Það fyrsta sem vekur athygli við hjólið er hversu létt það er. Lithium rafhlaðan er að vísu ekki stór en gefur hjólinu drægi uppá allt að 100 km sem verður að teljast vel viðunandi. Þeir sem sest hafa á rafdrifin mótorhjól kannast við að þyngd rafhlöðunnar er oft það sem maður tekur fyrst eftir svo er ekki farið um Super Soco TC. Uppgefinn hleðslutími hjólsins er 6-7 klukkustundir sem þýðir að auðvelt er að fullhlaða það á meðan á einum vinnudegi stendur.

Super Soco TC er með nokkurs konar „Scrambler“ útliti af gamla skólanum sem heppnast nokkuð vel.

Þegar hjólið er sett í gang hljómar það eins og tölvuleikur en þegar ekið er af stað er það nánast hljóðlaust. Það eina sem heyrist er þyturinn í vindinum og hjólið er furðu fljótt að ná 45 kílómetra hámarkshraða sínum. Auðvelt er að ráða við hjólið ef maður passar sig á tiltölulega snöggu viðbragði frá gjöfinni þegar tekið er af stað. Hjólið er lipurt, ekki bara fyrir það hversu létt það er, heldur einnig hvernig það er sett upp. Ferill framhjóls er stuttur sem þýðir að það er létt í stýri. Það eina sem truflaði aksturinn var sú staðreynd að þegar slegið er af gjöfinni virkar það svipað og þegar kúplað er á hjóli með brunahreyfli. Við það tapast aðeins jafnvægi í kröppum beygjum og þess háttar án þess að það sé eitthvað hættulegt.

Díóðuljós og öfugir framdemparar eru dæmi um góðan búnað á SuperSoco TC hjólinu.

Eitt af því sem vekur athygli við hjólið er hverslu vel það er búið. Það er með vökvastýrðum diskabremsum sem virka ágætlega en þær eru án hemlalæsivarnar. Fjöðrunarkerfi er gott og þá sérstaklega að framan þar sem eru verklegir Upside Down demparar. Mælaborð er stafrænt og sýnir meðal annars hraða og drægi, en hægt er að stilla á þrju mismunandi aflstig. Ekki finnst mikill munur á þeim í afli en á fullhlöðnu hjólinu er drægi, 100, 80 eða 60 km eftir hvaða aflstig er valið. Það segir sig eiginlega sjálft að maður velur lengsta drægið því munurinn á afli er varla teljanlegur. Þegar hjólið er stöðvað og slökkt á því er eins gott að gera það í réttri röð, því að annars fer hvimleið þjófavörn að væla. Ekki má slökkva á hjólinu og setja það svo á standarann því þá fer þjóðfavörnin í gang, og því þarf að dlökkva á því alveg í lokin. Þurfti að venjast þessu dáldið fyrir einhvern sem vanur er að gera þetta á bensínhjóli þar sem drepið er á því fyrst.

Rafmótorinn er inni í felgunni, sem minnkar fjaðrandi vikt hjólsins.

Kannski er verðið það besta við hjólið því að Super Soco TC kostar aðeins 370.000 kr. Það er næstum helmingi ódýrara en góð skellinaðra kostar. Ekki er sanngjarnt að bera hjólið saman við rafmagnsvespur því að TC hjólið er meira eins og mótorhjól. Hægt er að fá Super Soco rafmagnsvespu en þær kosta frá 265.000 kr. sem er svipað eða örlítið dýrara en hjá flestum samkeppnisaðilum. Super Soco bjóða líka uppá hjól sem eru sambærleg að afli og 125 rúmsentimetra bensínhjól, og verða brátt fáanleg hérlendis. Þar sem TC hjólið er skráð eins og skellinaðra þarf að borga af því tryggingar, sem ekki þarf að gera sérstaklega ef um hjól með 25 km hámarkshraða er að ræða. Það verður að teljast ósanngjarnt þar sem að óskráðu hjólin mega aka hvar sem er án trygginga, réttinda ökumanns eða skráningar.

Stafrænt mælaborðið sýnir drægi og ástand rafhlöðu og hraðamælirinn er hefðbundinn að gerð.

Kostir: Létt í akstri, hljóðlátt, vel búið
Gallar: Jafnvægi þegar slegið er af, lítill munur á aflstigum

Super Soco TC
Skráning Létt bifhjól, flokkur II
Hámarkshraði 45 km/klst
Hámarkstog 170 Newtonmetrar
Rafkerfi 72V
Rafgeymir 45 Amperstundir
Drægi 60-100 km
Hleðslutími 6,5 – 7,5 klst
L/B/H 1.963/710/1.047 mm
Þyngd 150 kg

Fréttablaðið 2020