Ferðasaga á mótorhjóli
Þriðji kafli.
Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson

Silfureyja

9. júní

Þegar ég leit út um gluggann á herberginu um morguninn sá ég bát í flæðarmálinu og fullt af fuglum í kring, stórum kvikindum, og fólk að bjástra við eitthvað. Það var sem sagt löndun í gangi. Þetta var svolítið öðruvísi en maður á að venjast, því báturinn var opinn, þó með mótor, og fisknum var mokað upp í kassa sem þeir báru svo á öxlunum inn í flutningabíl sem var á ströndinni. Tveir héldu bátnum og tveir báru sjó í bala upp í bílinn. Svo var þarna lítil ísframleiðsla í gám við hliðina á hostelinu. Gaman að sjá þetta svona í aksjón.

 

 

 

 

En ég skellti mér svo í skoðunarferð á silfureyju (Isla de la plata). Á leiðinni út í eyjuna, sem er 42 km frá landi og því góð klukkutíma bátsferð, rákumst við á höfrunga sem voru svo vinsamegir að stilla sér upp fyrir myndatöku 😁🐬. Á þessari eyju er hægt að komast í návígi við sérstaka bláfætta fugla og eyjan er líklega frægust fyrir þá. Þeir kölluðu þá „Blue footed boobies“😆👣. Við fórum í tveggja og hálfs tíma göngutúr um eyjuna með leiðsögn og fengum ýmsan fróðleik, eins og þann að ávextirnir af kaktus um inniheldur metamfetamín í litlu magni, en

þó það miklu að það þarf aðeins 3 glös af honum til að verða út úr heiminum 🤪😵. Svo sögðu þeir líklega alla venjulegu brjóstabrandarana😆. Við sáum líka fugla þar sem karlfuglinn skartar stórri rauðri blöðru á hálsinum á mökunartímanum 🎈.

 

 

 

 

 

Eftir göngutúrinn var svo farið á góðan stað og snorklað. Það hafði ég aldrei gert áður, og þó það tæki nokkra gúlsopa af sjó til að ná tökum á þessu var þetta bara mjög skemmtilegt. Þarna eru kóralrif og heilmikið líf. Svolítið eins og að synda í fiskabúri🐟🐠. Á heimleiðinni hittum við á hnúfubak sem var líka svo vænn að stilla sér upp fyrir myndatöku 😁🐳.

 

Við ákváðum að mjaka okkur aðeins norður á bóginn á morgun og bókuðum herbergi í borginni Manta, sem er í rúmlega eins og hálf tíma fjarlægð. Nú eru öppin þrjú öll ósammála um leið svo ætli ég láti GPS-inn ekki ráða😐.

 

Puerto López – Manta

10. júní

Ég fékk mér morgungöngu á ströndinni áður en við lögðum í hann. Það rekur náttúrulega eitt og annað á land. Einn og einn framandi fiskur og hinir ýmsu ávextir. Og þegar fiska rekur á land eru ýmsar hræætur klárar í slaginn. Á einum stað voru krabbar komnir í hræið en svo kom þarna gammur sem skokkaði (já hann lenti á ströndinni og skokkaði svo um í leit að hræi) og fann sér nokkuð nýlegt fiskhræ þarna á ströndinni.

 

 

 

 

Við lögðum svo af stað til Manta, sem er víst stærsta hafnaborg þeirra Ekvadora og hér ku vera mikil vinnsla og útflutningur á túnfiski. Þetta var frekar stutt dagleið en á leiðinni keyrðum við inn í einhverja hitabylgju! Hitastigið hækkaði allt í einu um allavega 5 gráður. Úr þessum líka fína hita. En jæja maður fær þá að prófa það líka 😓.

 

 

Ég botna ekkert í bjórmenningunni hérna í Ekvador. Það virðist enginn drekka bjór hérna! Ég hefði haldið að það væri allt varðandi í veitingastöðum og fólki að fá sér einn kaldan í þessari endalausu blíðu. En nei maður labbar hér um allt og fólk bara að fá sér ís eða einhverja ávaxtasafa. Ég labbaði hér um Manta í tæpan klukkutíma og sá einn bar, og enginn þar! Ég rölti þá niður á strönd og gekk þá fram hjá röð af börum/básum sem allir voru lokaðir. Og á ströndinni, nei, enginn að fá sér svo mikið sem einn kaldan! Ég gafst þá upp og fékk mér bjór á einum veitingastaðnum. Eini maðurinn í borginni með bjór greinilega. Þannig að ég spurði þjóninn hvort Ekvadorar drykkju ekki bjór, og hann sagði þá sko drekka fullt, þá á laugardögum og sunnudögum. Það væru allir að vinna hina dagana. Og það má til sannsvegar færa. Flestar búðir virðast vera opnar til klukkan níu og þá hlýtur fólk nú bara að vera orðið þreytt og kemur sér þá væntanlega heim í rólegheit.

 

Matta fannst markaðurinn ekkert sérstakur svo við ætlum að færa okkur um set og stefna á að vera tvær nætur í Crucita sem er í um 50 mínútna fjarlægð í norður.

 

Manta – Crucita

11. júní

Þar sem ég gleymdi rakdótinu mínu í Alausi á þriðja degi ferðalagsins er kannski ekki skrítið að alheimurinn vilji að ég fari að gera eitthvað í málunum. Allavega fékk ég þá tilfinningu þegar það fyrsta sem ég rak augun í á morgungöngunni var rakarastofa. Ég spurðist fyrir um verð og það voru heilir sjö dollarar fyrir klippingu og rakstur (todo). Þeir voru hinsvegar uppteknir í fimm mínútur svo ég sagðist ætla að koma aftur. Það tók svo af allann vafa þegar það næsta sem ég rakst á var önnur rakarastofa 🤯.

 

Á göngu minni rakst ég enn og aftur á fjöldan allan af ljósritunarstofum. Ég held að þetta sé sá rekstur hér sem kemur næst á eftir veitingastöðum í fjölda á þessu ferðalagi. Það er líklegast ekki tölva og prentari hér á hverju heimili þó flestir virðist vera með snjallsíma.

 

 

Ég kíkti svo á Museo Municipal Etnografico Canebi. Þetta er lítið safn sem lýsir m.a. því hvernig fólk lifði hér á öldum áður í bambus húsum og ræktaði landið á „frumstæðan“ hátt. Þessir búskaparhættir teljast nú líklega vera sjálfbær og gæti þess vegna orðið vinsæll aftur. Hinsvegar gæti ég trúað að það þurfi ekki að leita langt til að finna mjög álíka búskap hér í nágrenninu. Kannski kominn snjallsími og hugsanlega lítið mótorhjól, en annars mjög svipað.

 

 

 

 

Í bakaleiðinni kom ég við á rakarastofunni og taldi mig hafa alveg nægan tíma, alveg einn og hálfur tími þar til við áttum að tékka út af hótelinu svo ég settist í stólinn. Samskiptin voru frekar einföld. Hárlengd var uno, dos eða tres og þar sem ég vildi rönd setti ég bara puttann og benti á það sem ég vildi að lengdin væri zero😆. Svo ef ég skildi ekki það sem hann sagði þá yrði ég bara öxlum og sagði „sí“😐. Þetta vex hvort sem er aftur 🤪. Undir lokin benti hann á eyrun á mér og sagði eitthvað „tambien“ og ég sagði náttúrulega „SÍ“, vitandi að heilu brúskarnir geta myndast þar yfir nótt að því er virðist nú orðið. Svo benti hann á augabrúnirnar og sagði eitthvað“largo“😆 og að sjálfsögðu sagði ég „SÍ“. Herlegheitin tóku eitthvað á annan tíma og allar græjur teknar fram og ég bara mjög sáttur við útkomuna 😎.

 

 

 

Svo var lagt í hann til Crucita. Þetta var bara stutt ferðalag og þessi bær ósköp vinalegur, og heldur minna ferðamanna umstang en í Puerto López svo það lofar góðu. Samt alveg veitingastaðir meðfram allri ströndinni þannig og meira að segja fólk að fá sér bjór á miðjum degi 👌🍺.

 

 

Eftir einn kaldan fór ég í göngutúr á ströndinni en þegar ég kom til baka var verið að sjósetja litla mótorbáta, talsvert minni en þennan sem ég sá landa í Puerto López. Þeir notuðu gömlu góðu aðferðina að rúlla þeim á trjádrumbum sem þeir selfluttu niður fyrir bátinn aftur og aftur. Þegar báturinn var kominn í flæðarmálið voru körfur með netum settar um borð og bátunum ýtt á flot þannig að þeir sem ýttu þurftu að vaða upp að bringu.

 

 

 

Þegar við komum heim um hálf tíu leytið eftir að hafa fengið okkur kvöldmat voru bátarnir að týnast aftur til baka. Það var gaman að fylgjast með aðferðunum. Landtakan var þannig að á góðri öldu var allt gefið í botn og báturinn þannig keyrður eins langt upp á mjúkan sandinn og hægt var. Svo var kallaður til vörubíll sem dró þá nánast upp að grjótgarðinum. Þar voru netin rakin upp úr bátnum ofan í bala og aflinn, fiskur, krabbi og kolkrabbi svo ég sæi, týndur úr í leiðinni. Líklega hefur kvöldverðurinn minn komið úr einum þessara báta í gær 😊.

 

 

 

 

Á morgun er stefnt á rólegheit í þessum vinalega bæ.

Slakað á í Crucita og nágrenni

12. júní

 

Engin ferðalög eru á dagskrá í dag fyrir utan smá heimsókn í næsta bæ sem er stutt frá. Ég klæddi mig bara eins og margir heimamenn fyrir þessa ferð, í stuttbuxur og stuttermabol, en var náttúrulega með hjálm eins og heimamenn eru reyndar flestir. Það er voða þægilegt að þeysast um svona léttklæddur svona einu sinni, laus svartann mótorhjólagallan. Þegar við rúntuðum þarna meðfram ströndinni sáum við hvar það var mikill atgangur á einum stað. Þarna virðist fiskur nánast hafa gengið á land og menn rokið til með net og náð þarna heilmiklum fiski og nú var verið að landa herlegheitunum. Það er sami háttur á og þegar landað er úr bátunum, þeir fylltu hvern netapokann af öðrum og báru þá svo á öxlinni upp í bíl. Það var náttúrulega allt krökt af þessum stóru fuglum sem voru að næla sér í fisk þarna. Þetta er sama tegundin og þessi með stóru rauðu blöðruna á hálsinum sem ég tók mynd af á Silfureyju. Alltaf eitthvað um að vera við ströndina 🙂.

 

 

Við stoppuðum svo við lítinn ávaxtamarkað við veginn í bakaleiðinni og Matti keypti sér ananas og drekaávexti. Á meðan hann gæddi sér á drekaávexti tók ég eftir að þarna var verið að mala maís í einfaldri græju og svo var þarna í boði brauðbollur bakaðar á staðnum sem eru líkast til gerðar úr þessu mjöli. Þetta kallar maður að bjarga sér.

 

Við ætluðum að fara aðeins aðra leið heim og fundum leið í appinu. Þar rákumst við á það sem okkur virtist vera hrísgrjónaakrar. Nema hvað allt í einu hvarf vegurinn og bara ein lítil og veikluleg hengibrú framundan. Þetta app🤬. En við snerum bara við og fótum sömu leið heim.

 

Þegar við lögðum af stað um morguninn var skýjað og ég hafði ekki fyrir að setja á mig neina sólarvörn, enda yrðum við varla nema um tvo tíma í þessum túr. En við vorum ekki komnir langt þegar það varð nánast heiðskírt á methraða ☀️. Ég fann það þegar ég kom heim að sólargeislarnir sýndu enga miskun. Ég bar á mig sólarvörn þegar við komum til baka og vona að þetta sleppi til ef ég held mig sem mest í skugga það sem eftir lifir dags.

 

 

Á morgun höldum við ferð okkar áfram og ætlum nú frá ströndinni og tökum stefnuna beint inn í land til borgarinnar Quevedo.

Crucita – Quevedo

13. júní

 

 

Nú er það ferðalag aftur inn í land. Við vorum ekki búnir að keyra nema svona hálftíma þegar lögreglan stoppaði okkur við vegaeftirlit. Fram að þessu hafa þeir bara veifað mér áfram og ekkert skipt sér af mér. En ekki í þetta skiptið. Ég var með allt mitt á hreinu, með passann, alþjóðlega ökuskírteinið og skráningarskírteinið sem þeir ná mótorhjólaleigunni afhentu mér. Þetta sýndi ég honum fullviss um að þetta yrði ekkert mál. Þá kemur í ljós að skráningarskírteinið virðist hafa runnið út 2017! 😬 Hann benti á eitthvað ártal sem sýndi 2017 og sagði að þarna ætti að standa 2019! Okkur skyldist á honum að við mættum fara en ekki hjólið🥶. Ég bað hann að bíða aðeins á meðan ég hringdi í leiguna og ræddi við þá, en þá kom í ljós að það var ekkert símasamband akkúrat þar sem þeir voru með eftirlitið🤔. Ég spurði hvort hann gæti lánað síma, en því miður, ekkert signal. Svo var hann að spyrja hvað ég hefði borgað fyrir leiguna á hjólinu og fussaði svo heilmikið yfir því, en svo sagði hann að við gætum jú bara borgað á staðnum og þá gætum við farið. Og verðmiðinn; 100 dollarar.😕 Ég týndi allt til sem ég var með á mér og það voru bara $50. Hann tók við peningnum og sagði okkur að fara. Það fór þá ekki þannig að við lentum ekki í ævintýri þennan daginn.

 

 

 

Þegar við komum svo að hótelinu leit það svo hrörlega út að ég var viss um að þetta væri ekki eign í rekstri og sneri við til að skoða næsta botnlanga. Ekki var hótelið þar svo við spurðum gamlan kall í næstu götu hvort hann vissi um þetta hótel. Nei, hann kannaðist ekkert við þetta hótel. Svo kom líklega dóttir hans út í glugga, og jú hún kannaðist við að það væri þarna þar sem ég fór fyrst. Það reyndist rétt. Það var eins og við værum einu gestirnir í þessu stóra húsi sem mátti muna sinn fífil fegurri, og fúkkalyktin ansi mikil í herberginu. Jæja, þessu má maður búast við þegar maður pantar sér herbergi fyrir $23. Ég held að ég láti eftir mér aðeins betra herbergi hér eftir.

 

 

 

Ég þurfti náttúrlega að ná í meiri pening svo ég rölti af stað í leit að hraðbanka. Þetta app sem ég er með virðist vera með gögn frá fyrri hluta sautjándu aldar svo það er ekkert á því að græða. En ég spurðist fyrir og var bent á hraðbanka alado eitthvað og fljótlega fann ég hraðbanka í þá átt sem bent var. En þetta var svona þversum hraðbanki, þar sem kortið er sett inn þversum og hann virkað ekki frekar en aðrir slíkir. Ég rölti þá áfram og rakst fljótlega á hraðbanka sem virkaði.🙂💵🏧

Ég sá þarna heilmikla verslunarmiðstöð og kíkti það inn. Þetta virkar ósköp venjulegt fyrir utan verðlagið og merkin sem ég hef fæst séð áður. Eftir að hafa fengið mér að borða rölti ég af stað í átt að miðbænum sem mér sýndist vera svo á appinu og eftir svona 20 mínútna labb kölluðu nokkrar konur í mig sem sátu þarna líklega fyrir utan heimili sitt eins og margir gera þarna og var greinilega mikið niðrí fyrir. Ég skildi nú ekki mikið hvað þær voru reyna að segja en þegar ein þeirra greip um kverkar sér, og lét eins og verið væri að kirkja hana 🥺 og þær töluðu um iPhone og taxa, varð mér ljóst að þær vildu alls ekki að ég væri að rölta um þetta hverfi. Þær linntu ekki látum fyrr en ég var kominn inn í taxa. Það er líklega bara best að halda sig á hótelinu þar til við höldum ferð okkar áfram á morgun.😐

Á morgun er stefnan tekin á Quilotoa, sem er stór og mikil gígur með stöðuvatni og af myndum að dæma er þetta ægilega flott. Fólk sem ég var með á Silfureyju talaði líka um þetta sem einn af hápunktum hjá sér.

Quevedo – Quilotoa

14. júní

 

Þeir Ekvadorar eru svoldið að vinna með „ekkert í föstu formi“ í klósettið. Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér hvað það þýðir. Nú er gler strangt til tekið fljótandi, þó vissulega sé það MJÖG seigfljótandi, en þeir vilja örugglega ekki fá slíkt í klóakið hjá sér. En hver er þá skilgreiningin?🤔 Hversu hart þarf harðlífi að vera til að flokkast sem fast efni samkvæmt þessari skilgreiningu 💩. En ég hef nú reyndar ekki þurft að hafa neinar áhyggjur af því hvað mig varðar í þessari ferð. Allra allra allra … allra síst síðustu tvo sólarhringa. Ég kenni Ceviche-inu sem ég fékk mér á þriðjudagskvöldið um að ég er heppinn ef ég verð ekki rekinn úr fótboltaklúbbnum 😉. Ég hef hinsvegar bætt það hressilega upp í dag og er örugglega efni í heiðursfélaga😜. Svo þetta er líklegast allt á réttri leið. En nóttin fór svoldið í að heimsækja gæludýrin á baðherberginu. Það er merkilegt með þessa kakkalakka hvað þeir eru sniðugir. Flakkandi upp í gegn um þessar litlu rífur í niðurfallinu með þessa gríðarlega löngu fálmara og uppáhalds staðurinn var greinilega á milli hurðarflekanna á sturtunni. Og svo til baka ofan í niðurfallið. Þeir voru sem betur fer svo tillitssamir að halda sig við sturtuna svo ég sæi til, svo ég hafði engar sérstakar áhyggjur af því að þeir kæmu upp í rúmið til mín.🤪🕷️

 

Enn var tími kominn á ferðalag. Ég pantaði mér Continental á „hótelinu“ en það voru mestu vonbrigðin til þessa. Jújú það eru fleiri að vinna með Neskaffi en að fá dísætan þykkt blandaðan appelsínudjús í þessu landi ávaxtana er botninn.😞 Við komum við á þremur ávaxamörkuðum á leiðinni út úr borginni og þá var morgunmaturinn bættur upp með ferskum ávöxtum.

Svo var haldið upp á hálendið. Við erum að fara úr um 70 m.y.s upp í ~3800 m.y.s. og enn hærra á einhverjum fjallvegunum😬. Við bjuggum okkur því undir að bæta á okkur fötum á leiðinni svo við myndum ekki krókna á leiðinni. Svo lentum við í rigningu og þoku á leiðinni sem var enn verra upp á kælingu að gera. Enda vorum við fyrst að jafna okkur 5 tímum seinna í funheitu herberginu en þar var þessi fína kamína sem heldur á okkur hita, já og þykkar sængur.

En herbergið var kalt þegar við komum og það var ekki hægt að kveikja upp í kamínunni fyrr en eftir hálftíma, svo við dúðuðum okkur upp eins og við gátum og fórum að leita að upphituðum veitingastað og einhverju heitu í kroppinn. Eftir einnar mínútu labb tók ég eftir skilti sem sagði að það væru 50 metrar í gíginn! Spenningurinn hjá mér yfir að sjá gíginn var kuldanum yfirsterkari 😮 svo ég rölti þarna upp. Þessir 50 metrar eru eitthvað svo látlausir að ég var eiginlega ekki að gera ráð fyrir að sjá mikið frá þessum stað. En svo birtist bara dýrðin 🤩⛰️🌋. Og ekki ský sem skyggði á 😁. Það þýðir ekkert að reyna að lýsa þessum gíg sem er 3 km í þvermál með blágrænu vatni í botninum með orðum. Ég er búinn að sjá margar myndir af þessu fyrirbæri en það er sama með þær. Þetta er einn af þeim stöðum sem maður verður að sjá með eigin augum.

Svo sagði kuldinn til sín aftur og ég fór til baka. Það voru þarna búðir með sjúklega hlýjum húfum og vettlingum svo ég fór beint í að versla mér það. Ég fékk mér neskaffi ☕ svo nú var kominn smá ylur í kroppinn, og ég með rétta útbúnaðinn, svo við röltum aftur upp að gígnum til að njóta hans aðeins áður en við fórum heim á hótel. Sem er nota bene ljómandi fínt 😉 og engin gæludýr sjáanleg😆.

Svo er spurning hvernig staðan verður í fyrramálið, hvort ég rölti niður í gíginn, fer hringinn sem er 10 km eða hvað. Og svo verður stefna tekin til baka til Quito.

Quilotoa – Quito

15. júní

 

 

Ég tók daginn snemma, enda gullfallegur dagur hérna við gíginn fagra. Ég ákvað að fá mér göngutúr ofan í gíginn. Stígarnir voru ansi brattir, og maður fann vel fyrir hæðinni, sérstaklega í bakaleiðinni. Ég tók mér bara góðan tíma í þetta enda veðrið gott og umhverfið einstakt. Á uppleiðinni mætti ég heimamönnum sem teymdu örugglega hátt í 40 múlasna niður í gíginn til að ferja fólk upp. Mikið vorkenndi ég parinu sem ég mætti á leiðinni niður, en þau voru með stóran bakpoka hvort um sig og voru móð og másandi. Ekki minnkaði vorkunnin þegar ég fór svo fram úr greyjunum á leiðinni upp aftur 🥵.

 

 

 

 

Nú fer þetta ævintýri að taka enda því morgundagurinn er minn síðasti dagur í þessu magnaða landi.

 

 

Matti ákvað að drífa sig heim á leið í dag, og ég keyrði hann á flugvöllinn í Quito hvaðan hann flýgur til Cuenca. Þar gistir hann svo í nótt og tekur rútu heim til Fruithaven, en það mun taka allan morgundaginn. Ég skoðaði mig aðeins um í borginni um kvöldið.

 

 

Ég hef hjólið á morgun og ég býst við að nýta mér það og fara að „miðju alheimsins“ sem er safn við miðbaug samkvæmt gamalli mælingu. Það er aðeins 26 km fyrir norðan miðborgina, svo það verður stuttur rúntur. Þeir hittu reyndar ekki alveg á miðbauginn blessaðir (hvaða máli skiptir það svosem) því rétti (GPS) miðbaugur er nokkrum tugum metra sunnar😆. Ætli ég kíki ekki þangað líka.

 

Miðja alheimsins

16. júní

 

Nú allt í einu finn ég hvað ég er orðinn lúinn eftir allt þetta ferðalag. Það hálfgert andleysi í gangi og bara erfitt að hafa sig af stað. En það var rosa gott veður, svo ég fékk mér bara rólegan göngutúr um miðbæinn. Þar eru líka kirkjurnar sem þykja hvað merkilegastar og ég kíkti inn í tvær þeirra. Þarna var búið að stilla upp skemmtilegum markaði á einni göngugötunni þar sem verið var að selja alls kyns handverk.

 

 

Ég tók eftir í ákveðnum götum var mikið um hlaupara og hjólreiðafólk. Svo virðist sem ákveðnum götum sé lokað á sunnudögum til að fólkið geti stundað sitt sport.

 

Eftir göngutúrinn var stefnan tekin á nafla alheimsins „El Centro del Mundo“. Hjólið var geymt í bílageymslu c.a. 150 m frá hótelinu og töskurnar þungar, svo ég ætlaði að sækja hjólið og leggja fyrir utan til að setja töskurnar á. Ég hefði betur munað vandræðin við að komast út úr borginni í upphafi ferðar. Þetta var hálfu verra. Búið að loka helmingnum af götunum í miðborginni og eiginlega ekki nema fyrir kunnuga staðháttum 😜 að gera þetta. Og ef maður tók ranga beygju gat maður lent á hraðbraut út úr miðbænum hvað þá ef maður tók aðra ranga beygju. En ég fór sem sagt marga hringi og lenti þegar verst lét í að vera um 10 km frá hótelinu😵. Og þarna lenti ég líklega í mestri hættu í allri ferðinni þegar ég tók ranga akrein. Ég vildi náttúrulega ekki fara á akrein sem var aðeins fyrir strætó og tók næstu akrein við. En svo áttaði ég mig á að það var strætó að koma á móti mér og ég að keyra meðfram langri stoppistöð😱. Ég sá að ef ég kæmist fram hjá stöðinni gæti ég sveigt til hægri og forðað árekstri. Og þó að það væri ógnvænlegt að gefa allt í botn beint á móti vagninum sá ég enga aðra leið og gaf allt í botn og sveigði frá vagninum sem kom flautandi á fullri ferð á móti mér. Ekki mátti miklu muna!

Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef við hefðum verið tveir á hjólinu þarna og með allan farangur. En jú sjáðu til, þó að það standi að akreinin sé eingöngu fyrir strætó þá átti maður að sjá að almenn umferð átti bara líka að fara þarna🤯. Ég passaði mig allavega á þessu næstu tíu skipti😣.

En eftir ótal tilraunir og eftir að hafa sett inn í appið nokkrar mismunandi staðsetningar, þá fann ég loksins bílastæðahúsið aftur. Einum og hálfum tíma og örugglega 50 km seinna. Ég lagði hjólinu og gerði það sem ég hefði átt að gera strax. Náði í helv. töskurnar á hótelið og setti á hjólið í bílastæðahúsinu.😒

 

 

Þá var loksins hægt að sjá þennan blessaða alheimsnafla. Það var ekkert vandamál að komast þangað. Það er þarna risastór garður með svona Disney væbi í kringum þennan skakkt staðsetta merki um miðbaug, og ég var náttúrulega með GPS-inn af hjólinu til að staðfesta vitleysuna. En ég hélt kannski að rétti miðbaugurinn færi í gegnum garðinn, en ekki einu sinni á nyrsta staðnum í garðinum var ég kominn yfir miðbaug skv. GPS.

 

 

 

Þarna er líka annað safn sem heitir Intiñan Museo og þar er önnur miðbaugslína sem sögð er á réttum stað. Þetta var lítið og sætt safn sem ég rölti um í smá stund þar sem fjallað er um menningu landsins og frumbyggja þess, og ég hefði gjarnan viljað skoða það betur, en ég lét nægja að horfa á skemmtilega danssýningu og rölta aðeins um. En viti menn, GPS-inn var ekki sammála þessari línu heldur! Og hann sýndi hvergi norðlæga breidd í þessum garði heldur. Hvað er þá til ráða? Nú, þar sem þetta blessað tæki er búið að vera mitt viðmið síðustu þrjár vikur var ekki um annað að ræða en að fara þessa metra sem á vantaði. Ég varð að sjá N á breiddarmælingunni 🧐.

 

 

Ég brunaði svo í bæinn til að skila hjólinu. Ég var búinn að steingleyma að það væri sunnudagur og þegar ég mætti var allt harðlæst og lokað. En neyðarsíminn kom til bjargar. Ég ræddi þetta lögreglumál við hann og í ljós kom að skírteinið var auðvitað í fullu gildi. Útgáfuárið var 2017 en gildistíminn er 5 ár og hægt var að sjá hann annars staðar á teininu. Þetta var sem sagt eins og allt sem þessi blessaði löggimann sagði, innantómur endemis þvættingur.😐 Ég tók svo leigubíl út á flugvöll og tók nokkrar myndir á leiðinni sem sýna ágætlega landslagið þarna í borginni.

 

 

 

Nú er heimferðin framundan sem er sama leið og ég kom, sem sagt með millilendingum í San Salvador og New York. Ég er náttúrulega á ódýrasta fargjaldinu sem þýðir langir biðtímar en frá flugtaki hér í Ekvador til lendingar í Keflavík eru áætlaðir samtals 43 tímar frá flugtaki hér til lendingar í KEF.😴

Litast um í New York

18. júní

 

Ég átti næturflug til San Salvador og þar var 12 tíma bið eftir næsta flugi sem var til New York, svo þjóðhátíðardeginum um eyddi ég í bið á flugvellinum í San Salvador. Ég lenti í New York rúmlega 2 aðfararnótt þess 18. og átti svo ekki flug fyrr en að verða hálf níu um kvöldið. Ég reyndi að finna mér einhvern stað til að sofa þarna um nóttina og tókst að ná einhverjum smá svefni. Ég ákvað svo að skella mér í skoðunarferð þennan dag sem ég hafði og skoða borgina.

 

 

 

Horft í baksýnisspegilinn

Nýjársdagur 2020

Það er engum blöðum um það að fletta að þetta ferðalag var stórkostlegt ævintýri. Þetta land er alveg ótrúlega fjölbreytt, með Anders fjallgarðinn sem skiptir landinu í raun í þrjá ólíka heima sem mér fannst hafa þróast mjög lengi hvert í sínu lagi. Þarna eru strendur og láglendi við Kyrrahafði, fjalllendið og svo regnskógurinn. Og svo er þetta allt eitthvað svo stórbrotið og framandi. Samanlagt hef ég ekið eitthvað á þriðja þúsund kílómetra og ferðast um stóran hluta landsins eins og sjá má á myndinni.

 

Matti notaði ferðalagið til að skoða sig um með það í huga að færa sig jafnvel um set. Og það gerði hann svo nokkrum vikum eftir ferðalagið, en þá flutti hann til Saraguro þar sem hann leigir sér íbúð og sinnir sínum hugðarefnum auk þess að vinna við tölvutengd verkefni til að eiga fyrir salti í grautinn.

Ég hvet alla sem tækifæri hafa til að fara til þessa frábæra lands, það verður enginn svikinn af því. Ég mun varla fara í annað eins ferðalag um ævina, en ég mun lifa á þessu lengi.