Hingað til hef ég verið að skrifa um eitt mótorhjól í Bændablaðið á ári, en vegna COVID-ástandsins er bílasala að dragast saman en aukning er í sölu mótorhjóla. Um heim allan var mikil aukning í mótorhjólasölu fyrstu sex mánuði ársins en misjöfn á milli landa, eða frá 8 til 24% miðað við síðasta ár.

Aukningin er mest í svokölluðum ferðahjólum sem eru jafnvíg á malbik og möl og var söluaukning hér á landi um 26,7% fyrstu 6 mánuðina (miðum okkur oft við Noreg, en þar var aukningin fyrstu 6 mánuðina 14,8%). Til að fylgja
eftir tíðarandanum tók ég nýtt ferðamótorhjól sem hentar til aksturs bæði á malbiki og á vegslóðum til prófunar frá versluninni NITRO, sem selur m.a. fjórhjól, snjósleða, mótorhjól og ýmislegt annað.

Hvað er SWM?

Smá sagnfræði um ítalska vörumerkið/mótorhjólaframleiðandann SWM, það eru mótorhjól sem eiga töluverða sögu. Stutta útgáfan af sögunni er sú að eftir að hafa notið margra ára velgengni í evrópskum motocrosskeppnum á áttunda og níunda áratugnum fór SWM að lokum á hausinn. Fyrirtækið var endurvakið árið 2014 af fyrrverandi
Husqvarna-verkfræðingi og fjárfestum. Með nýju fjármögnuninni gat SWM yfirtekið gamla ítalska Husqvarnaverksmiðju, búnað og vinnuafl, eftir að KTM keypti Husqvarna af BMW.
Hjólið sem ég prófaði heitir: SWM Superdual X, 600cc, 53 hestöfl, vatnskælt, DOHC, 4 ventla eins strokka ævintýrahjól (byggist mikið á Husqvarna 2011/12 TE630). Á því er 6 gíra kassi og 18 lítra bensíntankur (kemst um 300+ km á tank, eyðir um 5,5–6 lítrum á hundraðið). Þyngdin er 169 kg. Annar flottur eiginleiki er 21/18 tommu dekkjastærðirnar sem gefur mikinn valkost á dekkjavali.

Aksturseiginleikar og fjöðrun með betra móti

Til að fá sem fjölbreyttasta prófun á hjólinu tók ég það inn í bíl upp Árnes og keyrði upp í Landmannalaugar og til baka. Með þessari leið er hægt að fá alla þá vegi og slóða til að prófa hjólið 100%. Einn var þó galli á prófuninni, hjólið var aðeins keyrt 2 km þegar ég lagði af stað og taldi ég mig samvisku minnar vegna og væntanlegs eiganda skylt að tilkeyra mótorinn létt fyrstu 100 km. Það að keyra hjólið svona mjúkt gaf mér kost á að fikta í fjöðruninni sem mér fannst í stífara lagi í byrjun. Eftir smá stund datt ég niður á þessa fínu stillingu sem hentaði mér fullkomlega.
Framdempararnir eru frekar óþekktir í mótorhjólum (vel þekktir demparar í fjallareiðhjólum), 210 mm. fjöðrun sem auðvelt er að stilla. Afturdemparinn er betur þekktur í mótorhjólum og er stilltur vinstra megin undir sæti, en slaglengd afturfjöðrunar er 220 mm.

Mótorhjól sem kemur fullbúið með öllu á hlægilegu verði

Fyrstu hjólin eru á tilboði sem ekki hefur sést hér á landi lengi (eða aldrei). Verðið er 1.590.000 og er hjólið með handahlífum, „krassvörn“ á hliðum (bæði uppi og niðri), led ljóskösturum, Givi hliðartöskum og farangursgrind að aftan. Þá er vindhlíf sem tekur vindinn vel og ABS bremsur frá Brembo, sem hægt er að taka af að aftan. Það er að segja að hægt er að taka ABS læsivörnina af á afturhjólið sem gefur manni möguleika á að keyra hjólið eins og
motocrosshjól í þröngum beygjum og á lausu yfirborði. Hjólbarðarnir eru það sem kallast 50/50 og henta jafnt fyrir malbik og malarvegi.

Prufuaksturinn

Eins og áður sagði var tekið lítið á hjólinu fyrstu 100 km, en tíminn notaður til að finna tog vélarinnar og snerpu ásamt fjöðrunarstillingu hvernig hjólið virkaði sem best. Malarvegslóðinn upp í Landmannalaugar var með miklu
lausi yfirborði og vegur þurr og griplítill. Á leiðinni til baka var tekið aðeins meira út úr vélinni og naut ég mín vel þegar ég var búinn að átta mig á hvernig ég ætti að nota snúning vélar og gírkassann til hins ýtrasta. Þrátt fyrir laust yfirborð var hreinlega hægt að moka hjólinu áfram í gegnum hlykkjótta kaflann neðst á Landmannaleið.
Hjólið reyndist vel í þessum 180 km prufuakstri og örfáar athugasemdir að trufla mig.
Ég er frekar lágvaxinn og kominn á sjötugsaldur og þá er 89 sentímetra sætishæð í hærra lagi. Mér fannst vanta snúningshraðamæli og hitamæli í mælaborðið og þegar ég keyrði standandi á hjólinu var stilliskrúfan fyrir afturdemparann að trufla mig þar sem vinstri kálfinn á mér var að snerta stilliskrúfuna (lítið mál að færa stilliskrúfuna innar svo að hún fari ekki í fótinn, sem þeir í NITRO gerðu eftir ábendingar mínar).
Nánari upplýsingar um hjólið er hægt að nálgast á Facebook-síðu NITRO (virðist sem heimasíðan www.nitro.is liggi niðri þegar þetta er skrifað).

Hjörtur Líklegur #56
fyrir Bændablaðið
24. september 2020