Við ákváðum nokkrir félagsmenn í Tíunni að mæta í hópkeyrslu Snigla í ár og að við mundum bara taka okkur íbúð á leigu og gera alvöru hjólaferð úr þessari ferð okkar.

Okkur langaði að hjóla svolítið um og skoða staði sem við heyrum bara alltaf af en hjólum kannski ekki venjulega að eða um þá.
Þegar nær dró dagsetningu er átti að leggja af stað kom í ljós að veðurspáin fyrir daginn stóra var bara ekkert sérstök en við mundum bara skoða það betur er nær drægi því jú við búum á Íslandinu góða þar sem veður í dag er ekki það sama og verður í dag. Þegar aðeins voru nokkrir dagar þar til hjólatúrinn átti að verða var útséð með að veður yrði ekki okkur hliðhollt og voru nú góð ráð dýr því ekki vildum við hætta við.

Úr varð að það var reddað kerru fyrir öll hjól sem áttu að fara suður og voru menn andskoti ánægðir með sig að hafa náð að koma sér úr „Þetta reddast“ gírnum og yfir í að hafa haft bakkup plan. Fimmtudagurinn rann upp og voru menn komnir í hámark að þrífa hjólin og lagfæra það sem þurfti fyrir hjólaferðina okkar með Sniglum og fyrirsjáanlega hjólatúra um gosstöðvar og aðrar must see eða hjóla staðsetningar á suðurlandinu. Um kvöldið ákvað annar hópurinn að koma sínum hjólum fyrir á kerrunni því við höfðum ákveðið að leggja snemma af stað og eiga daginn í borginni. 2 hjól voru sett upp á lánskerrunna og já viti-menn það var babb í bátnum. Fjaðurbúnaður kerrunnar bauð ekki upp á tvö hjól. Nú voru góð ráð dýr.

Tók þá undirritaður þá afdrífaríku ákvörðun að hann mundi bara hjóla svo að á kerrunu þurfti bara að vera eitt hjól. Þegar það kvisaðist út að undirritaður hafi ætlað að hjóla eins síns liðs til borgarinnar í já vægast sagt vafasömum aðstæðum eða veðruskilyrðum að þá tók annar aðili úr hinum hópnum þá ákvörðun að hjóla mér til samlætis og það yrðu þá tvö hjól sem mundu hjóla við vafasamar aðstæður. Föstudagurinn 30.04 kl 09:30 lögðu tvö hjól af stað frá Akureyri og var ferðinni heitið í borgina til að taka þátt í hópkeyrslu Snigla 2021.

Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert voðalega bjartsýn á að við mundum ná yfir Öxnadalsheiðina miðavið slydduna í bænum, hvernig væri heiðinn. En af stað fórum við og ákváðum bara að fara rólega og frekar að hætta við en að fara í einhverja vitleysu.
Þegar í Öxnadalinn var komið og enn var slydda og mikil bleyta á vegi varð vonin að heiðin væri í lagi alltaf minni og minni en áfram héldum við. Þegar upp úr Bakkaselsbrekku var komið keyrðum við út úr slyddunni og inn á auðan veg en þar var frostið nokkuð hins vegar, -2° var það heillin en þvílík snilld. Allt autt alveg í Varmahlíð. Þegar í Varmahlíð var komið var ljóst að þetta mundi verða köld ferð þar sem hitinn í handföngunum hjá mér var ekki að virka og voru góð ráð dýr því já það var KALLT að hjóla með engan hita og stanslaust verið að moka af hjálminum snjóalög með tilheyrandi bleytu á fingrunum.

Hamaðist ég eitthvað í hitastýringunni og í takkanum og vitimenn það bara kom þessi undurhlýa tilfinning í fingurna og allt varð svo bjart á leið upp Vatnsskarðið, hitinn virkaði en þá keyrðum við aftur inn í slyddu með tilheyrandi bleytu og snjóalög á hjálminn. En það var í lagi því ég var með hita í handföngunum núna.

Komum við við á landsmótstaðnum Húnaveri og urðum við að taka mynd af okkur þar, þar sem ENGINN annar var mættur að vísu tveimur mánuðum of snemma en það var eingöngu til að vera öruggur um stæði.
Áfram héldum við félagarnir í slyddu og snjókomu með tilheyrandi kulda og roki inn á milli alla leið í Borganes en í Norðurárdalnum var eins og að við hefðum keyrt í annað land.
Sól og hiti mætti okkur og vorum við svo ánægðir að ákveði var að stoppa á Grillhúsinu í Borganesi og þar skildi okkar tankur verða fylltur.

Þegar lagt var af stað aftur og við komnir undir Hafnafjallið mætti okkur gríðarlegur hliðarvindur og inn á milli slydda svo við getum með sanni sagt að við hjóluðum frá Akureyri til Reykjavíkur í slyddu og snjókomu nær alla leiðina.
Þegar til Reykjavíkur var komið urðum við ferðalangarnir voða fegnir að komast upp í íbúð og geta teygt úr okkur og farið úr göllum.

Þessi ferð á eftir að lifa í mínu minni um langa hríð og skaut mínum hjólamannaferli langt upp þar sem ég hef einungis verið að hjóla af einhverju viti í um 2 ár.

Ég segi bara við ferðafélaga mína
Takk kærlega fyrir mig, þetta var engu líkt.
Kveðja
Valur S Þórðarson