Tuttugu lönd, 147 dagar og yfir 30 þúsund eknir kílómetrar á tveimur mótorhjólum, þetta var yfirferð þeirra hjóna Högna Páls Harðarsonar og Unnar Sveinsdóttur eftir ferðalag sumarsins. Tilgangur þeirra var þó alls ekki sá að hala inn svona magnaðan montlista, heldur að upplifa hvert land fyrir sig og allt það sem það hafði uppá að bjóða. Unnur og Högni eru heldur engir aukvisar þegar kemur að mótorhjólaferðum, Högni hafði farið fimm sinnum áður í reisur erlendis og þetta var þriðja
ferð Unnar síðan að hún tók prófið árið 2008. „Maður fer alltaf að hugsa um hvað maður getur gert til að toppa sig næst. Svona ferð krefst náttúrulega mikils undirbúnings og þú vaknar ekki einn morguninn og ákveður að þú ætlir til Mongólíu. Við ákváðum þetta í fyrra og vorum upphaflega að spá í að keyra hringinn kringum jörðina. Þegar til kom langaði okkur frekar að taka þessa leið til baka heldur en að eyða stórum upphæðum í ferjukostnað yfir Kyrrahafið,“ sagði Högni í viðtali við Morgunblaðið.

 Mikill undirbúningur

Það er ekki hlaupið að því að undirbúa svona ferð því að það þarf að fá réttu sprauturnar, og svo ekki sé talað um vegabréfsáritanir.
„Við æfðum okkur vel í akstri á
malarvegum enda eru V-Strom hjólin engin torfæruhjól í sjálfu sér. Við vildum ekki breyta of miklu í hjólunum með tilheyrandi kostnaði, því að ég hugsa frekar hvað ég geti komist marga kílómetra á þeim peningum sem annars hefðu farið í kostnaðarsamar breytingar,“ sagði Högni. Leið þeirra lá gegnum 20 lönd og sum þeirra oftar en einu sinni. Fyrst komu Færeyjar, þá Danmörk, Þýskaland, Pólland, Hvíta-Rússland og Rússland áður en þau komu til Mongólíu. Á bakaleiðinni fóru þau aftur gegnum Rússland, því næst Stan-löndin svokölluðu, Kazakhstan, Kyrgistan, Tadjikistan, Uzbekistan, Kazakhstan aftur, Rússland í þriðja sinn, svo Georgíu,
Armeníu, Georgíu aftur, Tyrkland, Grikkland, Búlgaríu, Serbíu, Ungverjaland, Slóvakíu, Tékkland og svo loks Þýskaland, Danmörk, Færeyjar aftur. „Ódýrasta bensínið í ferðinni var á 71 Kr/l í Kazakhstan, dýrast í Tyrklandi 280 Kr/l. Ef allt
eldsneytið í ferðinni hefði verið keypt á íslensku verði þá hefði bensínreikningurinn orðið 320 þús. kr hærri en raunin varð,“ sagði Högni sposkur. Meðalverð á gistingu í ferðinni var 28 evrur.

Margír hápunktar

„Það eru mörg lönd sem standa uppúr eftir svona ferð,“ sagði Högni þegar hann var spurður um hápunkta ferðarinnar. „Rússland kom verulega á óvart því að við bjuggumst við að það yrði eins og nokkurs konar afplánun að keyra þar í gegn. Þvert á móti nutum við góðs viðmóts og hjálpsemi sem var engri lík. Mongólía er náttúrulega alveg sérstök upplifun og eins og einn ferðalangur sem við hittum sagði, landið kemst undir skinnið á manni. Mongólía mun eiga stað í manni það sem eftir er. Kirgistan var gott dæmi um opið land með frábæru landslagi en Úzbekistan var lokað múhameðstrúarríki þar sem ekki mátti einu sinni koma með lyf inní landið. Bílaflotinn þar er keyrður á propangasi og dísilolíu og því leið manni eins og dópista í leit að eiturlyfjum þegar við fórum á stúfana eftir bensíni. Kákasusfjöllin í Georgíu eru frábært mótorhjólaland með hlykkjóttum vegum í flottu landslagi.“ Mótorhjólin sem Unnur og Högni notuðu til ferðarinnar eru af gerðinni Suzuki VStrom og stóðu sig vel og biluðu sáralítið. „Við lentum í einni rafmagnsbilun en það sem bilaði helst var það sem búið var að skrúfa utan á hjólin. Einnig brotnuðu stefnuljós og eitthvað smávegis við byltur en ekkert stórt.
Eina skiptið sem ég hugsaði að nú gætum við verið í

Svæðið á milli landamærastöðva Kyrgistan og Tadjikistan var býsna illa farið á köflum vegna leysinga eins og sjá má.

vandræðum var þegar við lentum í því að Unnur datt utan í klettavegg. Hjólið skemmdist aðeins og það leit jafnvel út fyrir að Unnur væri brotin á fæti, en sem betur fer var það ekki svo slæmt.
Þetta var í Tadjikistan, fjarri öllum mannabyggðum,“ sagði Högni. Hjólið hans Högna rúllaði yfir 100.000
km markið í ferðinni, það er nú í 111.000 km, en það keypti hann nýtt.

Hvött til að skrifa bók um ferðina

Ævintýrahjónunum kom á óvart hvað ferðasaga þeirra sem uppfærð var daglega á Facebook, vakti mikla athygli. Margir Íslendingar fylgdust með ferðum þeirra en einnig fólk víðar að úr heiminum og þau komust líka á síður vinsæls veftímarits í Rússlandi. Margir hafa hvatt Unni til að skrifa bók um ævintýrið en hún skrifaði reglulega pistla inná Facebook síðuna. Við rekum endahnút á greinina með því að birta eina hugrenningu Unnar þar sem þau eru á ferð um vesturhluta Kazakhstan  í 50 stiga hita og hvergi skjól að fá frá sólinni. „Endalausar sléttur. Sandur svo langt sem augað eygir, stöku grænir runnar. Vinstra megin flýtur járnbrautarlest ofan á sjóndeildarhringnum og virðist vera á gríðarlegri ferð. Það kemur í ljós þegar við stoppum að hún rétt silast áfram. Upp úr landslaginu rís þúst sem reynist vera grafreitur múslima. Minnir á örsmáa borg með turnum, hvolfþökum og skreyttum veggjum. Nokkur kameldýr tölta þokkafull í röð eftir sandinum eins og þau gangi eftir ósýnilegri götu. Kannski býr í genum þeirra vitneskja um horfna slóða Silkileiðarinnar sem forfeður þeirra og mæður gengu eftir með þungar byrðar af silki og tei. Við förum yfir brýr sem á einhverri annarri árstíð brúa vatnsföll. Nú rennur hér ekkert vatn og í árfarveginum vex gras. Í fúlum uppistöðupollum standa kýr í vatni uppí júgur – sjálfsagt til að halda mjólkinni kaldri. Skýstrokkur spinnur sig uppúr sandinum og þeytir rusli hátt í loft.
Hitinn er gríðarlegur og svitinn rennur niður bakið og límir fötin föst við líkamann.

Vindurinn er svo heitur að það er eins og við séum í bakarofni með blásturinn á fullu.
Sem minnir mig á….hvað er maður lengi að hægelda lambalæri í ofni við 50 gráður?“

njall@mbl.is

MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. OKTÓBER 2014

Hér er viðtal við Unni og Högna sem N4 stjónvarpstöðin tók við þau skötuhjú 2017.
um mótorhjólaferðalög.

7.10.2014