Margir munu kannast við að verða gripnir ugg er þeir sjá í ökuferð í útlöndum hóp mótorhjóla og reiðmenn eru steyptir í ákveðið mót: Svartklæddir í leður- og gallaföt, hár og skegg flaksast til, húðflúr á ólíklegustu stöðum, hirðusemi um útlit og hreinlæti virðist í lágmarki en hjólin einkar glæsileg. Sumum koma í hug sögur af óblíðri áreitni Hell’s Angels – um það hafa heilu bíómyndirnar snúist – og læsa bílunum innan frá, svona til öryggis.

Hafir þú fundið fyrir þessari tilfinningu, lesandi góður, hvernig yrði þér þá við að mæta 350 þúsund mótorhjólatöffurum af þessu taginu á einu bretti? Það hafa íbúar í Daytona Beach og nágrenni gert um langt árabil og láta sér raunar hvergi bregða.

Hjólavika

Bike Week“ – hjólavika – heitir fyrirbæri þetta á máli innfæddra og hefur verið árlegur viðburður í Daytona Beach um langt árabil. í eina viku stútfyllist bærinn af mótorhjólafólki – rúmlega hundrað þúsund manna bær – það er sama hvert litið er: Þeir eru í hópum, fylkjum, torfum, breiðum; þeir þekja beinlínis malbikið. Vegna hávaðans er vonlaust mál að ræða saman á götum úti.
En hvað eru þeir að gera?
Við fyrstu sýn virðast þeir ekki vera að gera neitt nema að aka um, sýna sig og sjá aðra. Það er reyndar helsta iðja margra en líka er í boði þéttpökkuð dagskrá alla vikuna.
Framleiðendur sýna hjólin sín og alls kyns aukahluti, það er keppt í ökuleikni, kvartmílu og hefðbundnum kappakstri; ég horfði meira að segja á keppni þar sem þátttakendur, 10 knapar, kepptust við að keyra hver annan niður, velta hjólum andstæðinganna um koll og sá vann sem lengst sat uppréttur. Þá drógu menn reyndar fram þau hjól sín sem máttu við nokkru hnjaski enda kviknaði í tveimur þeirra.
Áhorfendur skemmtu sér konunglega. Þeir komu alls staðar að úr Bandaríkjunum og Kanada og það kom 20 manna hópur frá Þýskalandi sem hafði verið að safna fyrir þessari pílagrímsför í þrjú ár og ég frétti af nokkrum Japönum

Lifibrauð Flórídabúa

Hjólavikan í Daytona Beach er eitt af lifibrauðum Flórídabúa; ein helsta tekjulind þeirra er að taka á móti öðrum Ameríkönum – sem og útlendingum – búa í haginn fyrir þá, hafa ofan af fyrir þeim og selja þeim þjónustu.
Á skaganum búa milljónir eldri borgara úr öðrum ríkjum part úr ári, eiga hér íbúðir eða leigja um skeið, milljónir heimsækja á hverju
ári skemmtigarða á borð við Disney World, Sea World og Busch Gardens, og uppákomur eins og hjólavikan í Daytona Beach aflar veitingastöðum
og hótelum á svæðinu gríðarlegra tekna. Veitingamenn sögðu í viðtölum að 20-40% ársteknanna kæmu í kassann þessa viku og gerðu það að verkum að til nokkurs væri að standa í rekstrinum. Hagfræðingar borgarinnar segja að hver mótorhjólagæi eyði 80-100 dollurum á dag, fyrir utan gistingu, og það er einfalt að reikna út að þá gefa 350 þúsund slíkir af sér á einni viku um eða yfir 30 milljónir dollara eða sem nemur nærri tveimur milljörðum íslenskra króna! Auk gistingar.
Það munar um minna fyrir efnahag lítillar borgar. En eiga mótorhjólatöffarar peninga. Hvaða fólk er þetta?

Já, hvaða fólk er þetta?

Víst eru margir þeirra svo ófrýnilegir í útliti og fasi að maður hugsar að ekki vildi maður mæta þeim í myrkri hliðargötu. Og þeir eru í raun og veru fúlskeggjaðir, margir niður á bringu, og með sítt hár, gjarnan bundið í tagl; galla- eða leðurbuxurnar og ermalausa vestið virðast snjáðar og skítugar flíkur; sögurnar um ótrúlegasta húðflúr eru hvergi ýktar; þeir bera hlífðarhjálma sem einatt eru í laginu eins og herhjálmar þriðja ríkis Hitlers; þeir eru iðulega akfeitir með ótrúlega bjórvömb; þeir bera hauskúpumerki og önnur hörkutákn og bjórdósin er sem samgróin lúkunni. Og fjölmargir státa af dúkkuIegri snót á aftursætinu í níðþröngum leðurbuxum og örsmáum bol,
flegnum í bak og fyrir og hún er skreytt keðjum og máluð og greidd með þvílíkum ýkjum að manni kemur til hugar að þar fari atvinnukona
í samkvæmislífi af skuggalegri sortinni sem hafi verið tekin á leigu í viku.
Er þá ekki Daytona-borg líkt og í umsátri þessa viku? Hætta íbúarnir sér út? Er ekki þjóðvarðliðið í viðbragðsstöðu?    Nei.
Raunin var sú á nýafstaðinni hjólaviku að hún var líkust bindindismóti í Galtalækjarskógi, nema hvað allir voru að minnsta kosti sætmildir, en enginn meira en góðglaður. Lögreglan átti náðuga daga enda þótt fleiri bjórar væru drukknir þessa vikuna en annars á hálfu ári. Og það varð aðeins eitt alvarlegt umferðarslys. Það kemur sem sagt upp úr dúrnum að þarna fara almennir og friðsamir borgarar sem flestir hverjir eru mótorhjólatöffarar í frístundum meðfram daglegu starfi sínu, sumir jafnvel aðeins þessa einu viku á ári, en fíla það þá líka alveg í botn.
Þarna var aðstoðarforsljóri IBM í einni af stórborgum norðurríkjanna – hann vildi ekki segja hvar og ekki láta mynda sig í blaðaviðtal, var ekki viss um hvað samstarfsmönnum hans fyndist um þessa leynitilveru hans.
Þarna var útfararstjórinn frá Georgíu sem er sléttur og felldur og virðulegur maður á sjötugsaldri en safnar skeggi vikurnar fyrir hjólavikuna og þekkist ekki úr hópnum þegar hann er kominn í mótorhjólabúninginn sinn. Og dúkkulega snótin er kannski í raun öflugur viðskiptafræðingur, þriggja barna ábyrg móðir á uppleið í atvinnulífinu í Chicago, sem losar um hömlurnar og „flippar út“ með bónda sínum, skreppur yfir í aðra tilveru til hvíldar frá krefjandi skorðum hversdagslífsins; börnin hjá ömmu.

Hvað um hjólin?

Hvað um hjólin? Þegar 350 þúsund mótorhjólagæjar og -píur koma saman skyldi maður ætla að hjólin væru af öllum gerðum og stærðum. En svo var ekki. Þau voru nær eingöngu af tveimur tegundum; yfirgnæfandi voru Harley Davidson-hjól og inni á milli stór Honda Goldwing glæsihjól. Þau voru hins vegar mun færri. Harley Davidson-hjólin voru hins vegar af öllum stærðum og gerðum en langmest var um hin klassísku hjól sem íslendingar þekkja best af því að lögreglan í Reykjavík hefur notað þau um langt árabil og virðist ekki vilja annað. Þau eru tveggja strokka – strokkarnir mynda V – loftkæld, sprengirými um 1200 rúmsentímetrar, vélarnar fremur hæggengar og togkraftur mikill við allan snúning. Harley Davidson-hjólin eiga sér langa og merka sögu. Þegar hjólin frá Japan (Honda, Yamaha, Kawasaki o.fl.) fóru að ógna amerískum (Harley), breskum (Triumph, BSA og Norton) og þýskum (BMW) hjólum er leið á áttunda áratuginn, svo ekki sé talað um þann níunda var það
fyrsta viðbragð Harley Davidsonverksmiðjanna að taka mið af þeim búnaði sem gerði japönsku hjólin spennandi í augum kaupenda; þeir
reyndu m.ö.o. að laga sig að þessum framandi tegundum, gera vöru sína nýtískulegri. Það gekk hins vegar ekki í lýðinn, salan datt niður og allt var að fara á hausinn. Þá hugsuðu þeir djúpt, og sjá: Því meira sem Harley Davidson hélt í gamlar hefðir því betur seldust hjólin. Vitaskuld fylgdu þeir þróuninni í tæknilegum efnum, rafmagnsstartari í stað fótstartara, drifskaft í stað keðju, diskahemlar í stað skálahemla o.s.frv. En útlitið er þannig að erfitt er að átta sig á því, a.m.k. fyrir óvígða áhugamenn, hvaða hjól eru ný og hver eru 10,15 eða 20 ára gömul. En það skiptir ekki öllu máli, þarna fara glæsilegir fákar á hvaða aldri sem er og hvar sem á þá er litið, sé vel um þá hugsað. Á því voru engin vanhöld á hjólavikunni í Daytona Beach. Best gæti ég trúað að sumir eigendurnir færu út í bílskúr og kysstu Harley-inn sinn góða nótt áður en þeir færu að sofa. Og viti menn; í Japan er áhuginn fyrir Harley Davidson orðinn svo mikill“ að verksmiðjurnar í Bandaríkjunum hafa ekki undan að framleiða til að anna eftirspurn þar. Þar er öfugt farið við bílaiðnaðinn.

Íhaldsmenn

Sú sérkennilega staðreynd að Harley Davidson selst nánast í réttu hlut falli við hvað haldið er í hefðirnar leiðir hugann að kaupendunum.
Hvernig stendur á því að tugþúsundir kjósa mótorhjól sem vel má kalla gamaldags og íhaldssöm þótt þau séu vissulega mjög vel búin í tæknilegu tilliti og óneitanlega stórglæsileg? Því er til að svara að félagslegt rót 20. aldar sem aldrei hefur verið meira, eilíf og endalaus áreitni frá nýjum stefnum og straumum, stífar kröfur um menntun og sérhæfingu, síbreytilegar væntingar um nýja og breytta lífshætti; allt þetta kallar á andstæðu sína. Það myndast hópar sem segja: Getum við ekki fengið að vera í friði? Hvers vegna öll þessi
nýtískulæti? Hvers vegna ættum við allt í einu’að hætta að drekka Budweiser og fara að sötra einhver þurrkuntuleg hvítvín? Hvers vegna skyldum við fara í megrun og skokka um allar trissur þegar til eru úrvals mótorhjól til að fara á milli staða?
Við viljum halda í gamlar hefðir, amerísku gildin standa fyrir sínu! Við stöndum þétt saman. Við snúum bökum saman.
Það kemur því ekki á óvart að á Bike Week í Daytona Beach sést ekki svartur maður meðal þátttakenda né heldur maður af indverskum eða kínverskum ættum. Eina konu sá ég meðal svartskeggja við stjórnvöl á Harley; hún hefði getað verið sovéskur kúluvarpari.

Menningarkimi

Hér er sem sé á ferðinni sérstakur minnihlutakúltúr, menningarkimi eins og það hefur verið svo ágætlega þýtt á íslensku, og lifir við ákveðna hugmyndafræði sem þó hefur líklega ekki verið skráð á blað. Og táknið sem gefur til kynna hvar þú stendur er hjólið þitt: Harley Davidson – ameríski draumurinn stáli og krómi klæddur – búið að fjarlægja síur úr hljóðkút og pústið fer beina leið og allir vita að þú ert að renna í hlað, á svörtum hesti.
Sá sem á Hondu Goldwing má líka vera með en hann er af svolítið öðru sauðahúsi, einatt kominn á miðjan aldur, penni og snyrtilegri, frúin líka; ef til vill er það starfsins vegna að hann getur ekki leyft sér að stíga skrefið tilfulls. Horfum gegnum fingur með það.

Hondu-slátrun

Eitt sérkennilegasta skemmtiatriði hjólavikunnar er sem hér segir og er endurtekið árlega: Við erum stödd við bjórkrá skammt frá Daytona Beach. Umhverfis krána eru sléttir grasbalar; eins gott því gestir eru rúmlega 50 þúsund – þar af komast 100 inn á krána í einu – og flestir á hjólum. Þvílíkt kraðak mótorhjóla hefur enginn maður séð fyrr eða síðar. Rokk og amerísk sveitatónlist hefur verið iðkuð á völlunum frá hádegi. Sólin er að síga í sæ og komið að hápunkti samkomunnar. Hún felst í afar sérstæðri athöfn: Smurolíunni er tappað af vél splunkunýrrar Hondu Goldwing. Hún er engu að síður sett í gang og bensíngjöfin fest við 3000 snúninga á mínútu. Stór bílkrani er kominn á svæðið og Hondan er hífð upp í 30 metra hæð við mikinn fögnuð. Stundarkorn líður. Hondan suðar ljúflega en það
kurrar í svartskeggjum og hvín í dömunum. Brátt heyrast ókennileg hljóð af himnum; Hondan er ekki lengur eins og hún á að sér. Það
bankar og brestur, dauðateygjur fyrrum þýðgengrar vélar; Harley vinir líta hver á annan og glotta -sú skal fá það. Blár strókur stendur aftur úr Hondunni, píurnar grípa fast í húðflúraða sleggjuarma af spenningi; „stand by your man“. Hondan þagnar. Skyndilega er hún
öll – dauð. Fagnaðaróp kveða við í sópran, messósópran, falsettu, alt, kontratenór, tenór, baríton og bassa. Farið hefur fé betra!
Kranamaðurinn slakar úrbræddri Hondunni niður undir gras. Nú skal hún njóta náðarhöggsins – högganna, því þau verða mörg. Það er nefnilega seldur aðgangur að sleggjunni. Tveir dollarar höggið og það má slá hvar sem er; hagnaðurinn rennur til líknarmála. Áður en kortér er liðið er svo komið að aðeins krufningarsérfræðingur frá Hondaverksmiðjunum getur staðfest að þarna fór Honda í lifanda lífi.
Þetta er ein leiðin til að undirstrika að Harley Davidson er Harley Davidson og ekkert kemur þar í stað; sérhverri ógn við Harley Davidson verður svarað á sama hátt og innrás íraka i Kúveit; Honda Goldwing er að vísu að sumu leyti virðingarvert hjól en svona er það nú best geymt.

Fötlun ekkert vandamál

Ótrúlegustu hjól brunuðu um Daytona Beach í hjólavikunni. Það var orðið svo sjálfsagt að mæta þúsund Harley og hundrað Hondum á kortéri að manni brá hvergi. Stöku sinnum brá fyrir bastörðum, til dæmis hálfum Harley og hálfum Fólksvagni, eða eldgömlum kunningja eins og BSA og Triumph. Eitt hjólið komst þó næst því að snúa mig úr hálsliðnum. Ég mæti á fórnum vegi mótorhjóli með hliðarvagni á dágóðri siglingu og lít á það útundan mér rétt sem snöggvast. Einn maður á ferð, engjnn farþegi. En skyndilega verð ég gripinn óraunveruleikatilfinningu. Hvað er á seyði? Hjólið sjálft er mannlaust, en það situr maður í hliðarkörfunni! Hver er orðinn ruglaður? Hjólið þýtur framhjá og ég lít ósjálfrátt í spegflinn. Og sjá: Enginn situr hjólið sjálft en í hliðarkörfunni, sem er örlítið breiðari en venjulega og opin að aftan, sé ég að situr maður í hjólastól. Hann minnir á Ben Húr í vagni sínum. í ljós kemur að stjórntækin höfðu verið flutt
yfir í hliðarkörfuna, eigandinn rúllaði sér upp í hana – fötlunin ekkert vandamál – greip um taumana og ók þangað sem hugurinn girntist, líka á Bike Week í Daytona Beach.

DV Apríl 1992