Valkyrjur tvær lögðu af stað í ferðalag mikið til þess að skoða sem mest af Evrópu. Farartækið var ekki það sem flestir ferðalangar velja sér — en hvernig skyldi annars Evrópa líta út séð af aftursætinu á mótorhjóli? Þessar ágætu konur heita Valgerður Þ. E. Guðjónsdóttir, nemi í fjölbrautaskólanum við Ármúla, og Sigurborg Daðadóttir, nemi við dýralæknaháskólann í Hannover í Þýskalandi. Þær eru 23ja ára gamlar og við gefurn Valgerði orðið:
Ég hef alltaf haft áhuga á mótorhjólum og reyndar átt hjól sjálf frá 18 ára aldri. Ferðina gekk ég með í maganum ansi lengi og í upphafi ætlaði ég með vini mínum árið áður. En hann komst ekki þá og ég fór að tala um ferðina við Boggu, en hún er systir vinkonu minnar. Það varð úr að við fórum þetta saman og sjáum alls ekki eftir því.
Ferðalagið var í sjálfu sér ekkert erfitt en það hefði verið betra að við gætum báðar stjórnað hjólinu. Svona stíf ferð getur orðið þreytandi fyrir þann sem ekur ef farin er löng leið i einu. En það varð að hafa það, ég ók alla leiðina og Bogga sat bara og hélt sér fast.
Aðalatriðið er maðurinn sjálfur.
Það skiptir engu meginmáli þegar þú ferðast hvort þú ert kvenmaður eða karlmaður og því getur kvenfólk fullvel bjargað sér á slíku ferðalagi. Aðalatriðið er maðurinn sjálfur og að fólk viti hvað það er að gera, ani ekki hugsunarlaust áfram. Fyrir ferðalag sem þetta er nauðsynlegt að verða sér úti um alþjóðlegt ökuskírteini og þar þarf að koma fram að viðkomandi hafi próf á mótorhjól.
Mikilvægt er að hafa hjálm á höfðinu þegar ferðast er um á mótorhjóli og þá hvort sem um stutta eða langa leið er að ræða. Það þarf fyrst að setja upp hjálminn og síðan leggja af stað í öllum tilvikum. Á ferðum erlendis er best að hafa peninga í ferðatékkum og bera þá alltaf á sér. Á mörgum tjaldstæðum eru verðir eða einhverjir staðir þar sem hægt er að láta geyma fyrir sig verðmæti og sjálfsagt að notfæra sér slíka þjónustu. Skartgripi er best að skilja eftir heima, en klukka verður þó að vera með i ferðinni. Gisting á farfuglaheimilum og tjaldstæðum er háð tíma, því þar þarf bæði að mæta innan ákveðinna tímamarka og einnig að losa plássið. Því er víst betra að vita hvað tímanum líður. Gott getur verið að hafa í fórum sínum vasaorðabækur í málum þeirra landa, sem ferðast er um, ef maður er ekki sjálfur sleipur í málinu. Enskan og þýskan fleytti okkur þó nokkuð í þessu ferðalagi og danskan hjálpaði í Danmörku. En það segír sig sjálft að farangur allan þarf að skera mjög við nögl og við tókum svo sannarlega ekki blómakörfurnar með okkur.
Hittumst á Rimini þann þriðja Bogga tók á móti mér í Kaupmannahöfn, þótt hún væri reyndar í prófum í skólanum í Hannover. Í Kaupmannahöfn bjuggum við hjá íslenskum kunningja. Þaðan fórum við beint til Hannover, Bogga í prófið en ég skoðaði mig um á meðan. Þar hittum við nokkrar íslenskar stelpur sem voru á lestarferðalagi. Við mæltum okkur mót á Rimini þann þriðja september og vorum ákveðnar í því að láta það standast.
Við fórum eins og áður segir saman í þetta ferðalag á hjólinu og með allan, farangur á því fyrir okkur báðar. Frá Hannover lögðum við af stað á hádegi þann 24. ágúst og ókum hraðbrautina til Kölnar. Þegar við ætluðum að leggja af stað frá Köln og langt komnar með að pakka tók ég eftir því að allt loft var farið úr afturdekkinu. Þar með var hætt við allt saman, puncture pilot sprautað í dekkið og haldið af stað til að bjarga málum. Það tók bara allan daginn! Fyrst var að finna heimilisfang einhvers verkstæðis og þá að finna verkstæðið. Þegar þangað var komið voru dekkin ekki til og þeir vildu helst panta þau frá Dunlop. Það leist mér alls ekkert á og við lögðum af stað til þess að leita uppi búð sem við höfðum tekið eftir daginn áður. Eftir að hafa villst nokkrum sinnum fundum við búðina og keyptum þar afturdekk og slöngu ásamt bolum með Kawasaki prentuðu á. Þá var að fara aftur á verkstæðið og ljúka þessu. Þegar þangað kom komumst við að því að við þurftum sjálfar að taka
dekkið undan. Þá tók verkstæðismaðurinn við, skipti og ballanseraði, en síðan máttum við svo setja undir aftur. Þá var dagurinn líka úti.
Ítölsk „sjálfsþjónusta“
Daginn eftir héldum við af stað og ókum hraðbrautina til Bonn og síðan þjóðveginn upp með Rín og til Koblenz. Þaðan svo hraðbrautina til Trier og alla leið til Lux. 1 Lux bjuggum við hjá islenskum
kunningja og héldum þaðan til Stuttgart, þar sem við lentum á eins konar uppskeruhátíð. Næsti viðkomustaður var Wangen en þar bjuggum við einnig hjá kunningjum, þýskum strákum sem ég hafði kynnst á leið þeirra um Ísland á mótorhjólum. Þaðan fórum við til Austurríkis og inn í Sviss, milli Alpafjallanna með stuttum áningum. Þar vantaði ekki jarðgöngin og voru þegar nokkur að baki þegar við komum að lengstu göngunum, sjö kílómetrar! Við ítölsku landamærin skipti Bogga öllum dollurunum í svissneska franka og við lögðum af stað til Mílanó án þess að hafa eina líru meðferðis. Því athæfi áttum við eftir að sjá rækilega eftir því ekki leið á lóngu þar til við þurftum að fylla hjólið af bensíni og okkur af kökum. Rennt var inn á næstu bensínstöð og þar var skilti sem á stóð „servicio soci“ og Bogga þýddi það á sinni ágætu itölsku „sjálfsþjónusta“. Við fylltum tankinn og gerðum okkur líklegar til að borga en afgreiðslumennirnir voru ófáanlegir til að taka við seðlunum. Töluðu hvorki ensku né þýsku og gátu ómögulega skilið að við vildum borga bensín sem við höfðum þegar tekið og sett á tankinn. Eftir mikið þóf kom þarna að náungi sem talaði ensku. Hann fræddi okkur á því að „servicio soci“ þýddi viðgerðarþjónusta og ráðlagði okkur að aka beint í burtu. „Bensínið er dýrt á Ítalíu,“ sagði hann glottandi og talaði eitthvað við afgreiðslumennina. Svo sneri hann sér að okkur og sagði best að hendast bara af stað því bensínkörlunum hefði hann sagt að okkur vantaði landakort!
Það var ekki um neitt að velja fyrir okkur og því ókum við af stað sem leið lá þjóðveginn til Rimini. En ég varð nú fljótlega ergileg yfir þessum andsk . . . Ítölum og þeirra akstursmáta svo við fluttum okkur yfir á hraðbrautina.
Í Rimini hittum við stelpurnar, sem við höfðum mælt okkur mót við, og leigðum með þeim hjólhýsi. Þar hvíldum við okkur nokkra daga á ströndinni fyrir síðari hluta ferðarinnar. Næst lá leiðin yfir Appeninafjöllin og þar fórum við þjóðveginn en ekki hraðbrautina — að vilja Boggu! Þar lentum við bæði í rigningu og þoku og hinir bugðóttu ítölsku fjallvegir voru alveg að gera útaf við miðtaugakerfið í mér. Þegar við loksins komumst niður úr fjöllunum fengum við okkur stóra og
góða ítalska máltíð og torguðum öllu. Síðan lá leiðin til Frakklands, inn í Mónakó og til Nizza.
Mótorhjólamótið mikla
En hápunktur ferðarinnar var að komast á mikið mótorhjólamót sem haldið er í Suður-Frakklandi og heitir Bol D’or. Þar vorum við i þrjá daga og tjölduðum, ókum um og skoðuðum hin margvíslegustu mótorhjól. Þarna var saman kominn jafnmikill mannfjöldi og allir islendingar til samans, þannig að þegar kom að hinni reglulegu Bol D’or keppni var allt orðið troðfullt og hitinn næstum óbærilegur. Keppnin stóð alveg í heilan sólarhring og um kvöldið fylgdumst við með henni i miklu moldroki og myrkri. Meðfram girðingunni, sem var i kringum brautina, svaf fólk i hrönnum, annaðhvort í svefnpoka eða bara í gallanum einum saman. Þegar að úrslitunum kom daginn eftir var ekki nokkuð leið að finna smásmugu fyrir nettar og grannar ungar konur sem okkur þar sem sæist til brautarinnar. Þvi fylgdumst við með úrslitunum á einum af sjónvarpsskermunum, sem komið hafði verið fyrir vítt og breitt um svæðið, Suzuki í 1. og 2. sæti og Kawasaki í 3. sæti. Og öll liðin frá Frakklandi. Síðan ókum við í geysilegri mótorhjólaumferð til Valence og gistum þar á heldur veraldlegu farfuglaheimili. Þaðan var haldið til Grenoble og svo til Genfar. Frá Genf til Charmonix þar sem við ætluðum með lyftunni upp á AiguilleduMidi(3842m). Og þvílíkt! Þarna uppi var svellkalt
nema á einstaka skjólbletti sólarmegin. Og fjallafegurðin, Alpakeðjan tvinnaðist þarna eins og ekkert væri! Nú lá leiðin i gegnum Alpafjöllin að landamærum Sviss, en áður keyptum við okkur nesti sem við snæddum á leið til Bazel. Þarna var reyndar, eina skiptið sem við gáfum okkur góðan tíma í slíkt og á bílastæði til hliðar við veginn drukkum við heila rauðvínsflösku. Frá Bazel lá leiðin til Frankfurt A.M. og þaðan í átt til Hannover. Þangað fórum við reyndar með miklum hraði því ekki var laust við að Sigurborg væri komin með heimþrá. 1 Hannover hittum við systur hennar og kunningja sem er í námi þar og ákváðum við að fara saman til Berlínar, bæði austur og vestur. Frá Hannover lá svo leiðin til Danmerkur aftur og þegar fólk gengur með ferðadellu er allt hægt. Við tróðum okkur alls staðar og meira að segja þegar ferðinni átti að vera lokið síðustu dagana í Danmörku tókst okkur að troðast í ferð hjá lýðskóla. Þar græddist dagsferð til Svíþjóðar. Heim kom ég svo 1. nóvember eftir tíu vikna ferðalag og er aldeilis ekki laus við mótorhjólaáhugann ennþá.
Þetta var alveg geysilega skemmtilegt ferðalag og eiginlega ekki síst gaman bara að vera á ferðinni. Mikill munur er að geta farið hvert sem mann langar til og vera ekki bundinn á einhverjum fyrirfram ákveðnum stað. Hópferð á sólarströnd væri ekki minn draumur. Hvað gerist næst veit ég ekki, það er alls ekkert á stefnuskránni á næstu árum að fara að stofna heimili og setjast að einhvers staðar. Núna er ég að selja hjólið og ætla til Danmerkur og Þýskalands i sumar, ég þarf að ná þýskunni örlítið betur. Svo er það skólinn og framtíðin .. . það kemur svo margt til greina.
Helstu hlutir í farangurinn