Hjónin Kristján Gíslason, betur þekktur sem Hringfarinn, og Ásdís Rósa Baldursdóttir eru nýkomin heim úr mótorhjólaferð um Patagóníu. Ferðalagið reyndi verulega á þau, andlega og líkamlega, en fegurðin á svæðinu og gestrisni heimamanna standa samt upp úr.

Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Fegurðin þarna er ótrúleg og ég hef sjaldan eða aldrei fengið eins sterka tilfinningu fyrir náttúrunni á nokkrum stað. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég segi frá þessu

Ég er búinn að fara víða um dagana en eftir þessa ferð held ég að ég geti með góðri samvisku sagt að Síle sé fallegasta land sem ég hef komið til og Suður-Ameríka fallegasta heimsálfan. Þetta er eins og Ísland á sterum.“

Þetta segir Hringfarinn, Kristján Gíslason, sem er nýlega kominn heim úr enn einni ævintýraferðinni á mótorhjóli ásamt eiginkonu sinni, Ásdísi Rósu Baldursdóttur.

„Það er auðvitað erfitt að bera ólík lönd og heimsálfur saman,“ heldur hann áfram, „en fjölbreytileikinn þarna er óvenju mikill. Suður-Ameríka spannar ákaflega breitt svið.“

Kristján lauk Afríkuferð sinni um áramótin 2019-20 og fór strax að velta fyrir sér hvað hann ætti að gera næst. Hann reyndi að koma hjólinu yfir til Suður-Ameríku en það tókst ekki. Þess í stað var það flutt heim til Íslands. Síðan skall á heimsfaraldur. Eftir að fyrstu bylgjunni lauk sumarið 2020 opnuðust allar gáttir hér heima og hjónin létu ekki segja sér það tvisvar, heldur brunuðu af stað á hjólinu hringinn um landið. „Það var stórkostleg upplifun og RÚV mun sýna heimildarmynd í þremur hlutum um það ævintýri í mars eða apríl,“ segir Kristján sem er duglegur að taka ljósmyndir og lifandi myndir á ferðalögum sínum og þeirra hjóna. Allur ágóði af verkefninu, tekjur af sjónvarpsþáttum og bóksölu, fer til góðgerðarmála og hafa hjónin þegar úthlutað 22 milljónum króna. Næsta úthlutun verður í vor.

Árið 2021 fór í að skipuleggja ferðalag til Suður-Ameríku með áherslu á syðsta hlutann, Patagóníu, sem heyrir bæði undir Argentínu og Síle. Kristján hafði samband við ræðismann Íslands í Síle og einnig vin sinn, Juan, sem hann kynntist fyrir tilviljun á hringferð sinni um heiminn árið 2015, til að fá hjá þeim góð ráð. Juan þessi kom út af kaffihúsi, sparkaði í framdekkið og spurði Kristján hvaðan þessi skrítna skráningarplata væri. Allt var að smella í febrúar 2022, búið að leigja mótorhjól og hvaðeina, þegar bannsett veiran náði í skottið á Kristjáni tveimur dögum fyrir áætlaða brottför. Þau neyddust því til að slá ferðinni á frest.

Á enda veraldar

Maðurinn sem leigði þeim mótorhjólið í Punta Arenas í Patagóníu var ekki hrifinn af því að endurgreiða þeim og stakk í staðinn upp á því að þau kæmu í október. Það varð niðurstaðan. Hjónin flugu til Santiago, höfuðborgar Síle, þar sem Ásdís varð eftir meðan Kristján flaug suður til Punta Arenas til að sækja hjólið. Hann brann í skinninu að hjóla „veginn á enda veraldar“, eins og það er kallað, til Ushuaia, sem er syðsta byggða ból í heimi. „Það var kalt og erfitt ferðalag, til þess eins að taka eina mynd, af mér við Ushuaia-skiltið fræga, en á endanum þess virði,“ segir Kristján.

Ekkert óvænt þar enda vissi Kristján að hann ætti von á mikilli áskorun á þessum slóðum, bæði andlega og líkamlega. „Ég bar kvíðboga fyrir þessari ferð enda vissi ég að hluti leiðarinnar, ekki síst túndran í Argentínu, yrði erfiður viðureignar vegna kulda og vinda. Fleiri en einn og fleiri en tveir höfðu sagt við mig: „Kristján, þetta er brjálæði!“ Ég hafði líka samband við Ásdísi og bað hana um að hitta mig norðar af þessum sökum. Þetta yrði mikið streð. Það vildi hún hins vegar ekki enda myndi hún þá missa af þjóðgörðunum á leiðinni. Ásdís er svoddan nagli! Við settumst því saman á hjólið í Punta Arenas.“

Hjólið sjálft stóð þó alls ekki undir væntingum. Það var ekki glænýtt, eins og Kristján átti von á, heldur frá 2007, og mælaborðið bilað, þar með talinn bensínmælirinn. Þá var engin spólvörn á hjólinu og bara bremsa að framan, sem gerði mun erfiðara að sitja það og stýra. „Þarna var ég kominn á algjöran trukk, miðað við það sem ég er vanur,“ segir Kristján og minnir á að hann sé í grunninn ekki mótorhjólamaður, heldur ferðamaður á mótorhjóli.

Í þessu ljósi var ánægjulegt að fyrstu innviðirnir, sem blöstu við hjónunum, voru stórkostlegir; eggsléttir steyptir vegir og hótelin í fínu lagi. Flótlega kárnaði þó gamanið. „Leiðin lá inn í Argentínu, þar sem við skoðuðum tvo fallega þjóðgarða og náðum meira að segja góðum drónamyndum af púmadýrum. Eftir það hefðu flestir farið aftur til Punta Arenas og flogið þaðan til til Santiago enda vegirnir þarna á milli erfiðir og fáir á ferli. En þvílík fegurð og hugljómun sem beið okkar. Maður er auðvitað vanur skriðjöklum héðan frá Íslandi en þessir eru 10 sinnum stærri. Mig skortir eiginlega orð til að lýsa tilfinningunni sem greip okkur.“

Þaðan héldu hjónin norður túndruna, út fyrir fjallahringinn og aftur til Síle. Á leiðinni komu þau að Lago Argentino, stærsta stöðuvatni álfunnar. Þau áttu von á einhvers konar Gardavatns-tilfinningu en það var öðru nær. Við tóku snarbrattir og krefjandi vegir sem hlykkjuðust upp og niður á víxl. Það tók þau um tvo klukkutíma að hjóla 50 kílómetra og hvað gerðist þá? Það sprakk á afturdekkinu. „Þá voru góð ráð dýr enda var ég ekki með neina pumpu, bara tappa til að setja í gatið. Þeirri áskorun hafði ég ekki áður mætt en viðgerðin heppnaðist. Eftir skamma stund kom bíll, í honum þrír menn og til allrar hamingju voru þeir með risastóra pumpu sem ég keypti af einum þeirra. Hún færði okkur mikið öryggi sem eftir lifði ferðar. Sem betur fer var ég með dollara í vasanum og vart mátti á milli sjá hvor okkar var glaðari á eftir, ég eða sá sem seldi mér pumpuna. Þetta er með skemmtilegri viðskiptum sem ég hef átt og pumpan mun fara upp á vegg heima. Ég er búinn að segja Ásdísi það.“

Hann hlær.

Þrátt fyrir mikinn undirbúning kom í ljós að þetta var miklu erfiðara ferðalag en Kristján hafði gert sér grein fyrir. Ekki síst vegna þess að kaldara og vindasamara er á þessum slóðum í október en febrúar, þegar er hásumar. „Ég vissi um vindana á túndrunum í Argentínu en ekki hversu mikinn malarveg var um að ræða. Maður kemst ekki upp Patagóníu öðruvísi en að leggja leið sína inn í Argentínu, því það liggja ekki vegir á öllum stöðum í fjöllunum í Síle. Mótorhjólamenn stæra sig óspart af því að hafa komist þessa leið.“

Þegar þau komu inn í Síle blöstu við þeim fallegu fjöllin og friðsælu vötnin. „Þar áttum við von á skemmtilegum akstri á milli fallegra sveitaþorpa en reyndin varð önnur. Engin byggð, engir bæir og lítil umferð. Þar sem líf var að finna var yfirleitt ekkert símasamband og innviðirnir ekki upp á marga fiska. Þetta voru ekki aðstæður sem Ásdís var að sækjast eftir en hún hafði enga möguleika á að hoppa af hjólinu og koma sér til byggða. Upp og niður fjallvegi og fjallaskörð á afar erfiðum malarvegum. Þar sem vegavinnuframkvæmdir voru þurftum við oft að fara yfir nýlagða mölina, mætandi stórum vinnuvélum í miklu ryki. Stærsta borgin sem við komum til var Coyhaique og héldum við þar með að það versta væri yfirstaðið.“

Af 6.000 kílómetrum sem hjónin hjóluðu voru 1.600 mjög erfiðir. „Bara skrölt,“ eins og Kristján orðar það.

– Voruð þið alveg sambandslaus á þessum kafla?

„Það var ekkert netsamband en synir okkar gátu fylgst með ferðum okkar gegnum gervihnattarstaðsetningartæki. Það var ákveðið öryggi fólgið í því.“

Sjálfur hefur Kristján oft lent í þessu á ferðum sínum, að vera orðinn dauðþreyttur og hættur að njóta en Ásdís var þarna að upplifa þetta í fyrsta skipti. Engin ánægja var hjá henni. „Mitt ráð á þessum tímapunkti var að nema staðar, hvíla okkur, láta dekra aðeins við okkur og tengja við fólkið. Annars væru góðar líkur á því að þetta ferðalag væri búið. „Þetta er alveg rétt hjá þér!“ sagði þá Ásdís. Hún hlustar stundum á karlinn. Stundum!“

Hann skellihlær.

Niðurstaðan var sú að þau stöldruðu við í fjóra daga, hlóðu rafhlöðurnar, fundu sér uppáhaldsveitingastað og uppáhaldsþjón og allt í einu voru þau tilbúin að halda áfram. Endurnærð. „Það getur verið kostur að vera ekki með þaulskipulagt ferðaplan.“

Juan, vinur þeirra, var betri en enginn en hann var í sambandi við þau á hverju kvöldi og var oftar en ekki búinn að útvega þeim viðunandi gistingu. „Það létti miklu álagi af mér á leiðinni en auðvitað hefðum við átt að vera með tjald, eins og ég geri þegar ég er einn á ferð. Það hefði losað okkur undan þeirri pressu að komast alltaf í náttstað. Við lærum af því.“

Það er meira en að segja það að leggja svona erfitt ferðalag á sig. Spænskur kunningi Kristjáns hreinlega skildi eftir að hafa farið með eiginkonu sinni í sambærilegt ferðalag. Þau voru nýgift. „Til allrar hamingju stöndum við Ásdís á sterkari merg en þau en þetta reyndi samt sem áður á okkur, bæði andlega og líkamlega. Einn daginn þurfti ég til dæmis bara að liggja í rúminu til að jafna mig. Ásdís varð sem betur fer aldrei hrædd, sem hefði auðvitað gert illt verra.“

Enn versnaði vegurinn og þannig gekk það þar til hann hreinlega endaði og fjaran tók við. Ferja, sem kemur einu sinni á sólarhring á þennan stað, sigldi með þau í tæpa fimm klukkutíma að næsta vegkafla.

Meðan á siglingunni stóð var Kristján meira og minna uppi á þilfari enda miklu meira að sjá heldur en á vegunum, þar sem skógur byrgir oftar en ekki sýn.

Næsti áfangastaður var Puerto Varas. Þar fékk Kristján símaskilaboð frá bláókunnugum manni sem vildi bjóða hjónunum í kvöldkaffi. „Ég hélt kannski að ég hefði rekist á hann einhvers staðar en svo var ekki. Þetta reyndist vera æskuvinur Juans, vinar míns. Þeir höfðu hist á skólaendurfundum og Juan farið að segja honum frá ferðalagi okkar og hann byrjað að fylgjast með okkur á Instagram.“

Hjónin voru of þreytt til að þiggja boðið en buðu manninum, Ezequías, í staðinn í morgunverð á hótelinu. „Þetta var ljúfasti maður sem bauð okkur ekki bara að búa hjá sér heldur stakk einnig upp á því að við færum í þyrluflug með félaga hans þennan sama dag. Við þurftum ekki að hugsa okkur um tvisvar enda erum við alltaf opin fyrir svona ævintýrum. Þau eru snar þáttur í okkar ferðamennsku.“

Skyndilega voru hjónin komin um borð í flunkunýja þyrlu ásamt vini vinar vinar þeirra. Til stóð að fljúga í tvo tíma í brakandi blíðu yfir óbyggðir Síle en þeir urðu á endanum fjórir. „Við þurftum að snúa við þegar Ezequías hafði samband og vildi fá okkur í kvöldmat. Þangað hafði hann boðið tíu manns okkur til heiðurs og þegar ég settist niður með honum um kvöldið gat ég ekki varist brosi: Ezequías, vorum við ekki að kynnast í morgun?“

Hann hlær.

Fær ennþá gæsahúð

Kristján segir það hafa verið ótrúlega sterka upplifun að fljúga yfir frumskóga, fossa, stöðuvötn og fjöll en flugmaðurinn, Stefan, tyllti sér nokkrum sinnum niður á leiðinni og þau stigu út úr þyrlunni. „Fegurðin þarna er ótrúleg og ég hef sjaldan eða aldrei fengið eins sterka tilfinningu fyrir náttúrunni á nokkrum stað. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég segi frá þessu,“ segir Kristján og strýkur yfir handlegginn. „Enda sagði Stefan mér að móðir hans hefði brostið í grát þegar hann kom með hana þarna.“

Ein eftirminnilegasta stund sem Kristján hefur upplifað á ferðum sínum var þegar þeir Stefan sátu á trjádrumbi fyrir aftan þyrluna á einum áningarstaðnum og ræddu málin. „Á því augnabliki vorum við eins og æskufélagar.“

Stefan sagði Kristjáni merkilega sögu. Amma hans og afi létust í hinum illræmdu fangabúðum nasista í Auschwitz en faðir hans flúði 17 ára gamall til Síle og stofnaði fjölskyldu þar. Hann vildi alla tíð lítið ræða um fortíðina. Afi Stefans átti gott safn listaverka í Þýskalandi og þegar heimssamtök gyðinga gerðu gangskör að því að endurheimta verk sem nasistar höfðu tekið ófrjálsri hendi þá kom í leitirnar með aðstoð bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, lítið málverk í Dusseldorf sem fjölskyldan átti. Verkinu, sem kallast The Foxes og er eftir Franz Marc, var skilað og það í framhaldinu sett á uppboð hjá Christie’s á síðasta ári. Til að gera langa sögu stutta þá seldist það fyrir andvirði tæpra 8 milljarða króna. „Þess vegna er hann á þyrlu en ég bara á mótorhjóli,“ segir Kristján hlæjandi.

Seinustu 1.000 kílómetrarnir til Santiago voru hreinasti lúxus, að sögn Kristjáns, og hjónin heimsóttu meðal annars tvo merkilega vínbúgarða. Annar, VIK, sem er í eigu norsks milljarðamærings, lítur út eins og geimskip en hinn, sem er hefðbundnari, er æskuheimili Juans, vinar hjónanna. Ezekias benti þeim á það.

„Hugsaðu þér tilviljanirnar í þessu lífi. Hefði Juan aldrei komið út af þessu kaffihúsi 2015 og sparkað í framgjörðina á hjólinu mínu þá hefði þetta ævintýri aldrei orðið að veruleika. Þess vegna segi ég alltaf að maður eigi að vera opinn fyrir óvæntum uppákomum á ferðum sínum og taka þeim fagnandi í stað þess að vera tortygginn.“

 

28. janúar 2023 Morgunblaðið