Gillet Herstal Sport frá 1929 en grindin er líklega frá 1931 og er alveg eins.

Það getur verið gaman að finna hluti sem hægt er að tengja við fornar heimildir um mótorhjól. Í heimsókn minni á Ísafjörð kom ég meðal annars við hjá Ralf Trilla sem hafði hengt upp gamla grind af mótorhjóli til skrauts á garðvegg hjá sér.

Grindin var nokkuð sérstök lykkjugrind, með breiðum, gamaldags Druid framgaffli svo að hún var örugglega gömul. Eftir nokkuð gúggl seinna um kvöldið komst ég að því að hjólið var örugglega af Gillet Herstal gerð, sem voru belgísk mótorhjól.

Þar sem ég hef dundað mér alllengi við að setja í tölvuskrá allar skráningar sem ég get fundið um gömul mótorhjól mundi ég eftir að til hefði verið hjól með slíku nafni hérlendis. Þegar ég var kominn aftur suður var það eitt af mínu fyrstu verkum að fletta því upp og viti menn, árið 1945 var Gillet Herstal hjólið Í-59 í eigu Kjartans Stefánssonar á Flateyri. Svo skemmtilega vill til að grindin fannst einmitt í ruslahaug á Flateyri.

Ralf Trilla með Gillet Herstal grindina, sem enn skreytir vegginn á garðinum hans.

Gillet Herstal hjólin voru talin mjög góð eins og önnur belgísk hjól eins og FN og Sarolea. Framleiðsla þeirra hófst 1919 og náði til 1959 og voru á þriðja áratug tuttugustu aldar vinsæl keppnishjól. Setti René Milhoux meðal annars nokkur hraðamet á slíklu hjóli. Óbreytt Sport hjól var með 500 rsm toppventla mótor sem skilaði 20 hestöflum sem þótti gott. Við vitum að árið 1928 breytti Gillet Herstal grindinni fyrir söðultank svo að hjólið var allavega yngra en það. Hjólið er líklega flutt inn til Reykjavíkur sumarið 1939 og var með vélarnúmerið 35206 og fékk fyrst skráningarnúmerið R-1118 og er sagt 1931 árgerð. Þarna höfum við það, staðfestingu á að allavega eitt Gillet Herstal Sport hafi komið hingað til lands og leyfar af því séu ennþá til.

 

Af vefnum www.fornhjól.is