Ferðalag um Afríku á mótorhjólum
Á rúmlega þriggja mánaða ferðalagi ferðuðust þau Kristbjörg Sigurðardóttir og Magnus Johansson vítt og breitt um Afríku á mótorhjólum. Á ferðalagi sínu kynntust þau nýrri menningu og sáu ótal marga fallega staði.
Hjónin Kristbjörg Sigurðardóttir og Magnus ferðuðust alls 22.000 km á mótorhjólum í mikilli ævintýraferð um Afríku í fyrra. Alls tók ferðin þrjá og hálfan mánuð en þau lögðu upp frá Namibíu þar sem Magnus Johansson hafði verið við störf.
Skipulag og sveigjanleiki
„Í Namibíu er gott skipulag á hlutunum og öll nútíma þægindi að finna. Þaðan keyrðum við um SuðurAfríku og gáfum okkur góðan tíma þar til að venjast umhverfinu, hitanum og hjólunum og gera allt klárt. Við vissum að ferðin yrði snúnari þegar við færum norður austurströndina en aukahlutir í hjólin fást til að mynda bara í Suður-Afríku. Á austurströndinni var þó ekki jafn erfitt að finna gististaði, góðan mat, vatn og bensín eins og við héldum enda eyddi ég næstum hálfu ári í að undirbúa og skipuleggja ferðina á ótal vefsíðum. Þannig höfðum við hugmynd um einhverja gististaði í hverju landi sem er mjög mikilvægt.
Yfirleitt eru gististaðirnir afgirt tjaldstæði með allri helstu aðstöðu. Þeir eru reknir af fólki frá Suður Afríku, Þýskalandi og Bretlandi. Suður-Afríkubúar eru vanir slíkum gististöðum að heiman og þar sem þeir ferðast mikið um Kenýa hefur slík ferðaþjónusta byggst upp þar og víðar. En þrátt fyrir nauðsynlegan undirbúning fær fólk líka góð ráð frá öðrum ferðalöngum og því er nauðsynlegt að vera svolítið sveigjanlegur. Einhver segir þér kannski að þennan tilekna veg sé ómögulegt að keyra af einhverjum ástæðum og þá tekur þú annan betri,“ segir Kristbjörg og Magnus bætir við að helmingur undirbúningsins fari fram fyrirfram en á móti því verði fólk að taka réttar ákvarðanir á ferðalaginu
Tveggja daga heljarreið
Kristbjörg og Magnus ákváðu að áætla sér rúman tíma til ferðalagsins svo þau hefðu sveigjanleika. Það reyndist góð ákvörðun en þau þurftu t.d. að bíða í heila viku í Nairobi eftir vegabréfsáritun til að komast inn í Eþíópíu. Áritunina hafði þeim verið sagt að auðvelt væri að fá en þegar þau bar að garði hafði nýr ráðunautur ákvörðunina í hendi sér og var þeim tjáð að engir ferðamenn færu þangað. Kristbjörg segir hann einfaldlega hafa verið í svoleiðis skapi þann daginn að honum fannst ekki að þau ættu að fá leyfið. Magnus segir að fólk verði að skilja að allt fyrir neðan Kenýa sé „létt“ Afríka, eins og hann orðar það. Á leiðinni frá Kenýa til Eþíópíu tekur hins vegar allt annað við en leiðin þangað er þekkt undir nafninu „Hellroad“. Sú leið liggur um eyðimörkina fyrir norðan Nairobi þar sem fólk keyrir stanslaust í tvo daga í miklum hita en aðeins einn áfangastaður er á leiðinni. Þegar komið er að landamærunum er þar aðeins lítil landamærastöð en enginn fær að fara lengra nema hann sé með nákvæmlega rétta pappíra. Pappírarnir skipta miklu en þau Kristbjörg og Magnus þurftu bæði að hafa vegabréfsáritanir fyrir sig fyrir hvert land sem þau heimsóttu og sérstakt leyfi fyrir hjólin.
Æfði sig úti í skógi
Þau Magnus og Kristbjörg eru sammála um að það sé skemmtilegur og öðruvísi ferðamáti að ferðast á þennan hátt. Enda sjái fólk allt sem fyrir augu þess ber mjög nálægt. Þau ferðuðust um á sérstaklega útbúnum enduro-hjólum. Slík hjól eru mjög vinsæl í Suður-Afríku og sérætluð í slíkar ferðir.
Hægt er að bæta ýmsum aukahlutum við hjólin og keyptu þau hjónin sérstök dekk sem reyndist vel því um leið og þau komu inn í Mosambique urðu vegirnir mjög slæmir. Eðlilegt þykir að á slíkri ferð springi allt að tíu sinnum hjá fólki en það gerðist aðeins einu sinni hjá þeim Magnusi og Kristbjörgu. Þá gerðu þau samning við bifvélavirkja í Suður-Afríku um að senda sér aukahluti ef eitthvað vantaði. Það kostaði sitt en borgaði sig þar sem slíka þjónustu er ekki að fá á austurströndinni. Magnus hefur nokkra reynslu af mótorhjólum en Kristbjörg tók próf árið 2007 og hefur síðan þá keyrt götuhjól. Hún fékk lánað enduro-hjól Magnusar áður en þau lögðu af stað og æfði sig úti í skógi í Svíþjóð. Hún segist þó hafa verið dálítið óörugg til að byrja með en það vildi til að flestir vegir í Afríku eru malbikaðir þó þeir séu ekki endilega góðir. Kristbjörg segist þó frekar vilja keyra um í Afríku heldur en í Asíu. Í Afríku sé mikið um fólk og dýr á vegunum en ekki jafn mikil bílaumferð og í Asíu. Þau leggja áherslu á að mikilvægt sé að pakka eins litlu niður og hægt er því að nauðsynlegt er að taka með sér aukahluti, tjald og prímus.
Spennandi fótboltaleikur
Magnus hafði látið sig dreyma um slíka ferð í nokkurn tíma og tók Kristbjörg vel í hugmyndina þó að áður hefði henni ekki dottið í hug að fara slíka ferð á hjólum. Magnus og Kristbjörg heimsóttu alls tíu lönd en segja Súdan hafa komið sér einna mest á óvart. Þar séu mjög fallegar strendur niðri við Rauðahafið og náttúran stórbrotin. Þar er einnig hægt að skoða píramída líkt og í nágrannalandinu Egyptalandi en Súdan hafi það fram yfir að þar sé mun minna um ferðamenn. Einna besta matinn í ferðinni segja þau hafa verið hefðbundinn eþíópískan mat. Þar er venjan að bera fram ýmiskonar kjöt og grænmeti á stórri pönnuköku sem fólk notar síðan til að rúlla matnum inn í. „Þeir taka lífinu rólega í Afríku og er nokkuð sama um næsta dag svo lengi sem þeir eiga eitthvað að borða. Það er góð reynsla fyrir okkur Vesturlandabúana, sem erum alltaf í stressi, að kynnast slíku og gætum við lært mikið af þeim. Margir eru vissulega fátækir í þessum löndum en njóta samt lífsins eftir bestu getu,“ segir Magnus.
28.7.2011