Lagt upp frá Nesradíó
Lagt upp frá Nesradíó kl 9. Þangað mættu að sjálfsögðu betri helmingar okkar beggja til að vinka okkur bless. Einnig kvaddi okkur þarna í Síðumúlanum Bjöggi ritari BMW hjólaklúbbsins og altmugligman á þeim vetvangi, einn af styrkustu stoðum þess ágæta selskapar. Til að auka enn á ánægju þessa augnabliks og gefa því aukið vægi gaf Kristján hringfari sér tíma til að koma og gefa okkur síðustu heilræðin fyrir brottför og mætti auk þess færandi hendi með sætabrauð og kruðerí til að hafa með síðasta kaffisopanum í höfuðborginni að sinni. Jafnframt stóð sá mikli globetrotter fyrir myndatökum með skipulögðum uppstillingum af þeim sem þarna voru. Að aflokinni þessari kveðjustund héldu ferðalangarnir út í suddann, hlakkandi til komandi ævintýra.
Ákveðið var að fara norður um þar sem veðrið yrði skárra þar. Engu að síður vorum við í súld eða rigningu mestan part leiðarinnar til Mývatns, þar sem við gistum, nema rétt þegar við ókum gegnum Skagafjörðinn, þar var þurrt á okkur. Þegar veðurkortið var skoðað á netinu var eins og yfir þjóðveginum norður um land lægi mjór en massífur regnskýjafláki og ókum við sem sé undir honum, en einhvern veginn tókst Skagfirðinum að klippa á hann og halda utan við sitt áhrifasvæði. Í Borgarnesi bættist þriðji maður í hópinn, Garðar flugmaður og radíóvirki, en hann hafði boðið okkur gistingu í myndarlegu gistihúsi við Mývatn, sem hann rekur þar ásamt bræðrum sínum.
Á Akureyri ræddi ég það við samferðamennina að við ækjum Víkurskarðið, því ég ákvað það þegar Vaðlaheiðargöngunum var kippt út úr gangnabiðröðinni á sínum tíma og troðið fram fyrir mikilvægari framkvæmdir á þeim vettvangi, að ég myndi aldrei styrkja þetta projekt með því að aka þar um og greiða skattinn. Félagarnir vildu nú heldur fara þessa styttri leið og töldu mig á að koma með, í ljósi þess að mótorhjól eru undanþegin vegaskattinum, því gæti ég með góðri samvisku ekið þar um án þess að skilja eftir krónu hjá því fyrirtæki. Skemmst er frá því að segja eftir akstur í súld og regni lenti maður þarna í göngunum í öflugum þurrkara, því hitinn inn í fjallinu fór upp í 34 gráður. Þar sem kompaníið hafði ekkert af mér fyrir að fara þarna um, leyfði ég mér að vera áfram sáttur við minn innri mann. Um kvöldið snæddum grillmat hjá Garðari hótelhaldara og gengum saddir og sælir, frekar tímanlega til náða. Eknir 479 km.
Súld í Mývatnssveit
Súldin fylgdi okkur þennan morgun út Mývatnssveitina, en á Mývatnsöræfum vorum við komnir í þurrara veður sem breyttist svo í sólskin á Möðrudalsöræfum og hélst þannig út Jökuldalsheiðina og í raun það sem eftir lifði dags. Fjalladrottningin skartaði snækolli og gladdi augað sem endranær, þar sem hún rís upp úr umhverfinu og gnæfir yfir dyngjur og önnur fjöll sem umhverfis hana liggja. Þar sem við liðum þarna áfram á okkar fráu farskjótum, rifjuðust upp ferðirnar inn í Herðubreiðarlindir og Öskju á gömlum breyttum hertrukkum, þegar maður ungur að árum vann við leiðsögn hjá Safaríferðum Úlfars Jacobsen, áður en Ísland komst í tísku og fjöldanum fannst ástæða til að leggja lykkju á sína ferðamannsleið hingað norður í næturbirtu og ofurverðlag. Þetta voru sannar ævintýraferðir, tjaldgisting og eldhúsbíll og stundum slark, en fyrst og fremst yfirmáta skemmtilegar reisur.
Fengum okkur miðdegissnarl í alveg hreint stórskemmtilegri matsölu á Egilsstöðum. „Skálinn Diner“, heitir vertshúsið og er vægast sagt virkilega vel útfærður amerískur „diner“, eins og maður hefur upplifað þá vestra og séð í ótal kvikmyndum. Og aðalatriðið, maturinn frábær og vel útilátinn, algerlega í stíl við það sem maður kannast við frá USA. Síðan áttum við bara eftir hina stuttu en bugðóttu leið niður á Seyðisfjörð þar sem ferjan bíður. Brunuðum þetta í einstakri veðurblíðu. Á Seyðisfirði súnnuðum við okkur í sólinni, fengum lánaðan torklykil nr 50 á verkstæði við höfnina, til að herða skrúfu á skjólhlíf við handfangið á hjólinu mínu og endurskipulögðum farangurinn á hjólin, því nú voru yfirhafnir og skjólflíkur tjóðraðar við fákana áður en þeir yrðu strappaðir niður í kvið ferjunnar. Snæddum síðan kvöldskattinn á Öldunni, ljómandi fiskur og franskar, nýr og safaríkur fiskurinn í orlydeiginu akkúrat hæfilega eldaður. Sérviskan í manni er komin á það stig að þegar ég panta fisk á veitingahúsi, sem ég geri oftast, er ég gjarnan haldin hálfómeðvitraðri spennu yfir því hvort fiskurinn verði nokkuð ofeldaður, er þó ekkert að velta því mikið fyrir mér en fagna ævinlega þegar fiskurinn reynist ferskur og safaríkur.
Þegar við keyptum farmiðana í ferjuna 26. mars var uppselt í allar skárri vistarverur þessa stóra skips, þannig að okkur bauðst enginn kostur annar en svefnpokapláss í 9 manna klefa neðan við sjólínu, þrír kojurekkar og þrjár hæðir í hverjum, takk fyrir. Þar sem þetta er nú bara þriggja nátta gisting má svo sem alveg vel við una.
Eftir að hafa tjóðrað hjólin drifum við okkur niður til að koma okkur fyrir. Tryggðum okkur fletin á fyrstu kojuhæð af þremur og skröltum svo upp á dekkbarinn á áttundu hæð ferjunnar og héldum okkur í efri byggðum þar til ferjan lét úr höfn, en þá skröngluðumst við niður til að forvitnast um herbergisfélaga. En sjá, enginn hafði bæst í klefann, þannig að við fögnuðum því að hafa þetta rými fyrir okkur, alla vega til Færeyja. Búið var að segja okkur að ferjan væri full þaðan til DK, en nú gátum við alla vega hrotið hvor í kapp við annan án þess að hafa áhyggjur af samferðafólki.
Á barnum á sjöttu hæð var færeyskur skemmtikraftur með hljómborð sem söng af miklum krafti og innri gleði jafnt gömul djasslög, eldri slagara og eurovision vinningslög og gerði kappinn stormandi lukku hjá klíentalinu þar sem við radíóvirkinn vorum í hópi yngstu áheyrenda. Með tóna þessa hressa trúbadors í skynfærunum héldum við niður í neðri byggðir og lögðumst þreyttir hvor í sinn sekk. Eknir 198 km.
Á götur Færeyja
Sváfum út og drifum okkur svo í morgunverðarhlaðborðið. Síðan leið tíminn við lestur, myndasorteringar í tölvu og síma og annað daml. Komum til Þórshafnar um þrjúleytið og þó hann væri frekar súldarlegur ákváðum við að láta slag standa og drífa hjólin út á götur Færeyja. Við vorum varla komnir út úr skipinu þegar hann byrjaði að rigna fyrir alvöru, svo þá var bara að drífa sig í regnbuxurnar. Radíóvirkinn smeygði sér í sinn eiturgula vatnshelda samfesting en sjálfur leitaði ég árangurslaust að regnbuxunum sem haldið höfðu mér þurrum langleiðina hingað. Eftir að hafa farið í gegnum allar þrjár töskur hjólsins og sjópokann sem strappaður var á farþegasætið, rak ég höndina í buxurnar, en ég hafði vafið þeim þéttingsvel upp og stungið í vasann á bosmamiklum hlífðarjakkanum sem ég var í. Ánægður með að hafa hvorki týnt neinu né gleymt til þessa, klæddist ég flíkinni og við trilluðum inn í rigninguna, sem þó varð til að þess að Færeyjatúrinn varð mun styttri en til hafði staðið og flúðum við regnið inn í skipsskrokkinn fyrr en ætlað hafði verið. Hengdum blautan fatnaðinn á hjólin til þerris, drifum okkur í heita og kraftmikla sturtu og mættum svo upp í almenning, hreinir og hressir.
Campari orange fyrir matinn, hlaðborð og síðan upp til að hlusta á trúbadorinn skemmtilega. En úps, nú var kominn einhver gítargutlari sem stóð fyrri skemmtikrafti langt að baki og hélt hann okkur ekki lengi á svæðinu. Neðanþilja hafði enginn bæzt í klefa 2203 og höfðum við því þessa vistarveru áfram fyrir okkur sjálfa, þótti það ekki verra. Greinilegt er að þessi ómerkilegu gistirými teljast ekki með þegar upplýst er um bókunarstatus farkostsins mikla. Radíóvirkinn vill meina að þetta séu ósamþykktar íbúðir.
Djúpar rökræður um einskis nýt mál
Sváfum til 9 í okkar lúxusbeddum og vörðum deginum svo í að damla um dallinn í meðvituðu stefnuleysi og þægilegri ómennsku, ýmist lesandi, skrifandi eða í djúpum rökræðum um einskis nýt mál.
Ferjan til Hirtshals
Vöknuðum tímanlega, tæmdum vistarveru okkar og hófum svo bið eftir því að ferjan leggðist að bryggju í Hirtshals. Um ellefuleytið runnu hjólin úr skipsskrokknum yfir á danskt malbik. Brunuðum sem leið lá um danska jafnsléttu, framhjá kornökrum, maísökrum og grænmetisgörðum, staðarlegum stórbýlum og nýábornum túnum þar sem skelfilegur skarnafnykurinn fyllti vitin. Þóttumst sælir að þessi óværa var ekki viðvarandi og komumst við óskaddaður í gegnum þennan þátt dansks landbúnaðar. Við vorum óþreyttir og slóum því undir nára, lögðum gömlu herraþjóðina að baki og stungum okkur vel niður í Slesvig og Holsetaland. Radíóvirkinn mundi eftir Vindmillunni, hóteli sem við höfum gist á áður og var ekki stoppað fyrr en þar var rennt í hlað. Heppnir, þar voru laus herbergi, en aðeins eins manns. Fengum sitt hvort verelsið, á sama verði og ég greiddi fyrir svefnpokapláss í Landmannalaugum fyrir 4 árum. Mér skilst að verð á þeim hafi hækkað verulega síðan.
Byrjuðum á að skola af okkur svitann eftir að hafa ekið um kappklæddir í yfir 30 stiga hitanum hér. Ekki ónýtt að geta breitt úr sér og öllu sínu án tillits til nokkurs manns í þessu vel rúma zimmer nr 153. Smá hvíld fyrir matinn og svo niður á huggulegt patíóið í kvöldskattinn. Þar sem við vorum nú komnir í schnitsel-beltið, þótti ekki við hæfi að fá sér neitt annað en Jaeger-schnitsel með sveppasósu og salatskál. Þegar þessum standard þýskrar matargerðar hafði verið hesthúsað undir pergólu úti á verönd stóðumst við ekki freistinguna að fá okkur eftirrétt, kirsuberjatertu með þeyttum rjóma. Var desert þessi á sama verði og prinspólókex í sjoppu á Íslandi. Mettir og morrandi skreið síðan hvor inn í sitt kamesi. Eknir 527 km.
Hraðferð til Dresden
Á dagsskránni var einfaldlega hraðferð í suðurátt, markmiðið að ná til Dresden fyrir myrkur. Reyndar gerðum við smá hlé á þeysireiðinni í Berlín, en þar við snæddum miðdegisverð með systursonum Guðmundar, þeim Andra og Sölva og kærustu þess síðarnefnda. Hittum þá á matsölu í námunda við heimili þeirra og áttum með þeim skemmtilega stund. Þarna við hliðina er mikill skáli sem hýsir hluta af samgöngusafni Berlínar þar sem m.a. má sjá margar kynslóðir sporvagna, allt frá vögnum, sporvögnum sem sé, sem dregnir voru af hestum, til vagna sem voru í notkun vel fram yfir síðustu öld. Líka farartæki sem voru í „einkaeigu“ nafnkunnra, t.d. Range Rover Honeckers, en sá var lengi æðsti strumpur í DDR (Austur-Þýskalandi). Til að reyna að fela kapítalískar tilhneigingar forsetans sáluga (ekki gott til afspurnar að aðalritari öreiganna í þýska alþýðulýðveldinu aki um á breskum lúxusvagni), þá var Range Rover merkið fjarlægt af bílnum sem og aðrar einkennismerkingar. Einnig var bíllinn lengdur að aftan og huggulegu útliti þessa eðalbíls rústað eins ósmekklega og hægt var.
Berlín kvödd og hjólunum stýrt áfram suður Brandenburgarland og ekki slegið af fyrr en við vorum komnir inn í höfuðborg Saxlands, Dresden. Fórum við þarna meira og minna sömu leið og við ókum með Hringfaranum 2014, enduðum á sama hóteli, Motel One, fórum á sama veitingastaðinn til að snæða um kvöldið og ég held svei mér þá að ég hafi fengið mér sama réttinn af seðlinum. Stundum er gott að treysta bara á það sem maður þekkir og hefur gefist vel. Gerðum matnum svo góð skil, að þörf var á heillöngum göngutúr, bara til að hjálpa meltingunni og koma matnum til að sjatna áður en lagst var í hvílu. Eknir 470 km.
Motel One
Frá Motel One var örskots akstur að einu búðinni sem var á dagsskrá að versla í í langferðinni allri, sem sé BMW Niederlassung, þar sem kaupa þurfti ýmislegt smálegt og þiggja óverulega þjónustu. Að því stússi loknu var haldið sem leið lá í átt að Krakow. Tilbreytingarlítill hraðbrautarakstur og svo fór hann að rigna. Héldum allnokkurn spöl inn í regnið, en ákváðum að koma okkur bara til Krakow í þurru morguninn eftir og renndum inn að fyrsta besta bæ sem á vegi okkar varð. Lentum á snotrasta hóteli í Brzeg, hvernig sem þið nú viljið bera það fram. Eknir 338 km.
Krakow
Stuttur akstur í ágætis veðri, ekkert sérstaklega hlýtt þó, byrjuðum í sólskini og huggulegheitum en svo þykknaði upp og hitinn fór niður í 14 gráður um það við renndum inn í Krakow. Á Park Inn hótelinu fengum við stæði fyrir hjólin í bílageymslu, alltaf tryggara að hafa þau innanhúss. Hótelið er svona korters rölt frá aðaltorgi bæjarins, handan árinnar Vislu og hentaði okkur að snæða miðdegissnarlið á þeirri leið. Eftir að hafa síðan farið aðeins um og skoðað markverð torg og byggingar þáðum við leiðsögn og akstur með golfbíl um bæði gamla gyðingahverfið annars vegar og gettóið hins vegar, þar sem gyðingum var safnað saman og umgirt fyrst með gaddavír og síðan með múr.
Hverfið þar sem gyðingarnir bjuggu fyrir stríð var lengi í niðurníðslu, en er í dag orðið afar hipp og kúl. Þar eru margar sýnagógur og eitt af þekktari nöfnum héðan er ekkert minna en snyrtivörudrottningin Helena Rubinstein, var m.a. farið með okkur að húsinu sem hún ólst upp í. Það jók mjög á hróður hverfisins að Spielberg tók mörg skot í mynd sína „Schindlers list“ í þessu hverfi. Í skoðunarferð okkar komum við einnig að húsinu sem hýsti verksmiðju Oskars Schindlers.
Fyrst og fremst er Krakow afar falleg borg með torg sín, kirkjur, slot og hallir. Áhugaverður og fræðandi eftirmiðdagur í sarpinn. Eknir 236 km
Besta kaffið til þessa
Besta kaffi sem ég hef fengið í ferðinni til þessa, hérna hjá Park Inn Radisson í morgunverðarhlaðborðinu. Stórir fantar, lét renna í krúsina americano og svo double espresso út í. Loksins kaffi sem bragð er að. Ljómandi árbítur, pakkað og haldið af stað. Stefnan sett á Slóvakíu, yfir Tatrafjöllin sem liggja á landamærum Póllands og Slóvakíu og síðan raunar bara áfram í gegnum þennan eystri hluta gömlu Tékkóslóvakíu og niður í Ungverjaland.
Náttúran á leiðinni kom skemmtilega á óvart. Þarna syðst í Póllandi og áfram yfir landamærin var eins og maður væri kominn í Alpana, snotur þorp með fallegum húsum og vel hirtum görðum, smáhótel og veitingastaðir hvert sem litið var. Ljóst að þarna eru mikil skíða- og útivistarsvæði. Fjöll og dalir, hæðir og ásar, vistlegar byggðir, kýr í haga og geitur á beit, allt gladdi þetta augað á yfirreið okkar um þenna hluta Evrópu, sem við upplifðum báðir nú í fyrsta sinn.
Ákváðum að ferðast heldur austan við helstu hraðbrautir sem varð til þess að eknir voru endalausir fjallvegir, mjóir, brattir og bugðóttir og víða hafði malbikið séð sinn fífil fegurri. Radíóvirkinn er eins og fiskur í vatni í þessum aðstæðum, en sjálfur þarf ég að hafa mig allan við til að fylgja honum eftir. Fengum okkur miðdegishressingu í Vysoke Tatry, smábæ einhvers staðar þarna fjöllunum í miðri Slóvakíu. Þjónustustúlkurnar minntu svolítið á staðalímynd af Alpastúlkum með flétturnar sínar.
Þegar eknar eru svona krókaleiðir næst ekki að leggja miklar vegalengdir að baki. Renndum inn á hótel Viktoria um hálfsjöleitið, báðir frekar dasaðir en sælir með yfirreið dagsins. Eknir 357 km.
Á slóðum Jeremy Clarkson
Stuttur en snarpur göngutúr um bæinn svona til að liðka skankana og koma blóðinu á hreyfingu, áður en við settumst að morgunsnæðingi. Að afloknum árbít voru gps-tækin á hjólunum stillt á Sibiu, borg rétt norðan við Karpatafjöllin, þar sem hinn margfrægi 100 km langi, snarbugðótti vegur Transfagarasan liðast yfir fjallgarðinn og Jeremy Clarkson gerði skemmtileg skil í einum af sínum mögnuðu Top Gear þáttum.
Ókum í dag um landbúnarðarhéruð, ýmist í hæðóttu landslagi, jafnvel fjalllendi, sem og yfir víðáttumiklar sléttur, fyrst í Ungverjalandi og síðan tók Rúmenía við. Mest bar á víðfeðmum sólblómaökrum á víxl við enn stærri maísakra, inn á milli heljarinnar grænmetisekrur og ávaxtatré. Á landamærunum yfirgáfum við Shengen og þurfti því að framvísa passa, ökuskírteini, skráningarskírteini hjólanna og staðfestingu á tryggingum. Þetta var allt til taks og fór ungverska daman fyrst yfir gögnin og þegar hún hafði samþykkt skilríkin fyrir sitt leyti, að afloknu miklu kontróli í tölvum embættisins, rétti hún ábúðarmikil rúmenskum starfsbróður sínum á skrifstofunni við hliðina dokumentin og fór hann einnig skilmerkilega yfir þau áður en við fengum þau aftur í hendur og héldum för okkar áfram.
Akstur um sveitavegi og samfellda keðju þorpa sem þeir þræða sig í gegnum, er tafsamur, meira og minna er á þessum brautum 50 km hámarkshraði. Nokkuð var einnig um krókótta fjallvegi, stundum með ofurslitnu malbiki, þannig að við komumst ekki alla leið á áfangastað, en renndum inn í smábæinn Aiud og duttum inn á hótel, ja hvað haldið þið, nema Viktoria, en af annarri stjörnugráðu en gistihús síðustu nætur með sama nafni. Eknir 365 km
Vlad Dracula
Frá Aiud var ekið beinustu leið í Bran kastala í Transilvaníu, sem að sjálfsögðu er langt frá því að vera bein leið. Enn og aftur landbúnaðarhéruð og svo kræklóttir fjallvegir í bland. Mikið er um vegaframkvæmdir, víða búið að fjarlægja annan vegarhelminginn á ca 1-3 km löngum köflum til að byggja alveg nýjan og hinn helmingurinn tekinn síðar. Umferðinni varð eðlilega að stýra með umferðarljósum og mynduðust langar biðraðir við rauða ljósið meðan bílastrollan silaðist framhjá úr hinni áttinni og þannig á víxl. Þar fyrir utan er búið að byggja nýjar hraðbrautir og fleiri í smíðum. Nýja gps tækið mitt sem ég keypti hjá BMW fjöldskyldunni í Dresden er með 2017 uppfærslu, sem ég hafði ekki hugmynd um, hélt einhvern veginn að þegar svona fín tæki eru keypt af jafn virtu fyrirtæki, að þá væri það afhent með nýjustu uppfærslu hugbúnaðar. Þeir béemmvaffarar fá þarna stóran mínus í kladdann fyrir skammarlegan skort á þjónustu. Inn á 2017 uppfærslunni eru ekki allar nýju hraðbrautirnar sem við ókum og því var vélhjólakallinn á skjánum hjá mér akandi úti í móa, klórandi sér í hausnum, hálf áttavilltur ræfillinn.
Á leiðinni ber margt fyrir augu, mikla akra, landbúnaðartæki af stærri gerðinni, þorp og bæi og skógi vaxna ása og fjöll og eins og vera ber í sannkristnu landi, sægur af margturna guðshúsum eins og tíðkast í austurkirkjunni.
Í Bran kastala bjó á 15. öld Vlad Tepes prins eða Vlad Dracula (sem var ættarnafnið). Hann átti í styrjöldum, bæði um völd við þá sem nærri honum stóðu, en einnig var héraðið Vallakía, þar sem hann barðist um völdin, í stöðugri baráttu við Ottomannaveldið (Tyrki), sem héraðið heyrði undir. Þegar hann hafði sigra, lét hann gjarna stjaksetja og staurfesta þúsundir úr liði andstæðinganna án minnstu miskunnar og festist þar af leiðandi ímynd blóðþyrstrar skepnu við prinsinn. Bækur um grimmd þessa þjóðhöfðingja voru meðal fyrstu metsölubóka á þýska málsvæðinu og voru þær kannski að nokkru undanfarar bókarinnar sem Bram Stoker skrifað um vampíruna Dracula greifa árið 1897 og hefur sannarlega haldið nafni þessa kaldrifjaða stríðsmanns á lofti.
Kastalann skoðar maður í ljósi sögu þessa manns, án þess að byggingin sem slík sé sérstaklega eftirminnileg nema kannski horrortólin, sérhæfð tæki til viðurstyggilegra pyntinga. Hins vegar er í næsta nágrenni annar kastali, Peles, sem er algert djásn í sínu umhverfi, jafnt utan sem innan.
Þetta slot vildum við að sjálfsögðu upplifa líka, svo stefnan var tekin þangað eftir gott og sterkt kaffi og skál af ís. Á leiðinni lentum við í 10 km umferðarteppu, því það var einhver bæjarhátíð í smábæ sem við ætluðum að fá okkur gistingu í, en þar var þá náttúrulega ekkert rúm að fá. Ekki vorum við þó jafn illa staddir og Jósef og frú hér um árið, sem urðu að láta sér fjárhúsið duga til næturgistingar, við ókum bara spölkorn lengra og fengum inni á Hotel Maximilian í Busfeni, uppi á hanabjálka, í hálfgildings íbúð, fyrir jafngildi hálfs svefnpokapláss í Landmannalaugum. Karlinnn sem rekur gistinguna kom úr húsi sínu ofan við hótelið með flösku af plómusnafs og hellti í 2 staup við innritunarborðið og lét okkur ekki hafa herbergislykil fyrr en við höfðum tæmt glösin. Þetta var hans eigin framleiðsla og bara skratti gott. Eknir 298 km.
Fínn sumarbústaður
Bygging Peles kastala hófst árið 1873, var í byggingu með viðbyggingum vel fram á síðustu öld, eða til ársins 1914. Þetta var sumardvalastaður og veiðihús Rúmeníukonunga. Honum hefur verið afar vel við haldið og má Ceaucescu garmurinn eiga það að hann lokaði slotinu og lagði áherslu á viðhald húsanna. Á seinni árum hefur setrið verið notað við gerð nokkurra alþjóðlegra kvikmynda. Við tókum stærri túrinn um stiga og sali hallarinnar sem sannarlega gladdi augað. Þrír konsertsalir, lítill leikhússalur sem breyttist í bíósal í tímans rás og vistarverur íbúanna var meðal þess sem við fórum um.
Eftir þetta, kaffi og kaka og síðan á hjólin áleiðis til Búlgaríu. Tvö slot á jafnmörgum dögum var að mati radíóvirkjans orðinn doldið mikill túrismi. Við erum í missión og það þarf að halda áfram. Við komumst vandræðalaust yfir landamærin og settum stefnuna á Ruse, bæ á stærð við Reykjavík sem er einn af mikilvægustu hafnarbæjum landsins, því hér rennur Dóná hjá, annað mesta vatnsfall Evrópu, á leið sinni í Svarta hafið.
Hlutirnir stóðu þannig af sér að við náðum ekki öðru en banana og vatnsflösku í hádegismat og var því ákveðið að gera vel við sig í gistingu og mat. Fundum þetta flotta hótel við aðaltorg bæjarins, Hotel Dunav Plaza og kvöldskattinn snæddum við á matsölunni Terrace, sem bauð upp á hreint út sagt frábæran mat og ljómandi þjónustu, enda mun þetta vera eitt besta vertshúsið í bænum. Eknir 218 km.
Að landamærum Tyrklands
Frá huggulega bænum Ruse var nú stefnan sett á landamærin yfir til Tyrklands og að bænum Edirne, sem er fyrsti stærri bær handan landamæranna á þeirri slóð sem við fórum um. Þar sem við vorum að leggja af stað á sunnudagsmorgni, var bókstaflega engin umferð og þannig hélst það að mestu leyti allan daginn. Einkum var þægilegt að vera laus við gámaflutningabílana. Þrátt fyrir litla umferð var lögreglan afar sýnileg, en fararbroddurinn í túrnum gætir mjög vel að hraðamerkingum og heldur okkur réttu megin við lögin á þjóðvegunum.
Á leið okkar ókum við framhjá stórum og flottum bújörðum og sem dæmi um um stærð akranna tók ég mynd af sérdeilis fallegum sólblómaökrum sem teygðu sig beggja vegna vegar svo langt sem augað eygði. Jafnframt urðu á vegi okkar þorp og smábæir, ekki síst í fjalllendi, þar sem flestar byggingar voru lúnar og allt atvinnulíf og búskaparhættir var smærra í sniðum. Þar gegndi t.d. víða hestvagninn enn sínu gamla og góða hlutverki.
Einhvern veginn atvikaðist það svo að lítið varð úr hádegismat hjá okkur, en við stoppuðum á lítilli matsölu við veginn, fengum okkur kaffi og eitthvað sem líktist hálfri samlokusneið, skorin í þríhyrning og steikt í eggi. Þetta var hitað fyrir okkur í ofni og þegar við fórum að gæða okkur á þessu brauði, reyndist það vera hreinn ostkubbur sem steiktur hafði verið á pönnu og leit því út eins og eggjabrauð. Skiptum þessari mjólkurafurð á milli okkar með sitt hvorum kaffibollanum.
Á landamærunum var stutt biðröð, aðeins fáeinir bílar á undan okkur. Vorum greinilega á góðum tíma, lauslega upp úr hádegi á sunnudegi og þó öll skjöl væru margskoðuð á þeim 100 metrum sem athafnasvæði landamæranna er, tók ferlið ekki meira en svona kannski tæpa klukkustund. Við vorum eins og álfar út úr hól, gengum ávallt kirfilega frá pappírum okkar í töskur hjólanna eftir hverja skoðun, gangandi út frá því að hún væri sú síðasta, en eftir hverja 10 m var nýtt skýli þar sem framvísa þurfti sömu skjölum og skilríkjum og í síðasta bás, 5 sinnum á um 100 m kafla. Þegar við vorum komnir í gegnum þetta skondna ferli og ókum inn í Tyrkland, stóð við landamærin um 10 km röð gámabíla sem biðu eftir afgreiðslu frá Tyrklandi til Búlgaríu. Væri samsvarandi röð á höfuðborgarsvæðinu, næði hún frá t.d. Nesklúbbnum að Elliðaánum.
Þegar við renndum inn í bæinn Edirne og stefndum á hótelið sem búið var að setja í staðsetningartækin, vorum við umkringdir moskum, augljóslega lentir í veröld bænakalla, 5 sinnum á sólarhring. Það sem við vissum ekki er að Selimiye moskan, sú stærsta í bænum og sú sem fyrst varð á vegi okkar er á heimsminjaskrá og þykir ein merkasta og fallegasta bygging arkitekts frá 16. öld, sem á samt nokkrar af þekktustu fornbyggingum Istanbuls. Edirne var nefnilega höfuðborg Ottomannaveldisins áður en hún var flutt til Miklagarðs.
Sofum við opinn gluggann til að missa ekki af bænaköllunum, enda þrjár eða fjórar moskur umhverfis hótelið og helst viljum við heyra sönglandann frá þeim öllum í árdegisbæninni kl 5:00 að morgni. Eknir 330 km
Lotte Palace
Í þessari ferð ætluðum við að sleppa Istanbul, umferðin þar er bæði einstaklega hröð og tillitslaus, hreinlega mjög ágeng. Til stóð að keyra hjá borginni, en svo kom í ljós að í Tyrklandi öllu eru aðeins tvær BMW þjónustustöðvar, önnur í Istanbul og hin í Ankara og hjól félagans þarfnaðist 10þús km olíuskipta og skoðunar, svo okkur stóð lítið annað til boða en að stíma beint á útibú bæverska firmans í Miklagarði. Þangað komumst við viðstöðulaust, en þjónustan varð að bíða til morguns, enda áttum við ekki bókaðan tíma. Notaði tækifærið til að láta uppfæra kortin á gps tækinu nýja.
Fundum hótel þarna í námunda, Lotte Palace, hvorki meira né minna. Fínasta hótel, fengum svítu með svefnherbergi og setustofu, afar snyrtilegt og fínt. Nenntum ekki í miðbæinn á túristaslóðir, enda notuðum við heilan dag með leiðsögumanni til að upplifa allt það helsta sem þar er, þegar við fylgdum hringfaranum hingað fyrir fáeinum árum. Við erum hér í úthverfi með eigin verslunargötur, göngugötu, veitingastaði og markaði. Afbragðs kvöldverður á litlum stað nærri hótelinu, engin enska, bara bent og brosað.
Svo kostar málsverðurinn hér svipað og greitt er í þjórfé á matsölum í öðrum heimshlutum. Þægilegur göngutúr um göturnar áður en gengið var tímanlega til náða. Eknir 212 km.
Hreinn þvottur
Brottför verður varla fyrr en e.h., því fyrr yrði hjól radíóvirkjans ekki klárt hjá þjónustumiðstöð BMW. Því ákveð ég að setja óhreinan fatnað í þvott á Lotte Palace hótelinu. Hef haft nóg af sokkum, nærfötum og bolum til skiptanna (og skolað úr þessum fatnaði ef svo bar undir), en buxurnar hafa allnokkrum sinnum verið gegnsósa af svita þegar mætt er áfangastað og engar aðrar með í för, utan þær sem ég skipti yfir í kvöldin þegar dagbrókin er hengd til þerris. Notalegt að fá flíkurnar tandurhreinar í morgun og meira að segja svolítil sótthreinsunarlykt af þeim. Ákveðinn munaður á svona ferð að klæðast hreinu.
Mættum til BMW laust fyrir hádegi og hófum ferli sem heitir „að doka“. Þegar spurt var eftir enskumælandi stúlkunni sem þjónustaði okkur svo lipurlega í gær, vorum við beðnir að bíða í 5 mín. Og svo leið tíminn. Á einhverjum tímapunkti löngu síðar náði radíóvirkinn sambandi við ungan mann sem talar fína ensku og var með alla hluti á hreinu. Pilturinn kom hjólinu hans í sitt ferli og við héldum áfram að doka. Ég minnti á uppfærsluna í tækinu mínu og það var hann með klárt á sinni könnu. Engar áhyggjur. Þegar við sjáum hjólið útvarpsvirkjans skila sér úr skoðuninni, stormar okkar maður að mínu hjóli til að sækja tækið til uppfærslu. Það er ferli sem tekur upp undir klukkustund. Ekki hafði þessum greindarlega pilti dottið í hug að láta uppfærsluna malla á meðan hitt hjólið var á verkstæðinu. Máttum við því doka enn um stund. Allt hafðist þetta að lokum og við rúlluðum í áttina suður til Efesus.
Umferðin í Istanbul er skelfileg. Bílarnir aka þétt upp að manni, reyna jafnvel að þrykkja manni úr sinni akrein, troðast utaní mann og þrengja sér fram fyrir mann, allt á svona 70 til 100 km hraða. Frá því að við lögðum af stað frá Bæjurunum vorum við í svona hryllings umferð eina 60-70 km þangað til við náðum að yfirgefa stórborgartraffíkina. Á leiðinni ókum við eina af voldugu brúnum yfir Bosborussund og fékk ég „velkominn til Asíu“ vink frá fararbroddinum þegar komið var yfir brúna. Skömmu síðar varð enn stærri brú á vegi okkar, Ozmangasi brúin yfir Marmarahafið, fjórða stærsta hengibrú veraldar, tæplega 2,7 km að lengd.
Létum staðar numið á Holiday Inn hóteli í borginni Bursa, en þá var farið að skyggja og við búnir að leggja að baki 248 km.
Bókasafnið
Snæddum árbítinn innan um hóp af kínverskum ferðamönnum, sem bendir til að við séum hér svolítið á túristaslóðum. Við eftirgrennslan virtist mér markverðast til skoðunar: stóra moskan, blómagarður og nokkur grafhýsi. Við létum ekki glepjast af þessum spennandi attraksjónum, en brunuðum suður til Efesus, þangað sem Sál frá Tarsus skrifaði frumkristnum söfnuði lífsspeki og siðferðisleiðbeiningar sem nú eru hluti af hinni góðu bók, reyndar eftir að hann fékk vitrun og breyttist í Pál postula.
Á leiðinni ókum við að mestu eftir splunkunýrri hraðbraut með þrjár akreinar í hvora átt. Þægilega lítil umferð var um veginn, þannig að við gátum haldið okkar striki nokkurn veginn viðstöðulaust. Hér þarf að greiða vegatolla og reiknaðist mér til að við værum að greiða um sem nemur 7 krónum á km pr hjól, eða 700 ísl krónur fyrir hverja 100 km. Kannski er það skýringin á því hversu fáfarinn þessi nýi vegur er. Bensínstöðvar meðfram veginum voru allar í byggingu, sumar samt búnar að opna en aðrar meira á frumstigi smíðaferlis. Nú komst hitinn upp í 35 gráður, en það er nú svo sem bara það sem við reiknuðum með, þótt heitt sé.
Í Efesus er gríðarlegt samansafn fornminja og svæðið að sjálfsögðu á fornminjaskrá Unesco. Elstu minjar þarna eru um 6.000 ára gamlar, en merkasti tími borgarinnar var á dögum Rómverja, þegar hún var fjórða stærsta borgin í öllu Rómaveldi á eftir Róm, Alexandríu og Antíokkíu. Þá bjuggu hér minnst 250.000 manns. Svo voldug og mikilvæg var borgin að Artímesarhofið í staðnum var það stærsta í heiminum og eitt af þeim frægu 7 undrum hinnar fornu veraldar. Reyndar er borgin sögð stofnuð á 10. öld f.Kr. af Androclusi, prinsi af Aþenu, sem flúði frá Grikklandi og á því á sinn hátt grískar rætur.
Einungis er búið að grafa upp um 20% af fornminjunum sem þarna eru, en mest áberandi er eðlilega hringleikhúsið, sem var upphaflega byggt af Grikkjum og tók um 25.000 manns í sæti. Rómverjar endurbættu svo leikhúsið á fyrstu öld, en þá gerði Ágústus keisari borgina að höfuðborg Litlu-Asíu.
Búið er að grafa upp m.a. götur, hof, íþróttahús, bókasöfn og almenningsklósett, þar sem betra fólkið gat keypt sér sitt eigið sæti. Og svo náttúrulega hóruhús sem voru eðlilegur hluti hamingjusams fjölskyldulífs þess tíma.
Þegar við leituðum að hóteli þarna í námunda í gps tækinu, var Hilton eina nafnið sem við þekktum og stefnan því tekin á það. Reyndist gistihúsið frábærlega staðsett gegn snekkjuhöfninni á miðri strönd bæjarins Kusadasi, nokkru norðan við Marmaris sem var vinsælt hjá landanum hér um árið. Það var eiginlega ekki annað í stöðunni en að láta eftir sér að þiggja næturskjól á þessum vinalega stað.
Síðan smá kvöldganga og léttur kvöldverður áður en rölt var á gistihúsið og hripaðar niður línur um atburði dagsins. Eknir 416 km
Bómullarhöllin
Frá hinu huggulega Hilton hóteli eru um 200 km til Pamukkale, þangað sem förinni var nú heitið. Þar eru stórmerkileg náttúrufyrirbrigði, samfella af allstórum kalsítkerjum utan í mikilli hlíð, sem myndast hafa á árþúsundum vegna kalkúrfellinga úr volgu vatni sem flæðir þarna alls staðar niður hlíðina. Þetta er hreint út sagt mögnuð náttúrusmíð, yfirmáta áhugaverð og einstaklega falleg.
Þarna getur fólk gengið berfætt eða í sokkum (skór eru bannaðir til að skaða ekki kalsítmyndanirnar) upp alla hæðina og baðað sig eins og það lystir. Efstu kerin eru heitust, milli 30 og 40 gráður og smákólna þegar neðar dregur.
Efst á hæðinn eru miklar fornminjar, grísk-rómverska spa-borgin (baðborgin) Hieraplis og eru bæði náttúran hérna og minjarnar á verndarskrá Unesco. Við ferðalangarnir höfðum teigað svo ríkulega af minjum Efesus í gær, að við áræddum ekki að taka inn annan jafn stóran skammt af Rómverjum og Grikkjum í bili og geymdum því minjarnar til næstu ferðar, en sem fyrr segir vorum við bergnumdir af náttúrunni.
Eftir að hafa drukkið í okkur stemningu þessa kyngimagnaða staðar, héldum við áfram í austurátt og settum markið á bæinn Afyonkarahisar sem er í liðlega 200 km fjarlægð og fengum þar inni á ljómandi gistihúsi, tvö samliggjandi herbergi fyrir minni fjárhæð en ódýrustu svefnpokapláss heima. Þetta er milli 700 og 800þús manna borg en lætur lítið yfir sér þar sem hún liggur í yfir 1.000 m hæð. Greinilegt hvað kvöldið er svalara hér en niður við sjóinn.
Eknir 430 km
Afyon til Kappadocia
Föstudagurinn 13. fór í akstur frá Afyon til Kappadocia. Mjög þægileg keyrsla, lítil umferð og hitinn stærsta hluta leiðarinnar ekki nema um 22 gráður. Vegurinn liggur í töluverðri hæð og virtist mér fjöll og ásar vera grjótmelar, en allt grasi vaxið upp í efstu eggjar öfugt við heima. Hér vorum við greinilega komnir upp fyrir trjálínu, að undanskildu greni og furu eða öðrum þeim líkum trjátegundum, sem mynduðu litla skógarreiti hér og þar. Vorum komnir tiltölulega snemma í hina ólýsanlegu ævintýraveröld Kappadocia og verður morgundeginum öllum varið í skoðunarferð um þennan heillandi heim sandsteinsskúlptúra.
Á annars tiltölulega tilbreytingarsnauðri ferð okkur um göturnar þennan daginn, lentum við þó í því í fyrsta sinn í ferðinni að vera stoppaðir af lögreglu og það ekki bara einu sinni, heldur tvisvar sama daginn. Í fyrra skiptið stóðu einir 6 laganna verðir á allnokkru plani við veginn og stöðvuðu bíla hips um haps og bentu þeir okkur rakleiðis inn á planið til sín. Ekki urðu mikil orðaskipti, en við áttuðum okkur þó á þeirri tyrknesku að ökuskírteina var óskað. Þetta voru hinir vinalegustu karlar og nenntu varla meira en rétt líta á það sem við höfðum að sýna, en buðu okkur í staðinn smákökur og súkkulaði og fóru okkar samskipti þannig að myndir voru teknar af þeim með okkur og okkur með þeim og kvöddu þeir okkur að lokum hver og einn með handabandi og brosi.
Aðeins nokkru síðar er okkur enn bent út í kant, þar var aðeins einn á götunni og annar í bíl. Fengu þeir sömu dokument og hinir sem við höfðum nýverið kvatt, en í þetta sinn voru skírteinin grandskoðuð og sá í bílnum var í heilmiklu talstöðvarsambandi og tölvuuppflettingum með ökuleyfin okkar í höndunum. Ekki kærðu þeir sig um myndatökur, en voru kurteisir og virkuðu bara hinir þægilegustu drengir, afhentu okkur aftur, það sem okkar var og kvöddu með virktum.
Eknir 446 km
Loftbelgir í Göreme
Vaknaði fyrir kl 6 í morgun í litla snotra hótelinu sem við fundum í Göreme, við hvæsið í loftbelgjunum sem svifu rétt ofan við húsþökin allt í kringum gistihúsið okkar. Hljóðið kemur af því að með stuttu millibili þarf að sprauta kröftugum gasloga inn í belginn til að hann haldi nægum hita, svo að blaðran haldist á lofti. Þekkti hljóðið frá því ég fór hangandi í svona belg með Kristjáni vini mínum, yfir fjöllin merkilegu í Guilin í Kína.
Ræsti radíóvirkjann og næstu klukkustund vorum við á þaki hótelsins við dagrenningu, njótandi þess að fylgjast með hartnær 100 belgjum svífa yfir bæinn og hið ólýsanlega landslag í bænum og umhverfis hann.
Að afloknum dögurði gerðumst við túristar par excellence, fengum hótelið til að skrá okkur í útsýnisferð og vörðum deginum með öðrum ferðamönnum í að upplifa þennan kyngimagnaða stað.
Segja má að engin orð fá lýst því sem fyrir augu ber, þeirri ævintýraveröld sem hvarvetna blasir við. Sandsteinninn hefur í árþúsundanna rás veðrast í hin ótrúlegustu form og hafa minni og stærri hólar verið notaðir sem híbýli manna með því að höggva inn í þá rými til dvalar, jafnvel á nokkrum hæðum í sama hólnum.
Einn dal heimsóttum við sem byggður var kristnu fólki frá 5 öld og fram á annað árþúsundið. Eru þar klaustur og kirkjur allmargar, sumar málaðar freskum að innan sem enn eru vel varðveittar.
Af veikum mætti og lítilli kunnáttu reyndi maður að ná stemningunni á myndir og læt ég nokkrar fylgja hér, en mér færara fólk hefur hlaðið niður miklum fjölda mynda af svæðinu á netið.
Eins og vænta má í Tyrklandi endar hver góð skoðunarferð í teppafabrikku. Slík heimsókn fylgir ákveðinni rútínu sem söm er hér og t.d. í Kína, þar sem nokkrar slíkar stofnanir voru heimsóttar á þeim árum sem þar var dvalið. Fyrst sérðu konu sitja við mikinn „vefstól“ eða öllu heldur „hnýtingarstól“ þar sem hún hnýtir teppið. Það er oftast hnýtt úr ull, bómull eða silki, eða jafnvel blöndu þessara efna og þú færð að vita hnútafjölda pr fersentimetra, sem er mjög breytilegur og hefur afgerandi áhrif á verð vörunnar. Því fleiri hnútar, því dýrara teppi. Svo er farið með þig í sal þar sem sýnishornum af mismundandi teppum er slengt á gólfið með heilmiklum tilþrifum og einu hringformuðu temmilega litlu, þeytt af mikilli kunnáttu í loftinu eftir endilöngum salnum, það heitir fljúgandi teppi. Á meðan á þessu stendur kemur einhver með te handa öllum og síðan er sýnt hve auðvelt er að brjóta teppin saman og koma þeim í tösku, sem þeir síðan sjá um að senda heim til þeirra sem kaupa vilja varninginn. Eitthvað sýndist mér afraksturinn vera rýr hjá teppasölunum, eftir heimsókn þess hóps sem við vorum hluti af.
Um kvöldið rigndi með þrumum og eldingum, en við vonumst eftir góðu ferðaveðri á morgun. Höfðum keypt okkur belgsflug í fyrramálið, en ljóst var strax um kvöldið að ekki viðraði til slíkra flugferða morguninn eftir og fengum við því endurgreitt, hálfsúrir yfir að ná ekki þessu vinsæla ferðamannagimmiki. Látum því nægja að svífa á loftfari minninganna og halda áfram okkar för.
Næturskjól í Sivas
Veðurútlitið var ekki spennandi, rigningu spáð svo til alla leiðina sem fara átti í dag. Og það stóðst, 268 km eknir, svo til allir í rigningu, þrumum og eldingum. Við höfðum svo sem rætt það, að ef við lentum í rigningu væri best að finna sér hótel og halda áfram þegar upp styttir. En hér var ekki margra kosta völ, höfðum sett stefnuna á bæinn Sivas og á leiðinni þangað voru ekki margir fýsilegir kostir til næturgistingar. Fararbroddurinn var kominn vel á annað hundrað km án pásu og taldi ég víst, að hann tæki engan séns á því að stoppa og láta mig tala sig inná að reyna að finna afdrep í einhverjum smábænum á leiðinni, sem þó voru ekki margir. Þegar hann loks lét svo lítið að leita skjóls og fá sér tesopa, voru ekki nema um 140 km eftir á áfangastað og var sammælst um að stoppa kannski tvisvar á þeim spotta og fara ekkert allt of hratt yfir. Hitinn var kominn niður í 13 gráður og leiðinda strekkingur á köflum. Við ökum hér eftir miðjum Anatólíuskaganum í um 1.000 til 1.300 m hæð, sem skýrir hitastigið. Um miðbik leiðarinnar sáum við í fjarska fjall með snækolli á toppnum. Ekki það sem fyrsta kemur upp í hugann þegar rætt er um Tyrkland.
Á leiðarenda náðum við vandræðalaust og ókum beint á Sivas Büyük Otel í miðbænum, en því hafði verið stillt inn í „ratarana“ okkar. Þetta reyndist hið fínasta hótel, með flottum rúmgóðum herbergjum, spa í kjallaranum og hársnyrtistofu og annarri þjónustu innanhúss. Fyrir verelsið máttum við punga út sem nemur kr. 5.100 og var þá morgunverðarhlaðborð innifalið.
Undir kvöld stytti upp og röltum við þá um stræti og torg, nærðum okkur og undruðumst með sjálfum okkur yfir því, hve nútímalegt hér er og hreint í þessum 350.000 manna bæ, eins og reyndar víðast, þar sem leiðir okkar hafa ratað hér í landinu.
http://orn.is/flokkar/ferdapunktar-a-motorhjoli/farid-um-iran-og-litlu-asiu/