Eins og þeir sem fylgjast vel með nýjum bílum og mótorhjólum hafa eflaust tekið eftir kynnti Ducati-mótorhjólaframleiðandinn sérstaka útgáfu Diavel í haust sem byggð er á Lamborghini Sian FKP 37, 819 hestafla ofursportbíl. Sá bíll er aðeins framleiddur í 63 eintökum en hjólið frá Ducati verður framleitt í 630 eintökum, og er eitt þeirra nú komið til landsins hjá Italis í Hafnarfirði.

Útlit Ducati-hjólsins byggir að miklu leyti á Sian FKP 37. Auðvelt er að sjá að bæði farartækin nota sama lit en einnig má sjá sama innbrennda gulllit á felgunum sem eru eins formaðar. Diavel-hjólið er líka búið sams konar M50 Brembo-bremsudælum í rauðum lit. Það sem er ekki eins sýnilegt er að hjólið er með klæðningu úr koltrefjum. Álið í felgunum er einnig léttari blanda líkt og í Sian FKP 37. Sexhyrningslaga pústkerfi er líka eitthvað sem ökutækin eiga sameiginlegt. Að öðru leyti er hjólið að mestu eins og Ducati Diavel 1260 með Testastretta DVT-vélinni og stillanlegri Öhlins-fjöðrun. Að sögn Björgvins Unnars Ólafssonar er þetta eina hjólið sem kemur hingað til lands og í raun og veru ótrúlegt að þeir skyldu hafa fengið slíkt eintak til landsins. „Þegar við höfðum samband fyrst eftir frumsýningu þess erlendis var okkur sagt að öll hjólin hefðu þegar verið seld. Okkur tókst þó að tryggja okkur eintak sem komið er til landsins og frumsýnt verður á næstunni,“ segir Björgvin. Hingað komið mun hjólið kosta tæpa sjö miljónir króna. Ducati stefnir nú að því að bjóða fjögurra ára ábyrgð á öllum sínum hjólum í náinni framtíð.

Njáll Gunnlaugsson
Fréttablaðið 3 feb. 2021