Á fésbókinni birstist nýlega flott litmynd af Moto Guzzi lögregluhjólinu þegar það var nýtt á Akureyri. Myndin er tekin af Vigfúsi Sigurðssyni og er hjólið í forgrunni en eitthvað umferðaróhapp fyrir aftan. varð myndin til þess að ég heyrði í fyrrum eiganda þess, Ólafi Unnari Jóhannssyni til að forvitnast um sögu hjólsins.

Mynd tekin í miðbæ Akureyrar sumarið 1973. Eigandi myndar er Vigfús Sigurðsson.

 

Að sögn Ólafs kemur hjólið nýtt til landsins og er sýnt á sýningu 1973, en lögreglan á Akureyri fékk það svo til prófunar. Á fyrstu dögunum varð óhapp á hjólinu, en það var þannig að löggan var að elta Trabant sem átti að beygja til vinstri, en beygði svo til hægri, og hjólið fór því beint og fór út af. Lögreglan þurftu því að gera við það um veturinn og eiga það áfram. Dóri Sigtryggs eignast það svo sumarið 1982 þegar lögreglan auglýsti hjólið á uppboði hjá Innkaupastofnun Ríkisins.

Svona var hjólið þegar það var komið í eigu Ólafs árið 1984. Mynd: Ólafur Unnar.

Árið 1983 var Ólafur Unnar Jóhannsson búinn að ákveða að hann langaði í mótorhjól og auglýsti eftir slíku. Hann langaði í BMW en Dóru bauð honum Moto Guzzi hjólið til kaups, enda um svipuð hjól að ræða. Dóri hafði breytt hjólinu og sett minna stýri, tvegga manna sæti og auka töskur. Dóri sendi það með skipi til Talknafjarðar en hjólið var rafmagnslaust þegar þangað var komið. Það var því dregið gegnum skaflana af bíl heim til Ólafs. Ólafur sótti svo um við stofnun Sniglanna en flytur svo í bæinn haustið 1984. Hann notaði það þar mikið sumarið 1985, og fór víða um land á hjólinu, fór hringinn, vestfirði, til Vestmannaeyja og fleira. Þá hafði Óli gert það upp að hluta og krómað hluti eins og tank, hlífar, verkfæratösku og fleira. “Einu sinni fórum við meira að segja fjögur á því í sund fyrir vestan, en maður segir náttúrulega ekki frá slíku” sagði Ólafur í samtali við undirritaðann. Svo “fór loks tímagírinn í hjólinu og þá keypti Dóri aftur hjólið 1987” sagði Ólafur ennfremur. Núverandi eigandi er Ólafur Sveinnson á Akureyri.

Moto Guzzi 850 California af 1972 árgerð sem er alveg eins hjól.

Vélin í Commando hjólinu á sér nokkuð sérstaka sögu. Árið 1959 óskaði ítalski herinn eftir þríhjóli frá Moto Guzzi og þá varð til 754 rsm V2 mótor sem skilaði aðeins 20 hestöflum en fullt af togi. Síðar vildi ítalska ríkisstjórnin fá hentug lögreglumótorhjól og þá var þessi viðhaldsfríi mótor dreginn aftur fram og minnkaður aðeins, en skilaði nú 50 hestöflum. Þannig var hjólið kynnt á mótorhjólasýningunni í Mílanó árið 1965 og var líklega fyrsta hjólið með rafstarti án þess að hafa startsveif til vara. Árið 1969 var vélin stækkuð í 757 rsm og með nýjum heddum fór aflið í 60 hestöfl og þá fór hjólið á ameríkumarkað. Tveimur árum seinna var vélin stækkuð í 844 rsm og hjólið fékk nafnið Eldorado, en ferðaútgáfan útbúin töskum og framrúðu fékk nafnið California. Hjólið varð líka vinsælt sem lögregluhjól í samkeppni við Harley-Davidson Electra Glide þar sem það var 100 kílóum léttara en skilaði sama afli. Einnig var styttra á milli hjóla svo það átti auðveldrara með krappar beygjur en Harley hjólin.

Njáll Gunnlaugsson
af vefnum  www.fornhjol.is