Um helgina hélt Enduro fyrir alla sína fyrstu keppni í sumar í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi. Metþáttaka var á mótinu og voru hátt í 140 keppendur skráðir til leiks.

Keppt er í brautarakstri og var brautin í ár hátt í 11 kílómetra löng. Keppnin reynir á hæfni og þol keppenda og voru flestir keppendur örmagna við endamarkið eftir 90 mínútna þolakstur. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ræsti keppendur í þetta sinn en Syðra-Langholt er einmitt heimabær hans.

Keppt var í þremur flokkum; karla, kvenna og í liðakeppni. Sigurvegari í karlaflokki var Eyþór Reynisson á Yamaha og sigurvegari í kennaflokki var Aníta Hauksdóttir á KTM. Úrslit í liðakeppni verða birt í lok tímabils.

Enduro fyrir alla var stofnað af Einari Sverri Sigurðarsyni, Daða Þór Halldórssyni, Jónatan Þór Halldórssyni og Pétri Smárasyni til að auðvelda áhugafólki í mótorsporti að taka þátt í mótum sér til skemmtunar. Keppendum hefur fjölgað jafnt og þétt með hverri keppni og stefnir í metþátttöku í sumar. Bílavarahlutafyrirtækið Stilling hf. og Liqui Moly, þýski bætiefna- og olíuframleiðandinn, hafa verið bakhjarlar mótaraðarinnar síðan hún var stofnuð árið 2020.

„Þátttakan um helgina var frábær, við erum að sjá að mótorsportið á Íslandi er að lifna við og áhugi fólks til að taka þátt í svona mótum er alltaf að aukast. Það er ekki síst að þakka okkar styrktaraðilum, Stilling og Liqui Moly, sem hjálpa okkur að gera svona viðburð skemmtilegan og faglegan,” segir Einar Sverrir.

https://www.sunnlenska.is/
9. maí 2021