Stórauknar kröfur og hertar reglur til verktaka, eftirlits og umsjónarmanna Vegagerðarinnar við lagningu malbiks og klæðinga, voru kynntar á opnum fundi í morgun.

Hert vinnubrögð eru boðuð í kjölfar banaslyssins á Kjalarnesi í sumar þar sem tveir bifhjólamenn létust en nýlagt malbikið var flughált.

Í ljós kom mikið frávik frá kröfum Vegagerðarinnar um framkvæmd og efni. Vegkaflinn var hálli en viðmið Vegagerðarinnar segja til um og kom fram í útboðsgögnum, að sögn Bergþóru Þorkelsdóttir, forstjóra Vegagerðarinnar. „Verkið stóðst ekki kröfur í verksamningi og reyndir menn höfðu aldrei séð frávik af þessari stærðargráðu,“ sagði Bergþóra á fundinum í morgun.

Snúa að starfsmönnum og aðkeyptri vinnu

Birkir Hrafn Jóakimsson verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni kynnti hert vinnubrögð í nokkrum liðum. Þau snúa að starfsmönnum Vegagerðinnar við malbikunar og klæðingaframkvæmdir, sem eru verkefnastjóri og umsjónarmaður, og einnig að eftirlitsmann, sem getur annað hvort verið á vegum Vegagerðarinnar eða aðkeyptur, og að lokum að sjálfum verktakanum.

Ný og stærri vegamerki

Auka á merkingar á vinnusvæðum, stækka og búa til ný skilti sem vara ökumenn við á meðan vinnu stendur og á eftir ef þar. Einnig verða lækkuð hraðamörk ef viðnámspróf hafa ekki farið fram. Eftirlitsfólk og verktakar verða að hafa farið á námskeið Vegagerðarinna um eftirlit með verkum og staðist ítarleg próf að því loknu og verður endurmenntun árleg. „Þarna á að tryggja að allir sem koma að verkunum hafi þekkingu á okkar kröfum, ekki verður nóg að hafa sérmenntun í faginu heldur þekkja kröfur Vegagerðarinnar sem geta tekið breytingum,“ sagði Birkir og allir meti ástand með sömu aðferðafræði.


Eitt af nýjum merkjum Vegagerðarinnar 

Samræmd vinnubrögð

Gera á stífari kröfur um framleiðslurannsóknir og rannsóknir á þeim efnum sem notuð eru. Auka á tíðni skila á slíkum gögnum og að þau berist tímanlega. Koma á upp öryggisúttekt sem þýðir að ekki verður umferð hleypt á vegina fyrr en það er tryggt að þeir standist öryggiskröfur. Slíkt hefur verið gert en núna á að, auka skrásetningu, rekjanleika og tryggja samræmd vinnubrögð allra.

Fyrirvaralausar stöðvanir

Með nýjum reglum verði verk fyrirvaralaust stöðvar og vegi lokað komi frávik í ljós. „Þetta verður gert óháð hagræði, hagsmunum verktaka eða annarra“ sagði Birkir.

Hemlunarviðnám

Lágmarksgildi hemlunarviðnáms verður hækkað og breyta á kröfum um holrýmd í malbiki sem er lofthluti malbiksins. Hert verður á þeim kröfum sem snúa að mati á því hvort leggja þurfi slitlag á ný vegna krafna í úttboði og mun slíkt koma fram í útboðsgögnum til verktaka.

Skylt verður að mæla hemlunarviðnám að loknum framkvæmdum og öryggisúttekt fara fram áður en umferð er hleypt á veg. Ný og stærri umferðarmerki verða gerð og betri skilaboð til almennings um ástand vegarins, sér í lagi tefjist mæling hemlunarviðnáms, og þá settar hraðalækkanir þar til hefur verið mælt.

Strangt faggildingarferli

Eins af stóru breytingunum að tekin verður upp faggilding á eftirliti og verður faggildingarferlið strangt, að sögn Birkis. Eftirlsmenn og eftirlitsstofur þurfa þá að fara í gegnum slíkt Árlegar útttektir verða gerðar af faggildingarsviði Hugverkastofu sem er opinber stofnun. Tekin verður út hæfni starfsfólks og betra utanumhald búið til yfir allar skráningar sem lúta að því.

Engin yfirsýn yfir kostnað

Berþóra segir að með faggildingunni verið væri að stórauka eftirlit með störfum Vegagerðarinnar, daglegu eftirliti. „Faggildingarleiðin kemur á eftirliti 3ja aðila, eflir eftirlitið sem fyrir er og viðhaldur nákvæmni í framkvæmd verkferla“. Spurningar bárust frá almenningi til fundarins og aðspurð um aukinn kostnað vegna hertra vinnubragða sagði Bergþóra að kostnaðurinn yrði að koma í ljós. Hann væri ekki búið að reikna hann en hann yrði einhvern. „Við höfum í sjálfu sér enga yfirsýn yfir það,“ sagði Bergþóra og aðallega væri verið að bregðast við lærdómnum vegna banaslyssins í sumar.

 

Linda Blöndal Þriðjudagur 2. febrúar 2021
Frettabladid.is