að koma hjólunum í skjól. Gistingin var pöntuð með góðum fyrirvara en þessi tími er háanna tími í ferðmennsku um alla Evrópu. Einnig þurfti að koma hjólunum í flutning og varð Samskip fyrir valinu.
Skipulagning ferðarinnar var að mestu leyti lokið í byrjun maí. Júlímánuður fór svo í að yfirfara hjólin. Rúnar, sem oft er nefndur vélstjórinn, sá til þess að allir voru með nýyfirfarin hjól. „Það skiptir miklu máli að vera með allt í góðu standi þegar svona ferð er farin til að minnka líkur á að eitthvað fari úrskeðis. Bremsuklossar, olía, ný dekk, þetta þarf allt að vera í topp standi,“ sagði Rúnar.

Vel gengið frá hjólunum fyrir flutning.

10. ágúst voru hjólin sett í skip og átta dögum seinna var flogið til Amsterdam. Þaðan var lest tekin til Rotterdam til að leysa út hjólin. „Það tók okkur innan við tvo tíma að leysa hjólin út og fóru 30 mínútur af þeim tíma í að bíða eftir leigubílum til að fara á milli skrifstofu Samskipa, tollsins og vöruhússins. Það má segja að Samskip hafi staðið sig frábærlega við alla afgreiðslu því við þurftum aldrei að bíða. Allir afgreiðslumenn vissu af okkur og voru tilbúnir með pappíra og hjólin tilbúin til að keyra út úr vöruhúsi,“ sagði Rúnar.

Frábært veður
Hópurinn lagði af stað á hjólunum frá Rotterdam suður Belgíu, og gisti í Lúxemborg. Þaðan var ekið í gegnum Karlsruhe, Ettenheim í Svartaskógi og hjólunum lagt í

Tekin var regluleg pása til að svala þorsta og njóta veðursins.

Friedrichshafen en þar var gist í tvær nætur. Svo var stefnan tekin á Seehof í Austurríki þar sem eytt var þremur nóttum, enda mikið landslag og margt að sjá. Þaðan var haldið til Ítalíu og gist í fjórar nætur í Reve De Garda. Eftir góða veru í Ítalíu héldur þau til Innsbruck og svo norður eftir Þýskalandi eftir svokallaðri Rómantískuleið sem er ein fjölfarnasta ferðamannaleið Þýskalands í átt að Rínardalnum þar sem þau áttu pantaða gistingu í tvær nætur í Rudesheim. Þar áttu þau tvo frábæra daga í steikjandi hita. Að

Magnús og Þórhallur að grilla við ánna Rín.

Rínardalnum loknum var leiðinni haldið í áttina að Rotterdam. „Við gistum í mjög skemmtilegum bæ sem heitir Aachen. Þaðan fórum við til smábæjar við landamæri Þýskalands og Belgíu sem heitir Etten-Leur en hann er 35 km frá Rotterdam,“ sagði Ólafur. Hjólunum var skilað í skip 8. September og tóku þau lest frá Rotterdam til Amsterdam þar sem þau eyddu síðustu tveim dögunum af ferðinni.

„Veðrið lék ótrúlega vel við okkur. Það var eins og lítið gat í skýjunum fylgdi okkur alla leið því við sáum ekki dropa úr himni. Það var ekki fyrr en alveg í lokin þegar við áttum að skila hjólunum í gáminn að það kom hellidemba. Það var eins og hellt væri úr fötu. En auðvitað pöntuðum við veðrið langt fram í tímann eins og allt annað“ sagði Magnús og hló.

 

 

Hópurinn fyrir framan innganginn í Swarovski safnið í Austurríki. Frá vinstri: Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Hrafnhildur Sverrrisdóttir, Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibersdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir.

Víkurfréttir 2010