Tveir starfsmenn Royal Enfield mótorhjólamerkisins luku nýlega við ferð sem líklega kemst í sögubækurnar, en þeir lögðu af stað á Suðurpólinn fyrir um mánuði síðan. Ferðin var farin á 120 ára afmæli merkisins á tveimur Himalayan mótorhjólum sem voru sérsmíðuð fyrir ferðina. Til að prófa hjólin var komið með þau sérstaklega til Íslands og hjólin reynd á Langjökli.

Santosh Vijay Kumar og Dean Coxson prófuðu aðstæður á Langjökli áður en haldið var á Suðurpólinn.


F
erðin á pólinn var 3.200 km og tók rúmar tvær vikur, en hún hófst í Novo þar sem teknir voru nokkrir dagar í að venjast aðstæðum. Hjólin voru á sérstökum nagladekkjum og lægra gíruð en gengur og gerist enda er akstur á mótorhjóli í snjó langt frá því að vera auðveldur. Einnig voru gerðar sérstakar ráðstafanir með vélina sem þurfti að þola meira en 40 gráðu frost, en aðstæður eru nú með besta móti á Suðurpólnum þar sem nú er sumar. Santosh Vijay Kumar og Dean Coxson eru þó ekki fyrstu mennirnir til að komast þessa leið því árið 1992 fór hinn japanski Shinji Kazama einn síns liðs á Suðurpólinn á Yamaha 200 torfæruhjóli, og hafði þá áður lokið ferð á Norðurpólinn fimm árum áður.

Eina myndin sem birst hefur á netinu frá Suðurpólnum er þessi óskýra mynd með Himalayan mótorhjólið í forgrunni.

Fréttablaðið..