Lagt upp frá Nesradíó

Lagt upp frá Nesradíó kl 9. Þangað mættu að sjálfsögðu betri helmingar okkar beggja til að vinka okkur bless. Einnig kvaddi okkur þarna í Síðumúlanum Bjöggi ritari BMW hjólaklúbbsins og altmugligman á þeim vetvangi, einn af styrkustu stoðum þess ágæta selskapar. Til að auka enn á ánægju þessa augnabliks og gefa því aukið vægi gaf Kristján hringfari sér tíma til að koma og gefa okkur síðustu heilræðin fyrir brottför og mætti auk þess færandi hendi með sætabrauð og kruðerí til að hafa með síðasta kaffisopanum í höfuðborginni að sinni. Jafnframt stóð sá mikli globetrotter fyrir myndatökum með skipulögðum uppstillingum af þeim sem þarna voru. Að aflokinni þessari kveðjustund héldu ferðalangarnir út í suddann, hlakkandi til komandi ævintýra.

Ákveðið var að fara norður um þar sem veðrið yrði skárra þar. Engu að síður vorum við í súld eða rigningu mestan part leiðarinnar til Mývatns, þar sem við gistum, nema rétt þegar við ókum gegnum Skagafjörðinn, þar var þurrt á okkur. Þegar veðurkortið var skoðað á netinu var eins og yfir þjóðveginum norður um land lægi mjór en massífur regnskýjafláki og ókum við sem sé undir honum, en einhvern veginn tókst Skagfirðinum að klippa á hann og halda utan við sitt áhrifasvæði. Í Borgarnesi bættist þriðji maður í hópinn, Garðar flugmaður og radíóvirki, en hann hafði boðið okkur gistingu í myndarlegu gistihúsi við Mývatn, sem hann rekur þar ásamt bræðrum sínum.

Á Akureyri ræddi ég það við samferðamennina að við ækjum Víkurskarðið, því ég ákvað það þegar Vaðlaheiðargöngunum var kippt út úr gangnabiðröðinni á sínum tíma og troðið fram fyrir mikilvægari framkvæmdir á þeim vettvangi, að ég myndi aldrei styrkja þetta projekt með því að aka þar um og greiða skattinn. Félagarnir vildu nú heldur fara þessa styttri leið og töldu mig á að koma með, í ljósi þess að mótorhjól eru undanþegin vegaskattinum, því gæti ég með góðri samvisku ekið þar um án þess að skilja eftir krónu hjá því fyrirtæki. Skemmst er frá því að segja eftir akstur í súld og regni lenti maður þarna í göngunum í öflugum þurrkara, því hitinn inn í fjallinu fór upp í 34 gráður. Þar sem kompaníið hafði ekkert af mér fyrir að fara þarna um, leyfði ég mér að vera áfram sáttur við minn innri mann. Um kvöldið snæddum grillmat hjá Garðari hótelhaldara og gengum saddir og sælir, frekar tímanlega til náða. Eknir 479 km.

 

Súld í Mývatnssveit

Súldin fylgdi okkur þennan morgun út Mývatnssveitina, en á Mývatnsöræfum vorum við komnir í þurrara veður sem breyttist svo í sólskin á Möðrudalsöræfum og hélst þannig út Jökuldalsheiðina og í raun það sem eftir lifði dags. Fjalladrottningin skartaði snækolli og gladdi augað sem endranær, þar sem hún rís upp úr umhverfinu og gnæfir yfir dyngjur og önnur fjöll sem umhverfis hana liggja. Þar sem við liðum þarna áfram á okkar fráu farskjótum, rifjuðust upp ferðirnar inn í Herðubreiðarlindir og Öskju á gömlum breyttum hertrukkum, þegar maður ungur að árum vann við leiðsögn hjá Safaríferðum Úlfars Jacobsen, áður en Ísland komst í tísku og fjöldanum fannst ástæða til að leggja lykkju á sína ferðamannsleið hingað norður í næturbirtu og ofurverðlag. Þetta voru sannar ævintýraferðir, tjaldgisting og eldhúsbíll og stundum slark, en fyrst og fremst yfirmáta skemmtilegar reisur.

Fengum okkur miðdegissnarl í alveg hreint stórskemmtilegri matsölu á Egilsstöðum. „Skálinn Diner“, heitir vertshúsið og er vægast sagt virkilega vel útfærður amerískur „diner“, eins  og maður hefur upplifað þá vestra og séð í ótal kvikmyndum. Og aðalatriðið, maturinn frábær og vel útilátinn, algerlega í stíl við það sem maður kannast við frá USA. Síðan áttum við bara eftir hina stuttu en bugðóttu leið niður á Seyðisfjörð þar sem ferjan bíður. Brunuðum þetta í einstakri veðurblíðu. Á Seyðisfirði súnnuðum við okkur í sólinni, fengum lánaðan torklykil nr 50 á verkstæði við höfnina, til að herða skrúfu á skjólhlíf við handfangið á hjólinu mínu og endurskipulögðum farangurinn á hjólin, því nú voru yfirhafnir og skjólflíkur tjóðraðar við fákana áður en þeir yrðu strappaðir niður í kvið ferjunnar. Snæddum síðan kvöldskattinn á Öldunni, ljómandi fiskur og franskar, nýr og safaríkur fiskurinn í orlydeiginu akkúrat hæfilega eldaður. Sérviskan í manni er komin á það stig að þegar ég panta fisk á veitingahúsi, sem ég geri oftast, er ég gjarnan haldin hálfómeðvitraðri spennu yfir því hvort fiskurinn verði nokkuð ofeldaður, er þó ekkert að velta því mikið fyrir mér en fagna ævinlega þegar fiskurinn reynist ferskur og safaríkur.

Þegar við keyptum farmiðana í ferjuna 26. mars var uppselt í allar skárri vistarverur þessa stóra skips, þannig að okkur bauðst enginn kostur annar en svefnpokapláss í 9 manna klefa neðan við sjólínu, þrír kojurekkar og þrjár hæðir í hverjum, takk fyrir. Þar sem þetta er nú bara þriggja nátta gisting má svo sem alveg vel við una.

Eftir að hafa tjóðrað hjólin drifum við okkur niður til að koma okkur fyrir. Tryggðum okkur fletin á fyrstu kojuhæð af þremur og skröltum svo upp á dekkbarinn á áttundu hæð ferjunnar og héldum okkur í efri byggðum þar til ferjan lét úr höfn, en þá skröngluðumst við niður til að forvitnast um herbergisfélaga. En sjá, enginn hafði bæst í klefann, þannig að við fögnuðum því að hafa þetta rými fyrir okkur, alla vega til Færeyja. Búið var að segja okkur að ferjan væri full þaðan til DK, en nú gátum við alla vega hrotið hvor í kapp við annan án þess að hafa áhyggjur af samferðafólki.

Á barnum á sjöttu hæð var færeyskur skemmtikraftur með hljómborð sem söng af miklum krafti og innri gleði jafnt gömul djasslög, eldri slagara og eurovision vinningslög og gerði kappinn stormandi lukku hjá klíentalinu þar sem við radíóvirkinn vorum í hópi yngstu áheyrenda. Með tóna þessa hressa trúbadors í skynfærunum héldum við niður í neðri byggðir og lögðumst þreyttir hvor í sinn sekk. Eknir 198 km.

Á götur Færeyja

Sváfum út og drifum okkur svo í morgunverðarhlaðborðið. Síðan leið tíminn við lestur, myndasorteringar í tölvu og síma og annað daml. Komum til Þórshafnar um þrjúleytið og þó hann væri frekar súldarlegur ákváðum við að láta slag standa og drífa hjólin út á götur Færeyja. Við vorum varla komnir út úr skipinu þegar hann byrjaði að rigna fyrir alvöru, svo þá var bara að drífa sig í regnbuxurnar. Radíóvirkinn smeygði sér í sinn eiturgula vatnshelda samfesting en sjálfur leitaði ég árangurslaust að regnbuxunum sem haldið höfðu mér þurrum langleiðina hingað. Eftir að hafa farið í gegnum allar þrjár töskur hjólsins og sjópokann sem strappaður var á farþegasætið, rak ég höndina í buxurnar, en ég hafði vafið þeim þéttingsvel upp og stungið í vasann á bosmamiklum hlífðarjakkanum sem ég var í. Ánægður með að hafa hvorki týnt neinu né gleymt til þessa, klæddist ég flíkinni og við trilluðum inn í rigninguna, sem þó varð til að þess að Færeyjatúrinn varð mun styttri en til hafði staðið og flúðum við regnið inn í skipsskrokkinn fyrr en ætlað hafði verið. Hengdum blautan fatnaðinn á hjólin til þerris, drifum okkur í heita og kraftmikla sturtu og mættum svo upp í almenning, hreinir og hressir.

Þórshöfn í Færeyjum: Fallegur svipur liðins tíma prýðir bæjarkjarnann

Campari orange fyrir matinn, hlaðborð og síðan upp til að hlusta á trúbadorinn skemmtilega. En úps, nú var kominn einhver gítargutlari sem stóð fyrri skemmtikrafti langt að baki og hélt hann okkur ekki lengi á svæðinu. Neðanþilja hafði enginn bæzt í klefa 2203 og höfðum við því þessa vistarveru áfram fyrir okkur sjálfa, þótti það ekki verra. Greinilegt er að þessi ómerkilegu gistirými teljast ekki með þegar upplýst er um bókunarstatus farkostsins mikla. Radíóvirkinn vill meina að þetta séu ósamþykktar íbúðir.

Djúpar rökræður um einskis nýt mál

Sváfum til 9 í okkar lúxusbeddum og vörðum deginum svo í að damla um dallinn í meðvituðu stefnuleysi og þægilegri ómennsku, ýmist lesandi, skrifandi eða í djúpum rökræðum um einskis nýt mál.

Ferjan til Hirtshals

Vöknuðum tímanlega, tæmdum vistarveru okkar og hófum svo bið eftir því að ferjan leggðist að bryggju í Hirtshals. Um ellefuleytið runnu hjólin úr skipsskrokknum yfir á danskt malbik. Brunuðum sem leið lá um danska jafnsléttu, framhjá kornökrum, maísökrum og grænmetisgörðum, staðarlegum stórbýlum og nýábornum túnum þar sem skelfilegur skarnafnykurinn fyllti vitin. Þóttumst sælir að þessi óværa var ekki viðvarandi og komumst við óskaddaður í gegnum þennan þátt dansks landbúnaðar. Við vorum óþreyttir og slóum því undir nára, lögðum gömlu herraþjóðina að baki og stungum okkur vel niður í Slesvig og Holsetaland. Radíóvirkinn mundi eftir Vindmillunni, hóteli sem við höfum gist á áður og var ekki stoppað fyrr en þar var rennt í hlað. Heppnir, þar voru laus herbergi, en aðeins eins manns. Fengum sitt hvort verelsið, á sama verði og ég greiddi fyrir svefnpokapláss í Landmannalaugum fyrir 4 árum. Mér skilst að verð á þeim hafi hækkað verulega síðan.

Byrjuðum á að skola af okkur svitann eftir að hafa ekið um kappklæddir í yfir 30 stiga hitanum hér. Ekki ónýtt að geta breitt úr sér og öllu sínu án tillits til nokkurs manns í þessu vel rúma zimmer nr 153. Smá hvíld fyrir matinn og svo niður á huggulegt patíóið í kvöldskattinn. Þar sem við vorum nú komnir í schnitsel-beltið, þótti ekki við hæfi að fá sér neitt annað en Jaeger-schnitsel með sveppasósu og salatskál. Þegar þessum standard þýskrar matargerðar hafði verið hesthúsað undir pergólu úti á verönd stóðumst við ekki freistinguna að fá okkur eftirrétt, kirsuberjatertu með þeyttum rjóma. Var desert þessi á sama verði og prinspólókex í sjoppu á Íslandi. Mettir og morrandi skreið síðan hvor inn í sitt kamesi. Eknir 527 km.

Hraðferð til Dresden

Á dagsskránni var einfaldlega hraðferð í suðurátt, markmiðið að ná til Dresden fyrir myrkur. Reyndar gerðum við smá hlé á þeysireiðinni í Berlín, en þar við snæddum miðdegisverð með systursonum Guðmundar, þeim Andra og Sölva og kærustu þess síðarnefnda. Hittum þá á matsölu í námunda við heimili þeirra og áttum með þeim skemmtilega stund. Þarna við hliðina er mikill skáli sem hýsir hluta af samgöngusafni Berlínar þar sem m.a. má sjá margar kynslóðir sporvagna, allt frá vögnum, sporvögnum sem sé, sem dregnir voru af hestum, til vagna sem voru í notkun vel fram yfir síðustu öld. Líka farartæki sem voru í „einkaeigu“ nafnkunnra, t.d. Range Rover Honeckers, en sá var lengi æðsti strumpur í DDR (Austur-Þýskalandi). Til að reyna að fela kapítalískar tilhneigingar forsetans sáluga (ekki gott til afspurnar að aðalritari öreiganna í þýska alþýðulýðveldinu aki um á breskum lúxusvagni), þá var Range Rover merkið fjarlægt af bílnum sem og aðrar einkennismerkingar. Einnig var bíllinn lengdur að aftan og huggulegu útliti þessa eðalbíls rústað eins ósmekklega og hægt var.

Veiðibíll æðsta yfirvalds í DDR

Berlín kvödd og hjólunum stýrt áfram suður Brandenburgarland og ekki slegið af fyrr en við vorum komnir inn í höfuðborg Saxlands, Dresden. Fórum við þarna meira og minna sömu leið og við ókum með Hringfaranum 2014, enduðum á sama hóteli, Motel One, fórum á sama veitingastaðinn til að snæða um kvöldið og ég held svei mér þá að ég hafi fengið mér sama réttinn af seðlinum. Stundum er gott að treysta bara á það sem maður þekkir og hefur gefist vel. Gerðum matnum svo góð skil, að þörf var á heillöngum göngutúr, bara til að hjálpa meltingunni og koma matnum til að sjatna áður en lagst var í hvílu.   Eknir 470 km.

Motel One

Frá Motel One var örskots akstur að einu búðinni sem var á dagsskrá að versla í í langferðinni allri, sem sé BMW Niederlassung, þar sem kaupa þurfti ýmislegt smálegt og þiggja óverulega þjónustu. Að því stússi loknu var haldið sem leið lá í átt að Krakow. Tilbreytingarlítill hraðbrautarakstur og svo fór hann að rigna. Héldum allnokkurn spöl inn í regnið, en ákváðum að koma okkur bara til Krakow í þurru morguninn eftir og renndum inn að fyrsta besta bæ sem á vegi okkar varð. Lentum á snotrasta hóteli í Brzeg, hvernig sem þið nú viljið bera það fram. Eknir 338 km.

Krakow

Stuttur akstur í ágætis veðri, ekkert sérstaklega hlýtt þó, byrjuðum í sólskini og huggulegheitum en svo þykknaði upp og hitinn fór niður í 14 gráður um það við renndum inn í Krakow. Á Park Inn hótelinu fengum við stæði fyrir hjólin í bílageymslu, alltaf tryggara að hafa þau innanhúss. Hótelið er svona korters rölt frá aðaltorgi bæjarins, handan árinnar Vislu og hentaði okkur að snæða miðdegissnarlið á þeirri leið. Eftir að hafa síðan farið aðeins um og skoðað markverð torg og byggingar þáðum við leiðsögn og akstur með golfbíl um bæði gamla gyðingahverfið annars vegar og gettóið hins vegar, þar sem gyðingum var safnað saman og umgirt fyrst með gaddavír og síðan með múr.

Hverfið þar sem gyðingarnir bjuggu fyrir stríð var lengi í niðurníðslu, en er í dag orðið afar hipp og kúl. Þar eru margar sýnagógur og eitt af þekktari nöfnum héðan er ekkert minna en snyrtivörudrottningin Helena Rubinstein, var m.a. farið með okkur að húsinu sem hún ólst upp í. Það jók mjög á hróður hverfisins að Spielberg tók mörg skot í mynd sína „Schindlers list“ í þessu hverfi. Í skoðunarferð okkar komum við einnig að húsinu sem hýsti verksmiðju Oskars Schindlers.

Eitt stærsta borgartorg í Evrópu frá 13. öld

Fyrst og fremst er Krakow afar falleg borg með torg sín, kirkjur, slot og hallir. Áhugaverður og fræðandi eftirmiðdagur í sarpinn. Eknir 236 km

Besta kaffið til þessa

Besta kaffi sem ég hef fengið í ferðinni til þessa, hérna hjá Park Inn Radisson í morgunverðarhlaðborðinu. Stórir fantar, lét renna í krúsina americano og svo double espresso út í. Loksins kaffi sem bragð er að. Ljómandi árbítur, pakkað og haldið af stað. Stefnan sett á Slóvakíu, yfir Tatrafjöllin sem liggja á landamærum Póllands og Slóvakíu og síðan raunar bara áfram í gegnum þennan eystri hluta gömlu Tékkóslóvakíu og niður í Ungverjaland.

Náttúran á leiðinni kom skemmtilega á óvart. Þarna syðst í Póllandi og áfram yfir landamærin var eins og maður væri kominn í Alpana, snotur þorp með fallegum húsum og vel hirtum görðum, smáhótel og veitingastaðir hvert sem litið var. Ljóst að þarna eru mikil skíða- og útivistarsvæði. Fjöll og dalir, hæðir og ásar, vistlegar byggðir, kýr í haga og geitur á beit, allt gladdi þetta augað á yfirreið okkar um þenna hluta Evrópu, sem við upplifðum báðir nú í fyrsta sinn.

Ákváðum að ferðast heldur austan við helstu hraðbrautir sem varð til þess að eknir voru endalausir fjallvegir, mjóir, brattir og bugðóttir og víða hafði malbikið séð sinn fífil fegurri. Radíóvirkinn er eins og fiskur í vatni í þessum aðstæðum, en sjálfur þarf ég að hafa mig allan við til að fylgja honum eftir. Fengum okkur miðdegishressingu í Vysoke Tatry, smábæ einhvers staðar þarna fjöllunum í miðri Slóvakíu. Þjónustustúlkurnar minntu svolítið á staðalímynd af Alpastúlkum með flétturnar sínar.

Þegar eknar eru svona krókaleiðir næst ekki að leggja miklar vegalengdir að baki. Renndum inn á hótel Viktoria um hálfsjöleitið, báðir frekar dasaðir en sælir með yfirreið dagsins. Eknir 357 km.

Á slóðum Jeremy Clarkson

Stuttur en snarpur göngutúr um bæinn svona til að liðka skankana og koma blóðinu á hreyfingu, áður en við settumst að morgunsnæðingi. Að afloknum árbít voru gps-tækin á hjólunum stillt á Sibiu, borg rétt norðan við Karpatafjöllin, þar sem hinn margfrægi 100 km langi, snarbugðótti vegur Transfagarasan liðast yfir fjallgarðinn og Jeremy Clarkson gerði skemmtileg skil í einum af sínum mögnuðu Top Gear þáttum.

Ókum í dag um landbúnarðarhéruð, ýmist í hæðóttu landslagi, jafnvel fjalllendi, sem og yfir víðáttumiklar sléttur, fyrst í Ungverjalandi og síðan tók Rúmenía við. Mest bar á víðfeðmum sólblómaökrum á víxl við enn stærri maísakra, inn á milli heljarinnar grænmetisekrur og ávaxtatré. Á landamærunum yfirgáfum við Shengen og þurfti því að framvísa passa, ökuskírteini, skráningarskírteini hjólanna og staðfestingu á tryggingum. Þetta var allt til taks og fór ungverska daman fyrst yfir gögnin og þegar hún hafði samþykkt skilríkin fyrir sitt leyti, að afloknu miklu kontróli í tölvum embættisins, rétti hún ábúðarmikil rúmenskum starfsbróður sínum á skrifstofunni við hliðina dokumentin og fór hann einnig skilmerkilega yfir þau áður en við fengum þau aftur í hendur og héldum för okkar áfram.

Akstur um sveitavegi og samfellda keðju þorpa sem þeir þræða sig í gegnum, er tafsamur, meira og minna er á þessum brautum 50 km hámarkshraði. Nokkuð var einnig um krókótta fjallvegi, stundum með ofurslitnu malbiki, þannig að við komumst ekki alla leið á áfangastað, en renndum inn í smábæinn Aiud og duttum inn á hótel, ja hvað haldið þið, nema Viktoria, en af annarri stjörnugráðu en gistihús síðustu nætur með sama nafni. Eknir 365 km

Vlad Dracula

Frá Aiud var ekið beinustu leið í Bran kastala í Transilvaníu, sem að sjálfsögðu er langt frá því að vera bein leið. Enn og aftur landbúnaðarhéruð og svo kræklóttir fjallvegir í bland. Mikið er um vegaframkvæmdir, víða búið að fjarlægja annan vegarhelminginn á ca 1-3 km löngum köflum til að byggja alveg nýjan og hinn helmingurinn tekinn síðar. Umferðinni varð eðlilega að stýra með umferðarljósum og mynduðust langar biðraðir við rauða ljósið meðan bílastrollan silaðist framhjá úr hinni áttinni og þannig á víxl. Þar fyrir utan er búið að byggja nýjar hraðbrautir og fleiri í smíðum. Nýja gps tækið mitt sem ég keypti hjá BMW fjöldskyldunni í Dresden er með 2017 uppfærslu, sem ég hafði ekki hugmynd um, hélt einhvern veginn að þegar svona fín tæki eru keypt af jafn virtu fyrirtæki, að þá væri það afhent með nýjustu uppfærslu hugbúnaðar. Þeir béemmvaffarar fá þarna stóran mínus í kladdann fyrir skammarlegan skort á þjónustu. Inn á 2017 uppfærslunni eru ekki allar nýju hraðbrautirnar sem við ókum og því var vélhjólakallinn á skjánum hjá mér akandi úti í móa, klórandi sér í hausnum, hálf áttavilltur ræfillinn.

Á leiðinni ber margt fyrir augu, mikla akra, landbúnaðartæki af stærri gerðinni, þorp og bæi og skógi vaxna ása og fjöll og eins og vera ber í sannkristnu landi, sægur af margturna guðshúsum eins og tíðkast í austurkirkjunni.

Bran kastali Dracula greifa, ansi rafmagnaður.

Í Bran kastala bjó á 15. öld Vlad Tepes prins eða Vlad Dracula (sem var ættarnafnið). Hann átti í styrjöldum, bæði um völd við þá sem nærri honum stóðu, en einnig var héraðið Vallakía, þar sem hann barðist um völdin, í stöðugri baráttu við Ottomannaveldið (Tyrki), sem héraðið heyrði undir. Þegar hann hafði sigra, lét hann gjarna stjaksetja og staurfesta þúsundir úr liði andstæðinganna án minnstu miskunnar og festist þar af leiðandi ímynd blóðþyrstrar skepnu við prinsinn. Bækur um grimmd þessa þjóðhöfðingja voru meðal fyrstu metsölubóka á þýska málsvæðinu og voru þær kannski að nokkru undanfarar bókarinnar sem Bram Stoker skrifað um vampíruna Dracula greifa árið 1897 og hefur sannarlega haldið nafni þessa kaldrifjaða stríðsmanns á lofti.

Sá eini sanni…

Kastalann skoðar maður í ljósi sögu þessa manns, án þess að byggingin sem slík sé sérstaklega eftirminnileg nema kannski horrortólin, sérhæfð tæki til viðurstyggilegra pyntinga. Hins vegar er í næsta nágrenni annar kastali, Peles, sem er algert djásn í sínu umhverfi, jafnt utan sem innan.

Peles, sumarhöll Rúmeníukonunga

Þetta slot vildum við að sjálfsögðu upplifa líka, svo stefnan var tekin þangað eftir gott og sterkt kaffi og skál af ís. Á leiðinni lentum við í 10 km umferðarteppu, því það var einhver bæjarhátíð í smábæ sem við ætluðum að fá okkur gistingu í, en þar var þá náttúrulega ekkert rúm að fá. Ekki vorum við þó jafn illa staddir og Jósef og frú hér um árið, sem urðu að láta sér fjárhúsið duga til næturgistingar, við ókum bara spölkorn lengra og fengum inni á Hotel Maximilian í Busfeni, uppi á hanabjálka, í hálfgildings íbúð, fyrir jafngildi hálfs svefnpokapláss í Landmannalaugum. Karlinnn sem rekur gistinguna kom úr húsi sínu ofan við hótelið með flösku af plómusnafs og hellti í 2 staup við innritunarborðið og lét okkur ekki hafa herbergislykil fyrr en við höfðum tæmt glösin. Þetta var hans eigin framleiðsla og bara skratti gott. Eknir 298 km.

Fínn sumarbústaður

Bygging Peles kastala hófst árið 1873, var í byggingu með viðbyggingum vel fram á síðustu öld, eða til ársins 1914. Þetta var sumardvalastaður og veiðihús Rúmeníukonunga. Honum hefur verið afar vel við haldið og má Ceaucescu garmurinn eiga það að hann lokaði slotinu og lagði áherslu á viðhald húsanna. Á seinni árum hefur setrið verið notað við gerð nokkurra alþjóðlegra kvikmynda. Við tókum stærri túrinn um stiga og sali hallarinnar sem sannarlega gladdi augað. Þrír konsertsalir, lítill leikhússalur sem breyttist í bíósal í tímans rás og vistarverur íbúanna var meðal þess sem við fórum um.

Fínn sumarbústaður þetta…

Eftir þetta, kaffi og kaka og síðan á hjólin áleiðis til Búlgaríu. Tvö slot á jafnmörgum dögum var að mati radíóvirkjans orðinn doldið mikill túrismi. Við erum í missión og það þarf að halda áfram. Við komumst vandræðalaust yfir landamærin og settum stefnuna á Ruse, bæ á stærð við Reykjavík sem er einn af mikilvægustu hafnarbæjum landsins, því hér rennur Dóná hjá, annað mesta vatnsfall Evrópu, á leið sinni í Svarta hafið.

Kvöldstemning í Ruse

Hlutirnir stóðu þannig af sér að við náðum ekki öðru en banana og vatnsflösku í hádegismat og var því ákveðið að gera vel við sig í gistingu og mat. Fundum þetta flotta hótel við aðaltorg bæjarins, Hotel Dunav Plaza og kvöldskattinn snæddum við á matsölunni Terrace, sem bauð upp á hreint út sagt frábæran mat og ljómandi þjónustu, enda mun þetta vera eitt besta vertshúsið í bænum. Eknir 218 km.

Að landamærum Tyrklands

Frá huggulega bænum Ruse var nú stefnan sett á landamærin yfir til Tyrklands og að bænum Edirne, sem er fyrsti stærri bær handan landamæranna á þeirri slóð sem við fórum um. Þar sem við vorum að leggja af stað á sunnudagsmorgni, var bókstaflega engin umferð og þannig hélst það að mestu leyti allan daginn. Einkum var þægilegt að vera laus við gámaflutningabílana. Þrátt fyrir litla umferð var lögreglan afar sýnileg, en fararbroddurinn í túrnum gætir mjög vel að hraðamerkingum og heldur okkur réttu megin við lögin á þjóðvegunum.

Sólblóm út að sjóndeildarhring í allar áttir

Á leið okkar ókum við framhjá stórum og flottum bújörðum og sem dæmi um um stærð akranna tók ég mynd af sérdeilis fallegum sólblómaökrum sem teygðu sig beggja vegna vegar svo langt sem augað eygði. Jafnframt urðu á vegi okkar þorp og smábæir, ekki síst í fjalllendi, þar sem flestar byggingar voru lúnar og allt atvinnulíf og búskaparhættir var smærra í sniðum. Þar gegndi t.d. víða hestvagninn enn sínu gamla og góða hlutverki.

í sveitum Búlgaríu má víða sjá gamla tímann í bland við nútíma landbúnaðartæki

Einhvern veginn atvikaðist það svo að lítið varð úr hádegismat hjá okkur, en við stoppuðum á lítilli matsölu við veginn, fengum okkur kaffi og eitthvað sem líktist hálfri samlokusneið, skorin í þríhyrning og steikt í eggi. Þetta var hitað fyrir okkur í ofni og þegar við fórum að gæða okkur á þessu brauði, reyndist það vera hreinn ostkubbur sem steiktur hafði verið á pönnu og leit því út eins og eggjabrauð. Skiptum þessari mjólkurafurð á milli okkar með sitt hvorum kaffibollanum.

Á landamærunum var stutt biðröð, aðeins fáeinir bílar á undan okkur. Vorum greinilega á góðum tíma, lauslega upp úr hádegi á sunnudegi og þó öll skjöl væru margskoðuð á þeim 100 metrum sem athafnasvæði landamæranna er, tók ferlið ekki meira en svona kannski tæpa klukkustund. Við vorum eins og álfar út úr hól, gengum ávallt kirfilega frá pappírum okkar í töskur hjólanna eftir hverja skoðun, gangandi út frá því að hún væri sú síðasta, en eftir hverja 10 m var nýtt skýli þar sem framvísa þurfti sömu skjölum og skilríkjum og í síðasta bás, 5 sinnum á um 100 m kafla. Þegar við vorum komnir í gegnum þetta skondna ferli og ókum inn í Tyrkland, stóð við landamærin um 10 km röð gámabíla sem biðu eftir afgreiðslu frá Tyrklandi til Búlgaríu. Væri samsvarandi röð á höfuðborgarsvæðinu, næði hún frá t.d. Nesklúbbnum að Elliðaánum.

Þegar við renndum inn í bæinn Edirne og stefndum á hótelið sem búið var að setja í staðsetningartækin, vorum við umkringdir moskum, augljóslega lentir í veröld bænakalla, 5 sinnum á sólarhring. Það sem við vissum ekki er að Selimiye moskan, sú stærsta í bænum og sú sem fyrst varð á vegi okkar er á heimsminjaskrá og þykir ein merkasta og fallegasta bygging arkitekts frá 16. öld, sem á samt nokkrar af þekktustu fornbyggingum Istanbuls. Edirne var nefnilega höfuðborg Ottomannaveldisins áður en hún var flutt til Miklagarðs.

Selimiye moskan er á heimsminjaskrá, hönnuð af Mimar Sinan, stjörnuarkitekt Ottomannaveldisins

Sofum við opinn gluggann til að missa ekki af bænaköllunum, enda þrjár eða fjórar moskur umhverfis hótelið og helst viljum við heyra sönglandann frá þeim öllum í árdegisbæninni kl 5:00 að morgni. Eknir 330 km

Lotte Palace

Í þessari ferð ætluðum við að sleppa Istanbul, umferðin þar er bæði einstaklega hröð og tillitslaus, hreinlega mjög ágeng. Til stóð að keyra hjá borginni, en svo kom í ljós að í Tyrklandi öllu eru aðeins tvær BMW þjónustustöðvar, önnur í Istanbul og hin í Ankara og hjól félagans þarfnaðist 10þús km olíuskipta og skoðunar, svo okkur stóð lítið annað til boða en að stíma beint á útibú bæverska firmans í Miklagarði. Þangað komumst við viðstöðulaust, en þjónustan varð að bíða til morguns, enda áttum við ekki bókaðan tíma. Notaði tækifærið til að láta uppfæra kortin á gps tækinu nýja.

Fundum hótel þarna í námunda, Lotte Palace, hvorki meira né minna. Fínasta hótel, fengum svítu með svefnherbergi og setustofu, afar snyrtilegt og fínt. Nenntum ekki í miðbæinn á túristaslóðir, enda notuðum við heilan dag með leiðsögumanni til að upplifa allt það helsta sem þar er, þegar við fylgdum hringfaranum hingað fyrir fáeinum árum. Við erum hér í úthverfi með eigin verslunargötur, göngugötu, veitingastaði og markaði. Afbragðs kvöldverður á litlum stað nærri hótelinu, engin enska, bara bent og brosað.

Maturinn hér er algert sælgæti

Svo kostar málsverðurinn hér svipað og greitt er í þjórfé á matsölum í öðrum heimshlutum. Þægilegur göngutúr um göturnar áður en gengið var tímanlega til náða. Eknir 212 km.

Hreinn þvottur

Brottför verður varla fyrr en e.h., því fyrr yrði hjól radíóvirkjans ekki klárt hjá þjónustumiðstöð BMW. Því ákveð ég að setja óhreinan fatnað í þvott á Lotte Palace hótelinu. Hef haft nóg af sokkum, nærfötum og bolum til skiptanna (og skolað úr þessum fatnaði ef svo bar undir), en buxurnar hafa allnokkrum sinnum verið gegnsósa af svita þegar mætt er áfangastað og engar aðrar með í för, utan þær sem ég skipti yfir í kvöldin þegar dagbrókin er hengd til þerris. Notalegt að fá flíkurnar tandurhreinar í morgun og meira að segja svolítil sótthreinsunarlykt af þeim. Ákveðinn munaður á svona ferð að klæðast hreinu.

Mættum til BMW laust fyrir hádegi og hófum ferli sem heitir „að doka“. Þegar spurt var eftir enskumælandi stúlkunni sem þjónustaði okkur svo lipurlega í gær, vorum við beðnir að bíða í 5 mín. Og svo leið tíminn. Á einhverjum tímapunkti löngu síðar náði radíóvirkinn sambandi við ungan mann sem talar fína ensku og var með alla hluti á hreinu. Pilturinn kom hjólinu hans í sitt ferli og við héldum áfram að doka. Ég minnti á uppfærsluna í tækinu mínu og það var hann með klárt á sinni könnu. Engar áhyggjur. Þegar við sjáum hjólið útvarpsvirkjans skila sér úr skoðuninni, stormar okkar maður að mínu hjóli til að sækja tækið til uppfærslu. Það er ferli sem tekur upp undir klukkustund. Ekki hafði þessum greindarlega pilti dottið í hug að láta uppfærsluna malla á meðan hitt hjólið var á verkstæðinu. Máttum við því doka enn um stund. Allt hafðist þetta að lokum og við rúlluðum í áttina suður til Efesus.

Umferðin í Istanbul er skelfileg. Bílarnir aka þétt upp að manni, reyna jafnvel að þrykkja manni úr sinni akrein, troðast utaní mann og þrengja sér fram fyrir mann, allt á svona 70 til 100 km hraða. Frá því að við lögðum af stað frá Bæjurunum vorum við í svona hryllings umferð eina 60-70 km þangað til við náðum að yfirgefa stórborgartraffíkina. Á leiðinni ókum við eina af voldugu brúnum yfir Bosborussund og fékk ég „velkominn til Asíu“ vink frá fararbroddinum þegar komið var yfir brúna. Skömmu síðar varð enn stærri brú á vegi okkar, Ozmangasi brúin yfir Marmarahafið, fjórða stærsta hengibrú veraldar, tæplega 2,7 km að lengd.

Létum staðar numið á Holiday Inn hóteli í borginni Bursa, en þá var farið að skyggja og við búnir að leggja að baki 248 km.

Bókasafnið

Snæddum árbítinn innan um hóp af kínverskum ferðamönnum, sem bendir til að við séum hér svolítið á túristaslóðum. Við eftirgrennslan virtist mér markverðast til skoðunar: stóra moskan, blómagarður og nokkur grafhýsi. Við létum ekki glepjast af þessum spennandi attraksjónum, en brunuðum suður til Efesus, þangað sem Sál frá Tarsus skrifaði frumkristnum söfnuði lífsspeki og siðferðisleiðbeiningar sem nú eru hluti af hinni góðu bók, reyndar eftir að hann fékk vitrun og breyttist í Pál postula.

Á leiðinni ókum við að mestu eftir splunkunýrri hraðbraut með þrjár akreinar í hvora átt. Þægilega lítil umferð var um veginn, þannig að við gátum haldið okkar striki nokkurn veginn viðstöðulaust. Hér þarf að greiða vegatolla og reiknaðist mér til að við værum að greiða um sem nemur 7 krónum á km pr hjól, eða 700 ísl krónur fyrir hverja 100 km. Kannski er það skýringin á því hversu fáfarinn þessi nýi vegur er. Bensínstöðvar meðfram veginum voru allar í byggingu, sumar samt búnar að opna en aðrar meira á frumstigi smíðaferlis. Nú komst hitinn upp í 35 gráður, en það er nú svo sem bara það sem við reiknuðum með, þótt heitt sé.

Bókasafnið

Í Efesus er gríðarlegt samansafn fornminja og svæðið að sjálfsögðu á fornminjaskrá Unesco. Elstu minjar þarna eru um 6.000 ára gamlar, en merkasti tími borgarinnar var á dögum Rómverja, þegar hún var fjórða stærsta borgin í öllu Rómaveldi á eftir Róm, Alexandríu og Antíokkíu. Þá bjuggu hér minnst 250.000 manns. Svo voldug og mikilvæg var borgin að Artímesarhofið í staðnum var það stærsta í heiminum og eitt af þeim frægu 7 undrum hinnar fornu veraldar. Reyndar er borgin sögð stofnuð á 10. öld f.Kr. af Androclusi, prinsi af Aþenu, sem flúði frá Grikklandi og á því á sinn hátt grískar rætur.

Einungis er búið að grafa upp um 20% af fornminjunum sem þarna eru, en mest áberandi er eðlilega hringleikhúsið, sem var upphaflega byggt af Grikkjum og tók um 25.000 manns í sæti. Rómverjar endurbættu svo leikhúsið á fyrstu öld, en þá gerði Ágústus keisari borgina að höfuðborg Litlu-Asíu.

Fallegar fornminjar upp eftir öllum götum

Búið er að grafa upp m.a. götur, hof, íþróttahús, bókasöfn og almenningsklósett, þar sem betra fólkið gat keypt sér sitt eigið sæti. Og svo náttúrulega hóruhús sem voru eðlilegur hluti hamingjusams fjölskyldulífs þess tíma.

Rómversk stræti

Þegar við leituðum að hóteli þarna í námunda í gps tækinu, var Hilton eina nafnið sem við þekktum og stefnan því tekin á það. Reyndist gistihúsið frábærlega staðsett gegn snekkjuhöfninni á miðri strönd bæjarins Kusadasi, nokkru norðan við Marmaris sem var vinsælt hjá landanum hér um árið. Það var eiginlega ekki annað í stöðunni en að láta eftir sér að þiggja næturskjól á þessum vinalega stað.

Af svölunum hjá Konráð Hilton

Síðan smá kvöldganga og léttur kvöldverður áður en rölt var á gistihúsið og hripaðar niður línur um atburði dagsins. Eknir 416 km

Bómullarhöllin

Frá hinu huggulega Hilton hóteli eru um 200 km til Pamukkale, þangað sem förinni var nú heitið. Þar eru stórmerkileg náttúrufyrirbrigði, samfella af allstórum kalsítkerjum utan í mikilli hlíð, sem myndast hafa á árþúsundum vegna kalkúrfellinga úr volgu vatni sem flæðir þarna alls staðar niður hlíðina. Þetta er hreint út sagt mögnuð náttúrusmíð, yfirmáta áhugaverð og einstaklega falleg.

Pamukkale merkir „bómullarhöllin“. Hlíðin að baki radíóvirkjans gæti úr fjarska virst vera þakin bómull

Þarna getur fólk gengið berfætt eða í sokkum (skór eru bannaðir til að skaða ekki kalsítmyndanirnar) upp alla hæðina og baðað sig eins og það lystir. Efstu kerin eru heitust, milli 30 og 40 gráður og smákólna þegar neðar dregur.

Kalsítúrfellingar úr volga vatninu mynda ótal svona ker
Myndatökumómentin….

Efst á hæðinn eru miklar fornminjar, grísk-rómverska spa-borgin (baðborgin) Hieraplis og eru bæði náttúran hérna og minjarnar á verndarskrá Unesco. Við ferðalangarnir höfðum teigað svo ríkulega af minjum Efesus í gær, að við áræddum ekki að taka inn annan jafn stóran skammt af Rómverjum og Grikkjum í bili og geymdum því minjarnar til næstu ferðar, en sem fyrr segir vorum við bergnumdir af náttúrunni.

Volga vatnsins notið rétt eins og heima
Stórkostlegt að upplifa þessa mögnuðu náttúrusmíð

Eftir að hafa drukkið í okkur stemningu þessa kyngimagnaða staðar, héldum við áfram í austurátt og settum markið á bæinn Afyonkarahisar sem er í liðlega 200 km fjarlægð og fengum þar inni á ljómandi gistihúsi, tvö samliggjandi herbergi fyrir minni fjárhæð en ódýrustu svefnpokapláss heima. Þetta er milli 700 og 800þús manna borg en lætur lítið yfir sér þar sem hún liggur í yfir 1.000 m hæð. Greinilegt hvað kvöldið er svalara hér en niður við sjóinn.

Eknir 430 km

Afyon til Kappadocia

Föstudagurinn 13. fór í akstur frá Afyon til Kappadocia. Mjög þægileg keyrsla, lítil umferð og hitinn stærsta hluta leiðarinnar ekki nema um 22 gráður. Vegurinn liggur í töluverðri hæð og virtist mér fjöll og ásar vera grjótmelar, en allt grasi vaxið upp í efstu eggjar öfugt við heima. Hér vorum við greinilega komnir upp fyrir trjálínu, að undanskildu greni og furu eða öðrum þeim líkum trjátegundum, sem mynduðu litla skógarreiti hér og þar. Vorum komnir tiltölulega snemma í hina ólýsanlegu ævintýraveröld Kappadocia og verður morgundeginum öllum varið í skoðunarferð um þennan heillandi heim sandsteinsskúlptúra.

Íbúðablokk fyrri ára í Kappadocia

Á annars tiltölulega tilbreytingarsnauðri ferð okkur um göturnar þennan daginn, lentum við þó í því í fyrsta sinn í ferðinni að vera stoppaðir af lögreglu og það ekki bara einu sinni, heldur tvisvar sama daginn. Í fyrra skiptið stóðu einir 6 laganna verðir á allnokkru plani við veginn og stöðvuðu bíla hips um haps og bentu þeir okkur rakleiðis inn á planið til sín. Ekki urðu mikil orðaskipti, en við áttuðum okkur þó á þeirri tyrknesku að ökuskírteina var óskað. Þetta voru hinir vinalegustu karlar og nenntu varla meira en rétt líta á það sem við höfðum að sýna, en buðu okkur í staðinn smákökur og súkkulaði og fóru okkar samskipti þannig að myndir voru teknar af þeim með okkur og okkur með þeim og kvöddu þeir okkur að lokum hver og einn með handabandi og brosi.

Þessir laganna verðir, sem voru við umferðareftirlit, reyndust hinir ljúfustu og gáfu súkkulaði og smákökur

Aðeins nokkru síðar er okkur enn bent út í kant, þar var aðeins einn á götunni og annar í bíl. Fengu þeir sömu dokument og hinir sem við höfðum nýverið kvatt, en í þetta sinn voru skírteinin grandskoðuð og sá í bílnum var í heilmiklu talstöðvarsambandi og tölvuuppflettingum með ökuleyfin okkar í höndunum. Ekki kærðu þeir sig um myndatökur, en voru kurteisir og virkuðu bara hinir þægilegustu drengir, afhentu okkur aftur, það sem okkar var og kvöddu með virktum.

Eknir 446 km

Loftbelgir í Göreme

Vaknaði fyrir kl 6 í morgun í litla snotra hótelinu sem við fundum í Göreme, við hvæsið í loftbelgjunum sem svifu rétt ofan við húsþökin allt í kringum gistihúsið okkar. Hljóðið kemur af því að með stuttu millibili þarf að sprauta kröftugum gasloga inn í belginn til að hann haldi nægum hita, svo að blaðran haldist á lofti. Þekkti hljóðið frá því ég fór hangandi í svona belg með Kristjáni vini mínum, yfir fjöllin merkilegu í Guilin í Kína.

Loftför við sólarupprás

Ræsti radíóvirkjann og næstu klukkustund vorum við á þaki hótelsins við dagrenningu, njótandi þess að fylgjast með hartnær 100 belgjum svífa yfir bæinn og hið ólýsanlega landslag í bænum og umhverfis hann.

Kraðak á morgunhimni

Að afloknum dögurði gerðumst við túristar par excellence, fengum hótelið til að skrá okkur í útsýnisferð og vörðum deginum með öðrum ferðamönnum í að upplifa þennan kyngimagnaða stað.

Náttúruskúlptúrar

Segja má að engin orð fá lýst því sem fyrir augu ber, þeirri ævintýraveröld sem hvarvetna blasir við. Sandsteinninn hefur í árþúsundanna rás veðrast í hin ótrúlegustu form og hafa minni og stærri hólar verið notaðir sem híbýli manna með því að höggva inn í þá rými til dvalar, jafnvel á nokkrum hæðum í sama hólnum.

Nunnuklaustur í frumkristni

Einn dal heimsóttum við sem byggður var kristnu fólki frá 5 öld og fram á annað árþúsundið. Eru þar klaustur og kirkjur allmargar, sumar málaðar freskum að innan sem enn eru vel varðveittar.

Nokkuð þéttbýld á köflum

Af veikum mætti og lítilli kunnáttu reyndi maður að ná stemningunni á myndir og læt ég nokkrar fylgja hér, en mér færara fólk hefur hlaðið niður miklum fjölda mynda af svæðinu á netið.

Furðumyndir náttúrunnar

Eins og vænta má í Tyrklandi endar hver góð skoðunarferð í teppafabrikku. Slík heimsókn fylgir ákveðinni rútínu sem söm er hér og t.d. í Kína, þar sem nokkrar slíkar stofnanir voru heimsóttar á þeim árum sem þar var dvalið. Fyrst sérðu konu sitja við mikinn „vefstól“ eða öllu heldur „hnýtingarstól“ þar sem hún hnýtir teppið. Það er oftast hnýtt úr ull, bómull eða silki, eða jafnvel blöndu þessara efna og þú færð að vita hnútafjölda pr fersentimetra, sem er mjög breytilegur og hefur afgerandi áhrif á verð vörunnar. Því fleiri hnútar, því dýrara teppi. Svo er farið með þig í sal þar sem sýnishornum af mismundandi teppum er slengt á gólfið með heilmiklum tilþrifum og einu hringformuðu temmilega litlu, þeytt af mikilli kunnáttu í loftinu eftir endilöngum salnum, það heitir fljúgandi teppi. Á meðan á þessu stendur kemur einhver með te handa öllum og síðan er sýnt hve auðvelt er að brjóta teppin saman og koma þeim í tösku, sem þeir síðan sjá um að senda heim til þeirra sem kaupa vilja varninginn. Eitthvað sýndist mér afraksturinn vera rýr hjá teppasölunum, eftir heimsókn þess hóps sem við vorum hluti af.

Ekki málverk. Hnýtt „smáteppi“ til veggskreytingar

Um kvöldið rigndi með þrumum og eldingum, en við vonumst eftir góðu ferðaveðri á morgun. Höfðum keypt okkur belgsflug í fyrramálið, en ljóst var strax um kvöldið að ekki viðraði til slíkra flugferða morguninn eftir og fengum við því endurgreitt, hálfsúrir yfir að ná ekki þessu vinsæla ferðamannagimmiki. Látum því nægja að svífa á loftfari minninganna og halda áfram okkar för.

Næturskjól í Sivas

Veðurútlitið var ekki spennandi, rigningu spáð svo til alla leiðina sem fara átti í dag. Og það stóðst, 268 km eknir, svo til allir í rigningu, þrumum og eldingum. Við höfðum svo sem rætt það, að ef við lentum í rigningu væri best að finna sér hótel og halda áfram þegar upp styttir. En hér var ekki margra kosta völ, höfðum sett stefnuna á bæinn Sivas og á leiðinni þangað voru ekki margir fýsilegir kostir til næturgistingar. Fararbroddurinn var kominn vel á annað hundrað km án pásu og taldi ég víst, að hann tæki engan séns á því að stoppa og láta mig tala sig inná að reyna að finna afdrep í einhverjum smábænum á leiðinni, sem þó voru ekki margir. Þegar hann loks lét svo lítið að leita skjóls og fá sér tesopa, voru ekki nema um 140 km eftir á áfangastað og var sammælst um að stoppa kannski tvisvar á þeim spotta og fara ekkert allt of hratt yfir. Hitinn var kominn niður í 13 gráður og leiðinda strekkingur á köflum. Við ökum hér eftir miðjum Anatólíuskaganum í um 1.000 til 1.300 m hæð, sem skýrir hitastigið. Um miðbik leiðarinnar sáum við í fjarska fjall með snækolli á toppnum. Ekki það sem fyrsta kemur upp í hugann þegar rætt er um Tyrkland.

Ökuþórinn stiginn úr söðlinum, bara slakur á kvöldgöngu um bæinn

Á leiðarenda náðum við vandræðalaust og ókum beint á Sivas Büyük Otel í miðbænum, en því hafði verið stillt inn í „ratarana“ okkar. Þetta reyndist hið fínasta hótel, með flottum rúmgóðum herbergjum, spa í kjallaranum og hársnyrtistofu og annarri þjónustu innanhúss. Fyrir verelsið máttum við punga út sem nemur kr. 5.100 og var þá morgunverðarhlaðborð innifalið.

Þessi elegans var næturskjól okkar í Sivas

Undir kvöld stytti upp og röltum við þá um stræti og torg, nærðum okkur og undruðumst með sjálfum okkur yfir því, hve nútímalegt hér er og hreint í þessum 350.000 manna bæ, eins og reyndar víðast, þar sem leiðir okkar hafa ratað hér í landinu.

Fyrsta moskan sem við sjáum með verslanir og veitingastaði undir helgidóminum

Heiðarnar á austurhluta Anatólíuskagans

Regnið sem átti að vera í dag samkvæmt spánni í gær hefur einhvern veginn fjarað út af veðurkortinu í morgunsárið, svo við drifum okkar bara af stað eftir morgunverðinn. Ef eitthvað er, verður enn strjálbýlla eftir því sem austar dregur, en landslagið minnir stundum óneitanlega á íslenskar heiðar, hæðir og ásar, dalir og háfjöll í fjarska. Við erum enn að hækka okkur og komumst hæst í 2.158 m, erum þá liðlega hálfum Hallrgímskirkjuturni ofan við Hvannadalshnjúk, svona til að setja hlutina í samhengi.

Heiðarnar á austurhluta Anatólíuskagans minna stundum svolítið á heimahagana

Lítið var stoppað á leiðinni, en lentum þó enn í því að lögreglan vísaði okkur út í kant til sín, enda svo sem lítið að gera hjá þeim á þessum fáförnu slóðum og tilbreyting í samskiptum við erlenda vélhjólapilta. Okkur þótti þeir nokkuð slakir, þessir laganna verðir, því nú vildu þeir ekki einu sinni sjá ökuskýrteini okkar. Svo mikið skildum við í Tyrknesku með hjálp fingramáls og bendinga, að þeir forvitnuðust helst um hvaðan við komum og hvert halda skyldi. Ekki voru þeir aflögufærir með smákökur eða súkkulaði, alla vega var ekki boðið upp á slíkar trakteringar að þessu sinni. Við hefðum sennilega ekki heldur komið neinu niður eftir að hafa gert ríkulegu hlaðborðinu á Sivas Büyük Otel feikilega góð skil. Þar var m.a. boðið upp á fransbrauð eins og þau fengust í Björnsbakaríi á árum áður, mjúkt brauð með stökkri skorpu.

Hér um slóðir er gamla góða fransbrauðinu gert hátt undir höfði

Í borðinu eru tvær skálar og í þeim einhvers konar mjólkurvörumassi sem ég hélt helst að væri ostur. Fæ mér smá úr annarri skálinni, og viti menn, er þetta þá ekki smjör, svona bögglasmjör eins og við gerðum í sveitinni þegar mjólkufræðingar fóru í verkfall og hella varð niður mjólkinni. Þá var rjómanum fyrst fleytt ofan af og gamla Kenwood hrærivélin framleiddi hvert smjörkílóið á eftir öðru. Nostalgían tók yfir þegar ég smurði fransbrauðssneiðina með þessu einstaka viðbiti og toppaði svo góðmetið með hunangi sem lak þarna úr stórri vaxköku.

Sáum þetta hús i fjarska, engin jarðhæð, það er einungis á annarri hæð

Aksturinn í dag var einstaklega skemmtilegur, hitinn þægilegur, fór mest í 24 gráður og svo niður í 13. Í þeirri litlu umferð sem á þessum vegum er, líður hjólið átakalaust í gegnum umhverfið án nokkurs áreitis á ökumann, hálfpartinn svífur eftir aflíðandi bugðum yfir heiðavegi og þræðir sig mjúklega í gegnum krókóttar dalbrautir í botni þröngra dala. Með þægilegan gustinn í fangið og ilminn af náttúrunni í nefinu, er sem maður samsamist umhverfinu og verður eitt með þeirri veröld sem um er farið. Og þá varð mér hugsað til míns góða vinar, Kristjáns hringfara, sem hefur eflaust verið innblásinn að þessari tilfinningu þegar hann nefndi netsíðuna sína „Sliding through“.

Vorum komnir frekar snemma til Erzincan þar sem við komum okkur fyrir á enn einu ljómandi gistihúsinu fyrir fáeinar krónur. Eknir 249 km

Tesekür

Þar sem búið var að spá regni á leiðinni sem við förum héðan, þótti okkur betra að verja deginum bara hér í bænum og leggjast yfir Íranskortið í símtækjunum okkar, því við höfum ekkert Íranskort í GPS tækjunum og virðist slíkt ekki vera fáanlegt.

Í gær fórum við á kaffihús og voru öll borð utandyra upptekin, en við eitt þeirra sat einsömul eldri kona þrifleg mjög og fengum við að tylla okkur hjá henni. Höfðum við ekkert af henni að segja nema stöku bros, þangað til ungt par kemur aðvífandi, greinilega til konunnar, sem trúlega hefur verið að bíða eftir þeim og settust þau hjá okkur við borðið glaðleg mjög. Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þeim hafi þótt skondið að koma að þeirri fullorðnu í félagsskap þessara myndarlegu útlendinga. Allavega tókum við öll tal saman á táknmáli, þar til unga daman dregur upp símann og spyr okkur að einu og öðru með hjálp þýðandans hjá gúgli. Þau hlógu mikið, svo við gerðum það bara líka og var þetta með öllu hin ánægjulegasta kaffihúsaheimsókn. Í upplýsingamiðlun hvors til annars við kaffiþamb og kökuát, komumst við að því að þessi eldri kona var ekki nema 45 ára og unga konan, dóttir hennar tvítug. Fengum jafnframt að heyra frá þeirri yngri, að þessum tyrknesku borðfélögum okkar þótti við bera aldur okkar vel.

Þarna áttaði ég mig allt í einu á þægindum þýðingarforritsins hjá þeim alvitra og hlóð því óðara niður í vasatölvuna þegar á hótelið var komið. Notaði það síðan óspart í samskiptum við fólk í dag. Lagði á mig að læra að segja takk á máli innfæddra, en ætlaði samt aldrei að geta munað árans orðið, tesekür. Ég hafði litla hjálp af radíóvirkjanum í að muna þetta eina orð, því þó að hann sé eins og alfræðibók í öllu sem snertir bíla, báta, vélhjól, flugvélar og tæki og tól af hinum ólíklegustu sviðum tækninnar og man bæði bílnúmer og símanúmer áratugi aftur í tímann, þá liggur tyrknesk málfræði ekki betur fyrir honum en mér. Áttaði mig svo á því að þetta orð er ekki ólíkt orðinu te-sekkur og þar með reyndist nokkuð auðvelt að muna það. Gerði ég að sjálfsögðu mikla lukku, þar sem ég náði að slá um mig með þessari nýtilkomnu getu minni. Svona getur maður nú verið snöggur að tileinka sér hina nýjustu tækni. Hjólin hvíld með öllu.

Bert og Johan

Enn á ný ökum við í sáralítilli umferð yfir ása og meðfram ám í botni þröngra dala, tökum aksturinn rólega því dagleiðin er stutt. Stoppum við bensínstöð þar sem tveir vélhjólamenn eru fyrir og tökum þá tali.

Þetta eru Hollendingarnir Bert og Johan sem eru á leið til Georgíu og Armeníu á gömlum Moto Guzzi hjólum

Þetta eru Hollendingarnir Bert og Johan sem eru á leið til Georgíu og Armeníu á gömlum Moto Guzzi hjólum, um 1988 módel, en Johan er bifvélavirki og kann hjólin utan að, greinilega búinn að breyta þeim mikið. Upphafleg plön þeirra voru að fara til Írans, en þar sem landið er enn formlega lokað stærri hjólum fóru þeir í fyrrverandi Sovíet lýðveldin í staðinn.

Stefndum á bæinn Erzurum sem er mikill skíðabær. Hér voru Asíuleikarnir í skíðaíþróttum haldnir 2011. Hótelið okkar er í tæplega 2.500 m hæð, liggur örlítið ofan við bæinn með flottu útsýni. Mjög fínt hótel, státar af því að vera það besta á svæðinu, en nú er rólegt og þeir virðast ekki leggja mikið upp úr matnum. Hélt mig hafa lesið einhvers staðar að í því væru fínir veitingastaðir og nokkri barir. Stór og fínn bar er hérna og stór veitingastaður, þar sem því miður fékkst aðeins matur úr hlaðborði, einstaklega óspennandi. Svolítið sérstakt, því við höfum einungis fengið sérdeilis góðan mat alla okkar Tyrklandsdvöl. Svona er nú það.

Kaffipása við veginn

Á leiðinni upp að hóteli tók radíóvirkinn eftir þvottastöð og var komið þar við, eftir að við höfðum plantað okkur inn á hótelið og búnir að fá okkur hádegissnarl í bænum.

Ekki veitti af þrifum

Það verður að segjast eins og er að þegar hjólin stóðu þarna hrein og þurr eftir þjónustu þvottakarlsins, þá hreinlega glaðnaði yfir samferðamanninum og áran varð öll bjartari, enda annálaður snyrtipinni. Þetta voru sem sé fyrstu alvöru þrifin frá því lagt var upp frá Síðumúlanum. Eknir 212 km

Hádegsmatur í móanum

Oftar en ekki eru atburðir dagsins settir á netsíðuna á kvöldin eftir að samferðungurinn er sofnaður. Nennti því ekki í gærkvöldi, þannig að morguninn fór í þetta stúss, sem eflaust er fljótgert fyrir þá sem til verka kunna, en skrásetjari hér er tæknilegur fimbulfambari og því tekur allt sinn tíma. Komumst þó af stað um tíuleytið og eins títt er um þá sem hátt ná, lá okkar leið nú niður á við. Enn ökum við að mestu á afar fínum götum og liggur vegurinn yfirleitt í 1500 til 1800 m hæð. Sól og 18-25 stiga hiti, hjólin rúlla þægilega og áreynslulaust eftir þessum notalega bugðótta hálendisvegi.

Náttúran tekur á sig skemmtilegar myndir alveg við þjóðveginn, sem býður upp á myndatökur með litlu vasatölvunni. Fararbroddur fylgist vel með mér í baksýnisspeglinum og þegar ég hverf úr honum, veit hann að vinurinn hefur stoppað til myndatöku og býður nokkru framar.

Falleg leiktjöld náttúrunnar gera upplifunina enn stórkostlegri

Í dag gerðist þetta fáeinum sinnum og í einu tilfellinu kem ég að hjólinu hans í útskoti við veginn og fjárhirðar sem þarna voru í hádegsmat í móanum, búnir að bjóða honum í mat. Þeir tóku okkur fagnandi, settu undir okkur brekán þarna á foldinni og buðu til veislu.

Í miðdegisverði hjá fjárbændum austarlega á hálendi Tyrklands

Með matnum er drukkið te, sem reyndar er „drykkurinn“ hér um slóðir. T.d. er ávallt frítt te í boði á bensínstöðvum, úr stórum hitakatli sem stendur utandyra og sykurkar hjá. Það var eins hjá gestgjöfum okkar þarna á þúfunum og öðrum hérlendum, menn undrast ávallt þegar við afþökkum sykrið. Sýndist mér sykurmoladunkurinn vera eitt stærsta matarílát þessara fjárbænda. Orðaskipti áttu sér stað með táknmáli að hluta, en að sjálfsögðu hjálpaði gúgull í flóknari samræðum. Höfðum við af þessari samverustund mikla ánægju og virtist okkur þessir elskulegu karlar hafa ekki síðri skemmtan af nærveru okkar í miðdegisverðinum.

Þegar við ökum hjá bænum Agri, sem er næstsíðasti stærri bærinn á þessari þjóðleið til Írans, þá er vopnaður hervörður við veginn, sem stoppaði suma en hermennirnir, sem horfðu rannsakandi augum á okkur, veifuðu okkur áfram án frekari afskipta. Þegar nær dregur náttstað okkar, Dogubeyazit, liðlega 100þús manna bæ, blasir við hátt fjall með fallegum snækolli. Ég var búinn að sjá á korti að við ættum hér að vera nokkuð nálægt einu frægasta fjalli veraldar, en hausinn á mér tengdi samt ekki fyrr en ég sé á kortinu í símanum að þarna blasir við mér fjallið þar sem gamli Nói strandaði sínu fleyi fyrir margt löngu, 5.137 m hátt eldfjallið Ararat.

Aðeins 40 km eftir til Írans, þar sem við dveljum síðustu nóttina í Tyrklandi að sinni við rætur Ararat fjalls

Ég les mér til um að þessi síðasti viðkomustaður okkar í Tyrklandi, hefur verið eins konar miðstöð útivistar- og fjallgöngufólks sem sótt hefur í fjallið, en eftir því sem ég kemst næst er það nú lokað íþróttafólkinu, herinn hefur lagt það undir sig.

Árið 2003 þegar ég keypti mér fyrsta BMW hjólið, K1200LT, fjárfesti ég líka í góðum hjólaskóm. Nú var rennilásinn í skónum orðinn svo stífur og erfiður að ég spáði í að kaupa mér nýja hjá BMW-Niederlassung í Istanbul. Tæknimaðurinn í túrnum taldi það óþarfi, smá olía gæti lagað ástandið. Mér hafði svo sem hugkvæmst þetta, en einhvern veginn ekki haft trú á að svo einföld aðgerð gæti gagnast. Falaðist ég eftir smá olíudropa á rennislásinn hjá þeim BMW mönnum, en slíkt vafðist eitthvað fyrir þeim, utan við hefðbundna verkferla. Held því áfram að eiga í þessari baráttu við lásana þegar ég klæðist og afklæðist skónum, þangað til skíðamaðurinn við hliðina á mér rifjar upp, að mamma sín hefði núið kertavaxi á rennilásana í skíðafatnaðinum ef þeir stirðnuðu hér á árum áður.

Þarna erum við staddir í bænum Erzincan og förum við rakleitt í næstu dagvöruverslun til að kaupa kerti. Þau fást ekki færri en 50 í pakka og þó þetta kosti ekki mikið telur radíóvirkinn mig á að rölta svolítið áfram og sjá hvort við finnum ekki smærri smásölueiningar. Tekur nú við hver húsgagnaverslunin af annarri og sé ég í uppstillingum m.a. kertastjaka. Förum inn og ég fæ gúgul til að spyrja afgreiðslufólkið hvort hægt sé að fá keypt eitt svona tekerti eins og þarna var. Alúðleg brostu þau og létu mig hafa kertið endurgjaldslaust, það tæki ekki að greiða fyrir svona smotterí. Og til að gera langa sögu stutta, þá rauð ég þessu mjúka ilmkerti á rennilásana og skórnir eru sem nýir. Hugsa ávallt hlýlega til mömmu hans Gumma þegar ég klæðist skónum og lásarnir opnast og lokast við minnstu viðkomu. Eknir 279 km

Við rætur Ararat

Eitt er svolítið sérkennilegt við umferðarmenninguna hér, í stað þess að aka á akreinum eins þær eru merktar og víðast hvar er gert, þá aka menn gjarnan með hvítu línuna undir miðjum bílnum, vel að merkja í þeirri takmörkuðu umferð sem við höfum verið í undanfarið. Meira að segja hér á hálendisvegunum sem jafnan hafa tvær akreinar í hvora átt og merkt um það bil metersbreitt miðjusvæði á milli með óbrotinni hvítri línu hvoru megin, þá aka menn jafnvel akkúrat á þessu miðjusvæði milli hægri og vinstri akreina.

 

Við rætur Ararat

Við erum mikið á 80-100 km hraða eftir aðstæðum, en akstur fólksbíla er miklu hraðari, enda víða leyfður 110 km hámarkshraði. Þegar bílarnir aka framhjá okkur vilja þeir gjarnan vera með hægri hlið síns bíls inn á okkar akrein við framúraksturinn, og verður maður helst að vera vel vinstra megin á akreininni sem næst línunni, til að bílarnir haldi sig á sinni akrein þegar þeir þjóta hjá. Í borgum, sér í lagi stórum eins og Istanbul, eru akreinar helst ekki virtar neins, heldur treðst hver sem betur getur, hvar sem honum sýnist vera agnarbil til að smeygja sér inn.

Einu sinni áttum við löggæsluyfirvald sællar minningar, sem fékk þá skemmtilegu hugmynd að láta framleiða pappalöggur. Hér hafa menn þróað þetta ögn lengra og standa pappalöggubílar víða við veginn, m.a.s. með blikkandi ljósum.

Pappalöggubílar, eða því sem næst

Þegar betur var að gáð, þá er þetta nú ekki pappi, heldur eru þessir gervibílar gerðir úr blikkplötum sem festar eru á grind úr járnprófílum og virka nokkuð sannfærandi úr fjarlægð.

Þetta þarf að plana vel

Dagurinn hefur farið í rand um bæinn, en fyrst og fremst í að fara yfir alla punkta varðandi Íransheimsóknina. Það verður að segjast eins og er, að við erum báðir nokkuð óþreyjufullir eftir að komast á landamærin. Ætluðum að klára það mál í dag, sem var því miður ekki hægt þar sem föstudagurinn er frídagur í Íran. Verðum að taka daginn snemma á morgun, því við eigum að hitta kontaktmann á landamærunum kl 9 á írönskum tíma, en þeir eru með klukkuna hálfum öðrum tíma á undan Tyrkjum, þannig að við verðum þá þar um hálfáttaleytið í fyrramálið. Getum varla beðið. Hjólin óhreyfð.

Sem sagt, hér er fransbrauðið brauð brauða

Tyrkland kvatt að sinni

Ferðalangarnir voru orðnir svo spenntir fyrir framrás komandi dags, einkum vegna þess að nokkur óvissa var um hvort þeim yrði hleypt inn í fyrirheitna landið, að þeir vöknuðu báðir hálftíma áður en vekjarinn hringdi kl. 5:45. Þá var bara að drífa sig á fætur og koma sér af stað.

Tyrkland kvatt að sinni og Ararat fjall

Leiðin að landamærunum var fljótfarin, tæpir 40 km í morgunsvalanum, hitinn var 16 gráður þegar við ókum af stað en var kominn upp í 20 við landamærin hjá bænum Gurbulak og 30 stig þegar við yfirgáfum landamærastöðina Íransmegin, við Bazargan. Svona árla dags var lítil umferð og voru tyrknesku landamæraverðirnir ekki að tefja okkur svo neinu nemi, á tékkpóstunum sínum þremur.

Síðan erum við komnir að hliði sem við máttum ekki fara um fyrr en við höfðum fengið passaskoðun hjá Írönunum. Til þess þurfti að fara í skála mikinn þar við hliðina, í biðröð með fólki sem kom þarna úr nokkrum rútum. Biðröðin endaði í liðlega axlarbreiðum grindargöngum um tveggja metra háum og leiddu þau að embættismanninum með stimpilinn. Fararbroddurinn, sem alla jafna er í forystu, fékk tiltölulega fljóta afgreiðslu en mitt vegabréf þurfti að grannskoða mun lengur. Fékk það svo afhent með brosi og þar með vorum við, einstaklingarnir, raunverulega komnir langleiðina yfir landamærin. En það eru hjólin, sem eru hinn krítíski þáttur þess að komast þarna yfir.

Nú máttum við fara yfir á svæði, þar sem okkar kontaktmaður, Yasin, beið okkar, til að vasast í því sem að hjólunum sneri. Við höfðum gengið frá svokölluðum “Carnet de Passage” pappírum hjá Hossein, góðvini Kristjáns hringfara, en þetta eru ákveðin tryggingarbréf sem mörg lönd krefjast að séu klár, eigi að aka um þau í eigin farartæki. Yasin, hans maður á staðnum, stóð upp fyrir haus í þessu vafstri, á meðan við sátum á stéttarkanti í skugganum og var okkur borið bæði te og kaffi. Klukkutími leið og svo annar og svo kom okkar maður og útskýrði að netið hefði dottið niður og vonuðust menn til að það skilaði sér aftur innan klukkustundar eða svo. Til að slökkva þorstann í biðinni, var það fyrsta sem við keyptum fyrir íranska ríala í þessu haturslandi BNA, merkisberi amerísks kapítalisma, Coca Cola. Í þessari bið allri hríslaðist af okkur óvissuspennan, við vorum orðnir sallarólegir og nokkuð trúaðir á að þetta næðist í gegn. Margir sem þarna voru við störf, bæði afgreiðslumenn og embættismenn skoðuðu hjólin, spurðu um þau og létu aðdáun sína á þessum tæknilega fullkomnu farskjótum í ljósi.

Svo gerist það að Yasin kemur ásamt ungum manni og segir okkur að fylgja honum. Hann skundar í gegnum fólksþvögur og framhjá rútum að leigubíl og fylgjum við svo bílnum inn á eitthvert illa skipulagt moldarplan stórt, þar sem allt var fullt af flutningabílum.

Hjólin bíða heimildar til að krossa landamærin

Okkur er bent á að bíða með hjólin fyrir utan stóran skúr þar sem hann hljóp inn og afgreiddi mál, síðan fylgdum við honum eftir að öðrum svona skúr, en afgreiðslan þar tók lengri tíma. Ég tyllti mér þar inni á laust sæti og fylgdist með þvögunni við afgreiðslubásana, þar sem hver reyndi að troðast eftir bestu getu,  en út á plani var bæði orðið heitt vel og mikið sandfok.

Afgreiðsla tolllskjala

Þegar sem næst 4 tímar voru liðnir frá því að við sýndum passana fyrst, afhendir ungi maðurinn okkur hin nauðsynlegu skjöl og vorum við nú komnir inn í fyrirheitna landið. Það lá við að við föðmuðumst.

Farnir að aka um íranska grund

Höfðum ætlað beint í átt að fyrsta planaða áfangastað, Kandovan, sem Ali vinur okkar hjá Oz benti okkur á. Hossein, sem útvegaði okkur skjölin fyrir hjólin, lagði svolítið að okkur að gista hjá sér fyrstu nóttina. Það var nokkuð úr leið, en svona sem þakklæti ákváðum við að hjóla til hans, um 300 km leið. Eins og Íranar eru þægilegir og virka rólegir, er samt síst minna áreiti í umferðinni hér en hjá Tyrkjum. Akreinar aldrei virtar frekar en þær séu ekki til, þegar ekið er í þéttri umferð eru þeir með stuðarann næstum því á afturhjólinu hjá manni, jafnvel vörubílar. Maður er sífellt með frambretti bíls, sem er að reyna að troða sér fram fyrir mann, utan í sér og svo vinka þeir manni, gefa stutt flaut eða hrópa kveðjuorðum, þannig að þetta er greinilega allt í góðu. Svo er að sjá sem fyrir þeim sé ein akrein æltuð a.m.k. tveim ökutækjum samsíða, eða jafnvel fleirum ef svo ber undir.

Stóran hluta af leiðinni ókum við í hífandi roki, stífum hliðarvindi og hitinn fór upp í 39 gráður. Svona hliðarstrekkingur tekur á, maður þarf að einbeita sér miklu meira að akstrinum en annars. Fengum okkur ljómandi hamborgara og vatn með, á skyndibitastað við veginn og rjómaís á eftir. Kostuðu herlegheitin sama og ein sódavatnsflaska á bensínstöð heima. Og talandi um bensínstöð, ég fyllti tankinn á hjólinu fyrir krónur, segi og skrifa, 160,-. Þar sem við höfðum vaknað snemma, rokið og hitinn náð að þreyta mann, þá var ég þeirri stund fegnastur er við renndum inn í portið hjá Hossein. Þegar til kom var hann ekki heima, en foreldrar hans tóku á móti okkur. Við máttum velja um herbergi inni hjá þeim eða betri vistarveru annars staðar. Þreyttir ferðalangar völdu fyrri kostinn. Eftir kvöldmat skriðum við báðir beint í koju, samferðungurinn í efri og ég í neðri.

Samferðungurinn lét sér efri kojuna vel líka

Við vorum sem sé komnir í kojugistingu. En hvað um það, við duttum útaf samtímis, um leið og hausinn snerti koddann. Eknir 337

Herbergi 105 í klettinum

Eftir morgunskattinn vildi faðir Hosseins endilega sýna okkur kirkju í bænum, sem hann sagði elstu kirkju jarðar, frá fyrstu öld, sem sé frumkristni. Við vorum heldur tregir til, enda mikil dagsskrá fyrir höndum, en þar sem þetta var bara 10 mín labb, þá slógum við til. Að kirkjunni komum við 45 mín eftir að við stigum úr porti gamla mannsins og til að auka á ánægjuna var kirkjan lokuð, yrði opnuð seinnipartinn.

Gestgjafi okkar og sendibíllinn hans

Á leiðinni til baka bauðst vertinn okkar til að ganga þetta með okkur aftur síðar um daginn. Við þökkuðum pent og endurtókum að við þyrftum að hafa hratt á hæli, þétt skipuð dagskrá.

Molasykurinn er seldur í alvöru pakkningum, ekkert hálft kg eða heilt

Á göngunni spurði ég gestgjafann hvort mikið væri um glæpi í þessari 700þús manna borg. Hann svaraði því til að hér væri allt með friði og spekt, þó svo fólk af mörgum þjóðernum byggði bæinn og nefndi hann Persa, Tyrki, Kúrda og Azera, sem sé Azerbaijanskt fólk og var hann af þeim meiði. Hafi ég skilið hlutina rétt þá heitir héraðið þarna nyrst í Íran  Azerbaijan eins og landið norður af því. Komnir heim í portið þar sem hjólin biðu, gerðum við upp gistinguna og héldum á vit ævintýranna.

Eins og í gær ökum við um falleg fjallahéruð í bland við sandsléttur miklar þar sem vindurinn gnauðar. Var samt ekkert í líkingu við storminn í gær. Sem fyrr segir var stefnan sett á Kandovan, en þar hafa menn höggvið sér híbýli í sandsteinskletta, ekki ósvipað og í Cappadocia. Við slepptum því að heimsækja Tabrizborg þarna rétt hjá, þó þar sé feykimargt að sjá, svo sem basar mikinn sem er undir minjavernd Unesco, moskur frægar og merkileg söfn. Jafnframt státar borgin af því að til forna rann úr aldingarðinum Eden fljót sem nú rennur um borgina og þeir eru til sem vilja meina að þarna hafi almættið plantað forfeðrum okkar að langfeðratali í friðargarði, en þau klúðrað þannig málum að afkomendurnir eru fram á þennan dag, enn að gjalda fyrir misgjörðir þessara frumforeldra mannkyns. Og karlinn kenndi frúnni um og frúin snákræfli sem tæplega hefur haft nokkurt mál, þá frekar en nú.

Í stað alls þessa fórum við í aðrar upplifanir og er bæði merkilegt og fróðlegt að sjá hvernig fólk hefur klappað sér vistarverur inn í sandsteinskletta, rétt eins og írsku munkarnir stunduðu fyrir landnám, í móbergið okkar heima. Hægt er fá gistingu á svæðinu, samt bara í svona helli og þáðum við það.

Samferðungurinn við herbergi 105 í klettinum

Sumir myndu ætla að það væri að fara úr öskunni í eldinn að fara úr kojum í miðbæ Úrmíu í helli upp til fjalla, en í þessum helli hefur satt að segja verið vandað til verka og væsir ekki um okkur hér.

Fleti ritara í hellinum
Radíóvirkinn hafði tvo bedda til afnota
Setustofan í grottunni

Örkuðum stígana meðfram og upp eftir hlíðinni í þessu hellaþorpi og virtum fyrir okkur híbýli fólks sem enn býr í hellunum.

Þetta eru híbýli fólks enn í dag
Húsakosturinn verður varla jarðbundnari

Neðst á svæðinu er gata með verslunum og þjónustu. Á randi eftir götunni gengum við fram á hóp af dömum sem báðu um að fá að taka af sér mynd með síðhærða Grána. Því var vel tekið og var slíkum myndum bætt í safnið á nokkrar vasatölvur þarna.

Þessar dömur langaði í mynd af sér með útlendingnum og var það auðsótt mál

Um kvöldið var snætt á hellishótelinu og komnir í okkar helli datt samferðamaðurinn út að vanda, á meðan skrásetjari myndaðist við að festa þessi orð á blað, áður en yfir atburðina fennir af áframhaldandi upplifunum hvers nýs dags.

Ekki er hægt að minna á sig á fésbókinni lengur, hún kemur ekki inn á vasatölvuna hér og er sennilega bönnuð í þessu landi. Eknir 142 km.

Fjölbreyttir litir í fjöllunum

Þar sem árbítur yrði ekki fram borinn fyrr en um hálfníuleytið, en við vaknaðir um hálfsjö að vanda, þá var einfaldlega pakkað og haldið af stað. Ekki var nema 8 stiga hiti þarna í 2.300 m hæð, en fór ört hækkandi, hélst lengi í 18-20 gráðum en síðdegis skreið hann yfir 30 stigin og nutum við þá vindkælingar á hraðferð eftir breiðstrætunum í þetta 1600 – 1900 m hæð yfir sjó.

Morgunmat fengum við okkur á þjónustumiðstöð við veginn eftir að hafa ekið liðlega 100 km. Staðurinn sem við fórum á, var einhvern vegin mjög óþesslegur að þar fengist neitt nema kannski te og kaffi, en geðþekkur afgreiðsludrengur sat við skrifborð og við hliðina á honum stóð á litlu borði svona einsbolla kaffivél, sem lofaði góðu.

Elskulegur afgreiðsludrengur með kaffidósina á skrifborðinu

Hann talaði enga ensku, en mæðgur sem höfðu matast þarna og voru að yfirgefa staðinn komu til aðstoðar, þ.e.a.s. dóttirin skildi nóg til að panta fyrir okkur eggjahræru með tómötum, brauð, ost og kaffi. Þetta var fyrsti kaffibollinn, sem ekki var neskaffi, síðan hjá þeim BMW mönnum í Konstantínópel og fór það einstaklega vel í mann, aukinheldur sem árbíturinn allur var ljómandi góður hjá því elskulega fólki sem þjónustaði okkur, piltinum, mömmu hans og ömmu.

Mæðgurnar sem útbjuggu morgunmatinn okkar, eggja-og tómathræru eins og þær eru með sjálfar þarna

Þarna líðum við síðan áfram, hitinn afar þægilegur svona árla dags, vegirnir að mestu fínir og náttúran gleður augað. Aðeins bíll og bíll á ferð framan af degi, við erum næstum einir á götunni og hjólin mala eins og mettir kettlingar, eru sem á sjálfstýringu og maður svífur gegnum landslagið, mér liggur við að segja „yfir“ foldina í áttina að frekari ævintýrum.

Fjölbreyttir litir í fjöllunum

Sjálfum finnst mér vanta aðeins fleiri landslagsmyndir í safnið og læt því eftir mér að stoppa tvisvar með stuttu millibili þegar við ökum í námunda við fjöll, nógu nærri til að þau greinist vel á myndum. Fararbroddurinn sér að í þessu landslagi gætu stoppin orðið fleiri og sendir mig fram fyrir. Þegar ég hef tafið ferðina með fáeinum stoppum til viðbótar tekur hann aftur forystuna, enda með maps me leiðsögnina á hjólinu.

Fjöllin ýmist rústrauð eða sementsgrá, eða hvorutveggja

Um miðdegisleytið eru 300 km að baki og ljóst að við komumst lengra þennan daginn en upphaflega var ætlað. Ég skynja það á mínum manni að hann er farinn að gæla við hugmyndina um að komast alla leið í höfuðborgina, sem eru hátt á fjórðahundrað km í viðbót. Það ræðst nú af því hve tafsamt verður að komast í gegnum þá bæi sem leið okkar liggur um og hversu góðir vegirnir sjálfir eru. Þó langir kaflar séu sléttir og fínir þá koma aðrir kaflar ekki síður langir þar sem malbikið er slitið, bætt og stagað, bæði öldótt og holótt og þarf þá að fara hægar um og varlegar.

Í akstursgleðinni þótti ekki ástæða til að stoppa í miðdegissnarl fyrr en klukkan var langt gengin í þrjú. Þar sem við sitjum og bíðum eftir fæðinu, renna tvö mótorhjól á planið og kennum við þar náunga frá Sviss sem við höfðum rétt náð að heilsa á landamærunum við komuna í landið. Snæðum við saman og upplýsist þá að reiðmenn þessara Svissmerktu hjóla eru Írar, feðgar sem búsettir eru í Genf. Faðirinn ætlaði að snúa við hér í Persíu, en sonurinn var á leið um Pakistan til Indlands.

Svissnesku Írarnir á Triumph hjólum

Er við lögðum af stað reiknuðum við með að aka liðlega helminginn af leiðinni til Teheran og settum markið á borg í samræmi við það. Þegar þangað er komið lifir enn mikið af deginum, svo aftur er slegið undir nára. Enn eru um 100 km eftir í áfangastað þegar farið er að rökkva og nokkuð ljóst að ef við höldum áfram munum við lenda í umferðarþvögu bæjarins eftir að myrkur er skollið á, sem er óþægilegt fyrir náttblindan. Engu að síður finn ég það á samferðungnum hvað hann langar til að eiga einn svona alvöru hjóladag, mikinn akstur og marga km inn á hjólið, maður skynjar óþreyjuna og keppnisandann, þörfina á að komast áfram, hafa afrekað eitthvað. Þetta andaði sterkt frá kappanum og í raun, þegar allt kemur til alls í svona för, þá er þjóðvegaánægjan aðall hennar og hápunktur. Þetta vita þeir sem hlustuðu á umferðarþættina um Jónas og fjölskyldu með Bessa heitnum Bjarnasyni í ríkisútvarpinu á síðustu öld.

Í þvögunni utan við Teheran

Teheran

24.09.19

Dögun í Teheran

Hér í 17 milljóna manna borginni Teheran er eins og gefur að skilja margt að sjá og skoða. Vandinn er að umferðin í borginni er skelfileg og þegar við reyndum að fá hótelið til að finna handa okkur bílstjóra til dagsins, sem færi með okkur á valda staði, var svarið bæði frá starfsfólki gestamóttöku og ferðaskrifstofu, sem er með aðsetur á gistihúsinu, að best sé að ferðast um borgina á kvöldin, of mikil umferð á daginn. Þetta leiddi til þess að við fórum yfir fáeina af top 10 stöðunum sem mælt er með og ákváðum að sleppa þjóðminjasafninu, múslimska safninu, sem er samt mjög áhugavert, stóra basarnum, búnir að skoða þann í Istanbul tvisvar og ótal aðra svipaða, einnig merkilegum moskum. Settum þess í stað markið á tvær af mögnuðustu túrista attraksjónum í bænum, Golestan höll og safn þjóðargersema landsins sem varðveitt er í mikilli hvelfingu í höfuðstöðvum seðlabankans og vill svo vel til að þetta tvennt er í göngufæri hvort við annað. Bankinn sýnir fjársjóðina einungis frá tvö til hálffimm þrjá daga vikunnar og vorum við svo heppnir að vera á réttum degi.

Teheran liggur sunnan undir Tochalfjöllum og búa þar tæplega 9 millj íbúa, um 15 millj með úthverfum

Í þéttu kraðaki umferðarinnar er um klukkustundar akstur frá Parsian Esteghlal hótelinu, sem eitt sinn hýsti gistiþjónustu fyrir Hilton fjölskylduna, að Golestan höll sem var til afnota fyrir þjóðhöfðingja fyrri tíða.  Á miðöldum byggðu þeir þarna slot, en það sem nú stendur lét keisarinn Nasser al-Din byggja á árunum 1848-96, innblásinn af evrópskum höllum og kastölum. Síðustu keisarar notuðu húsakostinn fyrir opinbera viðburði og hápunktar þeirra voru krýningar tveggja þeirra sem síðast stjórnuðu. Eins og flestu miðaldra fólki er í fersku minni, hrökklaðist hinsti keisarinn frá völdum ´79.

Mósaíkskreyttir veggir Golestan hallar
Þarna hafa menn komið sér huggulega fyrir

Og nú er húsið safn sem við nutum þessa að berja augum í fámenni og rólegheitum. Það er víst ekki mikið um erlenda ferðmenn hér í landi þessi missirin. Einn fremur fámennur hópur af Ítölum og annar álíka stór af Japönum var allt sem við rákumst á í þá veru.

Afdrep til gestamóttöku

Á leiðinni í seðlabankann römbuðum við á litla huggulega restrasjón sem er vestrænni en aðrar þær, sem höfðu orðið á vegi okkar á þessari hálftíma gönguleið og losuðum við okkur þar við hádegishungrið. Biðröðin í seðalbankanum var stutt, en fólk þurfti að skilja eftir síma og myndavélar áður en því var hleypt í helgidóminn. Við fylgdum enskumælandi leiðsögumanni sem fór yfir helstu djásnin og sögu þeirra. Margt af því sem þarna er, á sér langa sögu, var fyrr á öldum rænt frá þjóðinni, tekið aftur sem herfang og meðal þess sem Indlandskeisari neyddist til að skila ásamt með miklum gersemum öðrum um miðja 18. öld, er 182 karata demanturinn Darya-ye Nur (haf ljóssins), sem sagður er vera stærsti óslípaði demantur heims. Annar frægur demantur var jafnframt hluti af gersemum þessarar þjóðar fyrr á öldum, en hann hefur þó lengi verið eitt af krúnudjásnum Breta, sennilega frægasti demantur heims, sjálfur Koh-i-Noor (fjall ljóssins). Ekki er hægt að sleppa því að nefna þrjá aðra stórkostlega hluti sem þarna eru varðveittir, 34 kg hnattlíkan sem þakið er 51.366 eðalsteinum, höf og vötn þakin emeröldum og land þakið rúbínum, nema Bretland, Frakkland og Íran, í þau lönd dugði ekkert minna en demantar. Annar gripur er hið svo nefnda „Páfuglshásæti“, sem þakið er 26.733 eðalsteinum og svo hásætið sem notað var við krýningu síðustu keisara yfirhlaðið eðalmálmi og eðalsteinum. Áhugavert er að gersemar þessar eru hluti af „gullforða“ þjóðarinnar sem stendur á bak við gjaldmiðilinn.

Dinner á hótelinu, rólegt kvöld. Hjólin óhreyfð.

25.09.19

Til að sleppa við hina skelfilegu morgunumferð sem er komin á fullan skriðþunga um 7 leytið, var ákveðið að vakna hálfsex og vera komnir af stað ekki seinna en sex. Vöknuðum á undan vekjaranum og drifum okkur á fætur og stóðum niðri hjá gjaldkera korter fyrir sex. Þar kom náttúrulega babb í bátinn, netið lá niðri og ekkert hægt að gera fyrr en það slumpaðist inn aftur. Vel að merkja, hér er allt greitt með reiðufé og því ekki vandi vegna kredikorta. Við bárum okkur illa og gerðum mönnum grein fyrir því hvers vegna við lögðum það á okkur að vakna svona snemma. Hofmóðugur benti afgeiðslumaðurinn á töflu sem sýndi að net lægi niðri að nóttu á þessum fína gististað og opnaði ekki fyrr en 5:45. Vildi þá svo til að klukkan á sömu töflu sýndi 5:46, sem við bentum á til baka. Það breytti engu, netið lá niðri.

Þeir voru með passana okkar og við áttum bara eftir að borga gistinguna. Þar sem mér óaði við hinu hrikalega umferðaröngþveiti morgunsins stressaðist ég upp og beitti öllum brögðum, gerði þeim grein fyrir að við hefðum farið á fætur fyrir allar aldir til að forðast morgunumferðina skelfilegu, en ekki til að bíða fyrir framan þetta afgreiðsluborð þar til umferðin kæmist á fullan skriðþunga, lagðist næstum á hnén, en samferðungurinn hélt ró sinni. Það var engu tauti við þá komið, hér myndi ekkert gerast fyrr en netið flæddi í vírum tölvunnar. Við gengum frá töskunum á hjólin og gerðum þau klár í von um að netið skilaði sér í tölvur gistihússins, sem gerðist náttúrulega ekki. Allt í einu, einhverra hluta vegna gáfust félagarnir í gestamóttökunni upp, lofuðu okkur að gera upp næturnar tvær og afhentu okkur vegabréfin. Hvílíkur léttir. Klukkan var ekki nema örfáar mín gengin í sjö þegar hjólin rúlluðu af stað og komumst við á korteri suður fyrir þá staði, sem tók leigubíllinn á annan klukkutíma að aka, í skoðunarferð okkar í gær.

Þetta er ekki moska heldur veitingahús við þjóðbraut

Góðum klukkutíma síðar, þegar við stoppuðum til að fá okkur morgunmat gaf sig á tal við okkur maður sem talaði fullkomna ensku. Kom í ljós að hann býr í Kanada en er í heimsókn hjá fjölskyldunni í Kashan. Hann spurði, eins og allir þeir sem við hittum og geta tjáð sig á ensku, hvort hann gæti aðstoðað okkur. Bað ég hann þá um að hringja í gistihús sem ég hafði sigtað út og panta gistingu, svo við hefðum ákveðinn punkt að aka á í Kashan. Þar reyndist þá uppselt, en okkar maður þekkir til og pantaði í svipaðri heimagistingu í miðbænum, Morshedi House, eitt af þessum hefðbundnu veglegu húsum, þar sem byggingar hússins hringa sig um mikið garðport með tjörnum og gullfiskum. Afar huggulegur staður með ljómandi veitingasölu. Vingjarnlegi kanadíski Íraninn lét okkur síðan hafa nafn og símanúmer, ef til þess kæmi að hann gæti orðið okkur að liði.

Á leiðinni til Kashan eru afar áhugaverðar fornminjar, en það er neðanjarðarbærinn Nooshabad. Þetta eru jarðgöng mikil á þremur hæðum, á frá fögurra til átján m dýpi og eru þau gerð á þriðju öld.

Mikil jarðgöng á þremur hæðum, efsti hlutinn á 6 m dýpi, næsti á 12 og neðsti hlutinn á 18 m dýpi

Tilgangur þeirra var að veita skjól gegn veðri sem getur orðið ofurheitt á sumrin þarna á eyðimerkursvæðum Írans og jafnframt hrollkalt á veturna. Þar að auki var þessi neðanjarðarbær notaður sem felustaður fyrir óaldarflokkum sem fóru um og voru settar eins konar gildrur á  göngum efstu hæðarinnar til að torvelda óboðnum frekari innkomu. Þarna gátu um 3.000 manns hafst við í nokkrar vikur í senn, gert var ráð fyrir öllu sem fólk þurfti og feikna gott loftræstikerfi er í göngunum, sem virkar skv lögmáli Pascal´s (sem ég kann ekki að útskýra hér), reyndar næstum hálfu öðru árþúsundi áður en franski vísindamaðurinn Blaise Pacal sýndi fram á þetta lögmál á 17. öld.

Þarna er setið á einu af loftræstiopum þessara stórmerkilegu jarðganga
Leiðsögumaður upplýsir samferðunginn um leindardóma jarðganganna

Leiðin sem við ókum að þessum stað var vægast þannig að oft hélt fararbroddurinn að MapsMe ratarinn í I-phoninum hans hefði kortslúttað. En svo kom á daginn að eyðibæjirnir sem við ókum um og stígarnir sem virtust alveg eins geta leitt mann út á öskuhauga, þetta varðaði allt leiðina sem leiddi að krákustígum smábæjar, inn á lítið torg og voila, þarna var skilti um að tækið hafði skilað okkur á réttan stað. Merkilega lítið viðhaft um jafn áhugaverðan stað, sem að sjálfsögðu er undir alþjóðlegri minjavernd eins og flest sem ferðamaðurinn skoðar í þessu landi.

Göngin eru mikið völundarhús

Eftir þessa heimsókn var haldið á gistihúsið í gamla miðbænum í Kashan og var aðkoman að því eins og að hafa lent í bíómynd, þröngir stígar á milli leirlitaðra hús- og garðveggja.

Ratarinn kom okkur vafningalaust að réttum áfangastað í götuflækjum bæjarins

Þarna vorum við dottnir inn í 1001 nótt. Sem fyrr segir er Morshedi gistiheimilið einstaklega notalegt og á veitingahúsi þeirra fengum við okkur kjúkling í plómusósu, sem slær við öðrum máltíðum í landinu til þessa, algert hnossgæti.

Ævintýralegt var að aka um fornar götur miðbæjarins í Kashan að gistihúsinu Morshedi house
Baðhúsið forna

Við röltum um bæinn og af því áhugaverðasta veljum við að skoða baðhús fornt og afar fallegt. Röltum svo áfram á basarinn, sem er einskonar miðpunktur hvers bæjar hér um slóðir.

Gott útsýni var af þaki baðhússins í Kashan
Radíóvirkinn slakar á í huggulegum miðgarði Morshedi gistihússins

Snæðum aftur heima á gistihúsinu um kvöldið og síðan tylli ég mér með tölvuna út í garðportið til að hripa niður nokkrar línur um atburði dagsins. Veit ég þá ekki fyrr til að stúlkurnar úr móttökunni koma með afmælistertu með kerti á. Ég renndi strax óhýru auga til samferðungsins, taldi víst að hann hefði upplýst dömurnar um afmælisdaginn, sem var reyndar ekki fyrr en daginn eftir, til að gera smá at í mér. En nei, hann var saklaus, þær höfðu veitt þessu athygli í passanum mínum.

Með stúlkunum elskulegu sem héldu mér smá afmælisteiti þarna í miðri Persíu

Við höfðum látið þær vita að við myndum rjúka af stað árla morguns, en þær vildu gleðja afmælisbarnið þar sem afmælisdagurinn rynni upp í þeirra húsum. Þarna voru hjón í portinu með okkur, Írani og hans fillipseyska kona, búsett í Bandaríkjunum, með dætrum og tengdasonum og tóku þau þátt í þessum óvænta afmælisfagnaði. Afar ánægjulegt kvöld en lítið skrifað. Eknir 261 km

26.09.52

Árbíturinn snæddur fyrir brottför frá Kashan
Marjan fylgdi okkur að hjólunum um morguninn, filmaði okkur við brottför

Nú var haldið á hraðbrautina til Isfahan. Á frekar fáförnum veginum ökum við gjarnan á miðakrein af þremur í sömu átt, því sú lengst til hægri er oft með lélegra malbiki, ég læt mér detta í hug að það geti verið vegna stóru flutningabílanna sem halda sig á henni. Alltént sem ég ek þarna í góðum gír á eftir fararbroddinum, veit ég ekki fyrr til en að bíll sem fer fram úr mér á innstu akrein, er kominn press upp að hjólinu og hélt ég að þetta væri mitt síðasta, ég hélt bara að nú ætti að aka mig niður. Það er eins og að þó engin sé umferðin, komi bíll í hælana á þér á miðakrein, þá ætlast hann til að þú víkir í stað þess að hann færi sig yfir á vinstri akrein og taki fram úr þér. Ef þú gerir það ekki, ekur hann á hvítu línunni og reynir að þrykkja þér til hliðar. Eins og fólk almennt er yndislegt, hjálplegt og tekur manni alls staðar vel, þá hef bara aldrei kynnst jafn yfirgengilega óforskömmuðum ökumönnum og hér í þessu landi. Hef rætt þetta við innfædda og ein stúlkan sem ég nefndi þetta við, samsinnti með þeim orðum að undir stýri breyttust Íranar í „monster“.

Ókum víða um fjalllendi
Hvar sem stansað var flykktust áhugasamir um ferðamennina og hjólin þeirra

Heilu og höldnu komumst við þó til Isafahan og fengum gistingu á Abbasi hóteli, sem systir radíóvirkjans hafði mælt með og stóðst fullkomlega væntingar.

Hugguleg móttaka hjá þeim Abbasi mönnum

Flottast af því sem hér er að sjá, er aðaltorgið, gríðarlega stórt og var mikill íþróttaleikvangur og kappreiðavöllur fyrr á öldum og ýmsar merkar byggingar umhverfis það. Sem fyrr erum við endalaust teknir tali, enda fátt um erlenda ferðamenn í landinu. Ungir menn sem tala hrafl í ensku og gefa sig á tal við okkur, koma með fáeinar hefðbundnar spurningar og vilja síðan skipta peningum, selja okkur leiðsögn, sýna okkur teppi eða annað í þeim dúr. Ungu dömurnar sem gefa sig að okkur vilja bara fá að bjóða ferðamanninn velkominn, þjálfa enskuna og kannski fá af sér mynd með útlendingunum.

Framan við Imam moskuna, meistaraverk persnesks fortíðar arkítektúrs

Ali, íranskur vinur okkar heima á bróður hér í bænum og var undirbúið að við myndum hitta hann. Við erum sóttir um kvöldið og fer hann með okkur í smá skoðunarferð um bæinn, m.a. upp í hlíðar fjalls þar sem útsýni er yfir þessa þriggjamilljón manna borg í kvöldmyrkrinu. Hleypir okkur svo úr bílnum við heljarmikla og einstaklega fallega og skemmtilega lýsta göngubrú yfir fljót sem rennur um borgina, þaðan sem stutt var á hótelið. Ætlar að hitta okkur næsta morgun. Rólegt kvöld. Eknir 207 km

Á Khayubrú, 33ja boga brúnni yfir Zayanderud fljót er ávallt fjöldi fólks á rölti

27.09.19

Abbasi menn bjóða upp á ljómandi árbít og þokkalegasta kaffi í afar vistlegum sal, þar sem ganga um beina flottir þjónar, svo nú var það ritari sem óskaði eftir mynd af sér með einum úr þeirra hópi.

Það er stíll yfir piltunum á Abbasí gistihúsinu

Hossein, bróðir Ali´s vinar okkar heima, sótti okkur um 10 leitið og sýndi okkur m.a. Chehelsotoon höll, sem byggð er á 17. öld og þjónaði sem móttökuhöll þeirra tíma þjóðhöfðingja. Hún liggur í fallegum og friðsælum garði og er löng manngerð tjörn útfrá húsunum, bæði framan og aftan við þau.

Við Chehelsotoonhöll með Hussein bróður Alis vinar okkar í Reykjavík

Leiðin liggur síðan rólega í átt að helsta aðdráttarafli borgarinnar, sem er hið óviðjafnanlega Naqsh-e Jahan torg, torgið sem við röltum á í gærkvöldi.  Við syðri enda þessa aflanga torgs er hin nafntogaða Imam moska, sem þykir afburða meistaraverk persneskt arkitektúrs og eins og gefur að skilja, á verndarlista Unesco. Þarna vantaði okkur störnuarkitektinn, systur radíóvirkjans, til að upplýsa okkur um hin arkitektúrísku gildi guðshússins, en drukkum í okkur fegurð byggingarinnar sem slíkrar.

Imam moskan
Fagurlegar skreytingar í Imam moskunni

Allt umhverfis torgið eru eins konar göng, samfelld röð sölubása og í raun framlenging á basarnum við hinn enda torgsins. Hossein rölti dágóða stund með okkur um þennan verslanastíg og hefur sennilega skynjað frekar takmarkaðan áhuga okkar á hinum margbreytilega varningi sem þar er á boðstólum. Vorum sérstaklega tregir til að njóta leiðsagnar í „sýningargalleríum“ teppasala, svo hann fór með okkur á djúsbar, þar sem líka fékkst ís og þáðum við hann gjarnan í hitanum. Hér er ísinn einstaklega góður, ólíkt því sem við fengum ítrekað í Tyrklandi, ís svo pakkaðan af sykri að hann var seigur og mann hreinlega klígjaði við honum, ég tala ekki um þegar hann kom með rósaolíubragði eða kardamommukeim.

Eftirmiðdaginn höfðum við til eigin afnota, en Hossein hefur greinilega undirbúið matarveislu fyrir okkur á morgun, laugardag og sækir okkur um kl 11. Honum er í mun að gera sérdeilis vel við okkur og spurði hvernig vín okkur þætti góð, varð greinilega fyrir vonbrigðum þegar við upplýstum að báðir hefðum við aflagt áfengisneyslu.

Í dag er sem sé föstudagur, eini frídagur vikunnar og mikil ró yfir öllu. Í almenningsgörðum eru fjölskyldur saman á teppi, með nesti og huggulegheit. Við röltum að þrjátíuogþriggja boga brúnni sem við höfðum gengið kvöldið áður.

Þrjátíuogþriggjaboga brúin er fallegt mannvirki og vinsæll frístundastaður

Hún var full af fólki, sem og allt umhverfi hennar, meira að segja á grynningunum neðan undir henni óð fólk ána upp í miðja kálfa, sumir berfættir en aðrir bara í skóm sínum og fatnaði.

Hér slaka menn á á föstudögum, eina frídegi vikunnar

Hér sést, vel að merkja, enginn á stuttbuxum. Róin og friðurinn á svæðinu var svo alltumlykjandi að meira að segja samferðungurinn, sem unir sér sjaldan án fyrirliggjandi dagskrár og verkefna, sat bara langtímum saman á garðvegg með mér, slakur sem aldrei fyrr og drakk í sig friðsemdina.

Kyrrð og friðsemd svo alltumlykjandi að athafnasömustu menn sátu bara slakir langtimum saman

Síðar um daginn tyllti ég mér aðeins inn á gistinguna til að sinna netsíðunni, en netið er svo stopult að það dettur iðulega alveg út, rétt á meðan reynt er að koma myndum inn á textann í framhaldssögunni. Þá er bara að reyna aftur síðar. Hér er það eins og víðar, þrautseigjan sem gildir. Á meðan ég var að bjástra þetta, er ekki samferðungurinn búinn að leita uppi hreint frábæra matsölu í göngufæri. Þangað var skundað og snæddur mjög seinn brunsh eða kvöldskattur með fyrra fallinu, nema hvoru tveggja væri.

Á einu kaffihúsinu þar sem við fengum okkur kaffi, skrapp samferðungurinn á klóið og komst þá í skemmtilega nýjung, þar sem bæði má tæma blöðruna og þrífa hendurnar samtímis.

Tvennt í einu…

Með tilliti til venjulegs ferlis þessarar athafnar, er ég samt ekki viss um að þetta sé neitt framtíðarmódel. Og fyrst við erum á þessum nótunum, þá finnst mér rétt að hafa hérna með mynd af áhaldi sem ég hef ekki séð áður, en er augljóslega afar hentugt fyrir þá sem eiga erfitt með að húka á hækjum sér og miða á gatið í gólfinu.

Hugvitsamleg lausn

Kvöldinu vörðum við á torginu þar sem fjölskyldur sátu enn á teppum sínum með nesti og ungir drengir voru í boltaleikjum innan um gangandi og hjólandi vegfarendur. Enn upplifum við harmóníska ró yfir svæðinu og hefur sá athafnasami við hliðina á mér meira að segja orð á þessu. Þó að við værum með fulla vasa að peningum var ekkert sem freistaði okkar þarna nema sín hvor vatnsflaskan. Talandi um peninga þá er gjaldmiðillinn hér fjarskildur krónunni okkar að því leiti að hann er ekki mjög stabíll. Reyndar hefur hann náð öflugri dífum en blessuð krónan, jafnvel þó sú gamla væri enn við líði, því um 900 ríal eru í einni íslenskri nýkrónu, þannig að maður gengur með milljónir í vasanum. Hef enn ekki náð utan um skilgreiningar innfæddra á fjárhæðum, því t.d. 5.000 virðist mér geta þýtt 50þús, 500þús eða jafnvel 5millj en aldrei 5þús.

Þarna liggja liðlega 30 milljónir

Hinn síðbúni miðdegisverður stóð svo vel með manni að hvorugur fann fyrir svengd það sem eftir lifði dags og gengum við sælir og vel haldnir til náða. Hjólin óhreyfð.

28.09.19

Hussein sótti okkur um ellefuleitið og fór með okkur í um 40 km bíltúr, í sumarbústað vinar hans. Þarna voru tveir æskuvinir hans aðrir, þannig að okkur var boðið í veislu með þessum fjórum æskuvinum og fengum við að vita að þeir hittust svona einu sinni til tvisvar í mánuði fjórir saman í grillveislu og fengu sér gjarnan tár með. Maturinn var góður og menn fóru sér að engu óðslega.

Í flöskunni sem þarna er hampað er ekki vatn

Spurði Hussein um eitt og annað í írönsku þjóðlífi og fékk m.a. að vita að lægstu laun eru 20-25þús krónur ísl., en hátekjumenn ná aftur á móti mánaðarlaunum sem nema um klst vinnu hjá skilanefndarlögmanni á Fróni. Eftirlaun skyldist mér að séu með svipuðu sniði og hjá okkur, þó fjárhæðirnar séu aðrar. Háskólamenntun er ókeypis í ríkisháskólum, en þangað inn kemst ekki nema brot af þeim sem um sækja, hinir verða að mennta sig í einkaskólum, sem er langt frá því að vera ódýrt. Eigandi „sumarhússins“ hafði rekið stálverksmiðju, en var búinn að selja hana og var greinilega þokkalega efnaður, með þennan fína bústað á nokkuð verklegri landsspildu. Eftir afar dandý miðdegisverð sem náði vel inn í eftirmiðdaginn, kom Hussein okkur aftur heim á hótel.

Kvöldið fór í að moka inn á netsíðuna sem er ótrúlega seinlegt þegar netið liggur meira niðri en það er uppi. Hafðist þó að lokum að koma inn því sem klárt var til birtingar. Hjólin óhreyfð

29.09.19

Ali vinur okkar var búinn að leggja til að við færum ekki stystu leið til Yazd, eins og okkur fannst liggja beinast við, heldur leggja um 400 km krók á leið okkar út í miðja Dasht-E-Kavir eyðimörkina, til að upplifa þar yndislega vin sem pökkuð er döðlupálmum og örlítilli byggð. Þar hafði hann bókað fyrir okkur náttstað í gistihúsi af einfaldari gerðinni. Þegar frúin sem rekur staðinn spurði hvort við vildum eitt herbergi eða tvö, svaraði ég að vanda að eitt herbergi dygði, helst með tveimur aðskildum rúmum. Úps, hér eru engin rúm heldur sofið á gólfinu, en þið fáið brekán til að leggjast á. Ekki vandamál, við erum svo sem öllu vanir.

Lögðum af stað um 8 leitið og fyrstu 150 km ókum við um hefðundið landslag og byggðir, en svo tók auðnin við. Framan af var hitinn um 26 gráðurnar, en hækkaði svo í eyðimörkinni og fór hæst í 38. Öryggisstigið er það hátt hjá okkur að við ökum í hlífðarfötum og að sjálfsögðu með hjálm. Þarna í sandauðninni mættum við manni á hjóli eins og mínu og var að sjálfsögðu stoppað til að skiptast á orðum. Reyndist þetta vera Frakki á hringferð um kúluna og ók hann hjálmlaus og bara á bolnum, hjólið ekki minna hlaðið en hringfarans okkar hér um árið, sem að mig minnir að hafi látið sér duga eitt varadekk ofan á allan farangurinn annan, en sá franski var með tvö, svona til öryggis.

Þar sem hjólin standa, sitt hvoru megin vegar, er það nóg aðdráttarafl til að bílar heimamanna gera hlé á sinni för og flykkjast að, til að fá myndir af sér við hjólin. Ungir menn koma askvaðandi og heilsa með handabandi en þegar ég ætla að heilsa stúlkunum sem þeim fylgja, víkja þær undan, samt fullar af gáska og gleði. Þetta er í fyrsta sinn í ferð okkar um landið, sem kvenfólk hafnar snertingu með þessum hætti. Var búinn að lesa um þetta, en þar sem við höfum farið um til þessa hafa konur heilsað okkur jafn og karlar og alls ekki sýnt af sér neina feimni í þeim efnum. Ekki veit ég hvort þetta komi upp núna þegar við erum afskekktari slóðum, eða hvort það sé bara tilviljun.

Náum til vinjarinnar Garmeh eftir liðlega 6 stunda akstur, að stórum hluta á fremur leiðinlegum vegum, malbikið ansi þvottabrettað. Vorum svolítið þrekaðir við hingaðkomuna, fengum ljómandi mat hjá húsráðendum og hölluðum okkur á gólffletin og duttum báðir út. Eftir góðan lúr röltum við um döðlupálmalundinn upp að einni lindinni sem nærir þessa vin. Hún kemur úr eins konar hellisskúta þar sem smáfiskatorfa syndir um og fólk situr á steinum þar inni með fæturna í vatninu, því fiskarnir hér eru sú tegund sem kroppar þurrt skinn af húð fótanna. Eru svona fiskar vinsælir til þess arna víða um heim og hefur þess konar þjónusta verið rekin heima og er kannski enn. Nutum sólsetursins í friðsæld pálmalundarins og lindarinnar. Heimafólk sem við mættum var sumt með fötur fullar af nýtíndum döðlum og buðu okkur allir að smakka úr stampi sínum, mikið hnossgæti, fullþroskaðar, mjúkar og sætar.

Eftir ljómandi kvöldmat, einhvers konar grænmetisstöppu blandaða úlfaldakássu með baunum, brá ég mér upp á þak hússins til að líta á stjörnuhimininn og sátu þar þá heimamenn spjallandi, með sígarettu sem skipst var á að reykja. Þó ég hafi lítið vit á reykingum, fann ég á lyktinni að þetta var ekki Camel. Þrjú kameldýr hins vegar voru í gerði framan við gistinguna og höfðu auga með hjólunum okkar. Umsjónarmaður staðarins er rólyndis náungi, svolítið hippalegur og hægur í fasi og minnti okkur félagana á skemmtilegar týpur sem við kynntumst á öðru ferðalagi fyrir hart nær tveim áratugum. Þá ókum við um Bandaríkin á Harley hjólum og komum m.a. í eyðibæinn Ward í klettafjöllunum í Colorado. Hippar höfðu lagt undir sig húsin og lifðu þar sínu hæglætislífi, en matvörubúððin var rekin af tveimur allsveimandi félögum, sem jafnframt sýsluðu við kaffibrennslu. Það var ekki asinn á þeim félögum frekar en okkar manni hér. Hann var hins vegar áhugasamur um ferðalag Íslendinganna og hvatti okkur til að skoða ótal margt sem sjá má þarna í næsta nágrenni. Því miður höfðum við nú ekki tíma til að stunda svo ítarlega skoðun á öllu því merkilega og áhugaverða sem þar má finna, en það er alltaf gott að eiga eitthvað eftir.

Restina af kvöldinu vörðum við á litlu skemmtilegu kaffihúsi þarna rétt hjá, en vinur okkar hippinn visaði veginn þangað. Hittum þar fyrir Hollandsþrennu (þrjár hollenskar stúlkur) sem við höfðum rekist á við lindina fyrr um kvöldið, og deildum ferðasögum á meðan heimamenn músíseruðu á einfaldan sítar og slagverk. Svo var ekkert eftir nema skríða heim og leggjast í gólfið. Eknir 380 km.

30.09.19

Úr pálmalundinum góða er ekið um eyðimörk alla leið til Yazd. Höfðum valið okkur gistingu í bæjarkantinum, Hotel Arg-E-Jadid. Þægilegt er að sleppa við kraðaksumferð miðbæjarins en geta þess í stað rennt viðstöðulaust að gistihúsinu.

Af mörgu merku sem hér er að sjá, hafði ég mestan áhuga á Zóróastró-eldhofinu Ateshkadeh, en þar brennur eldur sem sagt er að hafi logað óslitið frá árinu 470. Sem kunnugt er munu Zóróastró trúarbrögðin vera elsta eingyðistrú heims og er Zaraþústra spámaður upphafsmaður þeirra. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann var uppi, en þessi trúarbrögð voru ríkjandi í Persíu allt framundir það að múhameðstrú ruddi sér þar til rúms og eru þar ríkistrú á þeim tíma sem Persía var heimsveldi. Munu þau hafa haft mikil áhrif á síðari tíma eingyðistrúarbrögð, gyðingdóm, kristni og múslimstrú. Eldurinn er mikilvægur þáttur þessara trúarbragða, en hann er tákn fyrir ljós almættisins, en guðinn sjálfur er Ahúra Mazda. Í Töfraflautu Mozarts er tilvísun í þennan spámann, Sarastró er tákngerfingur ljóss og góðvildar í söngverkinu, þó hann þurfi í því verki einnig að vera óvæginn ef svo ber undir.

Áhugavert var einnig að skoða „vatnssafnið“, þó það sem slíkt sé ekkert yfirmáta impónerandi. Hins vegar það sem safnið upplýsir, er hve óhemju duglegir menn hafa verið hér umhverfis Yazd, fyrir meira en 2.000 árum að grafa út net manngengra jarðganga til að flytja vatn úr nálægum fjöllum og dreifa því um víðfeðm svæði. Grafið var eftir vatni á allt niður á 300 m dýpi í jaðri fjallanna, vatninu síðan veitt í þessa neðanjarðar kanala og með reglulegu millibili var grafinn eins konar brunnur lóðrétt niður á göngin, þar sem fólk gat nálgast vatnið. Þannig náðu menn að gera eyðimörkina lífvænlega.

Dró samferðunginn með í einar tvær moskur, en þegar ég ætlaði að skoða þá þriðju, eina af elstu moskum landsins, þá settist minn maður á steinvegg í skugga og sagðist bíða mín þar. Á meðan ég lét fræða mig um guðshúsið lenti hann á spjalli við enskar dömur sem sögðust vera búnar að skoða hátt í 100 moskur og sannfærðu hann um að hann væri ekki að missa af neinu meiriháttar, þó hann kysi að sitja hjá.

Kvöldmatinn snæddum við á ítölska staðnum Cesar og verður að segjast eins og er, að þessi staður stendur góðum vestrænum veitingastöðum fyllilega á sporði, jafnt í umgerð sem mat. Starfsstúlka í gestamóttökunni benti okkur á þennan stað og þegar við báðum um leigubíl til að fara þangað, kom framkvæmdastjóri hótelsins aðvífandi og krafðist þess að fá að aka okkur þangað sjálfur. Hann vildi allt fyrir okkur gera karlinn þó að við vidlum ekki snæða á hans ágætu veitingasölu í hótelinu. Vel saddir félagar sem lögðust í koju þetta kvöldið. Eknir 306 km

1.10.19

Frá Arg-E-Yadid hótelinu í Yazd lögðum við upp kl 9, beint inn á veg sem liggur um fjöllin í áttina til Shiraz. Náttúrufegurðin þarna í auðninni og algerlega gróðursnauðum fjöllunum er engu lík, þar sem hver fjallgarðurinn rís upp af öðrum og maður sér þá í gegnum dulúðugt mistur.  Sem betur fer þurfti fararstjórinn að stoppa einu sinni eða tvisvar til að endurræsa ratarann í símanum sínum, sem trúlega var kominn á yfirsnúning vegna mikillar yfirferðar og náði ég þá að festa fáeinar myndir í gagnasafnið. Við vorum enn að aka í eyðimörk, en þegar dagleiðin var tæplega hálfnuð gjörbreyttist landslagið og við tóku gróðursælar lendur, akrar miklir, grænmetisgarðar og ávaxtarækt. Á leiðinni náðum við liðlega 2.500 m hæð á fjallvegum og var hitinn þægilegur þar uppi, um 22 gráðurnar, en Shiraz er í einhverjum 1.200 metrum og vel heitt á daginn, en afar þægilegt eftir að skyggir.

Á vegunum er mikill fjöldi gamalla Benz vörubíla, sem eru með fæðingarvottorð skráð snemma á áttunda áratugnum og er óskemmtilegt að lenda á eftir þeim upp brekkur. Sé ég stundum fararbroddin hverfa í eimyrjustrók þar sem hann ekur framúr slíkum farartækjum í hæðóttu landslaginu og á þá sjálfur eftir að halda í mér andanum á meðan ég kem mér sem hraðast fram fyrir þá. Ósjaldan standa þeir svo með húddið opið á þjónustumiðstöðvum við veginn, sennilega svolítið viðhaldsfrekir.

Eina túristastoppið á leiðinni til Shiraz er við minjarnar í Pasargadae, þar sem hæst ber grafarstein á stalli miklum sem stendur þar einn og sér. Að sögn fræðimanna er þetta hinsti dvalarstaður Kýrusar mikla sem stofnaði heimsveldi Persa á sjöttu öld fyrir Krist og byggði Pasargadae sem höfuðborg sína. Eitthvað lærði ég um Kýrus sem barn í sveitinni og var svo hrifinn af nafninu, að síamskötturinn sem okkur var gefinn, fékk þetta merka nafn.

Frá Pasargadae var ekið beinustu leið til Shiraz þar sem við fengum inni á Chamran hóteli, fínasta herbergi með þremur rúmum á 16. hæð. Saba, vinkona Ali og ofurleiðsögukona að hans sögn, sækir okkur árla dags á morgun og fer með okkur í Persepolis.  Eknir 448 km

2.10.19

Saba sótti okkur kl 8 og héldum við rakleitt til Persepolis sem er um 60 km utan við Shiraz. Þar eru miklar minjar á stóru svæði af „viðhafnar“– og hátíðahöfuðborg Akkamenída, sem sé hins forna keisaradæmis Persa sem stofnað var af Kýrusi mikla um 550 fyrir Krist. Eins og við sáum í gær byggði Kýrus borgina Pasargadae og þegar hann féll frá tók sonur hans við en ríkti fremur stutt, aðeins í 7 ár og tók þá Daríus, sem var tengdasonur Kýrusar, við stjórnartaumunum. Ríkið sem hann stjórnaði hringaði sig um botn miðjarðarhafs í vestri, frá Egyptalandi upp til Grikklands, Tyrkland allt og að Indusdal í austri. Þegar hann byggir Persepolis mun hann hafa hugsað borgina sem sameiningartákn allra þeirra þjóða sem undir ríki hans heyrðu og má sjá á lágmyndum fulltrúa allra þeirra þjóða.

Eftir að Daríus er allur tekur Xerxes sonur hans við að stjórna þessu víðfeðma ríki og heldur áfram að stækka þá metnaðarfullu borg sem faðir hans hafði byggt. Óperan Xerxes eftir Händel er lauslega byggð á sögu þessa mikla þjóðhöfðingja og þó hún sé sjaldnar flutt en margar aðrar óperur, þá er arían Ombra mai fu eitt af þekktari verkum klassískrar tónlistar, þó mest flutt sem orgelverkið Largo eftir þann mikla snilling barokktónlistar.

Saba, leiðsögukonan góða leiddi okkur í gegnum söguna þarna frá því um 6 öldum fyrir Krist þegar veldi Persa stóð í hvað mestum blóma, allt til þess að Alexander mikli kemur frá Grikklandi árið 330 f.Kr., hertekur landið og leggur Persepolis í rúst. Í fjallinu ofan við þessar miklu minjar eru stór grafhýsi tveggja afkomendar Daríusar, en skammt frá í öðrum hamravegg sem að borginni snýr eru fjögur grafhýsi, m.a. Daríusar og Xerxesar.

Eftir að drukkið í okkur söguna og meðtekið mikilfengleik þeirrar borgar sem eitt sinn stóð á fallegum stað undir fjalli, fór Saba með okkur í ljúffengan íranskan miðdegisverð. Restinni af eftirmiðdeginum og kvöldinu vörðum við að mestu í miðbænum í Shiraz. Já, vel að merkja, Shiraz þrúgan þekkta sem ræktuð er til víngerðar víða um heim, er ættuð héðan, eins og nafnið gefur til kynna. Hjólin óhreyfð.

Teheran

 

Teheran í dögun

Hér í 17 milljóna manna borginni Teheran er eins og gefur að skilja margt að sjá og skoða. Vandinn er að umferðin í borginni er skelfileg og þegar við reyndum að fá hótelið til að finna handa okkur bílstjóra til dagsins, sem færi með okkur á valda staði, var svarið bæði frá starfsfólki gestamóttöku og ferðaskrifstofu, sem er með aðsetur á gistihúsinu, að best sé að ferðast um borgina á kvöldin, of mikil umferð á daginn. Þetta leiddi til þess að við fórum yfir fáeina af top 10 stöðunum sem mælt er með og ákváðum að sleppa þjóðminjasafninu, múslimska safninu, sem er samt mjög áhugavert, stóra basarnum, búnir að skoða þann í Istanbul tvisvar og ótal aðra svipaða, einnig merkilegum moskum. Settum þess í stað markið á tvær af mögnuðustu túrista attraksjónum í bænum, Golestan höll og safn þjóðargersema landsins sem varðveitt er í mikilli hvelfingu í höfuðstöðvum seðlabankans og vill svo vel til að þetta tvennt er í göngufæri hvort við annað. Bankinn sýnir fjársjóðina einungis frá tvö til hálffimm þrjá daga vikunnar og vorum við svo heppnir að vera á réttum degi.

Fagurlega skreyttur veggur Golestanhallar

Í þéttu kraðaki umferðarinnar er um klukkustundar akstur frá Parsian Esteghlal hótelinu, sem eitt sinn hýsti gistiþjónustu fyrir Hilton fjölskylduna, að Golestan höll sem var til afnota fyrir þjóðhöfðingja fyrri tíða.  Á miðöldum byggðu þeir þarna slot, en það sem nú stendur lét keisarinn Nasser al-Din byggja á árunum 1848-96, innblásinn af evrópskum höllum og kastölum. Síðustu keisarar notuðu húsakostinn fyrir opinbera viðburði og hápunktar þeirra voru krýningar tveggja þeirra sem síðast stjórnuðu. Eins og flestu miðaldra fólki er í fersku minni, hrökklaðist hinsti keisarinn frá völdum ´79. Og nú er húsið safn sem við nutum þessa að berja augum í fámenni og rólegheitum. Það er víst ekki mikið um erlenda ferðmenn hér í landi þessi missirin. Einn fremur fámennur hópur af Ítölum og annar álíka stór af Japönum var allt sem við rákumst á í þá veru.

Ekki væsir um betra fólkið hér
Snotur húsakynni
Hugguleg gestamóttaka

Á leiðinni í seðlabankann römbuðum við á litla huggulega restrasjón sem er vestrænni en aðrar þær, sem höfðu orðið á vegi okkar á þessari hálftíma gönguleið og losuðum við okkur þar við hádegishungrið. Biðröðin í seðalbankanum var stutt, en fólk þurfti að skilja eftir síma og myndavélar áður en því var hleypt í helgidóminn. Við fylgdum enskumælandi leiðsögumanni sem fór yfir helstu djásnin og sögu þeirra. Margt af því sem þarna er, á sér langa sögu, var fyrr á öldum rænt frá þjóðinni, tekið aftur sem herfang og meðal þess sem Indlandskeisari neyddist til að skila ásamt með miklum gersemum öðrum um miðja 18. öld, er 182 karata demanturinn Darya-ye Nur (haf ljóssins), sem sagður er vera stærsti óslípaði demantur heims. Annar frægur demantur var jafnframt hluti af gersemum þessarar þjóðar fyrr á öldum, en hann hefur þó lengi verið eitt af krúnudjásnum Breta, sennilega frægasti demantur heims, sjálfur Koh-i-Noor (fjall ljóssins). Ekki er hægt að sleppa því að nefna þrjá aðra stórkostlega hluti sem þarna eru varðveittir, 34 kg hnattlíkan sem þakið er 51.366 eðalsteinum, höf og vötn þakin emeröldum og land þakið rúbínum, nema Bretland, Frakkland og Íran, þar dugði ekkert minna en demantar. Annar gripur er hið svo nefnda „Páfuglshásæti“, sem þakið er 26.733 eðalsteinum og svo hásætið sem notað var við krýningu síðustu keisara yfirhlaðið eðalmálmi og eðalsteinum. Áhugavert er að gersemar þessar eru hluti af „gullforða“ þjóðarinnar sem stendur á bak við gjaldmiðilinn.

Teheran liggur við rætur Tokalfjalls í Alborzfjallakeðjunni

Dinner á hótelinu, rólegt kvöld. Hjólin óhreyfð.

Upp fyrir allar aldir

Til að sleppa við hina skelfilegu morgunumferð sem er komin á fullan skriðþunga um 7 leytið, var ákveðið að vakna hálfsex og vera komnir af stað ekki seinna en sex. Vöknuðum á undan vekjaranum og drifum okkur á fætur og stóðum niðri hjá gjaldkera korter fyrir sex. Þar kom náttúrulega babb í bátinn, netið lá niðri og ekkert hægt að gera fyrr en það slumpaðist inn aftur. Vel að merkja, hér er allt greitt með reiðufé og því ekki vandi vegna kredikorta. Við bárum okkur illa og gerðum mönnum grein fyrir því hvers vegna við lögðum það á okkur að vakna svona snemma. Hofmóðugur benti afgeiðslumaðurinn á töflu sem sýndi að net lægi niðri að nóttu á þessum fína gististað og opnaði ekki fyrr en 5:45. Vildi þá svo til að klukkan á sömu töflu sýndi 5:46, sem við bentum á til baka. Það breytti engu, netið lá niðri.

Þeir voru með passana okkar og við áttum bara eftir að borga gistinguna. Þar sem mér óaði við hinu hrikalega umferðaröngþveiti morgunsins stressaðist ég upp og beitti öllum brögðum, gerði þeim grein fyrir að við hefðum farið á fætur fyrir allar aldir til að forðast morgunumferðina skelfilegu, en ekki til að bíða fyrir framan þetta afgreiðsluborð þar til umferðin kæmist á fullan skriðþunga, lagðist næstum á hnén, en samferðungurinn hélt ró sinni. Það var engu tauti við þá komið, hér myndi ekkert gerast fyrr en netið flæddi í vírum tölvunnar. Við gengum frá töskunum á hjólin og gerðum þau klár í von um að netið skilaði sér í tölvur gistihússins, sem gerðist náttúrulega ekki. Allt í einu, einhverra hluta vegna gáfust félagarnir í gestamóttökunni upp, lofuðu okkur að gera upp næturnar tvær og afhentu okkur vegabréfin. Hvílíkur léttir. Klukkan var ekki nema örfáar mín gengin í sjö þegar hjólin rúlluðu af stað og komumst við á korteri suður fyrir þá staði, sem tók leigubíllinn á annan klukkutíma að aka, í skoðunarferð okkar í gær.

Á þessu kaffihúsi sá einn kúnninn um að bóka fyrir okkur gistingu á Morshedi heimagistingunni í Kashan

Góðum klukkutíma síðar, þegar við stoppuðum til að fá okkur morgunmat gaf sig á tal við okkur maður sem talaði fullkomna ensku. Kom í ljós að hann býr í Kanada en er í heimsókn hjá fjölskyldunni í Kashan. Hann spurði, eins og allir þeir sem við hittum og geta tjáð sig á ensku, hvort hann gæti aðstoðað okkur. Bað ég hann þá um að hringja í gistihús sem ég hafði sigtað út og panta gistingu, svo við hefðum ákveðinn punkt að aka á í Kashan. Þar reyndist þá uppselt, en okkar maður þekkir til og pantaði í svipaðri heimagistingu í miðbænum, Morshedi House, eitt af þessum hefðbundnu veglegu húsum, þar sem byggingar hússins hringa sig um mikið garðport með tjörnum og gullfiskum. Afar huggulegur staður með ljómandi veitingasölu. Vingjarnlegi kanadíski Íraninn lét okkur síðan hafa nafn og símanúmer, ef til þess kæmi að hann gæti orðið okkur að liði.

Lítur út eins og moska en er veitingastaður

Á leiðinni til Kashan eru afar áhugaverðar fornminjar, en það er neðanjarðarbærinn Nooshabad. Þetta eru jarðgöng mikil á þremur hæðum, á frá fögurra til átján m dýpi og eru þau gerð á þriðju öld. Tilgangur þeirra var að veita skjól gegn veðri sem getur orðið ofurheitt á sumrin þarna á eyðimerkursvæðum Írans og jafnframt hrollkalt á veturna.

Þarna er gengið niður í jarðhýsin í Nooshabad

Þar að auki var þessi neðanjarðarbær notaður sem felustaður fyrir óaldarflokkum sem fóru um og voru settar eins konar gildrur á  göngum efstu hæðarinnar til að torvelda óboðnum frekari innkomu. Þarna gátu um 3.000 manns hafst við í nokkrar vikur í senn, gert var ráð fyrir öllu sem fólk þurfti og feikna gott loftræstikerfi er í göngunum, sem virkar skv lögmáli Pascal´s (sem ég kann ekki að útskýra hér), reyndar næstum hálfu öðru árþúsundi áður en vísindamaðurinn Blaise Pascal sýndi fram á þetta lögmál á 17. öld.

Þarna er setið á einu af loftræstiopunum sem tryggðu gott loft í þessum miklu jarðgöngum
Leiðsögumaður miðlar upplýsingum um þetta neðanjarðarbyrgi til radíóvirkjans

Leiðin sem við ókum að þessum stað var vægast þannig að oft hélt fararbroddurinn að MapsMe ratarinn í I-phoninum hans hefði kortslúttað. En svo kom á daginn að eyðibæjirnir sem við ókum um og stígarnir sem virtust alveg eins geta leitt mann út á öskuhauga, þetta varðaði allt leiðina sem leiddi að krákustígum smábæjar, inn á lítið torg og voila, þarna var skilti um að tækið hafði skilað okkur á réttan stað. Merkilega lítið viðhaft um jafn áhugaverðan stað, sem að sjálfsögðu er undir alþjóðlegri minjavernd eins og flest sem ferðamaðurinn skoðar í þessu landi.

Mikið völundarhús á þremur hæðum

Eftir þessa heimsókn var haldið á gistihúsið í gamla miðbænum í Kashan og var aðkoman að því eins og að hafa lent í bíómynd, þröngir stígar á milli leirlitaðra hús- og garðveggja. Þarna vorum við dottnir inn í 1001 nótt.

Úr 1001 nótt
Ratarinn kom okkur vafningalaust á áfangastað

Sem fyrr segir er Morshedi gistiheimilið einstaklega notalegt og á veitingahúsi þeirra fengum við okkur kjúkling í plómusósu, sem slær við öðrum máltíðum í landinu til þessa, algert hnossgæti.

Einstaklega vistlegur miðgarður gistihússins

Við röltum um bæinn og af því áhugaverðasta veljum við að skoða baðhús fornt og afar fallegt.

Fornt baðhús, einstaklega vistlegt og fagurskreytt
Af þaki baðhússins er gott útsýni yfir bæinn

Röltum svo áfram á basarinn, sem er einskonar miðpunktur hvers bæjar hér um slóðir. Snæðum aftur heima á gistihúsinu um kvöldið og síðan tylli ég mér með tölvuna út í garðportið til að hripa niður nokkrar línur um atburði dagsins. Veit ég þá ekki fyrr til að stúlkurnar úr móttökunni koma með afmælistertu með kerti á. Ég renndi strax óhýru auga til samferðungsins, taldi víst að hann hefði upplýst dömurnar um afmælisdaginn, sem var reyndar ekki fyrr en daginn eftir, til að gera smá at í mér. En nei, hann var saklaus, þær höfðu veitt þessu athygli í passanum mínum.

Marjan (við hliðina á mér) og samstarfskonur hennar voru svo elskulegar að gera mér örlítið afmælishóf

Við höfðum látið þær vita að við myndum rjúka af stað árla morguns, en þær vildu gleðja afmælisbarnið þar sem afmælisdagurinn rynni upp í þeirra húsum. Þarna voru hjón í portinu með okkur, Írani og hans fillipseyska kona, búsett í Bandaríkjunum, með dætrum og tengdasonum og tóku þau þátt í þessum óvænta afmælisfagnaði. Afar ánægjulegt kvöld en lítið skrifað. Eknir 261 km

Til Isfahan

Árbíturinn snæddur í garðporti gistihússins
Marjan kvaddi okkur þegar við yfirgáfum gistihúsið góða Morshedi House

Nú var haldið á hraðbrautina til Isfahan. Á frekar fáförnum veginum ökum við gjarnan á miðakrein af þremur í sömu átt, því sú lengst til hægri er oft með lélegra malbiki, ég læt mér detta í hug að það geti verið vegna stóru flutningabílanna sem halda sig á henni. Alltént sem ég ek þarna í góðum gír á eftir fararbroddinum, veit ég ekki fyrr til en að bíll sem fer fram úr mér á innstu akrein, er kominn press upp að hjólinu og hélt ég að þetta væri mitt síðasta, ég hélt bara að nú ætti að aka mig niður. Það er eins og að þó engin sé umferðin, komi bíll í hælana á þér á miðakrein, þá ætlast hann til að þú víkir í stað þess að hann færi sig yfir á vinstri akrein og taki fram úr þér. Ef þú gerir það ekki, ekur hann á hvítu línunni og reynir að þrykkja þér til hliðar. Eins og fólk almennt er yndislegt, hjálplegt og tekur manni alls staðar vel, þá hef bara aldrei kynnst jafn yfirgengilega óforskömmuðum ökumönnum og hér í þessu landi. Hef rætt þetta við innfædda og ein stúlkan sem ég nefndi þetta við, samsinnti með þeim orðum að undir stýri breyttust Íranar í „monster“.

Hjólið verður svolítið aðalfyrirsætan í svona leiðangri
Áhugasamir hópast að ferðamanninum og dást að honum og fararskjótanum

Heilu og höldnu komumst við þó til Isafahan og fengum gistingu á Abbasi hóteli, sem systir radíóvirkjans hafði mælt með og stóðst fullkomlega væntingar.

Vel tekið á móti gestum á Abbasi gistingunni

Flottast af því sem hér er að sjá, er aðaltorgið, gríðarlega stórt og var mikill íþróttaleikvangur og kappreiðavöllur fyrr á öldum og ýmsar merkar byggingar umhverfis það. Sem fyrr erum við endalaust teknir tali, enda fátt um erlenda ferðamenn í landinu. Ungir menn sem tala hrafl í ensku og gefa sig á tal við okkur, koma með fáeinar hefðbundnar spurningar og vilja síðan skipta peningum, selja okkur leiðsögn, sýna okkur teppi eða annað í þeim dúr. Ungu dömurnar sem gefa sig að okkur vilja bara fá að bjóða ferðamanninn velkominn, þjálfa enskuna og kannski fá af sér mynd með útlendingunum.

Hjá Imam moskunni við Naqsh-e-Jahan torg

Ali, íranskur vinur okkar heima á bróður hér í bænum og var undirbúið að við myndum hitta hann. Við erum sóttir um kvöldið og fer hann með okkur í smá skoðunarferð um bæinn, m.a. upp í hlíðar fjalls þar sem útsýni er yfir þessa þriggjamilljón manna borg í kvöldmyrkrinu.

Þrjátíuogþriggjaboga brúin Khaju yfir Zayanderudfljót

Hleypir okkur svo úr bílnum við heljarmikla og einstaklega fallega og skemmtilega lýsta göngubrú yfir fljót sem rennur um borgina, þaðan sem stutt var á hótelið. Ætlar að hitta okkur næsta morgun. Rólegt kvöld. Eknir 207 km

Með Hussein um Isfahan

Abbasi menn bjóða upp á ljómandi árbít og þokkalegasta kaffi í afar vistlegum sal, þar sem ganga um beina flottir þjónar, svo nú var það ritari sem óskaði eftir mynd af sér með einum úr þeirra hópi.

Það er stíll á þjónum Abbasi hótelsins

Hussein, bróðir Ali´s vinar okkar heima, sótti okkur um 10 leitið og sýndi okkur m.a. Chehelsotoon höll, sem byggð er á 17. öld og þjónaði sem móttökuhöll þeirra tíma þjóðhöfðingja. Hún liggur í fallegum og friðsælum garði og er löng manngerð tjörn útfrá húsunum, bæði framan og aftan við þau.

Með Hussein í garði Chehelsotoonhallar

Leiðin liggur síðan rólega í átt að helsta aðdráttarafli borgarinnar, sem er hið óviðjafnanlega Naqsh-e Jahan torg, torgið sem við röltum á í gærkvöldi.  Við syðri enda þessa aflanga torgs er hin nafntogaða Imam moska, sem þykir afburða meistaraverk persneskt arkitektúrs og eins og gefur að skilja, á verndarlista Unesco. Þarna vantaði okkur störnuarkitektinn, systur radíóvirkjans, til að upplýsa okkur um hin arkitektúrísku gildi guðshússins, en vorum sáttir við að drekka í okkur fegurð byggingarinnar sem slíkrar.

Anddyri Imam moskunnar
Mósaíkskreyttir veggir í hólf og gólf

Allt umhverfis torgið eru eins konar göng, samfelld röð sölubása og í raun framlenging á basarnum við hinn enda torgsins. Hussein rölti dágóða stund með okkur um þennan verslanastíg og hefur sennilega skynjað frekar takmarkaðan áhuga okkar á hinum margbreytilega varningi sem þar er á boðstólum. Vorum sérstaklega tregir til að njóta leiðsagnar í „sýningargalleríum“ teppasala, svo hann fór með okkur á djúsbar, þar sem líka fékkst ís og þáðum við hann gjarnan í hitanum. Hér er ísinn einstaklega góður, ólíkt því sem við fengum ítrekað í Tyrklandi, ís svo pakkaðan af sykri að hann var seigur og mann hreinlega klígjaði við honum, ég tala ekki um þegar hann var með rósaolíubragði eða kardamommukeim.

33ja boga brúin á björtum degi

Eftirmiðdaginn höfðum við til eigin afnota, en Hussein hefur greinilega undirbúið matarveislu fyrir okkur á morgun, laugardag og sækir okkur um kl 11. Honum er í mun að gera sérdeilis vel við okkur og spurði hvernig vín okkur þætti góð, varð greinilega fyrir vonbrigðum þegar við upplýstum að báðir hefðum við aflagt áfengisneyslu.

Í dag er sem sé föstudagur, eini frídagur vikunnar og mikil ró yfir öllu. Í almenningsgörðum eru fjölskyldur saman á teppi, með nesti og huggulegheit. Við röltum að þrjátíuogþriggja boga brúnni sem við höfðum gengið kvöldið áður. Hún var full af fólki, sem og allt umhverfi hennar, meira að segja á grynningunum neðan undir henni óð fólk ána upp í miðja kálfa, sumir berfættir en aðrir bara í skóm sínum og fatnaði.

Ró og værð yfir fólki á eina frídegi vikunnar

Hér sést, vel að merkja, enginn á stuttbuxum. Róin og friðurinn á svæðinu var svo alltumlykjandi að meira að segja samferðungurinn, sem unir sér sjaldan án fyrirliggjandi dagskrár og verkefna, sat bara langtímum saman á garðvegg með mér, slakur sem aldrei fyrr og drakk í sig friðsemdina.

Jafnvel athafnasömustu menn ná slökun í alltumlykjandi hvíldardagsrónni

Síðar um daginn tyllti ég mér aðeins inn á gistinguna til að sinna netsíðunni, en netið er svo stopult að það dettur iðulega alveg út, rétt á meðan reynt er að koma myndum inn á textann í framhaldssögunni. Þá er bara að reyna aftur síðar. Hér er það eins og víðar, þrautseigjan sem gildir. Á meðan ég var að bjástra þetta, er ekki samferðungurinn búinn að leita uppi hreint frábæra matsölu í göngufæri. Þangað var skundað og snæddur mjög seinn brunsh eða kvöldskattur með fyrra fallinu, nema hvoru tveggja væri.

Á einu kaffihúsinu þar sem við fengum okkur kaffi, skrapp samferðungurinn á klóið og komst þá í skemmtilega nýjung, þar sem bæði má tæma blöðruna og þrífa hendurnar samtímis. Með tilliti til venjulegs ferlis þessarar athafnar, er ég samt ekki viss um að þetta sé neitt framtíðarmódel.

Óvenjuleg nýjung

Og fyrst við erum á þessum nótunum, þá finnst mér rétt að hafa hérna með mynd af áhaldi sem ég hef ekki séð áður, en er augljóslega afar hentugt fyrir þá sem eiga erfitt með að húka á hækjum sér og miða á gatið í gólfinu.

Skemmtileg hönnun

Kvöldinu vörðum við á torginu þar sem fjölskyldur sátu enn á teppum sínum með nesti og ungir drengir voru í boltaleikjum innan um gangandi og hjólandi vegfarendur. Enn upplifum við harmóníska ró yfir svæðinu og hefur sá athafnasami við hliðina á mér meira að segja orð á þessu. Þó að við værum með fulla vasa að peningum var ekkert sem freistaði okkar þarna nema sín hvor vatnsflaskan. Talandi um peninga þá er gjaldmiðillinn hér fjarskildur krónunni okkar að því leiti að hann er ekki mjög stabíll. Reyndar hefur hann náð öflugri dífum en blessuð krónan, jafnvel þó sú gamla væri enn við líði, því um 900 ríal eru í einni íslenskri nýkrónu, þannig að maður gengur með milljónir í vasanum. Hef enn ekki náð utan um skilgreiningar innfæddra á fjárhæðum, því t.d. 5.000 virðist mér geta þýtt 50þús, 500þús eða jafnvel 5millj en aldrei 5þús.

Hér liggja liðlega 30 milljónir

Hinn síðbúni miðdegisverður stóð svo vel með manni að hvorugur fann fyrir svengd það sem eftir lifði dags og gengum við sælir og vel haldnir til náða. Hjólin óhreyfð.

Í matarboði hjá Hussein og vinum hans

Hussein sótti okkur um ellefuleitið og fór með okkur í um 40 km bíltúr, í sumarbústað vinar hans. Þarna voru tveir æskuvinir hans aðrir, þannig að okkur var boðið í veislu með þessum fjórum æskuvinum og fengum við að vita að þeir hittust svona einu sinni til tvisvar í mánuði fjórir saman í grillveislu og fengu sér gjarnan tár með. Maturinn var góður og menn fóru sér að engu óðslega.

Flaskan sem þarna er hampað inniheldur ekki vatn. Þeir kalla það Armeníuvodka

Spurði Hussein um eitt og annað í írönsku þjóðlífi og fékk m.a. að vita að lægstu laun eru 20-25þús krónur ísl., en hátekjumenn ná aftur á móti mánaðarlaunum sem nema um klst vinnu hjá skilanefndarlögmanni á Fróni. Eftirlaun skyldist mér að séu með svipuðu sniði og hjá okkur, þó fjárhæðirnar séu aðrar. Háskólamenntun er ókeypis í ríkisháskólum, en þangað inn kemst ekki nema brot af þeim sem um sækja, hinir verða að mennta sig í einkaskólum, sem er langt frá því að vera ódýrt. Eigandi „sumarhússins“ hafði rekið stálverksmiðju, en var búinn að selja hana og var greinilega þokkalega efnaður, með þennan fína bústað á nokkuð verklegri landsspildu. Eftir afar dandý miðdegisverð sem náði vel inn í eftirmiðdaginn, kom Hussein okkur aftur heim á hótel.

Einstaklega vistlegt umhverfi við bústaðinn þar sem okkur var boðið í grillveislu hjá Hussein og vinum hans

Kvöldið fór í að moka inn á netsíðuna sem er ótrúlega seinlegt þegar netið liggur meira niðri en það er uppi. Hafðist þó að lokum að koma inn því sem klárt var til birtingar. Hjólin óhreyfð

Út í eyðimörkina

Ali vinur okkar var búinn að leggja til að við færum ekki stystu leið til Yazd, eins og okkur fannst liggja beinast við, heldur leggja um 400 km krók á leið okkar út í miðja Dasht-E-Kavir eyðimörkina, til að upplifa þar yndislega vin sem pökkuð er döðlupálmum og örlítilli byggð. Þar hafði hann bókað fyrir okkur náttstað í gistihúsi af einfaldari gerðinni.

Auðnin í 38 gráðum. Það slær svo sem ekki að manni í efnismiklum hlífðarjökkunum

Þegar frúin sem rekur staðinn spurði hvort við vildum eitt herbergi eða tvö, svaraði ég að vanda að eitt herbergi dygði, helst með tveimur aðskildum rúmum. Úps, hér eru engin rúm heldur sofið á gólfinu, en þið fáið brekán til að leggjast á. Ekki vandamál, við erum svo sem öllu vanir.

Lögðum af stað um 8 leitið og fyrstu 150 km ókum við um hefðundið landslag og byggðir, en svo tók auðnin við. Framan af var hitinn um 26 gráðurnar, en hækkaði svo í eyðimörkinni og fór hæst í 38. Öryggisstigið er það hátt hjá okkur að við ökum í hlífðarfötum og að sjálfsögðu með hjálm. Þarna í sandauðninni mættum við manni á hjóli eins og mínu og var að sjálfsögðu stoppað til að skiptast á orðum. Reyndist þetta vera Frakki á hringferð um kúluna og ók hann hjálmlaus og bara á bolnum, hjólið ekki minna hlaðið en hringfarans okkar hér um árið, sem að mig minnir að hafi látið sér duga eitt varadekk ofan á allan farangurinn annan, en sá franski var með tvö, svona til öryggis.

Vel pakkað hjólið hjá þeim franska

Þar sem hjólin standa, sitt hvoru megin vegar, er það nóg aðdráttarafl til að bílar heimamanna gera hlé á sinni för og flykkjast að, til að fá myndir af sér við hjólin. Ungir menn koma askvaðandi og heilsa með handabandi en þegar ég ætla að heilsa stúlkunum sem þeim fylgja, víkja þær undan, samt fullar af gáska og gleði. Þetta er í fyrsta sinn í ferð okkar um landið, sem kvenfólk hafnar snertingu með þessum hætti. Var búinn að lesa um þetta, en þar sem við höfum farið um til þessa hafa konur heilsað okkur jafn og karlar og alls ekki sýnt af sér neina feimni í þeim efnum. Ekki veit ég hvort þetta komi upp núna þegar við erum afskekktari slóðum, eða hvort það sé bara tilviljun.

Fjöllin taka við af eyðimörkinni

Náum til vinjarinnar Garmeh eftir liðlega 6 stunda akstur, að stórum hluta á fremur leiðinlegum vegum, malbikið ansi þvottabrettað. Vorum svolítið þrekaðir við hingaðkomuna, fengum ljómandi mat hjá húsráðendum og hölluðum okkur á gólffletin og duttum báðir út.

Kjúklingur með flatbrauði, grjónum og döðlum
Svolítið þrekaður eftir eyðimerkuraksturinn þessi
og þessi náði að lúra ögn lengur

Eftir góðan lúr röltum við um döðlupálmalundinn upp að einni lindinni sem nærir þessa vin. Hún kemur úr eins konar hellisskúta þar sem smáfiskatorfa syndir um og fólk situr á steinum þar inni með fæturna í vatninu, því fiskarnir hér eru sú tegund sem kroppar þurrt skinn af húð fótanna. Eru svona fiskar vinsælir til þess arna víða um heim og hefur þess konar þjónusta verið rekin heima og er kannski enn.

Garmeh vinin er pökkuð af döðlupálmum
í hópi heimafólks við lindina

Nutum sólsetursins í friðsæld pálmalundarins og lindarinnar. Heimafólk sem við mættum var sumt með fötur fullar af nýtíndum döðlum og buðu okkur allir að smakka úr stampi sínum, mikið hnossgæti, fullþroskaðar, mjúkar og sætar.

Pálmarnir pakkaðir sætum, þroskuðum döðlum

Eftir ljómandi kvöldmat, einhvers konar grænmetisstöppu blandaða úlfaldakássu með baunum, brá ég mér upp á þak hússins til að líta á stjörnuhimininn og sátu þar þá heimamenn spjallandi, með sígarettu sem skipst var á að reykja. Þó ég hafi lítið vit á reykingum, fann ég á lyktinni að þetta var ekki Camel.

Þak gistihússins er huggulegt afdrep í „kvöldsvalanum“
Upptyppingarnir eru loftræsting eins og hún hefur verið frá grárri fortíð

Þrjú kameldýr hins vegar voru í gerði framan við gistinguna og höfðu auga með hjólunum okkar.

Þarna hefur nútíminn runnið inn í forna tíð
Þeir náðu ágætlega saman þessir

Umsjónarmaður staðarins er rólyndis náungi, svolítið hippalegur og hægur í fasi og minnti okkur félagana á skemmtilegar týpur sem við kynntumst á öðru ferðalagi fyrir hart nær tveim áratugum.

Það var ekki asinn á síkátum umsjónarmanni gistihússins

Þá ókum við um Bandaríkin á Harley hjólum og komum m.a. í eyðibæinn Ward í klettafjöllunum í Colorado. Hippar höfðu lagt undir sig húsin og lifðu þar sínu hæglætislífi, en matvörubúððin var rekin af tveimur allsveimandi félögum, sem jafnframt sýsluðu við kaffibrennslu. Það var ekki asinn á þeim félögum frekar en okkar manni hér. Hann var hins vegar áhugasamur um ferðalag Íslendinganna og hvatti okkur til að skoða ótal margt sem sjá má þarna í næsta nágrenni. Því miður höfðum við nú ekki tíma til að stunda svo ítarlega skoðun á öllu því merkilega og áhugaverða sem þar má finna, en það er alltaf gott að eiga eitthvað eftir.

Sólsetursstemning í pálmalundinum
Heimamenn slaka á eftir daginn

Restina af kvöldinu vörðum við á litlu skemmtilegu kaffihúsi þarna rétt hjá, en vinur okkar hippinn visaði veginn þangað. Hittum þar fyrir Hollandsþrennu (þrjár hollenskar stúlkur) sem við höfðum rekist á við lindina fyrr um kvöldið, og deildum ferðasögum á meðan heimamenn músíseruðu á einfaldan sítar og slagverk. Svo var ekkert eftir nema skríða heim og leggjast í gólfið. Eknir 380 km.

Yazd

Fjöllin smá hverfa inn í hitamistrið

Úr pálmalundinum góða er ekið um eyðimörk alla leið til Yazd. Höfðum valið okkur gistingu í bæjarkantinum, Hotel Arg-E-Jadid. Þægilegt er að sleppa við kraðaksumferð miðbæjarins en geta þess í stað rennt viðstöðulaust að gistihúsinu.

Af mörgu merku sem hér er að sjá, hafði ég mestan áhuga á Zóróastró-eldhofinu Ateshkadeh, en þar brennur eldur sem sagt er að hafi logað óslitið frá árinu 470.

Zóróastró eldhofið Ateshkadeh

Sem kunnugt er munu Zóróastró trúarbrögðin vera elsta eingyðistrú heims og er Zaraþústra spámaður upphafsmaður þeirra. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann var uppi, en þessi trúarbrögð voru ríkjandi í Persíu allt framundir það að múhameðstrú ruddi sér þar til rúms og eru þar ríkistrú á þeim tíma sem Persía var heimsveldi. Munu þau hafa haft mikil áhrif á síðari tíma eingyðistrúarbrögð, gyðingdóm, kristni og múslimstrú. Eldurinn er mikilvægur þáttur þessara trúarbragða, en hann er tákn fyrir ljós almættisins, en guðinn sjálfur er Ahúra Mazda. Í Töfraflautu Mozarts er tilvísun í þennan spámann, Sarastró er tákngerfingur ljóss og góðvildar í söngverkinu, þó hann þurfi í því verki einnig að vera óvæginn ef svo ber undir.

Eldurinn eilífi hjá Zóróastrófólki

Áhugavert var einnig að skoða „vatnssafnið“, þó það sem slíkt sé ekkert yfirmáta impónerandi. Hins vegar það sem safnið upplýsir, er hve óhemju duglegir menn hafa verið hér umhverfis Yazd, fyrir meira en 2.000 árum að grafa út net manngengra jarðganga til að flytja vatn úr nálægum fjöllum og dreifa því um víðfeðm svæði. Grafið var eftir vatni á allt niður á 300 m dýpi í jaðri fjallanna, vatninu síðan veitt í þessa neðanjarðar kanala og með reglulegu millibili var grafinn eins konar brunnur lóðrétt niður á göngin, þar sem fólk gat nálgast vatnið. Þannig náðu menn að gera eyðimörkina lífvænlega.

Amir Chakhmaq byggingin við aðaltorg bæjarins hýsir mosku, baðhús og vatnslind, svo nokkuð sé upptalið

Dró samferðunginn með í einar tvær moskur, en þegar ég ætlaði að skoða þá þriðju, eina af elstu moskum landsins, þá settist minn maður á steinvegg í skugga og sagðist bíða mín þar. Á meðan ég lét fræða mig um guðshúsið lenti hann á spjalli við enskar dömur sem sögðust vera búnar að skoða hátt í 100 moskur og sannfærðu hann um að hann væri ekki að missa af neinu meiriháttar, þó hann kysi að sitja hjá.

Yfirleitt eru moskurnar fallegar að innan, en til þess að gera látlausar

Kvöldmatinn snæddum við á ítölska staðnum Cesar og verður að segjast eins og er, að þessi staður stendur góðum vestrænum veitingastöðum fyllilega á sporði, jafnt í umgerð sem mat. Starfsstúlka í gestamóttökunni benti okkur á þennan stað og þegar við báðum um leigubíl til að fara þangað, kom framkvæmdastjóri hótelsins aðvífandi og krafðist þess að fá að aka okkur þangað sjálfur. Hann vildi allt fyrir okkur gera karlinn þó að við vidlum ekki snæða á hans ágætu veitingasölu í hótelinu. Vel saddir félagar sem lögðust í koju þetta kvöldið. Eknir 306 km

Kvöldstemning af þaki tehúss í Yazd

Haldið til Shiraz

Nakin fjöllin í hita og þurrki

Frá Arg-E-Yadid hótelinu í Yazd lögðum við upp kl 9, beint inn á veg sem liggur um fjöllin í áttina til Shiraz. Náttúrufegurðin þarna í auðninni og algerlega gróðursnauðum fjöllunum er engu lík, þar sem hver fjallgarðurinn rís upp af öðrum og maður sér þá í gegnum dulúðugt mistur.  Sem betur fer þurfti fararstjórinn að stoppa einu sinni eða tvisvar til að endurræsa ratarann í símanum sínum, sem trúlega var kominn á yfirsnúning vegna mikillar yfirferðar og náði ég þá að bæta fáeinum myndum í gagnasafnið.

Fengum okkur eitthvert góðgæti í vegasjoppunni hjá þessum dömum

Við vorum enn að aka í eyðimörk, en þegar dagleiðin var tæplega hálfnuð gjörbreyttist landslagið og við tóku gróðursælar lendur, akrar miklir, grænmetisgarðar og ávaxtarækt. Á leiðinni náðum við liðlega 2.500 m hæð á fjallvegum og var hitinn þægilegur þar uppi, um 22 gráðurnar, en Shiraz er í einhverjum 1.200 metrum og vel heitt á daginn, en afar þægilegt eftir að skyggir.

Á vegunum er mikill fjöldi gamalla Benz vörubíla, sem eru með fæðingarvottorð skráð snemma á áttunda áratugnum og er óskemmtilegt að lenda á eftir þeim upp brekkur. Sé ég stundum fararbroddin hverfa í eimyrjustrók þar sem hann ekur framúr slíkum farartækjum í hæðóttu landslaginu og á þá sjálfur eftir að halda í mér andanum á meðan ég kem mér sem hraðast fram fyrir þá. Ósjaldan standa þeir svo með húddið opið á þjónustumiðstöðvum við veginn, sennilega svolítið viðhaldsfrekir.

Margir fararskjótarnir eru komnir nokkuð til ára sinna

Eina túristastoppið á leiðinni til Shiraz er við minjarnar í Pasargadae, þar sem hæst ber grafarstein á stalli miklum sem stendur þar einn og sér. Að sögn fræðimanna er þetta hinsti dvalarstaður Kýrusar mikla sem stofnaði heimsveldi Persa á sjöttu öld fyrir Krist og byggði Pasargadae sem höfuðborg sína. Eitthvað lærði ég um Kýrus sem barn í sveitinni og var svo hrifinn af nafninu, að síamskötturinn sem okkur var gefinn, fékk þetta merka nafn.

Grafhýsi Kýrusar Persakonungs, sem ríkti á 6. öld fyrir Kr

Frá Pasargadae var ekið beinustu leið til Shiraz þar sem við fengum inni á Chamran hóteli, fínasta herbergi með þremur rúmum á 16. hæð. Saba, vinkona Ali og ofurleiðsögukona að hans sögn, sækir okkur árla dags á morgun og fer með okkur í Persepolis.  Eknir 448 km

Persepolis

Saba vinkona okkar fræðir ferðalanginn um Persaveldi og þennan magnaða stað, Persepolis

Saba sótti okkur kl 8 og héldum við rakleitt til Persepolis sem er um 60 km utan við Shiraz. Þar eru miklar minjar á stóru svæði af „viðhafnar“– og hátíðahöfuðborg Akkamenída, sem sé hins forna keisaradæmis Persa sem stofnað var af Kýrusi mikla um 550 fyrir Krist. Eins og við sáum í gær byggði Kýrus borgina Pasargadae og þegar hann féll frá tók sonur hans við en ríkti fremur stutt, aðeins í 7 ár og tók þá Daríus, sem var tengdasonur Kýrusar, við stjórnartaumunum. Ríkið sem hann stjórnaði hringaði sig um botn miðjarðarhafs í vestri, frá Egyptalandi upp til Grikklands, Tyrkland allt og að Indusdal í austri. Þegar hann byggir Persepolis mun hann hafa hugsað borgina sem sameiningartákn allra þeirra þjóða sem undir ríki hans heyrðu og má sjá á lágmyndum fulltrúa allra þeirra þjóða.

Þó að Alexander mikli hafi brotið borgin undir sig og brennt, stendur eitthvað enn uppi
Fáeinar stórsúlur hafa staðist tímans tönn

Eftir að Daríus er allur tekur Xerxes sonur hans við að stjórna þessu víðfeðma ríki og heldur áfram að stækka þá metnaðarfullu borg sem faðir hans hafði byggt. Óperan Xerxes eftir Händel er lauslega byggð á sögu þessa mikla þjóðhöfðingja og þó hún sé sjaldnar flutt en margar aðrar óperur, þá er arían Ombra mai fu eitt af þekktari verkum klassískrar tónlistar, þó mest flutt sem orgelverkið Largo eftir þann mikla snilling barokktónlistar.

Það voru engar ýkjur hjá vini okkar Ali, hve fróð leiðsögukona og geðþekk Saba er

Saba, leiðsögukonan góða leiddi okkur í gegnum söguna þarna frá því um 6 öldum fyrir Krist þegar veldi Persa stóð í hvað mestum blóma, allt til þess að Alexander mikli kemur frá Grikklandi árið 330 f.Kr., hertekur landið og leggur Persepolis í rúst.

Borgarhliðið
Fátt var óskemmt eftir atlögu Alexanders mikla að borginni

Í fjallinu ofan við þessar miklu minjar eru stór grafhýsi tveggja afkomendar Daríusar, en skammt frá í öðrum hamravegg sem að borginni snýr eru fjögur grafhýsi, m.a. Daríusar og Xerxesar.

Minjar Perseplis og grafhýsið í baksýn, byggt inn í fjallið
Lágmyndir á veggjum sýna fulltrúa hinna mismundandi þjóða sem lutu stjórn Persa
Grafhýsi Daríusar II, Artaxerxar I og Daríusar I

Eftir að drukkið í okkur söguna og meðtekið mikilfengleik þeirrar borgar sem eitt sinn stóð á fallegum stað undir fjalli, fór Saba með okkur í ljúffengan íranskan miðdegisverð. Restinni af eftirmiðdeginum og kvöldinu vörðum við að mestu í miðbænum í Shiraz. Já, vel að merkja, Shiraz þrúgan þekkta sem ræktuð er til víngerðar víða um heim, er ættuð héðan, eins og nafnið gefur til kynna. Hjólin óhreyfð.

„Bleika“ moskan

Samferðungurinnn varð fyrir vonbrigðum með bleiku moskuna fallegu hér í Shiraz, út af því hve hún var ekki nógu bleik að hans mati, einkum þar sem kominn er bleikur október.

Okkar manni fannst bleika moskan ekki standa undir nafni

Hún var fyrsti áfangastaður okkar í morgun og nutum við þess að skoða guðshúsið og fylgjast með öðrum gestum þess.

Bleikt er engu að síður ráðandi litur í veggjum moskunnar

Í bænahúsinu sjálfu eru litglaðir steindir gluggar sem varpa marglita birtu inn í salinn og hefur kvenkynið yndi af því að láta taka af sér myndir í margvíslegum uppstillingum í birtu þessara glugga.

Ungu konurnar nutu þess að leika sér í marglitu ljósinu frá gluggum moskunnar

Ábúðarmikill siðgæðisvörður gekk um húsið og sá til þess að dömur í of stuttum fatnaði, t.d. pilsum sem náðu ekki nema niður á miðja kálfa, hyldu sig betur og afhenti þeim kufla, ekki svarta eins og algengast er, heldur smáblómótta, eins og sængurver. Slíkar yfirhafnir voru til þarna í ómældu magni.

Þaðan héldum við í lítinn en afar fallegan garð í námunda, Naranjestan og inn af honum var örlítið fornmunasafn, jafnframt kaffihús með ljómandi espresso.

Naranjestan garðurinn er tengdur litlu fornmunasafni

Með hjálp ratarans komumst við síðan að virki miklu, Citadel, sem byggt var af Karim Khan fyrir hartnær 300 árum. Var þetta bústaður þess höfðingja, en er eins og margir slíkir, safn í dag.

Citadel virkið

Gáfum okkur góðan tíma þarna áður en við héldum í Eram garðinn, einstaklega fallegt og vistlegt útivistarsvæði, þar sem fjölskyldur breiddu undir sig teppi á grasinu og nutu blíðunnar.

Eram garðurinn er friðsældarreitur

Sjálfir vorum við á hæglætis randi eftir stígum garðsins og tylltum okkur í skugga. Fólk heilsar og reynir að skiptast við okkur á orðum og karl einn sem kemur þarna kann örfá orð í ensku og gefur sig á tal við samferðunginn. Með karli eru kona hans og sonur ásamt tengdadóttur og fer nú sonurinn að spyrja um okkar hagi, en hann réði yfir heldur meiri orðaforða en faðir hans. Höfðum við ánægju af þessum orðaskiptum. Svo býður karl okkur heim til sín í kvöldmat með þeim fjölskyldunni, en við afþökkum með miklu þakklæti og leggur þá karl nokkuð hart að okkur, virtist vera mikið í mun að fá að sýna útlendingunum gestrisni. En við vorum með önnur plön.

Hún Saba okkar hafði mælt með matsölunni Haft Khan til kvöldverðar. Okkur fannst sá staður frekar langt í burtu, einkum þar sem bílferðin neðan úr bæ heim á hótel í gærkvöldi gekk afar hægt. Vissum um annan ágætan veitingastað nær. Þegar við biðjum sætu stelpuna í gestamóttökunni að skrifa niður heimilisfangið á þeim stað, Kohan, mælir hún eindregið með að við förum frekar á stað sem heitir Haft Khan. Þó að þær séu nú báðar búnar að róma þessa ágætu matsölu, Saba og stúlkan í lobbíinu, héldum við við okkar keip og fengum adressuna á Kohan. Leigubílstjórinn, sem talar ágæta ensku, spyr hví við ætlum á Kohan, hann geti farið með okkur á annan stað miklu betri, Haft Khan. Þá létum við undan og sáum ekki eftir því.

Haft Khan er flott matsala utan sem innan og frábær maturinn hjá þeim

Ljómandi matur og staðurinn allur frekar vestrænn, flottur og hreinn. Við gestamóttökuna á gistingunni okkar þegar við komum til baka, rekumst við á vinkonu okkar og leyndi hún ekki gleði sinni yfir því að við skyldum hafa kosið þennan fína stað til að matast á. Segist ávallt fara þangað á afmælisdaginn sinn.  Hjólin óhreyfð, en vekja mikla athygli við aftari inngang hótelsins.

Shiraz

Shiraz er síðasti ákveðni áfangastaðurinn á ferð okkar um Íran. Nú var komið að vendipunkti hjá okkur, við höfum ekið eins langt suður kúluna og til stóð, þannig að hér var komið að því að snúa hjólunum við. Hugmyndin var að gera úr Íransakstrinum eins konar hringferð, fara til baka öllu vestar en við fórum suður og vera þá í fjöllunum sem teygja sig að hluta til í átt að Persaflóa og síðan Íraks. Algengt er að þeir sem fara þessa leið aki til Ahwaz og gisti þar. Okkur fannst þetta alllangt í einum spretti, einkum þar sem stór hluti leiðarinnar er ekinn á bugðóttum fjallvegum og ekki vorum við vissir um ástandið á malbikinu, þannig að hugmyndin var bara að aka eins langt og við nenntum og finna okkur gistingu. Reyndin varð samt sú að við ókum alla leið til Ahwaz, því aksturinn var þægilegur, þrátt fyrir fjallvegina, en við vorum mest í um 2.500 m hæð. Fararbroddurinn gerir sér grein fyrir aksturstakmörkunum ritara og er ávallt með plan b, sé dagleiðin í lengra lagi, sem hefur þó ekki verið nýtt til þessa.

Leiðin öll er gríðarlega falleg, liggur að miklu leyti um há fjöll og djúpa dali, stundum undir himinháum hamraveggjum, ýmist á aðra hlið eða í gegnum klofninga. Verst hve erfitt var oft að stoppa til myndatöku þar sem landslagið var hrikalegast og flottast. Þegar ofan úr fjöllunum var komið og við farnir að aka á láglendi, snarhækkaði hitinn og fór mest í 43 gráður. Í svona hita munar rosalega mikið um hverja gráðu, eins og menn þekkja í heitu pottunum í Neslauginni. Hærri hita höfum við ekki upplifað í þessari för, en gusturinn í andlitið á 100 km hraða er hættur að kæla, þetta er meira eins og að blása ásjónuna með hárþurrku.

Undir fjöllunum sáum við fjölda hreinsistöðva, veit satt að segja ekki hvort þetta eru olíuhreinsanir eða gasvinnslur. Alla vega voru þetta mikil bákn, með ógnarháum skorsteinum, þar sem feiknalegar eldtungurnar sleiktu himinn. Þó maður hafi séð eitthvað svipað þessu áður, var þetta ansi hreint magnað sjónarspil.

Flott að sjá eldtungurnar teigja sig til himins

Talandi um gas, þá mun Íran vera það land sem býr yfir mesta gasforða heimsins. Þeir upplýstu okkur um það í matarboðinu um daginn, vinir Husseins, að Íran sé fimmta auðugasta land heimsins, með þennan gífurlega gasforða, ómældar olíulindir, góðmálma og eitthvað töldu þeir upp fleira.

Í Ahwaz fengum við lobbýdrengina á gistingunni okkar til að ráðleggja okkur matsölu fyrir kvöldið og mæltu þeir eindregið með Royal Park. Aftur vorum við komnir á einstaklega traustan stað sem stenst fyllilega samjöfnuð vestrænna veitingahúsa.

Tek yfirleitt ekki myndir af mat á diski, en þetta leit vel á Royal Park og var frábær máltíð

Maturinn var ljómandi, allt hér bæði nýtt og elegant og verðlag því í hærra lagi, dinnerinn lagði sig á um 1.600 kr á mann. Reyndar eru útgjöld til áfengiskaupa í lágmarki. Þarna gerðist það enn, að til okkar kemur hópur stúlkna, hvort þær megi taka af sér myndir með okkur útlendingunum, sem eins og fyrri daginn var auðsótt mál.

Andlit okkar félaganna eru komin í marga farsímana í Íran

Reyndar er það svo að hvar sem við gerum hlé á akstrinum eru komnir ungir menn hlaupandi til að fá af sér mynd með mótorhjólunum og knöpum þeirra. Samferðungurinn hefur verið snöggtum duglegri en ritarinn að sinna þessari skyldu, enda miklu hæfari í að útskýra tæknileg ágæti hjólanna. Eknir 516 km

Allstaðar vekja hjólin athygli og tæknimaðurinn upplýsir um mesta hraða, hestöfl, kúbiksentimetra, hröðun og önnur tæknileg atriði þeirra.

Ahwaz til Khorramabad

Nú vorum við komnir á láglendi og þó við ækjum yfir einhver fjöll, fórum við aldrei yfir 500 m. Hitinn var skaplegur, náði aldrei sömu hæðum og í gær. Á þessari leið okkar frá Ahwaz til Khorramabad liggur bærinn Shushtar, en þar er afar merkileg stífla í Karún ánni, Band-E Kaisar, sem byggð var á þriðju öld. Á þeim tíma var hér ríki Sassaníu og keisari þeirra var Shapur I. Hann vann hér orrustur í stríði við Valerían Rómarkeisara, tók hermenn keisarans til fanga og notaði þá til að byggja þessa brú og stíflu, enda vanir slíkum framkvæmdum hjá fyrri húsbændum.

Svæðið fyrir neðan Band-E Kaisar stífluna

Þetta mun vera austasta brú sem byggð var af Rómverjum. Stíflan er um 500 m löng og var ekki aðeins ætlað að nýtast til mikilla áveitukanala, heldur var vatnið einnig notað til að knýja fjölda kornmylla. Eðlilega er þetta svæði allt undir minjavernd Unesco, en þar á bæ var það sagt vera „meistaraleg sköpunarsnilld“.

Á meðan við vorum að skoða svæði stíflunnar var þar enginn annar ferðamaður, þar til leiðsögukona ein kom með tvær brasilískar dömur. Gamli maðurinn, eftirlaunaþegi sem hefur það fyrir hobbý að fara yfir svæðið með ferðamönnum, var byrjaður að segja okkur frá svæðinu, en bætti nú nýkomnum dömunum í hópinn og rölti með okkur, sýndi okkur og sagði frá á sinni bjöguðu ensku sem Suður-Ameríku dömurnar skildu ekki.

Leiðsögumaðurinn um stífluna og mannvirki henni tengd

Svo fór hann með okkur inn í sitt litla kamers þar sem hann sagði okkur fleira, en önnur þeirra brasilísku hafði meiri áhuga á að fá hjá samferðungnum WhatsApp (netsímanúmer) númerið hans, sem hann er afar tregur til að láta. Held að hún hafi fengið númerið hjá Hreyfli.

Sú brasilíska vildi ná tengslum við Íslendinginn

Þetta er frekar algengt hér bæði hjá ferðamönnum sem maður lendir á spjalli við og einstaka heimamönnum, að skiptast á WhatsApp númerum. Þegar við höfðum kvatt gamla manninn, vildu dömurnar fá að sjá hjólin okkar og voru að sjálfsögðu teknar þar fjöldi mynda.

Það var skemmtilegt að aka hálendisvegina um fjöll og dali

Restin af leiðinni til Khorramabad var þægilegur akstur og stefndum við beint á gistingu sem okkur var sagt að væri sú bestu í bænum. Þegar við höfðum greitt fyrir hótelið, sem jafnan er gert við innritun, vorum við báðir orðnir blankir, þ.e.a.s. af írönskum ríölum. Nú vorum við komnir á svæði þar sem hótelið hvorki tekur við greiðslu í erlendri mynt, né er í standi til að skipta slíku yfir í landsmyntina. Elskuleg stúlkan í gestamóttökunni upplýsti okkur um að víxlarastofan í bænum opnaði kl 10  í fyrramálið. Á rölti okkar um aðalgötu bæjarins hverfur samferðungurinn skyndilega inn í skartgripaverslun, og viti menn, auðvitað skipta þeir aurnum fyrir okkur, meira að segja á heldur betra gengi en við höfum oftast fengið. Það er sem ég segi, radíóvirkinn hefur nef fyrir hlutunum, ævinlega búinn að leysa mál áður en aðrir átta sig á hvernig þau snúa.

Tókum kvöldskattinn á „ítalska“ veitingastaðnum Verona, gegnt gistihúsinu okkar. Þar gaf sig á tal við okkur bandarískur Írani. Hafði ungur farið vestur til náms, ílendst og orðið Ameríkani. Hann átti hér fjölskyldu og var fyrst og fremst að heimsækja aldraða móður. Hann sagði að ánægjan af hingaðkomunum væri blendin, því það eina sem hann heyrði hjá sínu fólki væru kvartanir og hann gerði sér alveg grein fyrir að þær væru sannarlega ekki ástæðulausar. Bróðir hans á tvö börn og það er handleggur að koma þeim til mennta á laununum sem menn búa hér við. Jafnfram benti hann okkur á að þegar við förum með fjölskylduna út að borða, förum við á veitingahús, en hér er farið í pikknikk á teppi í almenningsgarði eða á umferðaeyju. Fyrir meiru duga laun almennings ekki. Ótrúlegt hvernig stjórnmálamenn geta haldið heilli þjóð í gíslingu fátæktar í einu ríkasta landi heims. Eknir 350 km.

Íranski herinn

Frá Khorramabad lendum við strax í fjöllum, stórskemmtilegum fjallvegum í kjörhita, sem skreið rólega úr 18 gráðum upp í um 25 og var mikil tilbreyting frá nýliðnum dögum. Við ökum alllengi dags um hálendi, svona í kringum 1.800 m, um landbúnaðarhéruð mikil, hæðir og ásar plægðir, þarna yrkja menn jörðina allt upp undir grjóturðir fjallanna, svo langt sem augað eygir. Afar skemmtilegt var að aka um þessar slóðir, ef frá eru taldir hnökrar á malbikinu sem virðast vera fastur passi á vegunum hvar sem maður fer.

Þessi vakti athygli á herstöðinni sem hann stóð framan við

Áðum stundarkorn undir vegg til að taka mynd af gömlum skriðdreka sem stillt var upp framan við innkeyrslu að rammgirtu hersvæði. Fljótlega komu til okkar nokkrir hermenn og spurðu um okkar för. Voru þeir hinir kumpánlegustu, en aðeins einn úr hópnum talaði ensku, sem hann sagðist hafa lært með því að horfa á kvikmyndir.  Þeir dáðust að hjólunum og vildu að sjálfsögðu allir fá af sér myndir við gripina. Piltana langaði til að bjóða okkur inn fyrir upp á hressingu, en yfirmaður þeirra sem með þeim var, sagði það því miður ekki hægt skv. reglum herstöðvarinnar og virtist öllum þykja það leitt.

Þarna náðum við góðum tengslum við íranska herinn

Sá enskumælandi upplýsti okkur um að þessi litli hópur sem við vorum að spjalla við, var blanda þjóðerna, arabar, kúrdar, persar og eitthvað nefndi hann fleira. Við erum núna sem sé að aka um Kúrdistan hérað Írans. Sjálfir vorum við að vonum ánægðir með að vera komnir í þetta gott vinfengi við íranska herinn og fá að upplifa þessa elskulegu hlið hans.

Eftir þessi skemmtilegu kynni héldum við áfram og sáum að meðfram veginum á margra km svæði voru svona vel girt athafnasvæði hersins. Þægilegur akstur til Sanandaj þar sem við komum okkur í gistingu eftir temmilega dagleið, eina 308 km.

Um kvöldið fórum við enn að ráði gestamóttökunnar, á „ítalskan“ veitingastað og fengum leigubíl til að skutla okkur. Hann sleppti okkur úr við pizzustað, en ekki þar sem við ætluðum. Með hjálp ungrar stúlku á förnum vegi komumst við með öðrum bíl á réttan áfangastað og fengum góðan snæðing. Meðan við sitjum til borðs, birtist ekki leigubílstjórinn sem skildi okkur eftir á vitlausum stað, ákveðinn í að bæta okkur mistökin og aka okkur frítt á hótelið aftur, sem við tókum ekki í mál, því farið kostar 100 krónur ísl. en við tvöföldum ævinlega uppsett verð, við mikla gleði bílstjóranna. Fengum okkur m.a. pízzu sem ekki var kláruð og bað bílstjórinn um að fá  afganginn af henni með sér heim, sem var auðsótt mál.

Á næsta borði sat falleg gömul kona með dóttur og barnabarni, ungri stúlku. Hér er greinilega ekki mikið um ferðamenn, svo flestir inni á matölunni ýmist gjóuðu til okkar augunum eða horfðu á okkur og brostu. Gamla konan brosti og ég brosti og litla stúlka sem sneri baki í mig sneri sér að mér og brosti, svo ég vinkaði henni og hún á móti. Þessi þrenning yfirgaf matsöluna rétt á undan okkur eftir að hafa kvatt og brosað og litla daman rétti mér höndina til að kveðja. Þegar við komum út standa þessar þrjár kynslóðir enn utan við staðinn og var þá ekki annað hægt en að fá mynd af þeim, til að varðveita minninguna um þessi notalegu orðlausu kynni af fallegu fólki. Eknir 308 km.

Með þremur kynslólum af fallegu fólki

Sanandaj til Urmia

Frá Sanandaj var málið núna bara að koma sér til Urmia, sem gekk að mestu vandræðalaust þrátt fyrir leiðinda strekking á köflum. Enn ökum við um hálendisvegi í um 1.600 til 1.800 m hæð, eru þetta landbúnaðarhéruð sem fyrr og náttúran gleður augað.

Fá stöðuvötn bar fyrir augu á allri okkar för um landið

Eins og venjulega stoppum við endrum og sinnum til að fá okkur kaffi, en nú bregður svo við að góða espresso kaffið sem ganga mátti að vísu, jafnvel á aumustu bensínstöðvum, er með öllu horfið í þessum sveitum, einungis te í boði eða sums staðar Neskaffi. Kaffiþyrstir rennum við upp að húsi þar sem fjölmenni var og við héldum vera kaffihús. Sáum við ekki betur úr fjarska en þarna væri einhver gleði, því fjöldi kvenna stóð prúðbúinn í hálfhring í garði við húsið og hugðum við báðir að þarna væri söngskemmtun eða annað slíkt í gangi.

Ekki söng þessi kór þó tónlist væri á svæðinu

Þegar við hins vegar stöðvum við húsið sjáum við að uppáklædda kvenfólkið voru allt brúður í fullri stærð eða gínur. Þar sem enginn á svæðinu talaði ensku, fengum við engan botn í þessa samkomu, en ekkert var þarna kaffið.

Veslingurinn stóð tjóðraður í vegkantinum þar sem við fengum okkur hádegissnarlið, strútskebab

Það merkilega gerist í ratara radíóvirkjans, að tækið afvegaleiðir okkur inn á breiðan veg, rétt eins og höggormurinn Evu forðum og erum við nú heillum horfnir um stund. Andstætt framvindu gömlu sögunnar, þá sér tækið að sér um síðir og kemur okkur aftur inn á hinn mjóa veg sem leiðir til …. Urmia. Fengum við út úr þessum vegvillum velkomna aukakílómetra inn á hjólin, eða þannig, komumst þó á skikkanlegum tíma á leiðarenda. Tæknimaðurinn mikli á hjóli eitt, lá síðan heillengi yfir því hvernig þetta hafi getað skeð, en mér vitanlega hefur hann ekki komist að neinni skynsamlegri niðurstöðu í því máli enn sem komið er. Eknir 449 km

Íran kvatt

Nóttin var ekkert sérstaklega notaleg hjá mótorhjólamanninum mikla í Urmia. Í þetta sinn gistum við í húsinu hans sem er eins konar vandaður sumarbústaður rétt utan við bæinn. Gestaherbergið er með tveimur kojustæðum, þannig að nú náðum við báðir að sofa í neðri koju. Um tvöleytið um nóttina vakna ég skjálfandi af kulda, því þarna verður vel kalt á næturna og allt óeinangrað, sem er svo sem sök sér, hefði maður haft eitthvað betra en örþunnt filtteppi yfir sér. Fór í þær flíkur sem til staðar voru og vafði svo bleðlinum utan um mig til að reyna að ná aðeins meiri svefni. Þegar ég kom svo fram, sefur þá ekki húsbóndinn þar í sófa í hlýrri stofunni, með stærðar gasofn á fullu, greinilega of kalt fyrir hann í herberginu sínu, á meðan gestirnir máttu hýrast skjóllitlir í ísskápnum. Ekki mjög öflugur vert þessi drengur.

Kappinn þessi hefur það að atvinnu að hjálpa ferðamönnum sem koma akandi til Írans, að komast í gegnum pappírsþvarg landamæranna og virðist lifa nokkuð góðu lífi á þessari starfsemi. Í okkar tilfelli, gátum við keypt hjá honum þjónustu varðandi „Carnet“ pappírana, eins konar trygging sem sum lönd krefjast, komir þú með vélknúið farartæki inn í landið. Þar kann hann til verka og gekk allt snurðulaust fyrir sig á landamærunum, jafnt á leið inn í landið sem út úr því aftur og eru satt að segja mikil verðmæti í slíkri þjónustu á svona stöðum.

Okkar maður í landamærastússinu

Hann er mikill töffari þessi piltur, með gullkeðju um hálsinn, gullkeðjuarmband um úlnliðinn og stærra úr á handleggnum en ég hef áður séð. Þegar ég spurði hann um stóra mótorhjólið hans, en hann á nokkur, hvernig hann gæti ekið um á 1.000 kúbika hjóli þegar ekki eru leyfð stærri hjól en 250 kúbika í landinu, þá fékk ég að vita að hjólinu var smyglað inn frá Kúvæt og væri hvorki skráð, með númersplötu, né tryggt. Pilturinn er rosalegur ökuþór, jafnt á bíl sem hjóli og á þessu hjóli í umferðinni treystir hann alfarið á afl tækisins til að hverfa hratt af vettvangi, verði vart við lögreglu í nánd. Hann sagði að mesta hættan væri þegar hann fyllir hjólið á bensínstöð, að lögregluna gæti óvænt borið að. Það skýrir sennilega brúsana sem við sáum heima hjá honum, öruggara að kaupa bara bensín á brúsa og fylla svo hjólið heima. Hann staðfesti líka það sem við höfðum heyrt frá öðrum áður, að lítið mál sé að verða sér úti um áfengi og jafnvel fíkniefni í þessu ágæta landi.

Að kveðja Íran tók ekki nema liðlega tvo tíma

Eftir að hafa kvatt Íran og farnir að aka um Tyrkland aftur, settum við stefnuna á bæinn Van við samnefnt vatn og voru þangað um 250 km, að hluta yfir háfjöll, vegurinn náði mest 2.850 m hæð.

Í 2.850 m hæð er víðsýnt vel

Þetta var afar skemmtileg leið, en mjög bugðóttir vegir og krefjandi, upp og niður fjöllin í endalausum krókum.

Skemmtilegar ökuleiðir í Tyrklandi

Nú ökum við snöggtum sunnar en á austurleiðinni og þar með nær landamærum Íraks og síðan Sýrlands. Ekki veit ég hvort það er þess vegna, en á dagleiðinni ókum við um einar sex eftirlitsstöðvar hersins, með vegaþrenginum og hraðahindrunum, fjölda þungvopnaðra hermanna og nokkrum bryndrekum á hverjum stað og vorum við stöðvaðir tvisvar og þurftum í annað skiptið að framvísa vegabréfi og sýna þeim ofan í töskur okkar. Auðvitað langaði mig að taka myndir þarna, en frammi fyrir þessum vígbúnaði áræddi ég ekki að fara fram á neitt slíkt. Ferðin gekk annars vel og fengum við inni á fínu gistihúsi við vatnið rétt utan við bæinn, en með lélegri matsölu. Eknir 310 km.

Margt gleður augað á langri för.

Van vatnið

Fyrsta hálftímann ökum við afar huggulega leið meðfram Van vatninu, með snarbrattar hlíðar á aðra hönd og smágárað vatnið á hina.

Van er feykistórt stöðuvatn

Síðan er þetta fjallaakstur með svipuðu sniði og undanfarna daga í þægilegum svala, um 18-20 gráðum. Á vegi okkar verða göng nokkuð löng og þegar þeim sleppir lendum við í smá regni. Sáum svart úrkomuskýið fyrir ofan okkur, en vorum nokkuð snöggir að skutlast undan því og urðum ekki varir við frekari vætu það sem eftir lifði dags. Ský dempuðu geisla sólar fram eftir degi, en svo lá leiðin niður úr fjöllunum og var þá enginn filter lengur á himni, heldur sendi orkuboltinn mikli heita strauma sína óhindrað á hjólandi ferðalangana.

Þægilegur svali var í fjöllunum

Ekki voru nema 5 vegatálmar hersins á leið okkar í dag. Tvisvar vorum við stöðvaðir og skipst á kveðjum og hvaðan eru þið og síðan brosað og kvatt. Heimamaður sem við spjölluðum við á hótelinu nú í kvöld upplýsti okkur aðspurður um, að þessi afskipti hersins af umferðinni hér sunnan til í landinu, væru búin að vera viðvarandi ástand um margra ára skeið. Ég reyndi að forvitnast hjá honum út á hvað árásir Tyrkja á Sýrland gangi og útskýrði hann það fyrir mér í grófum dráttum, en þar sem mig skortir alla grunnþekkingu á málinu, finnst mér betra að tjá mig ekki mikið um það.

Samferðungurinn hefur skoðað það á landabréfi, að við erum í um 100 km fjarlægð frá landamærunum og einn hermaðurinn sem gaf sig á tal við okkur spurði hvort okkur þætti ekki öruggara að færa okkur örlítið norðar á kortið. Þar sem allt hefur út af fyrir sig gengið vandræðalaust til þessa, sjáum við ekki ástæðu til að breyta aksturstefnunni, en látum okkur líða vel í því fallega umhverfi, sem búið var að segja okkur að einkenndi svæðið, sem leið okkar liggur um. Eknir 315 km.

Það fer vel í mann að aka um svona landslag.

Bómull

Nú ökum við um hrjóstugar sléttur og rétt sést móta fyrir fjöllum í hitamistrinu við sjóndeildarhringinn. Á þessum frekar gróðursnauðu grjótmelum er samt fjöldi fjárhirða með hjarðir sínar á beit, svona um eitt til tvö hundruð skepnur í hóp. Einstaka nautgripahjarðir ber líka fyrir augu. Fyrr en varir erum við komnir í ræktarlönd aftur og nú blasa við víðáttumiklir bómullarakrar. Uppskeran er í fullum gangi, fólk við týnslu á ökrunum og vörubílar með fjallháar hleðslur af þessum varningi aka um vegina.

Bómullartýnsla

Af vegatálmunum hersins er það að segja að tálmanirnar eru ekki eins tíðar og í stað þungvopnaðra hermanna er núna léttvopnuð lögregla með umsjón á þessum hindrunum. Séum við stoppaðir er það aðeins til að eftirlitið hafi smá tilbreytingu, spyrja um okkar för og góða ferð.

Náunginn sem við hittum á hótelinu í gærkvöldi sagði okkur að á leið okkar í dag færum við framhjá afar merkilegum fornminjum, sem við höfðum alls enga hugmynd um að til væru. Þarna eru sem sé 12.000 ára gömul mannvirki og skv. því sem lesa má um þau, eru þetta elstu byggingaminjar sem vitað er um á þessari jörð. Þær eru í Göbekli tebe og samþykkti samferðungurinn að bæta skoðun á þessum stað við ferðplanið, svo hann var stimplaður inn í ratarann. Þegar við nálgumst svæðið teymir tækið okkur markvisst inn á æ mjórri og ómerkilegri götur og fer mér að finnast ótrúlegt að jafn merkur staður hafi jafn ómerkilega aðkomu og þessi leið er að verða.

Ekki tekur svo betra við, því allt í einu er mjóa malbikaða gatan orðin að illakandi malarstíg, eða öllu heldur einhvers konar kalkmalarstíg. Þarna var mér ljóst að tækið var búið að leið okkur í villur, stoppaði hjólið og skoðaði kortið, en svo virtist að við værum bara spölkorn frá áfangastað. Fararbroddurinn hins vegar lék á alls oddi, loksins komið eitthvert fútt í aksturinn og eins og hans er vandi í svona kringumstæðum, sló bara duglega undir nára. Sjálfur hélt ég mér í hæfilegri fjarlægð á eftir honum, bæði vegna þess að svona aðstæður eru ekki alveg minn tebolli, fer hægar yfir og varlegar og líka vegna hins að lofa kalkduftsskýinu sem hann þyrlaði upp, aðeins að setjast til ég sæi nú slóðina. Sem ég er að bögglast þetta á slóðanum sé ég hvar stór kalkduftsflutningabíll kemur á móti okkur og skýið á eftir honum birgir fullkomlega sýn á veröldina alla, bara eins og versti snjóbylur. Inn í þessu myrka skýi lendir formaðurinn á ferð á úfnum troðningunum, en sjálfur fikra ég mig út í kant og stoppa þar og þurfti að bíða drykklanga stund í logninu áður en skýið var það fallið að eitthvað mótaði fyrir heiminum fyrir framan mig. Stuttu síðar erum við komnir þangað sem tækið vísaði okkur, í kalknámuna, takk fyrir. Engar fornminjar hér.

Þessi kalknáma var svo sannarlega ekki á planinu okkar, en stundum taka tækin völdin

Tæknimaðurinn í hópnum fer nú í ratarann aftur og niðurstaðan af því er að aka áfram og ekki hlustað á neinar úrtölur efasemdamannsins, því nú er gaman hjá okkar manni. Leiðir tækið okkur kílómetrunum saman eftir endalausum malarstígum og renna ekki á mig bara tvær grímur, heldur þrjár eða fleiri. En samferðungurinn er í essinu sínu og þyrlar upp ryki á fleygiferð, ofurkátur með svona troðningaakstur á meðan ég dragnast á eftir honum, fullur tortryggni um stefnuna sem tekin hefur verið. Um síðir lendum við þó aftur á malbiki og fljótlega þar við veginn, er fólk við bómullartýnslu búið að koma sér fyrir undir tré til hádegisverðar. Þarna var kærkomið tækifæri til að á smá stund og skiptast á orðum við fólkið með hjálp gúgúls. Er okkur boðið að tylla okkur og þiggja góðgerðir.

Í matarboði hjá bómullartýnslufólki

Tækið vísar okkur áfram þessa leið og fer svo að lokum að við náum settu marki eftir að hafa vaðið í einhverjum fjallabaksleiðarvillum lengi dags.

Þessi er orðinn mikill áhugamaður um fornminjar

Þarna er stór upplýsingamiðstöð með stórvel unnu fróðleiksefni um minjarnar og rannsóknir á þeim. M.a. er á vegg miklum sýnt brot úr þætti frá National Geographic sem titlaður er „Point zero“, við vorum sem sé komnir á byrjunarreit. Hafa menn með rannsóknum sem hófust 1995, komist að þeirri niðurstöðu að hér efst upp á háu fjalli, séu þessar steinaldarbyggingar hof eða musteri, en ekki íbúðarhús, alla vega notuð til trúarlegra iðkana.

12.000 ára byggingar

Ráðgáta er alltént, svipað og í Stonehenge reyndar löngu síðar, hvernig fólk gat dröslað allt að 60 tonna steinblokkum þangað upp og komið þeim fyrir þarna á fjallinu fyrir 12.000 árum.

Einhvers konar hof eða musteri

Við gáfum okkur góðan tíma til að skoða þessi fornu mannvirki og fræðast um þau áður en við héldum áfram. Þó ég fyndi fyrir miklum áhuga hjá félaga mínum að fara sömu leið tilbaka og við komum, þá virti hann óskir mínar um að halda sér bara við hefðbundnar leiðir á malbikinu slétta. Gistum í Gaziantep eftir 373 km akstur.

Komnir úr fjöllunum

Eftir því sem við færumst vestar, verður morgunverðarhlaðborðið líkara því sem gerist á okkar slóðum. Hér á Holiday Inn var það ljómandi gott, meira að segja hægt að velja um neskaffi úr vél, sterkt, en samt neskaffi, eða uppáhellt, sem reyndist nú vera óttalegt englapiss. Með því að blanda þessu saman var komið vel drykkjarhæft kaffi.

Þægilegur akstur, meira og minna á hraðbrautum um landbúnaðarhéruð, þar sem hver lófastór blettur er nýttur til grænmetis- eða ávaxtaræktar. Af og til sást þvottaaðstaða við bensínstöðvarnar og var tækifærið notað á einni slíkri til að þrífa hjólin, sem hafði síðast verið gert við rætur Araratfjalls. Ungur og elskulegur starfsmaður á bensínstöðinni benti okkur á gistihús í bænum, þar sem hann sagði að fara myndi vel um okkur. Vorum komnir tiltölulega snemma að ströndinni til Mersin, smábæ að við héldum, sem valinn hafði verið til næturgistingar.  Þegar til kom er þetta milljóna borg, ein af stóru hafnarborgunum hér á suðurhluta Tyrklands og ört vaxandi ferðamannabær með strandlengju mikilli. Útifyrir sigla fraktskipin svo þétt til beggja átta, að stundum sést varla bil á milli þeirra.

Hafi maður látið tyrkneska umferð pirra sig þegar við hófum að aka hér um, þá er hún hjóm eitt hjá umferðinni í Íran. Einnig eru vegirnir gegnumgangandi betri hér en í Íran og annað hitt, að hraðahindranir voru á aðalvegum við bæjarmörk allra bæja í Íran og jafnvel þegar vegurinn lá utan í bænum án þess að fara inn í hann, voru samt hraðahindranir á götunni, ekki ein eða tvær, heldur oftast fimm eða sex, allt frá knöppum bungum til hárra og breiðra bungna, grófyrjóttra, til að trufla aksturinn svo mikið sem verða mætti. Var þetta iðulega beggja vegna bæjarins og frekar hvimleitt til lengdar, þó venjast megi þessu eins og hverjum öðrum leiðindum svo sem. Trúlega er þetta samt nauðsynlegt til að hafa einhvern hemil á umferðarhraðanum, en hraðamörk voru afar illa virt, svo vægt sé til orða tekið. Þó var lögreglan mjög víða við hraðamælingar á vegum úti, en ekki mjög sjáanleg í bæjunum. Hér í Tyrklandi er engu slíku fyrir að fara og meira að segja kurteislegar vegakveðjur hers og lögreglu virðast alveg að baki þegar hingað er komið. Eknir 303 km.

Komnir úr fjöllunum

Tyrkneski þjóðverjinn

Morguninn tókum við að venju rólega, enda einstaklega góður árbíturinn hjá Hilton fjölskyldunni og sérdeilis vistleg aðstaða á veröndinni strandmegin undir hótelveggnum. Fyrir utan hvað hlaðborðið var fjölbreyttara og flottara en við höfum átt að venjast og var þó undan fáu að kvarta, meira að segja tvær tegundir af venjulegum osti í sneiðum, eins og við þekkjum hann. Svo fór að ég sótti tölvuna og skráði niður atburði liðins dags og kom þeim texta inn á bloggið áður en við gerðum upp og héldum á braut, aldrei fyrr svo seint sem nú, klukkan langt gengin í ellefu.

Ekki óvistlegt þarna

Þegar við tékkuðum okkur út var í afgreiðslunni afskaplega líflegur og skemmtilegur ungur maður sem talaði ágæta ensku, bæði hratt og mikið. Sagði okkur m.a. að hann hafi mætt á reiðhjóli í vinnuna í dag og ætlar að gera það framvegis í stað þess að nota bílinn. Þetta væri ekki nema um hálftími akstur hingað, en þar sem hann býr í hæðunum ofar í bænum, yrði hann nú öllu lengur heim og sennilega alveg búinn á því, þegar heim væri komið. Nú, þá verður frúin ekki ánægð með þig, ef allur vindur er úr þér þegar þú kemur heim, gantaðist ég við hann. Þá rétti kappinn upp báðar hendur með sundurglennta fingur sem allir voru hringlausir og upplýsti okkur um að hann væri skilinn og hann var svo kátur með þetta, að það var eins og að hann hefði unnið úrslitaleik í fótbolta.

Þeir flagga almennilega á bensínstöðinni

Sjálfur hafði ég ekki skoðað kort af leiðinni sem aka átti í dag, hélt að þetta væri þægilegur en seinfarinn akstur meðfram ströndinni, vegna þéttbýlis og umferðar. Raunin var reyndar aðeins önnur, víst fylgdum við ströndinni að mestu, en allstóran hluta leiðarinnar ókum við yfir fjöllin meðfram strandlengjunni og utan í hlíðunum í um fjögur til fimm hundruð metra hæð á vegum sem voru eins og að aka Hellisheiði eystri samfellt í tvo tíma. Þó aksturinn væri krefjandi, var þetta afar skemmtileg leið og einstakt útsýni svona hátt ofan úr hlíðunum, yfir ströndina, hafið og nærliggjandi fjöll og bæi.

Útsýnið ofan af veginum utan í hlíðum fjallsins

Þar sem við fengum okkur hádegissnarl aðstoðaði okkur gestur á staðnum, Yilmaz Aksoy, við að panta matinn. Hann talaði reyndar enga ensku, en reiprennandi þýsku. Hefur verið búsettur í Þýskalandi frá því að hann lærði þar rennismíði fyrir fjórum áratugum síðan og er nú kominn á eftirlaun. Karlinn á íbúð á hæðinni ofan við veitingasöluna og dvelur hér í góða veðrinu og lága verðlaginu eins og hann lystir, en fer síðan reglulega heim til Stuttart, þar sem konan hans á enn eftir að vinna í fimm ár, þar til hún kemst líka á eftirlaun. Skrafhreifinn karl og kátur með sitt.

Yilmaz Aksoy var ræðinn og líflegur náungi á eftirlaunum

Þegar við nálgumst áætlaðan næturstað, er stoppað á bensínstöð til að vinsa úr hótellista ratarans. Ég spyr samt starfsfólk á bensínstöðinni um góða gistingu, sem stundum hefur reynst vel, og er okkur vísað á Michell hótelið sem þarna er rétt hjá. Þar fáum við gistingu á góðu verði og það er ekki fyrr en við erum beðnir að rétta fram handlegginn til að setja á okkur Michell armbandið, sem við erum upplýstir um að innifalið í gistiprísnum sé öll neysla á mat og drykkjum á dvalartímanum.

Sólsetrið séð úr herbergi 809

Til að auka á ánægjuna skemmti svo kúbanskur dansflokkur við sundlaugarbarinn um kvöldið, þó sumir í ferðahóp okkar hafi ekki haft þrek til að fylgjast með þeirri skemmtan til enda. Eknir 328 km.

Hluti af kúbanska dansflokknum sem skemmti á gististaðnum okkar

Gróðursæl fjöll á leið til Denizli

Frá Michell gistingunni ökum við eina 150 km meðfram ströndinni og gengur alveg þokkalega að komast áfram þrátt fyrir meira og minna samfellda byggð gistihúsa, hótela og „hótel-resorta“ á þessari leið, eins og svo sem gefur að skilja. Við borgina Antalia yfirgefum við ströndina og sveigjum inn í landið mót norðri. Undanfarna daga höfum við séð óhemju margar bananaplantekrur, meira og minna undir plasti, svipað og t.d. á Tenerife. Léttar grindur eru klæddar þykku plasti eða plastdúkum og ná þessar gróðurhúsabyggðir upp frá ströndinni og inn dali. Enn verða slíkar ekrur á leið okkar og við veginn eru sölustandar bændanna pakkaðir af þessari einu afurð.

Hér eru fjöllin gróðursæl

Eftir að við snúum frá ströndinni erum við fljótlega komnir upp í fjöll í um 1.500 m hæð og líðum áfram á góðum vegum í þægilegum hita. Aftur ökum við um frjósöm landbúnaðarhéruð með alls konar akuryrkju og ávaxtarækt. Skepnur verða lítið á vegi okkar núna, en stór skepnuhús, sennilega nautgripabú, sjást af og til og skepnuþefurinn ber fyrir vitin. Á hjólinu er maður með andlitið óslitið upp í vindinn og meðtekur því alla angan, bæði þá geðþekku sem og þá sem minna gleður. Reyndar er nándin við umhverfið miklu meiri á fáknum en í lokuðu blikkhylki, eins og fararbroddurinn fékk að reyna þegar hann ók fullþétt á eftir gripaflutningabíl. Einni kúnni sem aftast stóð á bílpallinum fannst kjörið að losa vökva, einmitt á því augnabliki sem okkar maður var innan seilingar og var það aðeins fyrir snarleik hans að koma sér undan, sem hann slapp við þetta óvænta steypibað.

Þægilegur akstur sem ber okkur í North Point gistihúsið í Denizli. Eknir 358 km.

Denizli til Bandirma

Yfirgáfum North Point hótelið í Denizli um hálfníuleytið og vorum óðara komnir á þægilegan þjóðveg sem þræddi sig í gegnum gróskumiklar sveitirnar. Beggja vegna vegarins voru breiður af vínekrum og ókum við um vínræktarlönd hátt í 200 km leið. Inn á milli voru svo ólífutré og aldintré ýmiskonar sem ég kunni ekki að greina á 100 km hraða, auk þess bómullarakrar og sykurreir hér og hvar. Þar sem, fyrir fáeinum dögum, höfðu verið skýli bænda við veginn að selja banana, voru melónur nú sú afurð sem mest bar á.

Melónur í hverju söluskýli
Alls konar niðursoðið

Þegar við gáfum okkur stund til að heilsa upp á einn melónusalann, reyndist hann líka vera með mikið úrval af alls kyns niðurlögðu grænmeti og ávöxtum bæði í litlum glösum og stórum krukkum, safa í flöskum og eitthvað af þurrkuðum ávöxtum einnig. Melónan sem við fengum að smakka hjá honum er einhver sú besta sem við höfum bragðað, eðalsæt og safarík.

Fljótlega eftir að við lögðum af stað ókum við yfir fjallaskarð og þar ofan af blasti við dalur, eða öllu heldur slétta mikil milli tveggja fjallgarða. Hér eins og heima er plastið mikið notað við ræktun og var sléttan öll, eins og betrekkt með plasti, ekki síst var það notað á vínviðinn.

Landslagið víð þakið plasti

Mér varð ósjálfrátt hugsað til þeirra hundruð eða þúsunda tonna af plasti, sem notuð eru til að pakka inn heyi fyrir búpening á Íslandi, horfandi á landið hér í plastikkápu á stórum svæðum. Þá fagnar maður því lofsverða framtaki stórverslunarinnar Krónunnar, að hafa tekið skrjáfpokana undir ávexti og grænmeti úr umferð og lagt þannig sitt af mörkum til að draga úr plastmengun heimsins.

Þegar við yfirgáfum Íran vorum við á því, að slá í sitt hvorn Efes bjórinn til að halda upp á vel heppnaða Íransför, Tyrklandsmegin við landamærin þar sem áfengissala er leyfð. Eitthvað var samt lítið um ölið þar austast í landinu, en fór að sjást á veitingahúsum þegar vestar dró. Bregður þá svo við, að innlendi bjórinn Efes fæst hvergi, en alls staðar bjóða menn upp á Tuborg og Carlsberg. Hér hafa danskir sölumenn sannarlega staðið sína vakt með sóma. Samferðungurinn lét sér þetta í léttu rúmi liggja og drakk þessar dönsku veigar, en sérviskan í mér varð til þess að ég hélt mér bara við vatnið góða og varð hugsað til séra Jóns Prímusar þegar umboðsmaður biskups innir hann eftir guðfræðilegum kenningum. Þá sagðist hann aðeins hafa eina kenningu og fengið hana hjá séra Jens heitnum á Setbergi, ef ég man rétt og hún er þessi: Vatn er gott. Minnist þess hvað mér fannst þetta mikil snilld þegar ég las bókin fyrst, velti því svo fyrir mér hvað væri svona stórkostlegt við þessa kenningu og komst að þeirri niðurstöðu að vatn er undirstaða alls lífs, sem sé: ekkert vatn, ekkert líf og hvaða gagn væri þá í allri mytólógíu, teólógíu og fílósófíu heimsins.

Náðum áfangastaðnum, Bandirma, tímanlega eftir einstaklega þægilegan akstur á fremur fáförnum þjóðveginum. Eknir 379 km

Sólsetur i Bandirma

Síðasti spölurinn í Tyrklandi

 

Frá Grand Asya hótelinu í Bandirma ökum við síðasta spölinn í Tyrklandi og inn í Grikkland. Nú bregður svo við að þokuslæðingur liggur yfir öllu og hitinn er rétt um 17 gráður. Ótrúlega lítil umferð er á vegunum og því afar þægilegur akstur. Þegar við tökum gamla og lúna ferjuna yfir Hellusund (Dardanellasund), sem tengir Marmarahaf við Eyjahaf, er sólin farin að skína.

Á leið yfir Hellusund

Til að ljúka öllu veseni áður en við fengum okkur miðdegissnarl, var ekið óslitið að landamærunum og þar ókum við framhjá um 5 km röð af flutningabílum sem biðu eftir að komast yfir. Skoðunarferlið við grensuna gekk bara nokkuð hratt fyrir sig, aðeins 3 bílar á undan okkur og eftir að Tyrkirnir höfðu tékkað okkur af, einum fjórum sinnum, passi, tryggingarskírteini og skráningarskírteini, var ekið nokkurn spöl yfir einhvers konar einskis manns land og síðan þurftu Grikkirnir aðeins rétt að líta á passana til að gefa okkur grænt ljós inn Evrópusambandið og Schengen.

Grikkland undir hjólunum

Ekki varð nein matsala á vegi okkar framan af og þær sem ratarinn gaf upp voru lokaðar. Síðan gerist það að aðalvegurinn sem við ætluðum að aka til Þessalóníku var lokaður og urðum við því að leggja lykkju á leið okkar sem leiddi okkur í lítinn, afar líflegan og huggulegan 60 þúsund manna bæ við hafið, Alexandroupolis. Náðum þar hádegissnarli á snotrum stað við ströndina klukkan langt gengin í þrjú. Saddir og sælir sjáum við að þetta muni bara vera hinn ákjósanlegasti bær til gistingar og myndum við þá eiga þægilega dagleið eftir á lokaáfangastað í þessari ferðasyrpu. Fáum inni á Grand Hotel Egnatia, litlu einstaklega vistlegu hóteli með stóru nafni, alveg á ströndinni. Nálægðin við öldurnar rétt utan við gistirýmið kom mér til að taka sundsprett Eyjahafinu og var það alls ekki eins kalt og ég hafði búið mig undir.

Saltar öldur Eyjahafs freistuðu ritara

Þar sem ég sit yfir vatnsglasi á bar hins mikla Egnatia hótels og hripa niður þessar línur eftir samfelldan sjö vikna akstur, getur maður ekki annað en fagnað því hve vel og hnökralaust allt ferðalagið hefur gengið. Þrátt fyrir algerlega klikkaða umferðarómenningu í Íran, sluppum við með öllu við vandræði, með því að halda rúmlega fullri einbeitingu í þeim krefjandi kringumstæðum sem óreiðan þar er á götunum.

Fararbroddurinn sér að jafnaði um skipulag íhöndfarandi dags, gerir áætlum um næsta gististað, skoðar veðrið á minnst þremur mismunandi veðurstöðvum, kemur nauðsynlegum upplýsingum í leiðsögutækin og undirbýr félaga sinn undir líklegar akstursaðstæður. Hlutverk ritara var að rita. Í örfá skipti var fylgifisknum hleypt fram fyrir í akstri, en það gerðist aðeins eftir tvö ljósmyndastopp eða fleiri með stuttu millibili. Þá stýrði ég ferðinni eitt stundarkorn, eða þar til þær áhugaverðu sviðsmyndir voru að baki sem valdið höfðu truflun á ferðarennslinu.

Þægindin við að vera svona kjölfarsmaður eru augljós, sá sem á undan fer, er með minnst 2 leiðsögutæki til að vísa veginn og a.m.k. annað hljóðtengt við heyrnatólin í hjálminum þar sem innbyggð rödd konunnar segir honum óslitið til verka. Komi upp sú staða sem stundum gerist að tækin verða ósammála um leiðir, þarf ökumaður að taka skjóta ákvörðun, oft á miklu hraða, hverjum gegna skuli. Á meðan sigli ég hinn lygna sjó sporgöngumannsins, áhyggjulaus um annað en halda í við forsprakkann. Í dag voru eknir 274 km.

Skrifstofa ritara við skráningu pistils dagsins

Síðasta dagleiðin

Síðasta dagleiðin í þessari ferð, 323 km frá Alexandropolis til Þessalóniku, lá um grísk landbúnaðarhéruð þar sem við ókum lengi dags um bómullarræktun og þyrluðust litlir bómullarhnoðrar um veginn þar til þeir settust í kantgróður og mynduðu samfellda bómullarslikjurönd á um annað hundruð km kafla. Eitt er öðruvísi hér í Grikklandi en annars staðar þar sem við höfum farið um, hér eru engar þjónustumiðstöðvar eða bensínstöðvar við hraðbrautirnar. Fara þarf inn í bæi til að fylla tankinn og fá sér kaffi. Einnig upplifðum við það hér, sem jafnframt hafði borið á í Tyrklandi, að fjöldi bensínstöðva sem ratarinn vísar okkur á, eru ekki lengur starfræktar, tankarnir horfnir og girt fyrir innkeyrsluna.

Hér bíða hjólin eftir okkur til næsta vors

Hjá BMW þjónustunni hér í borginni, sem eitt rit hinnar góðu bókar er kennt við, tekur Ilias Kleidaras á móti hjólunum til þjónustuskoðunar og varðveislu þar til við mætum hér aftur að vori til áframhaldandi aksturs. Eftir stutta leit á hótelbókunarsíðu fundum við einstaklega notalega gistingu í hjarta gamla bæjarins, þar sem þröngar göturnar eru þétt skipaðar kaffi- og veitingahúsum. Okkur þótti nafnið svo lofandi, The Mood Luxury Rooms, eða gæti það verið nokkuð betra.

Tveir slakir utan við The Mood Luxury Rooms

Reyndist vera hið allra vistlegasta gistihús og í fyrsta sinn í ferðinni sem innifalinn morgunverðurinn er „a la carte“ en ekki af hlaðborði, þannig að þarna fáum við á síðasta gistihúsinu svolitla uppfærslu á annars afar ásættanlegum og oft og tíðum ljómandi upphafsmáltíðum dagsins.

Kvöldstemning í miðbænum
Á rólegheitarölti um stræti Þessalóniku

Ferð okkar nú hefur spannað liðlega 7 vikur og eknir hafa verið 13.989 km. Þetta hefur verið ævintýri, ógleymanlegar upplifanir, stórbrotið landslag, einstakar viðkynningar við fólk sem á vegi okkar varð, vinsemd og hjálpsemi og að undanskilinni umferðinni í Íran er fátt sem truflaði hugarró ferðalanganna. Oft stóð maður sem bergnuminn, eins og frammi fyrir kalsítkerjunum í Pamukkale, sandsteins-skúlptúrunum í Cappadocia, fornminjunum bæði í Efesus og Persepolis, hellahýsunum í Kandovan, þar sem við gistum í fyrsta sinn á ævinni í helli og það engu slorhúsnæði. Sterkar upplifanir eins og að aka mótorhjólinu sínu við rætur Araratfjalls þar sem gamli Nói strandaði sínu fleyi, aka hjólunum um ævintýralega stígana í Kashan að gistingunni Morshedi House þar sem stúlkurnar voru svo elskulegar að búa mér örlitla afmælisveislu með tertu og kerti, að setjast niður hjá fjárhirðum í fjöllunum og þiggja hjá þeim góðgerðir, að finna fyrir áhuga fólks á ferðalangnum og vinsemd í hans garð, allt fylgir þetta manni heim og verður svolítill hluti af manni sjálfum til frambúðar.

Ferðalag af þessu tagi leggur maður ekki í með hverjum sem er. Var svo heppinn að kynnast radíóvirkjanum í heita pottinum á Nesinu fyrir áratugum síðan og atvikaðist það einhvern veginn þannig að við fórum að hjóla saman erlendis. Höfum við fylgst svolítið að í þessari iðju um ótal lönd í fjórum heimsálfum og þó á engan sé hallað, er vart til þægilegri ferðafélagi, sem tekur allri manns sérvisku og dyntum með ótrúlegu umburðarlyndi og jafnaðargeði. Í lok ferðar þakkar maður fyrir slíkan ferðafélaga.

Að lokum skal tekið fram að ritari var aldrei sleipur í stafsetningu og fékk því fyrrum prófarkalesara á Mogganum til að yfirfara textann, reyndar eftir að honum var mokað á netið, þannig að hafi einhver séð villur, hefur viðkomandi náð að lesa textann á undan leiðréttara. Vona að þeir sem nennt hafa að skoða síðuna hafi haft af því einhverja ánægju.

http://orn.is/flokkar/ferdapunktar-a-motorhjoli/farid-um-iran-og-litlu-asiu/